Þá er komið að því að Meistaradeild Evrópu hefjist þetta tímabilið. Það er alltaf spennandi stund, þegar við horfum á riðilinn sem okkar menn drógust í og pælum í möguleikum liðsins á næstu vikum og mánuðum. Úrslitaleikurinn í vor mun verða spilaður á Wanda Metropolitano, glænýjum og flottum leikvangi Atlético Madrid. Hefur Manchester United það sem til þarf til að komast alla leið þangað 1. júní 2019? Ef við eigum að vera hreinskilin þá er liðið sennilega ekki í hópi líklegustu liða til að komast í úrslitaleikinn en það er þó alls ekki hægt að útiloka það. José Mourinho hefur alveg sýnt það að hann kann ýmislegt fyrir sér í þessari keppni.
Fyrst er þó að byrja á að komast upp úr þessum H-riðli. Riðill okkar manna er þannig skipaður:
- Juventus frá Ítalíu
- Young Boys frá Sviss
- Manchester United frá Englandi
- Valencia frá Spáni
Þetta er huggulegur riðill. Alls ekki einfaldur, alls ekki auðveldur. En til hvers að fara í Meistaradeild Evrópu nema einmitt til þess að spila stóra leiki og reyna sig gegn þeim bestu?
Fyrsta skref Manchester United á leiðinni upp úr riðlinum er að halda til Bern í Sviss og spila þar gegn Young Boys (enginn brandari í því nafni…). Leikurinn er annað kvöld, miðvikudaginn 19. september, og hefst klukkan 19:00 að íslenskum tíma. Dómari leiksins verður Deniz Aytekin frá Þýskalandi.
Keyrum þetta í gang!
BSC Young Boys
Þrátt fyrir unglegt nafn er íþróttafélagið Berner Sport Club Young Boys, eða BSC Young Boys, ansi gamalt félag. Það var stofnað 14. mars árið 1898 svo það hélt upp á 120 ára stórafmæli fyrr á árinu. Upphaflega var félagið stofnað sem knattspyrnufélag eingöngu en síðar bættust aðrar íþróttagreinar við í störf félagsins. Knattspyrnan er þó enn aðalmálið hjá Young Boys.
Félagið var stofnað eftir að stofnmeðlimir höfðu séð um knattspyrnuleik á milli Old Boys frá Basel og FC Bern. Þeir voru á þeim tíma í háskólanámi og fannst því réttast að kalla félagið Young Boys. FC Bern bauð þeim að nýta sína aðstöðu og búnað gegn því að Young Boys yrði tengslafélag FC Bern. Þetta samþykktu þeir hjá Young Boys. Sú sameining entist þó ekki út árið, í lok desember kusu félagsmenn í Young Boys að slíta tengslum við FC Bern og spila undir eigin merkjum. Síðan þá hefur verið mikill nágrannarígur á milli þessara félaga.
Young Boys vann efstu deildina í Sviss í fyrsta skiptið tímabilið 1902-03. Félagið vann svo deildina aftur síðasta vor, það var 12. deildartitill Young Boys sem komst þar með upp að hlið FC Zürich í 4.-5. sæti yfir sigursælustu knattspyrnulið Sviss. Það var þó ansi langt liðið frá síðasta deildartitli því þetta var sá fyrsti síðan 1986 og aðeins annar deildartitill liðsins síðan 1960. Young Boys hefur unnið svissneska bikarinn 6 sinnum, sem setur liðið í 7.-8. sæti yfir sigursælustu bikarlið í Sviss. Síðasti bikarmeistaratitill kom þó árið 1987.
Þetta er í 25. skiptið sem Young Boys tekur þátt í einhvers konar Evrópukeppni. Félagið tók fyrst þátt í Evrópukeppni tímabilið 1957-58. Tímabilið á undan hafði Young Boys unnið fyrsta af fjórum deildartitlum sem þeir unnu í röð í lok sjötta áratugs síðustu aldar. Liðið fór þó ekki langt í Evrópukeppninni í frumraun sinni heldur féll út í fyrstu umferð eftir samanlagt 2-3 tap gegn ungverska liðinu Vasas.
Þetta er í fyrsta skiptið sem Young Boys kemst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Fimm sinnum hafði liðið reynt að komast inn en alltaf fallið úr leik í undankeppninni. Young Boys hefur fimm sinnum farið í riðlakeppnina í Evrópudeildinni, tvisvar komist upp úr riðlinum en í bæði skiptin fallið úr leik í 32-liða úrslitum. Young Boys komst inn í riðlakeppnina að þessu sinni með því að vinna Dinamo Zagreb í umspili. Fyrri leikurinn fór fram í Sviss og endaði 1-1 en Young Boys vann svo útileikinn 1-2, eftir að hafa lent undir strax á 7. mínútu.
