Það hefur oft verið meira undir í lokaleik deildarinnar en er núna. Raunar er þetta einhver minnst spennandi lokaumferð í ensku úrvalsdeildinni í langan tíma, það er allt svo gott sem ráðið og bara langsóttir möguleikar á hreyfingu hvað síðasta fallsætið og 4. sæti deildarinnar snertir.
Manchester United er búið að tryggja 2. sætið, það var eiginlega aldrei í neinni alvöru hættu. Þessi leikur verður því notaður til að kveðja einn af okkar betri leikmönnum síðustu ár. Michael Carrick, fyrirliði liðsins, mun byrja þennan leik og hann mun fá heiðursskiptingu. Og það er svo sannarlega gott tilefni til að fagna.
Leikurinn hefst klukkan 14:00 á morgun.
Michael Carrick
Sumarið 2006 var nokkuð sérstakt hjá Manchester United. Markahrókurinn Ruud van Nistelrooy var seldur til Real Madrid, liðið losaði sig að auki við þó nokkra leikmenn sem valdið höfðu vonbrigðum en aðeins var keyptur inn einn leikmaður á móti. Sá var ekki sóknarmaður heldur miðjumaðurinn Michael Carrick sem kom frá Tottenham Hotspur á 18 milljón pund.
Það hafa sjálfsagt ansi margir stuðningsmenn Manchester United verið heldur efins með þetta allt saman þegar tímabilið hófst um haustið. Manchester United hafði ekki unnið deildina í 3 tímabil í röð, eitthvað sem hafði ekki gerst frá stofnun úrvalsdeildar. Liðið var svosem ekki langt frá toppnum, endaði í 2.-3. sæti, en það virkaði stundum eins og önnur lið væru að sigla fram úr. Það var jafnvel ekki laust við að það örlaði á röddum sem sögðu að Sir Alex Ferguson gæti verið búinn með sinn tíma hjá félaginu og það hefðu kannski bara verið mistök hjá honum að hætta við að hætta árið 2002.
En Fergie vissi betur. Hann sá í Michael Carrick mikilvægt púsl í nýrri uppbyggingu á liði sem var nær því að ná nýjum hæðum en flestir aðrir gerðu sér grein fyrir. Það fór líka svo, eftir að Carrick kom til liðsins vann United deildina 3 tímabil í röð. Að loknum þessum 3 tímabilum hafði Michael Carrick unnið ensku úrvalsdeildina, Meistaradeild Evrópu, Heimsmeistarakeppni félagsliða, deildarbikarinn og 2 góðgerðarskildi. Seinna bætti hann svo enska bikarnum og Evrópudeildarbikar við og er eini enski knattspyrnuleikmaðurinn, ásamt Wayne Rooney, sem hefur unnið alla þessa titla.
Þrátt fyrir alla jákvæðu breytinguna á liðinu sem fylgdi komu Michael Carrick þá hefur hann oftar en ekki verið afskaplega vanmetinn, jafnvel af eigin stuðningsmönnum. Það hefur þó sem betur fer breyst á síðustu árum og nú fær hann yfirleitt það hrós sem hann á skilið. Enn heyrast þó reyndar við og við vitleysiskomment á borð við backpass-Carrick í tilraun til að gera lítið úr honum og lýsa honum sem leiðinlegum leikmanni. Þetta viðurnefni á þó ekki við nein alvöru rök að styðjast því fáir eru einmitt betri í því að koma boltanum fram á við og þræða sendingar í gegnum línur en Michael Carrick. Það mun þó líklega seint hverfa úr fótboltanum að sófaspekingar þykist sjá eitthvað annað en er í gangi.
Michael Carrick gerir aðra leikmenn í kringum sig betri, það er dásamlegur eiginleiki í fari fótboltamanna. Hann var alltaf virkilega traustur hlekkur á milli varnar og miðju og einnig fram í sóknina. Hæfileiki hans til að lesa leikinn og staðsetja sig rétt gerði það að verkum að allt það góða starf sem hann vann á vellinum leit út fyrir að vera sáraeinfalt og auðvelt. Hvort sem það var að brjóta á bak aftur sóknir andstæðinganna, detta inn í stöður sem leyfðu samherjum að sækja fram á við, losa boltann úr pressu eða koma álitlegum sóknum og skyndisóknum á flug með réttu sendingunum.
