Lengi vel leit út fyrir að þriðja tap Manchester United á útivelli í röð væri á leiðinni. En ótrúleg endurkoma á lokaparti leiksins náði að bæta upp fyrir virkilega slaka frammistöðu framan af. Manchester United náði því að endurheimta 2. sætið í deildinni og auka muninn í 5. sætið upp í 9 stig.
Fyrir leikinn kom í ljós að Anthony Martial gat ekki ferðast með hópnum til London vegna meiðsla. Vonum að það sé ekkert stórvægilegt því liðið getur sannarlega nýtt hans krafta á lokasprettinum.
Byrjunarlið Manchester United var svona:
Varamenn: Pereira, Bailly, Darmian, Shaw, Carrick, Mata, Rashford.
Byrjunarlið heimamanna var þannig skipað:
Varamenn: Cavalieri, Delaney, Jach, Souare, Riedewald, Rakip, Lee.
Dómari í leiknum var Neil Swarbrick.
Leikurinn sjálfur
Það er engin þörf á að skafa neitt af hlutunum, fyrri hálfleikurinn hjá Manchester United var hræðilegur. Algjör hörmung. Crystal Palace stillti upp í 4-4-2 og mætti til þess að berjast um hvern einasta bolta, á meðan leikmenn Manchester United virkuðu eins og þeir væru að reyna að spila fótbolta í metersdjúpu vatni. Allt var hægt, allt var þungt, allt var erfitt. Það vantaði alla ákefð og hungur í að vinna svo mikið sem lausan bolta, hvað þá leikinn sjálfan.
Miðjan hjá Manchester United var varla með. Einfaldar sendingar urðu oftar en ekki að erfiðum hlutum og algengt að leikmenn væru að gefa aftur fyrir samherja eða hreinlega út af vellinum. Sá líflegasti framan af var Alexis Sánchez, að því leyti að hann var allavega að reyna. En eftir því sem leið á hálfleikinn smitaðist hann af sama vonleysinu og flestir aðrir og fór að gefa boltann út af vellinum í staðinn fyrir að hitta á samherja.
Sánchez átti þó eina færi United í fyrri hálfleik, strax á 6. mínútu leiksins. Það var í eitt af fáum skiptum í upphafi leiks sem United náði álitlegri hraðri sókn þegar Crystal Palace var framarlega með sína menn. Lukaku skallaði áfram á Jesse Lingard sem átti háa sendingu innfyrir vörnina, á Sánchez. Alexis Sánchez þurfti að bíða eftir að boltinn skoppaði fyrir sig og náði þá skalla en þa var Hennessey markmaður kominn alveg ofan í hann og náði að verja.
Crystal Palace komst svo verðskuldað yfir strax á 11. mínútu. Benteke fékk boltann á vinstri kanti, fann Townsend í D-boganum og Townsend náði skoti sem hrökk af Lindelöf og í markið. Máttleysislegur varnarleikur í alla staði og verðskuldað, en ferlega einfalt, mark hjá Palace.
Markið vakti United ekki neitt, þvert á móti ef eitthvað var. Crystal Palace efldist þegar á leið hálfleikinn og voru líklegri til að gera eitthvað meira á þeim tíma. Þegar Swarbrick flautaði til leikhlés þá hugsaði maður ekki hvort það kæmi skipting í hálfleiknum heldur bara hverjir fengju að hanga áfram inná vellinum til að reyna að bæta upp fyrir klúðurslegan fyrri hálfleik.
Scott McTominay varð fyrir valinu að vera sá sem kæmi af velli. Pogba og Matic höfðu í raun ekkert verið mikið betri í fyrri hálfleiknum. Sérstaklega virkaði Pogba kraftlítill og daufur. En í staðinn fyrir McTominay kom Rashford inn á.
Hann minnti strax rækilega á sig og átti flottan sprett af vinstri kantinum inn í teiginn þar sem hann sólaði andstæðinga og var að fara að búa sér til pláss til að skjóta í góðu færi þegar Wan-Bissaka, reynslulítill en mjög sprækur bakvörður Palace, náði að tækla boltann af honum. Þetta virtist strax horfa til betri vegar.