Heimavöllurinn
Frá 1925 til 2001 spilaði Young Boys sína heimaleiki á Wankdorf Stadium. Sá völlur tók upphaflega 22.000 áhorfendur en var endurbyggður fyrir HM í Sviss 1954 þannig að hann gat tekið allt að 64.000 áhorfendur. Úrslitaleikur HM, sögufrægur leikur sem gengur undir nafninu kraftaverkið í Bern, var spilaður á vellinum. Í honum unnu Vestur-Þjóðverjar gríðarlega óvæntan sigur á ógnarsterku liði Ungverja. Wankdorfvöllurinn var rifinn árið 2001 og nýr völlur byggður á sama stað.
Nýi völlurinn fékk nafnið Stade de Suisse Wankdorf, oftast bara kallaður Stade de Suisse. Sá völlur tekur um 32.000 áhorfendur í sæti sem gerir hann að næst stærsta fótboltaleikvangi Sviss, á eftir St. Jakob-Park vellinum í Basel (sem tekur rúmlega 38.000 áhorfendur).
Það er gervigras á vellinum frá þýska gervigrasframleiðandanum Polytan. Það að það sé gervigras á vellinum gerir það að verkum að þarna hefur verið hægt að halda ólíka íþróttakappleiki. Til dæmis fór fram íshokkíleikur milli SC Bern og SC Langnau árið 2007. Uppselt var á leikinn fljótlega eftir að miðar fóru í sölu og komu rúmlega 30.000 áhorfendur á leikinn.
Svissneska landsliðið hefur spilað nokkra leiki á þessum velli, til dæmis í undankeppninni fyrir HM 2006 og HM 2014. Þekktasti leikurinn hvað okkur snertir er án efa sá sem var spilaður á vellinum 6. september 2013. Þá skoraði kantmaðurinn knái Jóhann Berg Guðmundsson eina flottustu þrennu sem sést hefur á knattspyrnuvelli þegar Ísland og Sviss gerðu 4-4 jafntefli.
Þrír leikir á EM 2008 voru spilaðir á Stade de Suisse, Holland spilaði þá alla sína leiki í C-riðlinum á vellinum og vann þá alla.
Liðið í dag
Young Boys er sem stendur í toppsætinu í svissnesku úrvalsdeildinni. Liðið hefur unnið alla 6 leiki sína til þessa, með markatölunni 19-4. Franski framherjinn Guillaume Hoarau og sóknarmaðurinn/kantmaðurinn Christian Fassnacht eru báðir komnir með 4 mörk í deildinni, á meðan kamerúnski framherjinn Moumi Nicolas Ngamaleu hefur skorað 3.
Hoarau þessi er mikill reynslubolti, orðinn 34 ára gamall, og hefur spilað fyrir Young Boys síðan 2014. Hann spilaði meðal annars um fimm ára skeið með PSG. Hann er með mjög flotta markatölfræði hjá svissneska liðinu, hefur m.a. skorað 72 deildarmörk í 102 leikjum. Hann var næst markahæstur í deildinni á síðasta tímabili. Hann skoraði líka bæði mörk Young Boys í sigrinum á Dinamo Zagreb í umspilinu um að komast í riðlakeppnina.
Annar reynslubolti er fyrirliði liðsins, miðvörðurinn Steve Von Bergen. Bergen er 35 ára gamall og hefur spilað fyrir Young Boys frá árinu 2013. Þar á undan var hann meðal annars 3 tímabil hjá Hertu Berlin og 3 tímabil á Ítalíu, með Cesena og Palermo. Hann þykir góður tæklari og góður leiðtogi. Hann á líklega eftir að þurfa að nota þann hæfileika því Gregory Wüthrich, sem vanalega myndar miðvarðapar með Bergen, er meiddur og því þarf Young Boys líklega að treysta á ungan og efnilegan miðverð í hinum 21 gamla Mohamed Aly Camara frá Gíneu. Sá kom til liðsins í sumar frá Hapoel Ra’anana frá Ísrael. Aly Camara gæti þó komið inn með sjálfstraust því hann tryggði Young Boys sigur í bikarleik síðasta laugardag með skallamarki í uppbótartíma framlengingar.
Í vörninni er einnig mjög efnilegur hægri bakvörður. Það er hinn 23 ára gamli Kevin Mbabu. Mbabu kom til Young Boys árið 2017 eftir 4 ára dvöl hjá Newcastle United. Þar hafði hann ekki náð að gera almennilegt tilkall til þess að komast í aðalliðið en eftir að hann kom aftur heim til Sviss hefur hann tekið miklum framförum og spilaði á dögunum sinn fyrsta A-landsleik, gegn Íslandi. Að sumra mati er Mbabu besti maður liðsins, hann skoraði til dæms í fyrri leiknum gegn Dinamo Zagreb í umspilinu um að komast í riðlakeppnina.
Líklegt byrjunarlið hjá Young Boys er svona:
Manchester United
Á síðustu 5 árum er Manchester United eina fótboltafélagið utan Spánar sem hefur unnið Evrópukeppni. Real Madrid og Barcelona hafa unnið Meistaradeildina öll þessi ár á meðan Sevilla og Atlético Madrid hafa unnið Evrópudeildina, fyrir utan vorið 2017 þegar Manchester United vann þá keppni. United var kannski ekki alltaf mest sannfærandi í keppninni það tímabilið en úrslitaleikurinn var mjög öflugur og sigurinn verðskuldaður.
