Eftir slæmt tap gegn Brighton var komið að stórleik á heimavelli. Tækifæri til að bæta fyrir frammistöðuna í síðasta leik og sýna almennilegan lit í deildinni. En allt kom fyrir ekki, þrátt fyrir verulega góða spretti á köflum þá var niðurstaðan slæmt tap.
José Mourinho ákvað að gjörbreyta liðinu sínu frá því í síðasta leik, bæði leikmannavali og liðsuppstillingunni. Af þeim sem byrjuðu gegn Brighton þá duttu 6 úr byrjunarliðinu og 4 þeirra voru ekki einu sinni í leikmannahópnum í þetta skiptið.
Byrjunarlið United var svona skipað í leiknum:
Varamenn: Grant, Lindelöf, Young, McTominay, Fellaini, Rashford, Alexis
Pochettino ákvað hins vegar að stilla ekki upp í 3-1-4-2 eins og síðast heldur með 4 manna línu í vörninni. Byrjunarlið Tottenham var svona:
Varamenn: Vorm, Aurier, Davies, Sanchez, Winks, Lamela, Llorente
Fyrri hálfleikur
Það gekk orðrómur fyrir leik á samfélagsmiðlum að Manchester United myndi færa sig yfir í 3 miðverði og að miðjumaðurinn Nemanja Matic yrði færður þangað. Svo reyndist þó ekki vera, eftir nokkrar mínútur af leiknum og nokkur „bíddu, er ég að sjá rétt?“ augnablik þá staðfestist það að Ander Herrera var vissulega hægra megin í þriggja miðvarða línu.
Það var þó ekki alveg svo einfalt því hann virtist eiga að starfa nokkurn veginn á milli þess að vera hægri miðvörður, hægra megin á miðjunni og svo að líma sig á Moura þegar hann var hans megin á vellinum. Framan af leik virtist þetta ganga nokkuð vel, greinilegt að menn höfðu verið að fara yfir þetta á æfingasvæðinu.
Þessi óhefðbundna uppstilling virtist koma Tottenham á óvart því Manchester United byrjaði leikinn af krafti og hafði yfirhöndina megnið af fyrri hálfleiknum. Menn virkuðu á tánum, það var hraði og flæði í leikmönnum sem maður hefur ekki verið vanur að sjá mikið af hjá Manchester United á síðustu tímabilum.
Enda tók það innan við mínútu að búa til fyrsta marktækifærið, þegar Fred átti gott hlaup inn í teig, fékk þar boltann og skaut framhjá. Ekki síðasta góða hlaup Fred fram á við í leiknum.
Á 9. mínútu fékk Lucas Moura gult spjald fyrir að fara með löppina í andlitið á Phil Jones. Hann var allan tímann að reyna við boltann og stimplaði ekki andlitið á Jones með tökkunum svo fyrir mitt leyti var gult réttur dómur fyrir það brot, frekar en rautt.
Á 16. mínútu átti Manchester United svo að komast yfir. Danny Rose átti þá lélega sendingu aftur á Hugo Lloris sem Lukaku komst inn í. Belginn gerði vel í að komast framhjá markverðinum og átti þá bara eftir að rúlla boltanum í tómt markið. En hann rúllaði boltanum þess í stað rétt framhjá fjærstönginni. Vissulega var færið orðið nokkuð þröngt og hinn örvfætti Lukaku þurfti þarna að nota hægri fótinn til að sparka í boltanum. En samt sem áður, við viljum gera þá kröfu á Lukaku að hann nýti þetta færi.
Manchester United hélt áfram að sækja og það var greinilegt að liðið ætlaði að bæta upp fyrir fáar marktilraunir í síðustu 2 leikjum í þessum leik, það var látið vaða úr ýmsum færum. Því miður fóru fæstar marktilraunirnar þó á rammann. En Lloris þurfti þó að vera vel á verði, bæði til að verja skot og fyrirgjafir.
En Tottenham náði að komast betur inn í leikinn eftir því sem leið á. Stundum munaði litlu að þeir kæmust í gegn en þá stoppaði það yfirleitt á einhverjum úr varnarlínunni, sem áttu heilt yfir fínan fyrri hálfleik. Phil Jones var þó stálheppinn að gefa ekki vítaspyrnu eftir hálftíma leik þegar hann tæklaði Moura í teignum en náði engu af boltanum.