En þá tók vörnin aftur upp einbeitingarskort og öryggisleysi eins og hafði einkennt hana of mikið í fyrri hálfleik. Crystal Palace fékk aukaspyrnu rétt inná vallarhelmingi United. Varnarlínan slökkti gjörsamlega á sér þegar Jeffrey Schlupp tók aukaspyrnuna snöggt og sendi bakvörðinn van Aanholt aleinan í gegn með einfaldri stungusendingu. Van Aanholt brunaði upp völlinn og slúttaði vel á nærstöng framhjá De Gea, sem hreyfði sig ekki á línunni. Ísköld og blaut tuska í byrjun seinni hálfleiks. Á þessum tímapunkti hafði maður ekki mikla trú á að liðið væri að fara að ná einhverju úr þessum leik. Það átti einfaldlega ekkert skilið.
Manchester United byrjaði þó að fikra sig framar á völlinn og reyna að gera eitthvað við boltann. Það fóru að detta inn fyrirgjafir. Liðið fór að reyna að nýta kantana betur. Þetta var ekkert glimrandi, en þetta var þó betra. Á 54. mínútu átti Paul Pogba skot utan teigs, fast skot, sem fór í varnarmann og framhjá. Hornspyrna. Hornið var tekið, það var skallað frá. Það var barningur og á endanum barst boltinn út á Valencia. Valencia leit upp og sá United menn í teignum. Hann gaf fyrirgjöf, ekki fasta í þetta skiptið, en hún fann manninn sem hann ætlaði að finna. Chris Smalling. Smalling reis upp, hafði ekki mikinn hraða á boltanum til að vinna með og hálfpartinn sneri baki í markið en náði að stýra boltanum gríðarlega vel í fjærhornið, framhjá Hennessey markmanni. Þetta var ekki auðveldur skalli en virkilega vel gert og United aftur komið inn í leikinn.
Þarna virtist United aftur fara að finna trú á að liðið gæti yfir höfuð sótt á mark andstæðingsins. Reyndi áfram að koma með langskot eða að reyna að spila sig inn í gegnum vörn Crystal Palace. Heimamenn héldu áfram að gefa allt í leikinn en urðu sífellt þreyttari eftir því sem leið á. Baráttuandinn var þó til staðar og þeir voru dyggilega studdir af frábærum stuðningsmönnum sínum. United átti þó líka sína frábæru stuðningsmenn í stúkunni.
Mourinho ákvað að taka sénsinn á 67. mínútu, að nýta neistann sem var búinn að myndast til að reyna að skapa bál. Það gerði hann með því að taka báða bakverðina af velli og setja einn bakvörð (Shaw) og Juan Mata inn á völlinn í staðinn. Það var áhættusamt en það var líka blóðlykt í loftinu.
Christian Benteke var frábær í kvöld. Hann náði m.a. að bjarga á marklínu og átti ítrekað skalla sem vörðu óöruggan markmann hans frá álitlegum fyrirgjöfum United-manna. En hann náði ekki að koma í veg fyrir jöfnunarmark United. Sánchez átti skot sem fór í varnarmann og síðan í háan boga yfir Hennessey og í markslána. Lukaku var vakandi og náði frákastinu, hann var einn gegn heilli þvögu af varnarmönnum Crystal Palace. Lukaku sýndi þó þolinmæði, bjó sér til smá pláss og lét vaða, boltinn hrökk af varnarmanni Palace og í netið, 2-2!
Áfram hélt United að sækja en Crystal Palace var þó ekki búið að gefa það upp á bátinn að skora fleiri mörk. Áttu stundum álitlegar skyndisóknir og hættulega tilburði. Enga hættulegri þó en mínútu eftir jöfnunarmarkið þegar Benteke fékk frábæra fyrirgjöf og náði góðum skalla á markið sem David de Gea, besti markmaður í heimi, náði á einvhern ótrúlegan hátt að verja með hægri og koma í veg fyrir að boltinn læki inn. Hvílík varsla! Hvílíkur markmaður! Ótrúlega mikilvæg varsla á virkilega mikilvægum tímapunkti.
