Manchester United spilaði á föstudegi í fyrstu umferð, sunnudegi í annarri umferð og nú er komið að mánudagsleik í 3. umferðinni. Í næstu umferð verður svo aftur sunnudagsleikur og það er ekki fyrr en í fimmtu umferðinni sem United klárar safnið og fær loks laugardagsleik.
En þessi leikur verður eins og áður segir á mánudegi, hefst klukkan 19:00 að íslenskum tíma og dómarinn í leiknum verður Craig Pawson.
Okkar menn
Eins og við fórum yfir í nýjasta Djöflavarpinu þá var síðasti leikur hjá karlaliði Manchester United afskaplega slakur. Brighton vann verðskuldaðan sigur og Manchester United þarf svo sannarlega að spýta í lófana og sýna að þeir vilji gera eitthvað af viti í deildinni.
Jákvæðu fréttirnar eru þó að leikmenn eru að snúa til baka eftir meiðsli. Ander Herrera var mættur á bekkinn í síðasta leik, Valencia og Matic voru byrjaðir að æfa fyrir Brighton-leikinn og Diogo Dalot byrjaði að æfa með liðinu í þessari viku. Þá virðist Alexis Sánchez vera kominn aftur á fullt á æfingum. Það fer því að verða hægt að velja úr öllum hópnum, eða svo gott sem.
Miðað við nýlegan póst á samfélagsmiðlum þá virðist sem Darmian fari ekki neitt svo hann kemur líka til með að verða valmöguleiki eitthvað áfram fyrir liðið.
Það sem er helsta spurningin er hvort Mourinho velji að halda áfram að spila 4-3-3 eða breyti um uppstillingu. Ef hann heldur sig við 4-3-3 þá gætum við fengið að sjá eitthvað þessu líkt:
En ef hann breytir um uppstillingu þá er ekki ólíklegt að hann gæti farið í 3 miðvarða kerfi og stillt upp í þessa áttina:
Hvort heldur sem er þá tel ég að Matic komi inn. Hann er tæpur vegna meiðsla en það gæti sloppið fyrst leikurinn er á mánudegi. Sama á við um Sánchez, hann gæti náð þessu.
Það eru ýmsir kostir við að breyta yfir í 3-5-2 uppstillinguna. Tottenham er líklegt til að spila svipað kerfi, voru með 3-5-2 í síðasta leik (eða meira 3-1-4-2) svo það gæti verið sniðugt að spegla það.
Það að fá Lingard inn á miðjuna í 3-5-2 gæti gefið honum góða rullu til að koma með sín frábæru hlaup og styðja vel við sóknarleikinn, hann væri þá í svipuðu hlutverki og hann stóð sig svo vel í á HM í sumar með Englandi.
Andstæðingurinn
Totteham hefur byrjað tímabilið á tveimur sigurleikjum. Fyrst seiglusigur á Newcastle þar sem margir töluðu um að Tottenham hefði verið heppið að ná í öll stigin 3, miðað við hvernig leikurinn spilaðist. Svo kom mun meira sannfærandi sigur gegn Fulham, þar sem Harry Kane náði loksins að finna mark í ágústmánuði.
Munurinn á þessum tveimur leikjum var sá að Tottenham færði sig úr 4-3-3/4-3-2-1 yfir í 3-5-2 og setti góðkunningja okkar, varnarjaxlinn Toby Alderweireld, inn í vörnina með Vertongen og Sánchez. Að sjálfsögðu stóð Belginn sig frábærlega vel í leiknum og við það að fara í hentugri uppstillingu losnaði betur um sóknarmennina fyrir framan. Hvílíkur munur að hafa Alderweireld í sínu liði, hvílík synd að við höfum hann ekki í okkar.
Fyrirliði liðsins, heimsmeistarinn Hugo Lloris, var tekinn fyrir ölvunarakstur aðfaranótt föstudags og þurfit að dúsa í steininum til morguns. Þær fréttir gætu hafa farið framhjá einhverjum þar sem blöðin einbeittu sér meira að því að Mourinho hafi ekki nennt að gefa fjölmiðlum mörg orð til að snúa út úr og því haldið stuttan blaðamannafund. Magnað fréttamat þar á ferð. Það er þó spurning hvort þetta muni hafa áhrif á Lloris, hvort hann fái einhverja refsingu frá Pochettino eða félaginu eða hvort hann verði mættur á sinn stað í rammann eins og ekkert hafi gerst. Það kemur allt í ljós.