Tottenham átti sína fyrstu marktilraun á 40. mínútu, Manchester United átti 10 tilraunir í fyrri hálfleik gegn 2 frá Tottenham. Staðan var hins vegar 2-1 í tilraunum sem enduðu á rammann. United hefði þó vel verðskuldað að vera allavega 1 marki yfir í leikhlé. En það þarf víst að nýta færin.
Seinni hálfleikur
Við vildum sjá meira af því sama í seinni hálfleik og hann byrjaði á svipuðum nótum. Luke Shaw, sem hafði komið mjög sterkur inn í leiknum, átti frábæran sprett upp vinstri vænginn, fíflaði Trippier fram og til baka áður en hann gaf boltann á Pogba sem átti hörkuskot utan við D-bogann sem smaug rétt framhjá.
En Tottenham hafði hins vegar lesið eitthvað í Manchester United því þeir fóru að finna pláss uppi á kantinum hægra megin. Eriksen hljóp þá í svæðið fyrir aftan Luke Shaw, Fred var of ofarlega á vellinum til að fylgja honum og hvorki Matic né Phil Jones voru á tánum til að passa Eriksen.
Á 49. mínútu fékk Eriksen boltann einmitt þar, átti fasta sendingu meðfram jörðinni út í teiginn á Dele Alli sem átti skot í Smalling og framhjá. Úr horninu skoraði svo Harry Kane. Hann vann þar skallaeinvígi gegn Phil Jones of auðveldlega og stýrði boltanum alveg út við stöng. Þar var enginn varnarmaður og De Gea átti engan séns á að verja boltann. 0-1.
Manchester United náði næstum því að svara strax, þegar Lukaku fékk færi vinstra megin í teig og skaut föstu skoti en Lloris varði vel. Þess í stað fékk United annað mark í andlitið og aftur kom það upp úr alveg eins hlaupi frá Eriksen. Upp í hægra hornið, fékk allan tímann í heiminum til að pikka út sendingu og fann dauðafrían og ódekkaðan Lucas Moura við vítapunktinn sem kom á ferðinni og slúttaði vel. 0-2, skellur!
Mourinho brást við þessu með því að henda strax í skiptingu. Hann tók Herrera af velli og setti Alexis Sánchez inn á. Þegar Herrera var að fara út af virtist eitthvað trufla Mourinho, hann skipaði Herrera að fara aftur inn á völlinn og var með bendingar, eins og einhver annar þyrfti mögulega frekar að fara út af. En á endanum fór Herrera þó af velli. Stuttu síðar kom í ljós að það var Phil Jones sem Mourinho var að bendast á við, Jones var þá meiddur og þurfti því að fara af velli fyrir Lindelöf. Líklegast ekki skiptingin sem Mourinho hefði viljað gera.
Hann setti þó fljótlega inn þriðju skiptinguna þegar Fellaini kom inn á fyrir Nemanja Matic. Það er spurning hvort Matic sé búinn að jafna sig almennilega af meiðslunum, eða hvort það hafi vantað eitthvað upp á leikformið. Hann virkaði stundum örlítið ólíkur sjálfum sér í leiknum. Það kemur vonandi, liðið þarf á því að halda.
Fellaini var rétt kominn inn á þegar Lukaku bjó til dauðafæri fyrir Lingard en hinn frábæri Alderweireld bjargaði því í horn, rétt áður en Lingard gat látið vaða á markið.
Lindelöf átti ekki sterka innkomu og var tvisvar á stuttum tíma nánast búinn að gefa Tottenham mark. Í fyrra skiptið gaf hann sendingu ætlaða De Gea sem hitti beint á Dele Alli. Spánverjinn náði þó að loka á Alli og verja gríðarlega vel í horn. Í horninu missti Lindelöf alveg af Kane og framherjinn fékk dauðafrían skalla af stuttu færi sem hann setti framhjá.
Manchester United reyndi alveg eftir þetta að gera eitthvað og finna eitthvað en þetta voru allt hálffæri og næstum því eitthvað. Það var erfitt að hafa mikla trú á að liðið gæti minnkað muninn, hvað þá jafnað. Tottenham varðist líka gríðarlega vel, með herforingjann Toby Alderweireld fremstan í flokki.
