Manchester United getur enn klúðrað Meistaradeildarsætinu, ef liðið gerir í mesta lagi 1 jafntefli, tapar öðrum leikjum og Chelsea vinnur alla sína leiki. Það er aðeins léttara fyrir liðið að klúðra 2. sætinu, þá er nóg að tapa 2 leikjum af 4, ef Liverpool eða Tottenham vinnur rest.
United er þó í góðri stöðu hvað báðar þessar baráttur snertir, með þetta allt í sínum höndum og meira að segja gott svigrúm líka. Það er mjög gott.
Það er því ekki jafn mikið undir í þessum tiltekna leik og hefur oft verið áður í leikjum hjá Manchester United og Arsenal. Á tímabili voru þetta stærstu viðureignir tímabilsins, þegar allt var undir og það sást vel á því hvernig leikirnir spiluðust. Liðin eru ekki á þeim stalli lengur en Manchester United þó komið nær því að komast aftur þangað.
Rimmurnar hér áður fyrr lituðust ekki síst af baráttu stjóranna tveggja, Sir Alex Ferguson og Arsène Wenger. Fergie hætti fyrir 5 árum og nú er komið að Wenger að kveðja. Annar hætti sem meistari, kvaddi sem sigurvegari. Hinn hættir núna og margir af hans eigin stuðningsmönnum hugsa: loksins! Báðir eru þó og verða goðsagnir í sögu enska fótboltans.
Nú kemur hann í heimsókn í síðasta sinn, allavega sem stjóri Arsenal. Leikurinn fer fram á morgun, sunnudaginn 29. apríl, klukkan 15:30. Dómarinn í þessum leik verður Kevin Friend.
Við minnum á 52. þátt Djöflavarpsins sem kom út í vikunni.
Arsène Wenger
Eftir að þessum leik lýkur mun Wenger hafa stýrt Arsenal í rúmlega fjórðungi þeirra leikja sem Arsenal hefur spilað gegn Manchester United (60 leikir af 227 eða 26,4%). Það er viðeigandi að hann endi á sama stað og hann byrjaði, fyrsti leikurinn hans gegn Manchester United var einmitt líka á Old Trafford. Sá leikur var í deildinni og spilaður laugardaginn 16. nóvember 1996.
Manchester United kom inn í þann leik með þrjá slæma tapleiki í röð á bakinu, eftir að hafa tapað 0-5 gegn Newcastle, 3-6 gegn Southampton og svo 1-2 gegn Chelsea. Arsenal hafði á móti ekki tapað í 10 leikjum í röð og var komið í efsta sæti deildarinnar á þeim tímapunkti á meðan Manchester United vermdi það sjötta.
United spýtti þó í lófana og náði að landa sterkum sigri á Wenger og félögum. Eina mark leiksins var sjálfsmark frá Nigel Winterburn eftir mistök David Seaman. Fyrirsögn Morgunblaðsins eftir helgina var hárbeitt:
Volæðið var svo sannarlega á enda og tímabilið batnaði bara eftir þetta hjá Manchester United. Á endanum mjakaði Manchester United sér alla leið í efsta sæti deildarinnar, m.a. með sigri á Arsenal í seinni deildarleik þessara liða á tímabilinu, og hélt því sæti svo allt til loka. Titill númer 11 í hús hjá United og þar með komst liðið upp fyrir Arsenal sem höfðu á þeim tímapunkti unnið 10 deildartitla í efstu deild.
En Wenger var ekki lengi að koma til baka eftir þessa byrjun og Arsenal vann næstu 3 viðureignir liðanna, þ.á m. á leiðinni að sínum 11. deildartitli tímabilið eftir. Arsenal vann þá deildina með 1 stigi eftir æsispennandi lokasprett. Ferguson þurfti að svara þessum nýja gæja og gerði það m.a. með því að fá til sín Jaap Stam og Dwight Yorke. Það skilaði þessum líka árangrinum því United vann þrennuna eftirminnilegu tímabilið eftir. Aðalkeppinauturinn þá var Arsenal. Wenger og félagar voru með í baráttunni í deildinni fram á síðasta dag (í það skipti var það United sem vann með einu stigi) og það þurfti epíska viðureign í undanúrslitum, með endurtekningarleik, framlengingu, rauðu spjaldi, klúðruðu víti og svo fallegasta marki í sögu enska bikarsins til að slá Arsenal út úr bikarnum.
Svona var þetta á þessum árum, frá 1998 til 2005, þá var hver einasti leikur milli þessara liða bardagi. Það var alltaf eitthvað undir. Liðin ýttu á alla mögulega takka hjá andstæðingunum, spennustigið var hátt og Keane og Vieira voru klikkaðir. Wenger og Ferguson ögruðu hvor öðrum ítrekað og neyddu hvorn annan til að bæta sig og þróa sem knattspyrnustjóra. Það var eina leiðin fyrir þá til að reyna að sigra hinn.
