Eftir leikinn gegn Brighton
Eftir 3:2 tapið gegn Brighton í annarri umferð þá var mikið talað um letilegan og leiðinlega fótbolta af hálfu Manchester United. Einnig var talað um að José Mourinho væri búinn að tapa klefanum og að leikmenn væru hættir að spila fyrir stjórann sinn. Tvíeykið Eric Bailly og Victor Lindelöf voru sérstaklega gagnrýndir ásamt Paul Pogba sem hafði verið með dylgjur í fjölmiðlum um að hann mætti ekki segja það sem hann mætti segja.
Leikurinn gegn Tottenham
Spólum svo áfram til leiksins gegn Tottenham á Old Trafford. Miðvarðaparið missti sætið sitt í byrjunarliðinu og Bailly komst ekki í hóp. Liðið spilaði fljótandi og skemmtilegan fótbolta í fyrri hálfleiknum og á einhvern óútskýranlegan hátt mistókst liðinu að skora mark. Það virtist sem að stjórinn væri ekki búinn að tapa klefanum og þegar flautað var til hálfleiks þá vorum við bjartsýn fyrir seinni hálfleikinn. Á fyrstu sjö mínútum seinni hálfleiksins skoraði svo Tottenham tvisvar og hafði svo gott sem klárað leikinn eftir slakan varnarleik United, ótrúlegt en satt. Gestirnir skoruðu svo þriðja markið sitt nokkrum mínútum fyrir leikslok og 0:3 tap staðreynd.
Hver ber ábyrgðina?
Mikil umræða er nú um að reki eigi Mourinho því þetta sé óásættanlegt. Ég vil taka það fram að ég er enginn Mourinho klappstýra þó svo ég búi yfir ákveðnum eiginleika sem kallast almenn skynsemi. Ég er mjög viss um það að reka Mourinho núna sé fáránlegt því að í fyrsta lagi ber hann ekki alla sökina á þessu ástandi. Ed Woodward neitaði honum um leikmann sem hefði 100 prósent bætt liðið og það er fáránlegt að halda öðru fram. Toby Alderweireld var frábær í vörn Tottenham og hann myndi vera okkar besti miðvörður en ekki fimmti besti eins og Woody á að hafa haldið fram.
Ed Woodward bauð José Mourinho nýjan samning í janúar sem að sá síðarnefndi skrifaði undir en það var framlenging til ársins 2020. Það væri hægt að afsaka það að túlka það sem stuðning við störf stjórans og vilja til að hjálpa honum við að byggja upp lið sem gæti barist um titla. En þessi nýliðni sumargluggi var eitt fíaskó. Leikmennirnir sem komu inn voru Lee Grant, 35 ára þriðji markvörður. Diogo Dalot kornungur hægri bakvörður og Fred. Sem hluti af innkaupum voru þetta ekki slæm viðskipti en sú staðreynd að þetta séu einu kaupin eru það.
Ég veit ekki hversu oft var talað um það hér að það sem þyrfti væri miðvörður, jafnvel tveir þar sem núverandi leikmenn væru ekki nógu góðir. Þetta er enn staðan í dag. Woodward sagði að hann hefði gefið leyfi til að kaupa Rafael Varane sem var aldrei nokkurn tíma að fara að gerast. En þetta gerist þegar maður með enga knattspyrnuþekkingu er í þessari stöðu. Hann hefur sýnt að hann vilji bara kaupa einhverjar stjörnur með endursölumöguleika frekar en leikmenn sem myndu styrkja liðið í dag og næstu ár.
Vissulega keypti Mourinho þá Lindelöf og Bailly til liðsins á samtals 60 milljónir punda sem í nútímafótboltanum er ekki það mikill peningur. Þeir eru báðir bara 24 ára og hafa þurft að læra af Marcos „brennt brauð“ Rojo, Mike Smalling og Phil „alltaf með hækjur“ Jones. Það væri almenn skynsem að fá topp miðvörð með þeim tveimur sem hefur meiri reynslu ásamt því að vera frábær varnarmaður. Liðin í kringum okkur hafa eytt betur. Klopp fékk að kaupa Van Dijk þó svo að hann hafi keypt Matip. Guardiola fékk að kaupa helminginn af öllum varnarmönnum í heiminum þangað til að hann fann það sem hann vildi. En sumir vilja ekki að Mourinho fái að kaupa þriðja miðvörðinn.
