Á morgun hefst 7. umferð ensku úrvalsdeildarinnar þegar Hamrarnir taka á móti okkar mönnum á London Stadium í hádeginu á morgun. Eftir allt sem gengið hefur á hjá okkar mönnum og í kringum félagið eru menn kannski ekkert alltof bjartsýnir með framhaldið en ósætti milli José Mourinho og Paul Pogba hefur eflaust ekki fara framhjá neinum á síðustu dögum.
Í vikunni fóru þeim Tryggvi og Björn yfir hlutina í góðu djöflavarpi þar sem þetta mál var tekið fyrir og mæli ég eindregið með því hafir þú ekki fengið þig nú þegar fullsaddan af þessari umræðu. En að leiknum.
United
United hefur ekki verið á neinni siglingu og virðist liðið gjörsamlega fast í öðrum gír en það hefur einungis skilað sér í 10 stigum úr síðustu 6 leikjum í deildinni. Grátlegt tap í deildarbikarnum í leik þar sem liðið var langt frá því að vera á pari við önnur stórlið ásamt slöku gengi í deild skyggir á annars ágætan „skyldu“ útisigur gegn Young Boys í Meistaradeildinni.
Liðið virðist engan veginn geta spilað jafnvel í fyrri hálfleik og þeim síðari, annar leikhlutinn dregur okkur alltaf niður og greinilegt að við eigum langt í land með að ná upp stöðugleika og enn sorglegra er það að Mourinho sé ekki enn búinn að finna sitt sterkasta lið. Liðið virðist stundum vera hársbreidd frá upplausn og það endurspeglast best í agaleysinu innan vallar en liðið hefur safnað 3 rauðum spjöldum.
En ef litið er til síðustu viðureigna þessara liða sést að United hefur haft gríðarlega gott tak á West Ham síðustu ár. Af síðustu 19 viðureignum hefur United unnið 13, gert 5 jafntefli og aðeins tapa einu sinni en það var árið 2016. Reyndar hefur United ekki fengið á sig mark á London Stadium gegn West Ham sem hafa ekki unnið leik á heimavelli í deildinni í vetur.
Ef við lítum til mögulegrar liðsuppstillingar hjá United má búast við að Lukaku byrji upp á topp, enda hefur hann skorað í öllum útileikjum United í deildinni en annars geri ég ráð fyrir að liði muni líta einhvern veginn svona:
Það verður áhugavert að sjá hvernig Mourinho stillir upp liðinu eftir að hafa svipt Pogba fyrirliðabandinu, hvort Antonio Valencia komi inn fyrir Diogo Dalot í hægri bakvörðinn en strákurinn hefur verið gríðarlega flottur í þeim leikjum sem hann hefur fengið að spreyta sig í. Martial rifjaði upp gamla takta í síðasta leik, nokkuð sem hann hefur verið alltof sparsamur á þegar hann hefur fengið tækifæri og Sanchéz virðist bara eiga í mestu vandræðum með að ná upp fyrra formi. Að sama skapi hefur Lee Grant verið að stíga upp á sama tíma og Sergio Romero virðist vera með hausinn í annarri heimsálfu. Það verður því fróðlegt að sjá en þetta skýrist allt saman á morgun í hádeginu.
Mótherjinn
West Ham United hafa sjálfir ekki verið á neinni siglingu, þeir til að mynda byrjuðu tímabilið með því að tapa 4-0 gegn Liverpool og næstu 3 deildarleikjum en þeir virðast þó vera að finna jafnvægi undir stjórn Manuel Pellegrini, sem sést best á því að þeir unnu Everton á útivelli, gerðu svo jafntefli við Chelsea og unnu loks Macclesfield í síðasta leiknum sínum þar sem liðið skoraði 8 mörk.
Það skal þó tekið fram að Macclesfield F.C. spilar í d-deildinni á Englandi en engu að síður virðast markaskorarar West Ham vera búnir að reima á sig réttu skotskóna. Andriy Yarmolenko og Marko Arnautovich hafa verið gríðarlega sprækir í síðustu leikjum sínum og það mun eflaust auðvelda varnarmönnum United að sá síðarnefndi verður líklegast frá vegna hnémeiðsla á morgun en West Ham mun koma líklega inn í leikinn á morgun með gríðarlega mikið sjálfstraust eftir síðustu leiki.
West Ham United gerði góða hluti á leikmannamarkaðinum í sumar en þeim tókst að krækja meðal annars í Felipe Anderson, sem var á tímabili orðaður við mörg hver af stóru liðunum í Evrópu, en ásamt honum komu Lucas Fabianski, Fabian Balbuena, Issa Diop, Jack Wilshere, Carlos Sanchez, Lucas Perez og fyrrnefndur Yarmolenko. Þeir virðast flestir vera að aðlagast fljótt og virðist Pellegrini loksins vera að finna réttu uppstillinguna sem hentar sínum hóp.
Þeir eru þó að glíma við virkileg meiðslavandræði þessa stundina og ásamt Arnautovich eru þeir Andy Carroll, Jack Wilshere, Javier Hernandez, Manuel Lanzini og Winston Reid allir frá vegna meiðsla og verða ekki í hóp á morgun. Það er því vængbrotið lið Hamranna sem tekur á móti okku en annars býst ég við að Pellegrini stilli upp eitthvað í líkingu við:
Þó marga lykilleikmenn vanti hjá þeim verða ekki auðveldir eins og sást í leiknum gegn Chelsea í síðustu umferð og í raun virðist ekkert lið ætla að vera auðvelt í ár fyrir okkar menn sem virðast langt frá sínu besta.
Flautað verður til leiks kl. 11:30 en á flautunni verður enginn annar en Michael Oliver.
Bjarni says
Þetta lið er nógu gott til að vinna okkur en get líka sagt að við getum leikið okkur að því að vinna þetta lið. Menn þurfa bara að kveikja á fattaranum og átta sig á að þeir eru í forréttindahóp að spila fyrir UTD en ekki sjálfan sig. Þetta eru 2 tímar af lífi þeirra til að hugsa um alla stuðningsmennina, sjálfboðaliðana í gegnum tíðina sem lögðu inn svita og tár við uppbyggingu á félagsins fólk sem lifir og hrærist eftir gengi liðsins. Skilja egóið eftir í klefanum, draga fram stoltið, gleðina, kappið og það besta sem þeir geta boðið uppá því þá vinnum við þennan leik. Síðan geta þeir talið peningana í huganum á leið heim eftir vel unnið dagsverk. Spá mín er 1-3 og Lukaku með þrennu.
GGMU