Byrjunarlið Tottenham verður að öllum líkindum svipað og síðast, þegar það var svona:
Old Trafford hefur í gegnum tíðina ekki verið góður staður fyrir Tottenham að mæta á, þar hafa þeir tapað flestum leikjum og oftar en ekki virkað ósannfærandi. Þeir munu því án efa vilja koma á völlinn núna og gefa skilaboð um að það sé að breytast, sérstaklega ef þeir hafa hug á því að berjast um eitthvað meira en öruggt Meistaradeildarsæti.
Mourinho gegn Pochettino
Þetta verður líka athyglisverð rimma tveggja knattspyrnustjóra sem þykja að flestu leyti andstæður. Afskaplega margir stuðningsmenn Manchester United horfa til Pochettino þegar kemur að vangaveltum um næsta knattspyrnustjóra félagsins, jafnvel óska þess að hann komi inn sem fyrst.
Helsti kosturinn við að fá Pochettino inn væri auðvitað sá að hann myndi láta liðið spila öðruvísi fótbolta, hann myndi láta liðið spila sóknarbolta með hápressu. Það gæti auðvitað tekið tíma fyrir hann að koma því inn hjá félaginu. Fyrsta tímabilið hans með Tottenham þá skoraði liðið hans minna en United undir stjórn van Gaal. Eftir það hefur hann þó bætt markaskorun liðsins mjög mikið.
En hann hefur ekki unnið neitt ennþá. Hann hefur aðeins komið liði sínu einu sinni í úrslitaleik, það var í deildarbikar og þeim úrslitaleik tapaði hann. Hann hefur aldrei náð að láta liðið sitt halda út heilt tímabil í deildinni, hann náði t.d. ekki að elta Leicester heldur endaði það tímabil á að enda í þriðja sæti í tveggja hesta kapphlaupi.
Hvað segir okkur að Pochettino myndi endilega ná árangri með Manchester United? Meiri peningar? Vissulega fengi hann meiri peninga en það er spurning hvernig þeim fjármunum væri varið, hvort hann fengi alvöru stuðning til að kaupa þá leikmenn sem hann myndi vilja fá inn eða hvort hann fengi svipaða meðferð og Mourinho.
Pochettino hefur þó þá sögu með sér í þessu að hann vinnur mjög vel með ungum leikmönnum. Það er stór kostur og eitthvað sem Manchester United á að leitast eftir að gera, miðað við sögu félagsins og það sem stuðningsmenn vilja sjá.
Pochettino hefur komið nokkrum sinnum á Old Trafford. Hann náði m.a.s. í stig á vellinum með Southampton þegar Adam Lallana skoraði jöfnunarmark á lokamínútunni eftir að Dejan Lovren hafði átt marktilraun sem fór ekki inn. Þetta var í október 2013. Fjórum sinnum síðan þá hefur hann mætt með Tottenham á Old Trafford, í öll skiptin hefur United unnið án þess að fá á sig mark. Síðustu 3 leikir hafa endað 1-0 fyrir Manchester United.
Nú er ansi mikið undir, eiginlega hjá báðum stjórum þótt pressan sé vissulega ólík. Mourinho er að berjast við það að missa ekki stjórn á þeirri krísu sem er hangandi yfir liðinu, krísunni sem fjölmiðlar keppast við að kynda undir, sem stuðningsmenn allra annarra liða vilja sjá magnast og sífellt stækkandi hluti United-stuðningsmanna telja að sé þegar mætt á svæðið. Mourinho þarf að sýna að hann stýri enn þessu liði, að hann stjórni því og að hann geti enn verið sá Mourinho sem við þekkjum.
En Pochettino þarf að sýna að hann geti brotið svona álög, að hann geti tekið næsta skref líka, að hann geti tekið þetta Tottenham-lið í alvöru deildartitilbaráttu. Ef hann nær sigri þá er það kannski einmitt það sem þarf til að sannfæra enn fleiri um að hann geti vissulega tekið við Manchester United og hafi það sem til þarf til að vinna eitthvað með Rauðu djöflunum.
Ekki það, Pochettino er með samning við Tottenham til 2023 og við vitum nú öll hvað það getur verið erfitt að fá menn þaðan sem Daniel Levy vill ekki missa.
Keano says
Takk fyrir ágæta upphitun. Mér finnst samt enn og aftur skrítið að tala um einhverja slæma „meðferð“ á Mourinho því hann fékk ekki að kaupa miðvörð. Vitleysa. Maðurinn er búinn að brenna upp heilu fjöllin af peningum með afar misjöfnum árangri: Bailly og Lindelof bestu dæmin.
Ef leikurinn tapast á morgun er staðan slæm og fjölmiðlar halda.