José Mourinho er ekki að þjálfa lið eins Newcastle eða Burnley sem þurfa virkilega að vera skynsöm á markaðnum. Þegar lið á nægan pening til innkaupa er óhjákvæmilegt að sumir leikmenn verði ekki stjörnur, sérstaklega ef ekki má kaupa fullreynda leikmenn nema að takmörkuðu leyti. Samkvæmt Woodward þá á United helling af pening til að eyða. Vandamálið er að hann á lokaorðið.
Leyfi þessu að fylgja með, til að sýna nákvæmlega hversu miklar áhyggjur eigendurnir hafa líklega af stöðunni.
#MUFC share price rises by a further 2% today to close at a record $25.80 and $4.24 billion value in another great day for the Glazers & Ed Woodward as another set of win bonuses are saved tonight. pic.twitter.com/vsRf4EDEYX
— PriceOfFootball (@KieranMaguire) August 27, 2018
gummi says
Er það ekki bara orðið nokkuð ljóst að þeir treysta bara Móra ekki lengur
Rauðhaus says
Alveg ágætar pælingar en mér finnst þú samt sleppa José of létt undan ábyrgð.
Fyrir mér er alveg ljóst að hann hefur ekki verið að ná því úr þessum leikmannahópi sem í honum býr. Alexis? Pogba? Martial? Shaw?
Jose er að byrja sitt þriðja tímabil með liðið. Hann veit ekki enn sitt besta byrjunarlið. Liðið spilar ekki eins og lið inni á vellinum, að öllum líkindum vegna þess að það er ekkert leikplan þegar við erum með boltann. Hans taktík snýst bara um að stöðva andstæðinginn, en ekki öfugt. LvG má amk eiga það að undir hans stjórn var þetta alltaf öfugt. Jose á risastóran þátt í því andrúmslofti sem er í kringum klúbbinn sem stendur. Er búinn að vera neikvæður í allt sumar og rífandi kjaft. Það smitar allt út frá sér, í alla umfjöllun o.s.frv. Við töpuðum fyrir góðu liði Spurs þar sem stjórinn fékk ekki að kaupa neinn einasta leikmann í sumar. Hann var örugglega ekkert hoppandi glaður yfir því, en hvað gerði hann? Hann gerir það besta með það sem hann hefur í höndunum. Ekkert dramakjaftæði í fjölmiðlum o.s.frv.
José hikar ekki við að henda eigin leikmönnum fyrir rútuna þegar honum sýnist sem svo. Það þarf engan að undra að þessir sömu leikmenn (og hinir líka) líta út fyrir að vera skíthræddir inni á vellinum. Algjör skortur á sjálfstrausti hjá mörgum leikmönnum. Góðir man-management stjórar fylla leikmenn sína af sjálfstrausti, skerða það ekki. Sir Alex er besta dæmið, lét leikmenn eins og John O´Shea trúa því að hann væri nógu góður til að spila 3-400 leiki fyrir Man.Utd.
Því miður virðist Jose bara vera langt kominn með að grafa sína eigin gröf.
Ég vil taka fram að ég er samt ekki að segja að eigendur liðsins beri ekki mikla ábyrgð líka. En það er ekki hægt að líta fram hjá því að José er langt því frá undanskilinn því sem mér finnst vera réttmæt gagnrýni.
Elís says
Móri er á sínu þriðja ári með liðið. Hann ber ábyrgðina á hvernig liðið hans spilar.
Hans hlutverk er að stilla upp rétta liðinu og einfaldlega bæta sína leikmenn, hann er ekki að gera neitt af þessu rétt.