Tímabilið í fyrra var hins vegar alls ekki eins gott hvað Evrópukeppni varðaði. Vissulega fór United upp úr riðlinum en sá riðill var heldur ekkert sem átti að reyna á. Um leið og Manchester United mætti liði sem eitthvað fútt var í þá sigldi allt í strand. Ekki það að Sevilla hafi verið nálægt þeim sterkustu liðum sem United hefði getað mætt.
En leikmenn liðsins hljóta að muna eftir þessum vonbrigðum og vera staðráðnir í að gera betur á þessu tímabili. Mourinho sömuleiðis, hann hefði getað gert ýmislegt öðruvísi í þessum tveimur leikjum gegn Sevilla og hlýtur að taka það inn í sína nálgun á Meistaradeildarleikjunum á þessu tímabili.
Líklegt byrjunarlið
Meiðslastaðan hefur alveg verið verri en það eru ansi kunnuleg nöfn á meiðslalistanum núna. Phil Jones og Marcos Rojo eru þarna, sem og Ander Herrera. Diogo Dalot er skráður tæpur en hann gæti nú reyndar náð þessum leik. Mourinho var ansi duglegur að gefa Valencia hvíld við og við í Meistaradeildinni í fyrra, allavega að passa upp á að hann spilaði ekki oft tvo leiki í sömu vikunni.
Rashford er búinn að sitja af sér einn leik í banni heimafyrir en á tvo leiki eftir. Hann getur hins vegar vel spilað þennan leik, spurning hvort hann verði ekki bara í byrjunarliðinu. Matic spilaði að vísu um síðustu helgi en hann verður ekki með gegn Wolves um næstu helgi. Það mætti því spila honum í þessum leik.
En ég held að mögulega verði byrjunarliðið eitthvað á þessa leið:
Þetta gæti verið leikur til að gefa mönnum sénsa sem hafa verið að detta út úr liðinu á síðustu vikum. Við vitum alveg að leikmenn eins og Bailly, Pereira, Mata, Rashford og Fred geta átt góða leiki. Og Diogo Dalot gæti vel komið sterkur inn í þessum leik. Hvort þetta séu fullmargar breytingar á milli leikja fyrir Mourinho verður að koma í ljós. Þetta ætti að vera nógu gott lið til að vinna Young Boys, Mourinho gæti þó viljað hafa það enn sterkara til að tryggja það að liðið byrji vel.
Fyrri viðureignir
Þetta verður fyrsti leikurinn á milli þessara liða. Hins vegar hefðu liðin getað mæst í forkeppninni fyrir Evrópukeppni meistaraliða tímabilið 1958-59. Manchester United hafði þá fengið sérstakt boð um að taka þátt í keppninni vegna þess hversu mikil áhrif flugslysið í München hafði haft á þátttöku United í keppninni tímabilið á undan. Eftir góða umhugsun ákvað Manchester United að afþakka boðið því það vildi ekki taka þátt í keppninni á þessum forsendum, að ná árangri út á slysið. Þegar United afþakkaði boðið þá hafði þegar verið dregið í einvígi í forkeppninni og þar átti Manchester United einmitt að mæta Young Boys frá Bern.
Young Boys náði í staðinn sínum besta árangri í Evrópukeppni til þessa og fór alla leið í undanúrslit. Þar mætti liðið Reims frá Frakklandi. Þrátt fyrir 1-0 sigur Young Boys á heimavelli í fyrri leik þá dugði það ekki til því Frakkarnir tóku seinni leikinn 3-0 og fóru í úrslitaleikinn gegn Real Madrid.
Það eru þó leikmenn í United sem þekkja það að mæta Young Boys. Romelu Lukaku var í liði Everton sem mætti Young Boys í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í febrúar 2015. Fyrri leikurinn fór þá fram á Stade de Suisse í Sviss og endaði sá leikur með 1-4 sigri Everton. Okkar maður Lukaku skoraði þrennu í leiknum, eftir að Hoarau hafði komið Young Boys yfir á 10. mínútu. Seinni leikurinn endaði svo 3-1 fyrir Everton þar sem Lukaku skoraði 2 mörk.
Anthony Martial hefur líka skorað gegn Young Boys. Hann skoraði gegn þeim með Mónakó í undankeppni Meistaradeildarinnar tímabilið 2015-16.
Bjarni says
Nú þarf að byrja af krafti, spila báða hálfleiki á fullu, sýna enga miskunn og ekki hleypa riðlinum í einhverja vitleysu, höfum ekki efni á því. Er skíthræddur þegar liðið bakkar eða hættir að gera einfalda hluti þá er alltaf hætta fyrir hendi að fá á sig mark þó við séum með besta markmann í heimi milli stanganna, eins og síðasta mínútan sýndi sig á móti Watford. Höfum spilað þokkalega að undanförnu en eigum samt helling inni. Í kvöld kemur í ljós það hugarfar sem leikmenn ætla að viðhafa í meistaradeildinni, án sigurs verður leiðin erfiðari að settu marki.
GGMU