Eftir tvo sigurleiki í röð í deildinni er komið að erfiðasta leiknum í Meistaradeildinni, útileiknum gegn Juventus. Eftir hann fær liðið lítið frí því þá kemur erfiðasti leikurinn í deildinni, útileikur gegn Manchester City. Tveir næstu leikir gætu því gert ansi mikið fyrir liðið, ef það nær góðum frammistöðum og úrslitum, eða komið allsvakalega niður á þegar brothættu sjálfstrausti liðsins ef liðið fær slæma útreið gegn tveimur af öflugustu liðum Evrópu.
Leikurinn hefst klukkan 20:00 annað kvöld. Dómarinn í leiknum verður Ovidiu Haţegan frá Rúmeníu. Hinn leikur riðilsins fer fram á Spáni þar sem Valencia tekur á móti Young Boys. Sá leikur hefst hins vegar klukkan 17:55.
Juventus og Tórínó
Í upphituninni fyrir fyrri leik þessara liða í Meistaradeildinni var farið nokkuð vel yfir fyrri viðureignir liðanna, svo það er óþarfi að fara í það aftur. Þeir sem vilja rifja það upp geta kíkt á þá upphitun hér.
Juventus er fornfrægt félag og eitt það elsta á Ítalíu. Það var stofnað 1. nóvember 1897. Af liðunum í Serie A eru aðeins Genoa (stofnað 1893) og Udinese (stofnað 1896) sem eru eldri. Juventus var stofnað af skólastrákum í Tórínó, upphaflega sem íþróttafélag en tveimur árum eftir stofnun var lögð sérstök áhersla á að Juventus væri knattspyrnufélag, breytingin fólst meðal annars að félagið hætti að heita Íþróttafélagið Juventus og hét þess í stað Knattspyrnufélagið Juventus.
Nafn félagsins var fengið úr latínu, orðið iuventūs þýðir æska. Til að byrja með lék liðið í bleikum og svörtum búningum en í upphafi 20. aldarinnar tók félagið upp þessar röndóttu, svarthvítu treyjur sem við þekkjum í dag. Juventus ákvað að leika í þannig treyjum eftir að hafa sótt innblástur í enska knattspyrnufélagið Notts County, elsta atvinnumannafélag í knattspyrnu í heiminum.
Árið 1906 átti sér stað klofningur innan félagsins þegar hluti félagsmanna varð ósáttur við störf félagsins, hætti í félaginu og stofnaði nýtt knattspyrnufélag í Tórínó. Það félag fékk nafn borgarinnar, FC Torino, og hefur upp frá því verið einn helsti andstæðingur Juventus á knattspyrnuvellinum.
Juventus vann efstu deildina í heimalandi sínu í fyrsta skiptið árið 1905. Síðan þá hefur félagið unnið deildina 34 sinnum. Bikarinn kom fyrst í hús 1938, síðan þá hefur hann 13 sinnum endað hjá Juventus. Juventus hefur unnið Evrópukeppni meistaraliða/Meistaradeild Evrópu tvisvar, fyrst árið 1985 og svo aftur árið 1996. Liðið hefur unnið UEFA bikarinn þrisvar, fyrst 1977, svo 1990 og loks 1993. Auk þess vann Juventus Evrópukeppni bikarhafa árið 1984 og Intertoto bikarinn árið 1999. Juventus vann líka Intercontinental bikarinn tvisvar, árin 1985 og 1996.
Reyndar hefur Juventus unnið deildina heima 36 sinnum. En árið 2006 kom í ljós að Juventus hafði ásamt fleiri félögum hagrætt úrslitum í leikjum og haft áhrif á dómara og önnur lið. Í kjölfar þess voru tveir deildartitlar teknir af liðinu og það dæmt niður í Serie B. Juventus lét þó ekki deigan síga heldur vann Serie B, í eina skiptið sem liðið hefur verið í þeirri deild.
Síðustu ár hefur liðið haft mikla yfirburði á Ítalíu síðustu ár. AC Milan vann deildina 2011 en síðan þá hefur Juventus unnið sjö tímabil í röð, þar af hafa þeir síðustu 4 tímabil unnið tvöfalt. Og miðað við hvernig gamla frúin byrjar þetta tímabil er útlit fyrir að liðið lyfti þeim áttunda í röð áður en þeir fara í sumarfrí næst.