Á 84. mínútu kláraði Lucas Moura þetta endanlega. Vörn United var þá orðin ansi fámenn þar sem liðið leitaði að mörkum og Moura nánast labbaði framhjá Smalling og skoraði auðveldlega framhjá David de Gea. 0-3. Hrikalegt.
Pælingar eftir leik
Þetta var skrýtinn, skrýtinn leikur. Að sumu leyti var þetta einn skemmtilegasti leikur sem Manchester United hefur spila í lengri tíma. En samt var hann líka glataður og tapaðist illa.
Það má alveg taka einhverja jákvæða punkta úr þessum leik. Luke Shaw heldur áfram að vera flottur, hann hefur byrjað þetta tímabil vel og virðist vera staðráðinn í að gefa allt í þetta. Það er verulega flott að sjá, megi hann halda áfram á þeirri braut sem lengst.
Mér fannst mjög gott að sjá Jesse Lingard aftur í liðinu. Liðið hefur saknað hans, vinnusemi hans, hlaupagetu og kænsku. Hann átti flottan fyrri hálfleik en dalaði í seinni eins og restin af liðinu.
Fyrri hálfleikurinn var virkilega flottur. Alls ekki gallalaus en flottur að mestu leyti og mjög skemmtilega spilaður. Það var gaman að sjá hlaupin hjá Fred og það virkaði eins og það væri komið flæði í leik liðsins. En á móti var seinni hálfleikurinn alls ekki nógu góður.
Það segir töluvert ef Chris Smalling er áberandi besti miðvörðurinn í hópnum. Það var ekki gaman að horfa á Toby Alderweireld eiga stórleik í vörninni hinum megin og hugsa til þess að hann gæti auðveldlega verið United-leikmaður í dag ef Woodward hefði hysjað upp um sig.
Pochettino
Í kommenti við upphitunina fyrir þennan leik var ég sakaður um það að tala Pochettino niður sérstaklega bara af því hann hafi verið nefndur sem mögulegur arftaki Mourinho hjá Manchester United. Það var alls ekki það sem ég var að gera. Ég hef alltaf fílað Pochettino og svo sannarlega mátað hann í stólinn hjá Manchester United, jafnvel áður en Mourinho tók við.
Það er þó eðlilegt að benda á bæði kosti og galla, í stað þess að einblína í rörsýni aðeins á annað hvort. Það er eðlilegt að benda á að hann hefur aldrei unnið titil og velta því fyrir sér hvers vegna það ætti að breytast hjá Manchester United. Og þá á móti hvort það sé endilega krafan sem við viljum setja eða hvort krafan um skemmtilegan fótbolta eigi mögulega að vega þyngra. Þetta eru allt valid vangaveltur og fótboltaáhugafólk nærist á fótboltavangaveltum.
Pochettino steig þó stórt skref í kvöld að mínu mati. Hann braut álögin á Old Trafford og náði, þegar allt kom til alls, í mjög sannfærandi sigur. Eftir að hafa lifað af fyrsta hálftímann þegar United hafði yfirhöndina og tók taktískt frumkvæði á leiknum þá svaraði Pochettino því mjög vel. Hann gerði smávegis áherslubreytingar í hálfleik og fór að sækja á veikleika United. Hann fór úr 4-1-3-2 í 4-2-2-2, hann fann réttu svæðin. Hann náði yfirhöndinni, forystunni og varði hana svo allt til enda. Hann mátaði Mourinho. Vel gert, Pochettino!
Hann mun áfram verða orðaður við stærri stjórastóla en Spurs-stólinn. Hver veit nema hann nái að byggja ofan á þetta og vinna loksins eitthvað með Tottenham. Hann hefur allavega sýnt enn einn kostinn sem gæti gert hann að góðum kandídat í stjórastólinn hjá Manchester United einhvern tímann í framtíðinni, nær eða fjær.
Mourinho
Mourinho má eiga það að hann tók áhættu með uppleggi sínu í kvöld. Hann kom á óvart og það sást á leik liðsins að hann ætlaði ekki að leggja neinni rútu í þetta skiptið. Það hefði í raun átt að ganga upp í fyrri hálfleik en það sem Manchester United gerði í leiknum var allt nálægt en rétt framhjá.