This is Manchester UNITED! 🔴 pic.twitter.com/1pjVx1wl3e
— David de Gea (@D_DeGea) March 5, 2018
Háspennan hélt áfram í leiknum. Heimamenn héldu áfram að þreytast og United hélt áfram að sækja. Lukaku var kominn út hægra megin, fann sér pláss, kom með fyrirgjafir, var að reyna að finna leið til sigurs. Hann var frábær seinni partinn af leiknum. Mata hafði komið með nýjan kraft þegar hann kom inn á og Matic var farinn að finna sig vel eftir slaka byrjun.
Leiktíminn rann út, aðstoðardómarinn sýndi 3 mínútur í uppbótartíma. Þetta var að verða búið. Hver gæti náð skoti? Fyrirgjöf? Einhverju? Pogba með skot! Nei, það fór í varnarmann og hrökk upp í loftið. Matic tók við botanum. Allir sáu hvað hann ætlaði að gera. Milivojevic miðjumaður Palace var næstur, en ekki nógu nálægt. Hann tók örvæntingarfullt hlaup í átt að Matic til að reyna að loka fyrir skotið. Boltinn virtist í hægri endursýningu eftir að Matic tók á móti honum og þar til hann var tilbúinn að láta vaða. Skotið kom! Fast skot í utanfótarboga, svo fallegt skot, sem þandi netmöskvana í fjærhorninu. Gjörsamlega óverjandi. Gjörsamlega sturlað! 3-2 fyrir Manchester United. 3 stig. 2. sætið!
Eftir leik
Hvað getur maður sagt? Það er auðvelt að verða fúll með spilamennsku liðsins. En hvílíkur karakter að snúa þessum leik við. Karakter sem oftar en ekki hefur vantað í þetta lið frá því Ferguson, konungur kombakkana, hætti. Þetta var sætur, sætur sigur.
Frammistaðan hjá sumum leikmönnum gefur þó tilhefni til umhugsunar, ef ekki áhyggja. Pogba er einn hæfileikaríkasti knattspyrnumaður á jörðinni, hann þarf samt að fara að sýna það betur. Það vantar eitthvað upp á hjá honum, kannski eitthvað sálrænt eða hugarfarslegt. Kannski nýjan stjóra? Persónulega er ég ekki á því að stjórinn sé vandamálið hvað þetta varðar, þótt það megi gagnrýna hann fyrir ýmislegt annað. Svo er Alexis Sánchez ekki enn að ná að stimpla sig almennilega inn.
Mourinho má þó eiga það að hann hafði mjög jákvæð áhrif á leik liðsins með skiptingunum. Það var ekki í takt við þá staðalmynd sem fylgir honum, sem hinn leiðinlega öruggi stjóri, þegar hann ákvað að spila bara með 1 bakvörð í lokin til að geta bætt manni í sóknina. Það virkaði, það var hressandi að sjá.
Þessi lokapartur af leiknum var bara svo geggjaður! Það er gaman að vinna leiki svona. Sérstaklega þegar stuðningsmenn andstæðinga eru farnir að nudda höndum af gleði yfir yfirvofandi töpuðum stigum. Þá er þetta enn sætara.
Maður leiksins
Erfitt val. Það á það eiginlega enginn alveg skilið. Allir sem spiluðu meira en hálftíma í þessum leik áttu að einhverju leyti dapran leik. Mata kom þó sterkur inn. Smalling óx vel inn í þetta, skoraði gott mark og bjargaði oft þegar Palace sótti. En hann leit líka stundum mjög óöruggur út. Lukaku sýndi mikið United hjarta eftir því sem leið á. Sótti þetta jöfnunarmark af harðfylgi og var mikið að reyna að búa til og skapa í lokin. De Gea stóð kyrr í báðum mörkum Palace en kom svo með match saving vörslu á verulega mikilvægum tíma.
Svo má ekki gleyma því að hrósa andstæðingunum. Christian Benteke átti til dæmis alveg frammúrskarandi leik. Olli miklum vandræðum fram á við og var eins og klettur í eigin teig að skalla bolta frá trekk í trekk. Þá var Townsend mjög sprækur og ungi pilturinn í hægri bakverði, sem ég taldi fyrirfram að yrði veikasti hlekkur liðsins, var flottur.