Og liðin skiptust á sætu sigrunum. United vann þrjú tímabil í röð. Arsenal vann deildina á Old Trafford þegar Sylvain Wiltord skoraði eina mark leiksins í maí 2002. United vann deildina tímabilið eftir það, Arsenal svaraði með taplausu deildartímabili veturinn á eftir. United svaraði með því að stöðva þá taplausu hrinu, koma í veg fyrir að Arsenal næði 50 leikjum ósigrað. Talandi um að skemma partýið, leikmenn Arsenal voru tilbúnir fyrir fögnuðinn, eiga víst að hafa verið í sérstaklega merktum treyjum undir keppnistreyjunum til að fagna 50 leikjunum.
Þarna var Mourinho, með sitt ógnarsterka Chelsea-lið, kominn fram á sjónarsviðið, svo það fór að fjara undan þessari hörðu baráttu milli Arsenal og Manchester United. Þó ekki fyrr en Arsenal hafði unnið bikarinn 2005 í síðasta alvöru bardaganum á milli þessara liða, þeim síðasta frá þessum tíma. Patrick Vieira spilaði þar sinn síðasta leik og Roy Keane átti ekki marga leiki eftir hjá United. Ferguson var að upplifa ákveðna lægð sem hann átti eftir að ná sér upp úr, Arsène Wenger var að detta inn í lægð sem hann hefur aldrei almennilega náð sér upp úr aftur.
Síðasti leikur þessara liða á undan bikarúrslitaleiknum 2005 hafði verið einn af þessum eftirminnilegustu. Sá fór fram á Highbury og byrjaði með rifrildi milli Keane og Vieira í göngunum fyrir leik. Tvisvar komst Arsenal yfir í leiknum en United jafnaði í bæði skiptin. Ronaldo í seinna skiptið og kom United svo yfir. Silvestre með rautt. John O’Shea tryggði svo sigurinn með vippunni frægu. Þvílík vippa!
Eftir þetta hefur eiginlega aldrei jafn mikið verið undir á milli þessara liða. Það var helst í undanúrslitaviðureigninni í Meistaradeildinni árið 2009 sem mikið var undir en Manchester United sýndi þar styrk sinn og vann báða leikina. 11 dögum eftir seinni leikinn í undanúrslitunum tryggði United deildartitilinn með markalausu jafntefli gegn Arsenal á Old Trafford en Arsenal var þá orðið fast í því fari að berjast einungis um 3.-4. sætið en gera aldrei almennilega atlögu að titlinum.
Það mætti kannski halda því fram að Wenger hafi ekki náð að þróast nægilega mikið sem knattspyrnustjóri í takt við breytta tíma í boltanum. Eða að hann hafi ekki viljað fórna sínum hugsjónum um það hvernig fótbolti á að vera spilaður nógu mikið til að geta haldið áfram að ná árangri. Eða að peningastaða félagsins hafi bundið hendur hans of mikið til að hann gæti haldið áfram að berjast um stærstu titlana. Líklega er það einhver blanda af öllum þessum þáttum. Engu að síður verður árangur hans ekki tekinn af honum og heldur ekki sú innspýting sem hann var fyrir ensku deildina og aðra knattspyrnustjóra, t.a.m. Ferguson.
Og við höfum alveg fengið eftirminnilegar viðureignir þessara liða síðan 2009, jafnvel þótt það hafi ekki verið jafn mikið undir og var þá. Það var þó hiti í þessu í ágúst 2009 þegar Wenger var rekinn upp í stúku fyrir að sparka vatnsflösku. Eða þegar Ferguson stillti upp 7 varnarmönnum og Darron Gibson gegn Arsenal í bikarnum en vann samt 2-0. Svo má nú ekki gleyma 8-2 leiknum. Eða þegar Rashford kom inn og skoraði 2 mörk í sínum fyrsta deildarleik.
Arsenal hefur líka náð sínum sigrum. Welbeck tryggði Arsenal sigur í bikarnum vorið 2015 og um haustið sama ár skoraði Arsenal 3 mörk á fyrstu 20 mínútunum til að klára deildarleik. Það sveið hvort tveggja.
En núna er það lokaleikurinn sem er framundan. Síðasta heimsókn Wenger á Old Trafford sem knattspyrnustjóri Arsenal. 60. leikurinn hans gegn Manchester United. Okkar menn hafa unnið 26 þeirra, hann hefur unnið 18 og 15 hafa endað með jafntefli. Hann hefur 5 sinnum náð að vinna á Old Trafford. Hann á alveg skilið ákveðna virðingu og góða kveðju en það væri þó algjör óþarfi að gefa honum sjötta sigurleikinn sinn á Old Trafford.
Bendi áhugasömum á The Feud, glænýja og mjög áhugaverða heimildarmynd um ríginn milli Ferguson og Wenger.