Hefði hann átt að stilla þessu upp öðruvísi? Kannski. Hefði hann átt að leggja rútunni? Mögulega.
Hann fékk allavega söng og stuðning frá ákveðnum hópi stuðningsmanna á Old Trafford í leikslok og hann virtist hrærður yfir því. Hann staldraði lengi við og klappaði fyrir þeim áhorfendum sem höfðu þraukað þennan leik til enda til að sýna stjóranum og liðinu stuðning. Einhverjum fannst þetta klapp í lokin heldur kveðjulegt. En það er nú líklega fullsnemmt fyrir svoleiðis.
Þegar Mourinho hefur klárað heil tímabil með lið í ensku úrvalsdeildinni hafa liðin hans alltaf endað í sömu sætum og þau voru eftir 12 umferðir. Það er þá það sem ég ætla að byrja á að gefa honum. 12 umferðir, svo tökum við stöðuna.
kristjans says
Er eitthvað vitað með Bailly og Mata? Eru þeir meiddir?
Bjarni says
4 4 1 1 Matic er ekki varnarmaður í mínum augum þó hann spili oftast passíft og til hliðar, en hvað veit ég. Þetta verður fróðlegt og samvinna leikmanna verður að vera til fyrirmyndar sérstaklega hjá knoll og tott (smalling/jones). Ef Bailly á það til að gera gloríur þá er Jones á pari við hann, eini munurinn á þeim er litarhaftið. En ég ætla að láta þá njóta vafans fyrir leik. Sóknin þarf svo að sinna sinni vinnu þá vinnum við þennan leik, þurfum bara að skora fleiri en andstæðingurinn, speki dagsins.
kristjans says
Og er eitthvað vitað með Martial? Er hann meiddur?
Bjarni says
Er liðið fyrirliðalaust? Enginn sem les yfir hausamótunum á Matic fyrir þennan sofandi hátt sem hefði getað gefið mark.
Thorleifur says
hressandi fyrri halfleikur .
minnir a gamla tima
Bjarni says
Halda áfram, halda haus og setja 2 mörk. Er kominn í búninginn :)
EgillG says
Klúður að fara inní tímabilið án þess að hafa 1 góðann miðvörð.
Bjarni says
Þetta eru þeir sömu og voru í fyrra nema nú er DeGea ekki að bjarga þeim fyrir horn.
Georg says
Leikplan dagsins :
Henda í nýtt leikskipulag, segja leikmönnum að hlaupa eins hratt og þeir geta,vera þar sem þeir vilja og gera það sem þeir vilja.
Hálfleikur.
Pochettino fattar planið og notfærir sér það. 0-2
Hvað dregur Moriniho upp úr hattinum? Örugglega eitthvað sem Pochettino gæti aldrei sé fyrir. Hann setur inn Fellaini !búmm!
Tveir áberandi leikmenn : Luke Shaw og Lingard.
Alls ekki áberandi : Ander Herrera og sá sem ætti að vera betri en er ekki Paul nennissu ekki Pogba.
Algjört gjaldþrot staðfest í kvöld strákar og stelpur.
Jói says
Burt með Mora strax heimsku uppstilling vera með Matic oh hægasta varnarmann í deildini og svo þvilikar skiftingar Sandces lélegasta 7 allra tíma hefðum átt að setja Rasford sem er mikklu betri
Ingvar says
Jibbí, landsleikjafrí!! Annars er furðulegt að segja þetta eftir 0-3 tap á heimavelli að þetta var sjálfsagt skársta frammistaða þessa liðs í mjög langan tíma, en við erum með 3 miðverði í þessu liði sem heita Smalling, Jones og Lindelöf.
Bjartur says
Um að gera að ráða Hanrén!! Hann gæti kannski bjargað liðinu frá falli?
kristjans says
Fannst áhugavert að fylgjast með textalýsingu á vef BBC og ummæli Chris Sutton, hittir hann ekki naglann á höfuðið?
The problem is everywhere. It starts with the manager. He has picked a midfielder to play at centre half.