En ég verð að gefa serbneska fjallinu þetta núna. Ef ekki hreinlega fyrir þennan screaming winner þá bara fyrir það að hafa átt stóran þátt í að liðið náði meiri tökum á leiknum eftir því sem leið á seinni hálfleikinn.
Framundan
Stórleikur gegn Liverpool í hádeginu næsta laugardag. Baráttan um 2. sætið. Baráttan um Ísland. Þarf ekki að segja meira.
SHS says
Er ég sá eini sem fannst liðið spila betur þegar L.Shaw fékk nokkra leiki um daginn?
Hann verður aldrei að þeim leikmanni sem hann getur orðið ef hann fær ekkert að spila!
Bjarni says
Sendum góða strauma til strákanna svo við náum að landa sigri. Ekki veitir af.
GGMU
Kjartan says
Hvar Martial? Annars er ég sáttur, 433 og nú hefur Pogba enga afsökun. Lindelof þarf að ná nokkrum góðum leikjum eftir erfiða byrjun.
Halldór Marteins says
Martial er meiddur, það er staðfest.
Bjarni says
Leikurinn varla byrjaður og komið mark. Þetta verður erfitt kvöld.
Turninn Pallister says
Ef þetta er það sem koma skal, þá hugsa ég að ég verði að grafa mér djúpa holu fyrir næstu helgi. Sé ykkur svo bara hressa næsta tímabil…
Karl Garðars says
Er mjög ljótt að vona að young hafi meiðst aðeins?
Jói says
Sami djövulsis Móraboltinn.
Georg says
Jæja hversu oft hefur liðið komið tilbaka tvo leiki í röð?
Ég er ekki sannfærður með Sanchez enn, virkar eins og að hann sé sannfærður um að vera 20cm stærri en hann er…
Koma svo í seinni !!
Turninn Pallister says
Erum að spila alltof þröngt og nýtum ekki breiddina á vellinum. Hversu oft hafa Young og Valencia verið æpandi fríir út a köntunum en miðjan og fremstu menn reynt að böðla boltanum í gegnum miðjupakkann. Þetta þarf ekki að vera svona flókið en við erum samt að spila þetta upp í hendurna á varnarmönnum Palace. Skil bara ekki uppleggið erum með fína krossara sem eru að hlaupa upp og niður kanntinn og svo naut af manni í vítateignum sem aldrei fær boltann.
Jói says
Reka helvítis móra strax.
Karl Garðars says
ÞAÐ ER RÆÆÆS!!!!
Bjarni says
Kalla þetta frekar smá dauðakippi.
Karl Garðars says
Bíddu við… hvað er að gerast??
Turninn Pallister says
Fucking ay, þvílíkur leikur, hands down Mourinho frábærar skiptingar!
Are you fuckers entertained yet?!!!
Bjarni says
Hvað gerðist. Hvað er hægt að segja? Af hverju eru ekki allir leikirnir svona. Þetta er skemmtun.
Karl Garðars says
Þessar síðustu 35 mínútur voru jafn skemmtilegar og des,jan og feb eru búnir að vera leiðinlegir.
Frábært að þessar skiptingar hafi skilað sér og frábært að koma til baka tvo leiki í röð.
En þessi fyrri hálfleikur, maður lifandi hvað þeir voru ævintýralega lélegir. Þarna var botninum náð held ég. Ef við spilum svona á móti púðlunum þá fer sá leikur 0-10.
Bjarni says
Sammála þér Karl. Það var ekkert annað í stöðunni en að hlaupa af sér rassgatið og pressa út um allan völl. CP voru orðnir andstuttir síðasta korterið sem kom okkur til góða. Flottur sigur en við getum ekki leyft okkur svona í hverjum leik. Móralskt var þetta sterkt fyrir næsta leik.
Herbert says
Frábær endurkoma! Væri gaman að sjá Shaw, Bailey og Mata byrja næsta leik á kostnað Young , Lindelof og Lingard/Pogba. Pogba virkar áhuga- og agalaus…. Verður að fara að detta í gang. Kanski bara að prufa hann ofar á vellinum með enn minni varnarskyldu.
Cantona no 7 says
Frábær sigur.