Arsenal
Gestirnir mæta líklega ekki í neinum sérstökum kveðjupartýhugleiðingum inn í þennan leik. Leikurinn kemur eiginlega á frekar óheppilegum tíma fyrir þá þar sem Arsenal er í miðju einvígi við Atletico Madrid í undanúrslitum Evrópudeildarinnar. Fyrri leikurinn endaði 1-1 þrátt fyrir að Arsenal hefði verið leikmanni fleiri frá 10. mínútu og haft töluverða yfirburði í leiknum. En þeir eiga að til að gera hlutina erfiða fyrir sig og gáfu Madrídarliðinu mark og þar með yfirhöndina í einvíginu.
Svo þeir gætu orðið ansi annars hugar í þessum leik. Þeir eru ekki í miklum meiðslavandræðum. Elneny er þó meiddur. Santi Carzola er nálægt því að jafna sig af sínum meiðslum en það er þó líklegra að hann spili ekki aftur fyrr en á næsta tímabili. Þá hefur okkar gamli leikmaður, Henrikh Mkhitaryan, verið að jafna sig af meiðslum. Það er þó ekki víst að það verði teknir sénsar með hann, hann gæti reynst mikilvægt vopn í seinni leiknum í Evrópudeildinni. Við þekkjum að nú hvað hann kann vel við þá keppni.
Það ætti þó að vera nokkuð ljóst að Aubameyang spilar þennan leik. Hann getur ekki spilað í Evrópudeildinni og því væri algjörlega tilgangslaust að hvíla hann eitthvað sérstaklega í þessum leik.
Til að sýna lit þá get ég svosem hent í eitthvað þokkalega líklegt byrjunarlið, maður veit þó aldrei með svona róteringar:
Okkar menn
Af okkar mönnum er flestallt gott að frétta. Eini leikmaðurinn sem er meiddur er Sergio Romero. Hann hefði ekkert spilað þennan leik hvort sem er því við höfum besta markmann heims í David De Gea og hann er, samkvæmt orðum Mourinho, ekki að fara neitt. Fögnum þeirri yfirlýsingu. Endilega klárið nú að semja við hann og græjið á hann góða launahækkun og eins langan samning og hægt er. Það væri mikilvægasta undirskrift ársins hjá Manchester United.
Annars þarf í raun ekki að hugsa það mikið um að hvíla menn. Það er langt í bikarúrslitaleikinn og 4 deildarleikir sem liðið þarf að spila á undan honum. Það ætti því að vera hægt að stjórna leiktíma lykilmanna vel með tilliti til þess að þeir keyri sig ekki út og auki ekki meiðslahættu að óþörfu. Hugsa nú samt að að verði bara keyrt á nokkurn veginn sterkasta liði í þessum leik. Fínt að reyna að negla inn markmiðin um Meistaradeild og 2. sæti sem fyrst og ekki verra að gera það á móti Arsenal.
Líklegt byrjunarlið:
Ekki það, það væri alveg gaman að sjá einhverja breytingu frá þessu. Fá t.d. Martial inn í byrjunarliðið, eftir allt slúðrið að undanförnu þá gæti það verið sniðugt statement. Eða bara Rashford af því hann á það líka skilið. Veit ekki hversu raunhæft það væri að óska eftir Shaw inná í bakvörðinn en Bailly inná í miðvörðinn ætti að vera öllu raunhæfara.
Takk og bless, Wenger
Þetta er söguleg stund. Wenger kveður. Eins mikið og hann gat verið óþolandi gagnvart Manchester United á tímabili þá gaf hann lífinu ansi mikinn lit, sérstaklega á þessum árum þegar hans lið voru hvað best.
Svo má nú segja að hann hafi átt sinn þátt í að gera Manchester United liðið betra á þessum tíma. Hefði United unnið þrennuna 1999 ef Wenger og Arsenal hefðu ekki komið inn og neytt Ferguson og United-liðið til að stíga rækilega upp? Er ekki viss um það. Það þurfti ekki bara gæði inni á vellinum heldur líka heilmikinn karakter til að toppa Arsenal á þeim tíma. Karakter sem nýttist vel þegar Manchester United fór í gegnum erfiðustu leið nokkurs sigurvegara Meistaradeildarinnar til að lyfta þeim titli. Og sýndi gríðarlega seiglu í öllum þessum keppnum.
Svo takk fyrir að gera United betra, Wenger. Takk fyrir Robin van Persie og deildartitil númer 20. Takk fyrir Alexis Sánchez. Takk fyrir að gefa okkur ófáar þórðargleðistundir. Takk fyrir að vera skemmtilega óþolandi erkifjandi. Takk fyrir leikina 59 sem búnir eru og þennan eina sem eftir er. Merci.
Karl Garðars says
Amen.
Þurfum að klára þessa leiki sem eftir eru og enda deildina í öðru sæti með 86 stig og smá unbeaten run. Taka FA bikarinn og leggja grunninn að 21 21 Man United!
https://youtu.be/l14kECX08NE