Juventus er annað af tveimur liðum sem hefur spilað fyrstu þrjár umferðirnar í Meistaradeildinni án þess að fá á sig mark. Hitt liðið er Dortmund í A-riðlinum. Juventus hefur unnið alla þrjá leikina, samtals með markatölunni 6-0.
Heima fyrir er liðið á álíka góðu skriði, er í efsta sæti eftir 10 sigra og eitt jafntefli í 11 leikjum. 6 stiga forskot á Inter og Napoli og með markatöluna 24-8. Liðið hefur unnið tvo deildarleiki frá því það mætti á Old Trafford, fyrst 2-1 útisigur á Empoli og svo 3-1 heimasigur gegn Cagliari. Empoli komst raunar yfir í fyrri leiknum, áður en Ronaldo tryggði Juve sigur með tveimur mörkum. Í seinni leiknum náði Cagliari að jafna metin í 1-1 en Juventus svaraði því með tveimur mörkum og vann. Það er seigla í gömlu frúnni.
Douglas Costa meiddist um daginn og verður líklega ekki með. Þá eru þeir Giorgio Chiellini og Blaise Matuidi tæpir. Munar ansi mikið um þá, sérstaklega snillinginn Chiellini, en Juventus er með ansi öflugan hóp og ætti að geta ráðið við meiðslin. Það er þó líklegt að allavega Chiellini muni harka af sér og spila leikinn.
Líklegt byrjunarlið heimamanna:
Manchester United
Manchester United var óheppið að missa forystu niður í jafntefli á síðustu stundu gegn Chelsea á útivelli fyrir síðasta leik gegn Juventus. Juventus var hins vegar mjög verðskuldaður sigurvegari á Old Trafford, jafnvel þótt þeir ynnu með minnsta mun. Eftir þessi úrslit hefur United hins vegar náð í tvo fína sigra og spilað nokkuð vel í 3 hálfleikum af fjórum. Fyrri hálfleikurinn gegn Bournemouth var ekki góður en Mourinho og leikmennirnir mega eiga það að þeir svöruðu því vel.
Lukaku meiddist á æfingu fyrir leikinn gegn Bournemouth og hann virðist ekki vera búinn að ná sér af þeim meiðslum. Dalot og Rojo eru sömuleiðis enn fjarverandi. Hins vegar var Valencia mættur aftur á þriðjudagsæfingunni og svo fengum við mjög góðar fréttir því hinn gríðarlega öflugi og syndsamlega vanmetni Fellaini var líka kominn aftur á æfingu. Það verður virkilega gott að fá hann aftur í hópinn. Þeir ferðuðust báðir með hópnum til Ítalíu.
Marouane Fellaini.#MUFC #UCL #Training pic.twitter.com/Hflf1w0Xz7
— Marco Red Devil 👹 (@MarcoRedDevil) November 6, 2018
Ég ætla að skjóta á að byrjunarliðið verði eitthvað á þessa leið:
Það væri þó áhugavert að sjá aðeins meiri breytingu á miðjunni, prófa til dæmis að hafa þá Fred og Herrera inná miðjunni með Pogba og gefa Matic smá hvíld.
Staðan í riðlinum
Staðan í riðlinum fyrir leikina er svona:
- Juventus – 9 stig, +6 í markatölu
- Manchester United – 4 stig, +2 í markatölu
- Valencia – 2 stig, -2 í markatölu
- Young Boys – 1 stig, -6 í markatölu
Það myndi gera rosalega mikið fyrir United að fá eitthvað út úr þessum leik. Young Boys gerði okkar mönnum greiða í síðasta leik með því að ná jafntefli við Valencia en það verður að teljast líklegast að Valencia vinni leikinn gegn þeim á morgun. Ef United tapar gegn Juventus þá eru allar líkur á að liðið verði í 3. sætinu fyrir síðustu 2 umferðirnar.
Turninn Pallister says
Takk fyrir flotta upphitun Halldór. Væri nú gaman að sjá okkar menn setja amk 1 mark á Juventus, svo Szczesny fari nú ekki í gegnum riðlakeppnina með hreint lak.