Móri hefur alltaf fengið að eyða penningum eins og hann vill þangað til í sumar og þá er þvílíkt Vælt. Man utd þarf einhvern sem rífur liðið upp, bætir leikmenn og fer að spila skemmtilegan fótbolta. Ekki einhvern sem talar um gömlu titlana sem hann vann þegar hann var að stjórna öðrum liðum.
p.s Matip fékk Liverpool frítt(var ekki keyptur)
Glórulaus. says
Hvað er í gangi í hausnum á aðdáendum? Eftir sjö umferðir í fyrra voru Man utd á toppnum með markatöluna 21-2. Þetta var sama varnarlína og er sögð fullkomlega óstarfhæf núna nema Luke Shaw hefur unnið sér sæti í liðinu og virðist vera ná sínum ferli aftur af stað. Megnið af þessari varnarlínu vann Europa League árið áður.
Þessi vitavonlausa varnarlína United með besta markmann í heimi fékk á sig 28 mörk á síðasta tímabili.
Endilega höldum áfram að hrósa Móra og verum svaka hissa á að hann fái ekki að kaupa fimmta 30. ára gamlan varnarmann sem öllu átti að breyta.
Halldór Marteins says
@Glórulaus
„Endilega höldum áfram að hrósa Móra og verum svaka hissa á að hann fái ekki að kaupa fimmta 30. ára gamlan varnarmann sem öllu átti að breyta.“
Mourinho hefur fengið að kaupa 3 varnarmenn hjá Manchester United. Þeir voru 22 ára, 23 ára og 19 ára.
Vissulega var Manchester United með góða markatölu í fyrra, það var fyrst og fremst David de Gea að þakka. Jújú, Bailly og Jones byrjuðu tímabilið nokkuð vel saman en það entist ekki lengi. Heilt yfir var varnarleikur United ekkert það góður.
Megnið af varnarlínunni vann sannarlega Evrópudeildina árið þar á undan, það er rétt. Í úrslitaleiknum fann Mourinho leið til að nýta styrkleika varnarmanna og láta Ajax ekki komast í það að herja á veikleika þeirra. Það var mjög vel gert hjá honum, að mínu mati.
Glórulaus says
Halldór Marteins. Á eitthvað að reyna að reka ofan í mann núna?
„Heilt yfir var varnarleikur United ekkert það góður.“ Nei? bara næst bestur í deildinni. 28 mörk fengin á sig.
„Mourinho hefur fengið að kaupa 3 varnarmenn hjá Manchester United.“ Hvað voru þessir varnamenn sem Móri vildi fá í þessum glugga gamlir? Það var punkturinn minn.
„Það var mjög vel gert hjá honum, að mínu mati.“ Var það vel gert hjá Móra eða er hann bara með fína varnarmenn? Eftir höfðinu dansa limirnir Halldór og ef hann gat gert svona lélega varnamenn geggjaða á fyrstu 2 árunum sínum, afhverju getur hann það þá ekki núna?
Halldór Marteins says
@Glórulaus
Það er ekkert sérstakt markmið að reka ofan í menn. Fannst þetta bara undarlegt komment í ljósi þess að United hefur einmitt alls ekki verið að kaupa 30 ára gamla varnarmenn í stjórnartíð Mourinho.
„Varnarleikurinn“ var næst bestur í deildinni út af de Gea. David de Gea var í sturluðu formi á síðasta tímabili. Án hans hefði liðið fengið á sig ca. 40 mörk miðað við færin sem andstæðingarnir sköpuðu sér. Vörnin var fín í sumum leikjum, heilt yfir ekki eins fín og mörk fengin á sig talan gefur til kynna.
Mourinho vildi fá miðvörð með reynslu, leiðtoga í vörnina og betri miðvörð en liðið er með fyrir. Einn þeirra var í eldri kantinum en ekki eins og Alderweireld sé eitthvað kominn á grafarbakkann í fótboltaaldri. Hann gæti alveg átt nokkur mjög góð ár eftir enn. Sama hvort Mourinho haldi áfram eða ekki þá vantar greinilega svona týpu af miðverði í hjarta varnarinnar. Ertu kannski ósammála því?
Það var vel uppsettur leikur. Mourinho hefur náð að setja leiki upp taktískt vel þótt hann hafi ekki enn náð að finna taktík sem virkar til lengri tíma. Leikmennirnir spiluðu vel í þessum tiltekna leik en það vantar líka alveg upp á ýmislegt þar. Mourinho á einhverja sök, leikmenn eiga einhverja sök, Woodward og co eiga einhverja sök.