There are recognized defenders on the bench, who he has bought, that he doesn’t have faith in. This isn’t a pub team, this is Manchester United. They absolutely do not look like title contenders.
United are being embarrassed by Spurs on their own patch. It is brilliant by Lucas Moura who drives at Chris Smalling too easily, and he whips the ball across David De Gea into the far corner. Credit to Spurs, they have been brilliant in the second half.
Manchester United is a club that is imploding. It happened in pre-season and everything has been negative. There is in-fighting and the manager isn’t getting the best out of his players.
In the other dug out, Spurs haven’t brought anyone in, but there were no complaints and they are united.
Auðunn says
Hræðilegt og ömurlegt.
Ég skil ekki hvernig liðinu var stillt upp, hvaða stöðu var Herrera að spila?
Við erum að tapa 0-2 á heimavelli og Mourinho setur Fellaini inná? Afhverju ekki Rashford?
Óskiljanlegt með öllu.
Mig langar til að spyrja ykkur alla og öll.
Hvaða leikmaður Manchester United hefur bætti sig eftir að Mourinho tók við liðinu?
Hjá Spurs hafa nánasy ALLIR leikmenn bætt sig eftir komu Pochettino.
Það er þjálfari sem kann að vinna með einstaklingum.
Mourinho kann það ekki.
Pillinn says
Enn og aftur sést hvað liðinu vantar miðvörð. Frábært að Woodward hafi ákveðið að það vantaði ekki.
Lukaku á alla daga að klára þetta færi á móti auðu marki. Allt annar leikur ef hann hefði klárað það.
Jones meiðist auðvitað á versta mögulega tíma þegar skipting er að eiga sér stað.
Leikurinn sýndi þó að Mourinho er ekki búinn að tapa neinum klefa. Menn voru að reyna alveg til loka.
Verðum að vinna Burnley næst og halda áfram. Sá margt jákvætt í leiknum en mjög slæmt tap. Samt er bara ágúst svo þetta getur vart orðið verra. Núna þurfum við bara að girða í brók og vinna næstu leiki.
Enginn heimsendir þó úrslitin hafi verið hræðileg.
gummi says
Móri er bara búinn sem stjóri United þurfum að losna við hann áður en þetta versnar en meira
Jón says
þótt við værum með Messi í liðinu þá værum við samt ömurlegir á meðan Móri er þjálfari
toggi says
jæja Karl Garðars og Bjössi hvernig ætlið þið að verja Móra eftir þetta tap
Karl garðars says
Sammála Pillinn. Passaðu þig samt að lenda ekki í sama dilk og við Björn :-D
@toggi. Ég persónulega skal gera mitt besta þegar ég sé fram á að geta átt gáfulegar og málefnalegar samræður um málið. Þangað til þá nenni ég ekki tímanum mínum í svara sama upphrópunarjarminu, ég hef séð það allt áður og sagt mína skoðun á því.
Auðunn. Það mætti t.d. nefna Shaw, sem átti fínan leik í dag og Lingard.
Að leiknum: Ef fólk væri samkvæmt sjálfu sér þá mætti gefa liðinu það að boltinn var skemmtilegur lengst af, hápressa og baráttan mikil. Liðið skapaði helling en fór því miður herfilega með færin sín. Úrslitin eru ömurleg en mér fannst þau ekki gefa rétta mynd af leiknum. Þessi nálgun liðsins og stjórans er það sem margir hér hafa verið að kalla eftir og þeir sömu geta ekki einu sinni haft orð á því þó leikurinn hafi endað illa sem er frekar sorglegt.
Alderweireld og Moura voru magnaðir. Poch átti þetta svo skilið og ég viðurkenni fúslega að èg væri mjög til í að fá hann inn sem næsta stjóra United.
Jónsson says
Flottur leikur, Jú Jú, tap. koma svo, næsti leikur. Leyfa manninum og liðinu að smella saman allt tekur tíma.
Manchester United
Björn Friðgeir says
@Ingvar: nei vika í landsleikjahlé. Burnley á sunnudaginn.