En það eru samt margir sem þurfa að bæta sinn leik t.d. Pogba sem virðist ekki nenna að spila .
Vonandi fer Móri að tala almennilega við Pogba o.fl.
Seinni hálfleikurinn var góður en samt eiga leikmenn okkar að geta miklu miklu betur.
G G M U
Björn Friðgeir says
Ég var eiginlega búinn að gleyma að fótbolti gæti verið svona!
Audunn says
Fyrsta skiptið sem ég sé alvöru karakter í þessu liði síðan Móri tók við því og það er staðreynd.
Fagna þessum karakter og þessum þremur stigum, auðvita var liðið ekkert að spila vel frekar en fyrridaginn, sérstaklega ekki fyrstu 55 mín en svo lagaðist þetta jafnt og þétt.
Margir neikvæðir þættir og margir jákvæðir,vona að liðið taki það jákvæða úr þessum leik í þann næsta sem verður hrikalega erfiður leikur fyrir United og þeir verða að spila töluvert betur í 90 mín + ætli þér sér eitthvað út úr þeim leik.
Það var mikilvægt sálrænt að klára þennan leik svona og vonandi að það gefi liðinu hressa innsprautun fyrir komandi átök.
Sindri says
Þetta var algjör rússíbani tilfinninga. Lukaku loks að finna sig almennilega á ný og Smalling virðist vera að fá mike-ið sitt aftur. Sjáum það vonandi enn betur næsta laugardag.
Langt síðan ég hef séð jafn áhugalausan leikmann og Pogba var í þessum leik. Með hann í stuði getur liðið rifið sig á alvöru run.
Talandi um alvöru þá er það líklega besta lýsingarorðið fyrir komandi leiki. Þurfum Pogba og Mike og alla í alvöru gír, þá getum við í alvöru unnið Liverpool.
Elias says
Hvað haldið þið samt að sé í gangi hjá Pogba?
Karl Garðars says
Pogba, mín kenning. Verðmiðinn aftur og allt slæma umtalið hjá stuðningsmönnum okkar liðs og frá öðrum. Pogba er social media through and through og hann hlýtur að lesa líka en ekki bara posta.
Þó þessir gaurar séu sjálfstraustið uppmálað á skjánum og nærist í einhverjum tilfellum á athyglinni þá eru þetta bara óharðnaðir guttar í lok dags. Auðvitað er gott stuðningsnet og PR fólk hjá liðunum og umbunum og allt það en þið munið hvernig þið voruð sjálf á þessum aldri. Ég er ekki viss um að maður hefði staðið undir svona pressu og gengdarlausum blammeringum sjálfur rétt upp úr tvítugu.
Hann setur eitt fyrir okkur og á tvær stoðsendingar á móti pullunum.
Rauðhaus says
Ekki eins og José sé beint að pumpa upp sjálfstraustið hjá PP þegar hann urðar reglulega yfir hann opinberlega. Óþolandi framkoma. En annars frábær endurkoma eftir vægast sagt hörmulegar fyrstu ca 55-60 mín
Audunn says
Veit ekki með Pogba en mér finnst hann bara hreinlega vera of upptekinn af sjálfum sér og eitthvað minna upptekinn af liðinu og samherjum sínum.
Hann getur svo miklu meira en hann hefur verið að sýna undanfarið en það er eitthvað í hausnum á honum að trufla hann, það er greinilegt.
Hann leggur sig ekki nógu mikið fram, reynir of flókna hluti til að lýta vel út sem kostar það að liðið tapar boltanum á slæmum stöðum.
Honum finnst greinilega ekkert gaman að spila einfalt, þetta þarf allt að vera svo cool og töff.
Ég get svo sem skilið þetta á báða vegu, Móra að vera svolítið pirraður yfir því að hann er ekki að spila betur og Pogba yfir því að hann er ekki að spila sína bestu stöðu og hann þarf að sinna of mikilli varnarvinnu, Hann er leikmaður sem vill hafa boltann í stað þess að elta hann út um allan völl.
Þannig að ég held í alvöru að staðan milli Pogba og Móra sé frekar flókin.
Held ekki að þetta hafi neitt með verðmiðan á honum að gera, en það er auðvita bara ágiskun.