Audunn says
Já ég er sammála því að þessi pistill er frekar einfaldur og svolítið langt því frá að vera hlutlaus.
Menn þurfa líka að taka aðrar staðreyndir inn í heildarmyndina ætli þeir sér að vera hlutlausir, það gerir Magnús ekki í þessum pistli og því er hann eins og hann er. Ekki upp á marga fiska.
Ætla að taka það fram að ég er ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að reka Mourinho ef Zidane er það eina sem er í boði í hans stað.
Er ekki sannfærður um að hann sér rétti maðurinn.
Ég myndi allra helst vilja fá Pochettino og ef við þurfum að hafa Mourinho út þetta tímabil til að fá hann þá væri ég til í það.
Ég hef stórar efasemdir um að Woodward ráði eins miklu og margir halda þegar kemur að fjárfestingum á leikmönnum. Hann á jú sína yfirmenn sem hljóta að skipta sér líka að, annað væri skrítið.
Ef ég væri eigandi Man.Utd þá myndi ég spyrja sjálfan mig að því hvort ég væri til í að ausa meiru fjármagni í miðverði eftir þessi kaup Mourinho. Hvernig í veröldinni datt honum yfir höfuð í hug að kaupa leikmann eins og Lindelof? Ótrúlega léleg kaup í alla staði.Maðurinn er ekki góður í neinu.
Svo á móti kemur jú, ef ég treysti honum ekki þá ætti ég að losa mig við hann.
Kannski er það bara planið, kannski eru menn búnir að huxa lengra fram í tímann en Sept 2018.
Mourinho er núna búinn að fá tvö tímabil, samt er liðið eins og það er. Það er ekki hægt að kenna Woodward um það þótt Mourinho hafi ekki fengið að kaupa einn miðvörð.
Afhverju vildi hann ekki kaupa Van Dijk í Janúar? Hann hefði pottþétt fengið að kaupa hann.
Mér finnst það mikil einföldun og ódýr afsökun að koma núna og kenna Woodward um allt, United er búið að eyða helling af peningum undanfarin ár, alveg helling.
Mourinho hefur ekki tekist að bæta marga leikmenn United síðan hann tók við, honum hefur reyndar ekki tekist að bæta neinn leikmann liðsins að mér finnst.
Honum hefur ekki tekist að setja sinn stimpil á liðið nema pakka öllum í vörn og leggja rútunni eins og það er kallað. Liðið hefur engan stimpil eða karakter, það er bara einhvernvegin út um allt og rótlaust.
Hann veit ekki sitt besta lið og hann veit ekki einu sinni bestu stöður sumra leikmanna.
Hann notar menn eins og Alexis ekki rétt, fær lítið sem ekkert út úr honum , Rashford hefur ekkert farið fram og Martial aftur ef eitthvað er.
Þessar staðreyndir eru ekki Woodward að kenna.
Að halda því núna fram að kaup á einum miðverði hefði gjörbreytt stöðu Man.Utd í dag er ekkert annað en sjálfsblekking.
Svo fyrir utan það þá er ekki hægt að kaupa og kaupa endalaust, United er nú þegar með fimm miðverði.
Afhverju er þá ekki búið að losa um pláss fyrir komu á nýjum miðverði? Afhverju seldi Mourinho ekki t.d leikmann eins og Rojo eða Smalling? Hvað á Man.Utd að vera með marga miðverði á launaskrá?
Ég er sammála mörgu sem sagt er hér að ofan, Halldór hefur t.d mikið til síns máls og hans skoðun á jafn mikið rétt á sér og allar aðrar skoðanir.
En ef Mourinho nær ekki að bæta liðið og leikmenn liðsins þá má spyrja sig hvort það væri ekki betra að fá einhvern inn sem treystir sér í það hlutverk.
Ég sé engar framfarir á liðinu undir stjórn Mourinho… því miður :(
Karl Garðars says
@glórulaus.
Það má ekki gleyma því að miðjan var oftast nær mjög varnarsinnuð í fyrra sem kom niður á sókninni og marg umtöluðu skemmtanagildi. Sama var í gangi þegar Mike Smalling var í ham undir LVG. Varnarsinnuð miðja átti stóran sess í því rönni.