Michael Carrick:
Premier League 🏆🏆🏆🏆🏆
FA Cup 🏆
League Cup 🏆🏆🏆
Comm Shield 🏆🏆🏆🏆🏆🏆
Champions League 🏆
Europa League 🏆
FIFA Club World Cup 🏆Fantastic career, huge contribution to this club over the years. He’ll play his last game Sunday 😥👹💪🏼 #mufc pic.twitter.com/mGMjpLj0qO
— JM (@Mourinholic) May 9, 2018
Eftir að Rooney fór var Carrick sá eini sem var eftir af þessu stórkostlega liði sem vann Meistaradeildina árið 2008. Það má svo sannarlega nota orðið kaflaskil um slíkan viðburð, þegar sá síðasti þeirra leggur Unitedtreyjuna á hilluna. En hann er þó sem betur fer ekki að fara langt, hann mun taka sér stöðu í þjálfarateymi Manchester United og það er alveg óhætt að vera nokkuð bjartsýnn á að hann geti orðið ansi lunkinn þjálfari og mögulega knattspyrnustjóri með tímanum. Hæfileikar hans og kostir sem knattspyrnumaður ættu að geta færst með honum yfir í nýtt hlutverk.
Carrick hefur spilað 463 leiki fyrir Manchester United, 296 þeirra enduðu með sigri United. Hann hefur skorað 24 mörk fyrir félagið, það væri alls ekkert leiðinlegt að klára ferilinn inni á vellinum með því að skora í kveðjuleiknum á Old Trafford.
Það verður ljúfsárt augnablik þegar fyrirliðinn fær heiðursskiptinguna. Það er yfir miklu að gleðjast, heiður að hafa fengið að njóta þess að sjá hann spila í Unitedtreyjunni fögru. Það er gleði í því að hann fer ekki langt þótt hann hætti að spila. En það er sárt að sjá á eftir slíkum gæðaleikmanni og hans skarð er vandfyllt, jafnvel þótt hann hafi lítið getað spilað í vetur. Þegar skiptingin kemur svo þá hvet ég ykkur öll til að standa upp og klappa fyrir þessum frábæra leikmanni, einum af þeim allra bestu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.
Takk fyrir allt, Carrick.
Manchester United
Mourinho tilkynnti að þetta yrði leikurinn hans Carrick og að hann fengi sérstaka heiðursskiptingu. En hann minntist líka á nokkra aðra leikmenn sem munu fá að spila þennan leik. De Gea tryggði sér gullhanskann með því að halda hreinu gegn West Ham, hann fær frí í þessum leik en Romero fær tækifæri til að sýna hvað hann getur. Það er spurning hvað verður svo um hann í sumar, hvort hann sé hress með að vera áfram varaskeifa fyrir besta markmann heims eða hvort hann vilji frekar fara eitthvert þar sem hann getur orðið aðalmarkmaðurinn. Það kemur í ljós, í öllu falli fær hann þennan leik.
Aðrir sem Mourinho sagði að myndu byrja þennan leik eru Martial, Rashford, Mata, Bailly og Blind. Hverjir hinir 4 verða verður áhugavert að sjá, eins það hvort einhver ungur leikmaður fái mínútur í þessum leik, hvort sem er í byrjunarliði eða af bekknum.
Giskum á byrjunarlið í þessa áttina:
Belgarnir Lukaku og Fellaini eru því miður enn meiddir. Hefði verið gott að geta gefið þeim nokkrar mínútur fyrir bikarleikinn, það er vonandi að þeir verði báðir búnir að jafna sig fyrir þann leik.
Watford
Watford er búið að eiga fínasta tímabil, eyddu mestum hluta þess í kringum 10. sætið. Þeir eru þó í 13. sætinu núna eftir að hafa aðeins náð í 2 punkta í 7 leikjum. Þeim tókst þó að ná í sigur í síðasta leik, þegar þeir skelltu Newcastle á heimavelli, 2-1.
Annars hefur liðið ekki að neinu að keppa og ekkert að óttast. Mega alveg vera bara með hugann við sumarfríið sitt og taka þátt í að gera þennan kveðjuleik góðan fyrir Michael Carrick.
Markaskorunin hefur verið að dreifast vel hjá Watford. Þeirra markahæsti leikmaður, Abdoulaye Doucouré, er með 7 mörk í deildinni. Á eftir honum koma fjórir leikmenn með 5 mörk hver. Watford hefur þó skorað 44 mörk í heildina, aðeins 2 lið utan topp 6 liðanna eru með fleiri mörk skoruð en það. Varnarleikurinn hefur þó átt það til að vera vandamál hjá liðinu, Watford hefur fengið á sig 63 mörk í deildinni í vetur. Aðeins 2 lið í deildinni hafa fengið á sig fleiri mörk.
Það getur vel verið að Javi Gracia noti tækifærið og hvíli menn eða gefi ungum og efnilegum leikmönnum mínútur. En spáum þessu bara svona:
Liðin mættust síðast í nóvember í stórskemmtilegum leik sem endaði 4-2 fyrir Manchester United. Það væri ekkert leiðinlegt að fá slíka markaveislu aftur, kveðja deildartímabilið með stæl.
Endum þessa síðustu deildarleikjarupphitun tímabilsins á flottu myndbandi með aðalmanni helgarinnar:
Skildu eftir svar