Annars þarf ekkert að verja José. Spyrjið ykkur bara hvers vegna var ekki 2-0 í hálfleik? Stjórinn getur ekki skorað mörkin þegar opin marktækifæri bjóðast.
gummi says
Þetta er bara ömurlegur manager inn með zidane strax
Björn Friðgeir says
Gummi: Þú ert búinn að segja þetta þúsund sinnum. Við heyrðum þetta í fyrsta skiptið. Ef þú hefur ekkert annað að segja í frekari athugasemdum,þá hendi ég þeim út.
Arnar says
Ég hef séð meira passion í bumbubolta. Ef stjórinn er ekki að ná að mótivera liðið þá er hann vandamálið. Ég er mjög hrifinn af Mourinho en þetta virðist bara ekki vera að ganga upp.
Björn Friðgeir says
Hér er áhugaverð grein sem er þess virði að hlusta á og stemmir við það sem ég er að sjá á Twitter hjá þeim sem fara á leiki
https://www.thenational.ae/sport/football/jose-mourinho-deserves-to-keep-his-job-at-manchester-united-here-s-why-1.764520
Herbert says
Mér er svosem sama hver þjálfar þetta lið, en kaup seinustu ára eru bara rannsóknarefni! Það hefur gefið liðinu alveg ævintýralega lítið. Verið að henda annaðhvort helling af peningum í kaup á leikmönnum eða ævintýralega háum launum. Jú það var annað sætið í fyrra og evrópudeild þar áður. Engan veginn nógu góður hópur til að spila vel í deild og evrópukeppnum. Darmian, Lindelof, Blind, fellaini, Herrera og martial…..
Aldrei nógu góðir til að spila fyrir Man Utd!
Robbi Mich says
Hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af José sem stjóra og það voru blendnar tilfinningar sem bærðust innra með mér þegar hann var ráðinn. Þrátt fyrir það styð ég hann því mér finnst algjörlega galið að skipta um stjóra á miðju tímabili, nema þegar maður er búinn að gefa tímabilið uppá bátinn eins og raunin var með Moyes – en þá var liðið á apríl. Núna er tímabilið er rétt að byrja og að skipta á þessum tímapunkti um skipstjóra er þvílík vitleysa að ég skil ekki að menn séu að gaspra því hérna hvað eftir annað.
Áður en menn smyrja yfir mig skítinn að þá bið ég menn að hafa sig rólega. Ég er ekki sáttur við spilamennskuna, úrslitin, kaupin eða hugarfarið hjá leikmönnum, stjóranum og meira að segja stjórninni. Það er nokkuð augljóst að það er ekki við José einan að sakast. Það er eitthvað stórkostlegt að hjá öllu liðinu.
Ég er langt í frá sannfærður um að innkoma Zidane myndi breyta miklu. Hann yrði áfram með sömu leikmenn allavega fram í janúar og það er ekki eins og janúargluggar hafi verið mikið success hingað til – og ekki bara hjá Man Utd. Það þarf að fara að huga að því að byggja til framtíðar og gefa þeim manni tíma til þess í stað þess að vera að stoppa í götin með plástrum eins og hefur verið gert meira og minna undanfarin ár. Ég er bara ekkert viss um að Glazer-arnir vilji eyða milljarði punda eins og City til þess að búa til meistaralið til næstu 5 ára eða að Eddie hafi þolinmæðina til þess að gefa nýjum stjóra frjálsar hendur til að byggja upp, svona mv að hann virðist vilja hafa puttana í leikmannakaupum.
Það var einn sem skrifaði komment hérna um daginn sem sagðist elska Manchester United en hataði þetta lið. Erfitt að viðurkenna það, en nokkuð mikið til í því hjá honum. Þetta tiltekna lið er bara ekki skemmtilegt eða spennandi. Eftir að Rio, Vidic, van Persie, Rooney, Scholes, Giggsy og meira að segja Berba eru farnir, þá er þetta bara ekki eins. Það hefur ekki tekist að endurnýja sem skyldi og gamlir töfrar eru bara horfnir. Við verðum bara að sætta okkur við að gamli tíminn er farinn og verðum að vona að nýtt Liverpool þurrkatímabil í Manchester borg verði styttra en það sem þeir hafa upplifað. Til þess þarf þó fjármagn og þolinmæði og ég er bara ekki viss um að það sé í boði sem stendur.
Elís says
Burt með Móra. Afhverju?