Cantona no 7 says
Sæll Auðunn athugaðu að Mourinho er fyrsti stjóri Manchester United sem vinnur
titil (unnu reyndar tvo) á sínu fyrsta ári með liðið.
Þetta þætti ekki slæmt hjá öðrum liðum.
G G M U
Halldór Marteins says
Ég nota oft Woodward þegar ég meina Woodward og Glazer eða jafnvel þegar ég veit að það er mögulega meira Glazer. Mér finnst mjög líklegt að Woodward ráði alveg helling þarna, með þeim áhrifum sem hann getur t.d. haft á Glazerana. Miðað við þessar fréttir sem hann lak í sína penna eftir að glugginn lokaði þá er nokkuð ljóst að Woodward var að taka knattspyrnulegar ákvarðanir um það hvaða leikmenn ættu heima hjá Manchester United. Það var ekki það að félagið hefði ekki efni á þeim, það var frekar það að hann sá ekki knattspyrnulegan tilgang með því að kaupa þá. Sem er galið.
Af hverju má bara kaupa varnarmenn með eitthvað endursöluvirði? Það er líka ekki eins og það sé samasemmerki á milli þess að fá ungan leikmann og að sá leikmaður hafi eitthvað endursöluvirði. Er Lindelöf eitthvað líklegur til að hækka í virði miðað við sína frammistöðu hjá Manchester United?
Auðvitað er ég ekki með hlerunarbúnað á skrifstofunum en mín kenning er sú að Bailly og Lindelöf hafi verið keyptir inn til að berjast um að vera aukamennirnir með aðalmanninum sem ætti að koma seinna. Þeir eru báðir ungir og þeir þyrftu báðir betri mann með sér (Lindelöf þarf sennilega meira en það og líklegast er það dæmi sem gengur ekki upp, hefur ekkert sýnt til að sanna að það hafi verið eitthvað vit í þeim kaupum). Þeir komu bara báðir þegar önnur stórkaup komu í veg fyrir að það væri hægt að kaupa heimsklassa miðvörðinn. Það hefði þó líklegast bara verið betra að sleppa Lindelöf-kaupunum alveg, er alveg sammála því.
Ég minnist mjög mikið á Alderweireld. Það er ekki af því ég tel að hann einn gæti lagað allt sem er að hjá liðinu þessa dagana. Hann gæti samt bætt heilmikið, ég er handviss um það. Og mér finnst rosalega asnalegt að fá stjóra og láta hann ekki fá eitt lykilelement sem hann byggir vanalega sín lið á en vantaði fyrir í liðið. Aftur, Bailly og Lindelöf voru aldrei sambærileg kaup við það að fá tilbúinn, heimsklassa varnarmann beint í liðið. Fyrir mér er þetta eins og að fá Sarri til að stjórna liði sem er ekki með neinn regista spilara og neita svo að kaupa þannig leikmann handa honum. Hann gæti alveg stýrt liðinu þínu en hann ætti í vandræðum með að láta það spila alvöru Sarri-bolta.
Og það er eins gott að einhver í Manchester United hafi kannað möguleikann á því að kaupa van Dijk síðasta sumar eða í janúar. Ef það var ekki gert þá ætti líklega að reka einhvern fyrir vanhæfi. En þá á móti má segja, ef United eltist við van Dijk en hann vildi einfaldlega frekar fara til Liverpool þá er það líka augljóst merki um að félagið er ekki á þeim stað sem það ætti að vera.
Halldór Marteins says
Og varðandi það að losa sig við leikmennina sem eru fyrir þá virðist það nú bara geta verið ansi snúið. Sést ágætlega á því að Darmian er ennþá leikmaður Manchester United. Rojo var mikið orðaður í burt í sumar en það gekk ekki heldur. Launin hafa líklega mikið að segja, leikmenn þurfa líka að samþykkja að fara og svona. Það mætti náttúrulega púlla Chelsea á þetta og senda menn í tveggja ára lán eitthvert og borga launin þeirra, það væri kannski bara málið…
Jón says
/www.youtube.com/watch?v=inRG1m7eti4
ef þetta er satt þá er nokkuð ljóst að Móri er ekki að fara vera stjóri United mikið lengur