Audunn says
Sammála þér Keano, nú tala þessir menn á þann hátt að Móri hafi aldrei fengið að kaupa neitt og þessir miðverðir sem hann hefur nú þegar keypt hafi verið meira hugsaðir sem uppfylling heldur en ákveðin styrking á byrjunarliðinu.. þvílíkt og annað eins rugl.
Svo tala menn núna að Toby Alderweireld sé besti miðvörður í heimi og hann myndi breyta öllu hjá liðinu, það er reyndar mjög hentugt að segja það núna og nota það sem afsökun að Móri hafi ekki fengið að kaupa hann. Menn vita nú ekki einu sinni hvort Móri vildi kaupa þann mann, getur þessvegna bara verið slúður.
Ég man heldur ekki betur en að þessi leikmaður sé mikið meiddur og töluvert mikið frá, hann er amk ekki búinn að spila nema 83 leiki með Spurs á 3 árum, það eru ekki nema 27,6 leikir á ári.
Það virðist líka vera orðin ákveðin taktík hérna að tala aðra stjóra niður sérstaklega hafi þeir verið nefndir sem arftakar Móra.
Ok ég skil vel að það er engin innistaða fyrir því að tala Móra upp en að reyna að sannfæra fólk um að þessi og hinn séu ekki betri kostur er kjánalegt í besta falli.
En að leiknum.
Það er bara að duga eða drepast fyrir Móra, vinni United ekki þennan leik þá eykst bara pressan á hann, svo einfalt er það.
United verður að koma tilbaka eftir hörmungarnar frá síðasta leik og sýna stuðningsmönnum að þetta lið geti spilað eins og stórlið.
Björn Friðgeir says
Alltaf þegar ég sé meinta stuðningsmenn United uppnefna José með íslensku draugsnafni þá man ég að þau hefðu aldrei nokkurn tímann gefið honum séns sama hversu vel hefði gengið.
Halldór Marteins says
Alderweireld hefur spilað 82 leiki bara í deild fyrir Tottenham á síðustu 3 árum, samtals hefur hann spilað 115 leiki í öllum keppnum fyrir félagið á síðustu 3 árum.
Hann hefur heilt yfir ekki verið meiðslapési. Hann missti af slatta af leikjum á síðasta tímabili vegna meiðsla og svo fleiri leikjum af þeirri ástæðu að hann vildi fara, svipað og Pochettino gerði við Walker og fleiri sem hafa viljað fara. Hann getur alveg líka sett menn í frystikistur.
Þá hefur Woodward sjálfur staðfest, með fréttatilkynningunni sem hann lak til blaðamanna, að hann og stjórnin hafi neitað sumum kaupum sem Mourinho hefur beðið um. Hvergi hef ég haldið því fram að Mourinho hafi ekki fengið neinn stuðning eða ekki fengið að kaupa leikmenn, það hefur hins vegar vantað upp á stuðninginn að einhverju leyti og þá sérstaklega núna í sumar. Það er skiljanlegt að ódýrari miðverðir (ekki ódýrir en ódýrari en heimsklassa og báðir ungir og minna reyndir) hafi verið látnir nægja þegar risakaup komu inn, það var hins vegar ekki málið í sumar.
Og það er ekki endilega verið að tala stjóra niður að vilja benda á fleiri hliðar málsins. Svipað og það er ekki Mourinho-költismi að reyna að benda á fleiri hluti en það sem þeir sem hata og fyrirlíta Mourinho og allt sem hann gerir koma með.
Björn Friðgeir says
Ef einhver heldur að það að kaupa tvo óreynda leikmenn á verði eins toppleikmanns sé einhvern veginn saman að jafna, þá hlæ ég nú bara að þeirri vitleysu.
Þetta er okkar ástkæru eigendum að þakka, eins og kaupin á Smalling og Jones hér um árið.
gummi says
Ég vil bara losna við manninn því spila menskan er ömurleg það er alltaf eins og við séum litla liðið í öllum leikjum
Bjarni says
Vil að leikmenn líti í eigin barm og drullist til að spila með hjartanu og vinna þennan leik þó ekki væri nema bara fyrir aðdáendurna. Þeir skitu uppá bak í síðasta leik og skitan mun halda áfram með sömu spilamennsku sama hver andstæðingurinn er. Þetta sjá allir og þykir mér miður ef þeir koma ekki dýrvitlausir og staðráðnir í að vinna leikinn í kvöld og sýni úr hverju þeir eru gerðir. Sagt að lið tapar sem lið og vinnur sem lið og er stjórinn og stjórn engin undantekning á því.
GGMU