1. Það virðist ekki vera nein stefna. Hvernig fótbolta vill hann spila? Þetta virkar handahófs kennt. Afhverju að gefa stjóra tíma sem virðist ekkert vita hvert hann er að fara með liðið.
2. Hann gerir enga leikmenn betri. Hann gerir þá verri og dregur úr þeim sjálfstraust.
3. Væl. Djöfull er þreyttandi að hlusta á hann eins og barn sem fær ekki það sem hann vill og fer bara í fýlu. Hann er með flotta leikmenn sem hann kann ekki að nota, hann er með,stjörnur sem spiluðu miklu betur fyrir liðinn sem þeir voru í og allt tal um miðverði er fáránlegt því að hann keypti tvo miðverði sem eru bara lélegir og núna vill hann fá fleiri tækifæri til að versla í þá stöðu.
4. Krafan um gæða fótbolta. Þetta er Man Utd sem var þekkt fyrir að keyra yfir lið með sóknarþunga en inn á milli geta náð í mikilvæg stig í ljótum leik. Núna er þetta orðið öfugt. Núna nær Man utd oft í stig í ljótum leikjum en inn á milli sjást sóknar gæði. Þetta er ekki boðlegt.
Cantona no 7 says
Mourinho er ekki að fara eitt eða neitt.
Liðið verður einfaldlega að bæta sinn leik.
G G M U
Alltaf
Jonas says
Vil taka það skýrt fram að ég er Liverpool maður. Liðið ykkar kemur aldrei til með gera nokkurn skapaðan hlut með Móra sem stjóra, hann er útbrunninn hrokagikkur. Eitt flottasta lið ever var liðið sem var uppbyggt af eigin mönnum, Beckham, Giggs ofl. Þetta eru fræði sem Móri kann ekki, og mun aldrei læra. Klopp er að undirbúa slíka, TAA og Gomes t.d. orðnir fastamenn í besta liði heimsins um þessar mundir. Það er ekkert fallegt við MU, liðið spilar ljótan bollta, ég veit að þið eruð sammála mér því þið eruð ekki sáttir við spilamensku liðs ykkar. Gangi ykkur vel.
YNWA
Auðunn says
Nú nú Bjössi ætlar bara að fara að taka Kop.is á þetta og henda kommentum út sem falla honum ekki í geð.
Það eru bara einræðisherra taktar í gangi.
Verði ykkur að góðu.
Karl, Shaw er búinn að eiga 3. Max 4 góða leiki undir stjórn Móra.
Og nei hann hefur ekki bætt sig undir hans stjórn. Ekkert frekar en Lingard eða Rashford.
Þeir bættu sig undir Van Gaal.
Búnir að standa í stað síðan
Björn Friðgeir says
Auðunn: Þegar búið er að segja sama hlutinn sex sinnum eins og ég tek út sjöunda skiptið? Láttu ekki eins og bjáni.
Turninn Pallister says
Verðum við ekki að svara Púllaranum?
Er Klopp að undirbúa framtíðina hjá Liverpool með uppöldum leikmönnum?
Kanntu annan?
Get alveg sagt þér það strax félagi að Klopp er ekkert að byggja upp á uppöldum (nema þið séuð farnir að sjá Southampton sem ykkar uppeldisklúbb auðvitað). Þú telur upp TAA og Gomez (sem er btw uppalinn í Charlton áður en hann samdi tæplega 18 ára við Liverpool).
Á sama tíma getum við talið upp Jesse Lingard, Marcus Rashford, Scott McTominay, Andreas Perreira (kom til Man Utd 15 ára frá PSV) og svo T Chong (sem fékk fullt af tækifærum í æfingatúrnum í sumar).
Nú getur vel verið að Klopp sé algjör meistari í að móta unga leikmenn, en hann hefur samt ekki verið að byggja upp á uppöldum leikmönnum eða að moka þeim úr akademíunni. Að halda slíku fram er bara rótlaust kjaftæði.
Cantona no 7 says
Sammála Turninn Pallister hann Herr KFlopp er ekkert með einhverja uppalda leikmenn þeir koma flestir frá Southampton og öðrum liðum.
Og athugið eitt það eru BARA þrír leikir búnir.
Ég hef trú á að okkar menn bæti sig.
G G M U