Marouane Fellaini lét ekki afróleysið stoppa sig í því að tryggja Manchester United dýrmætan sigur gegn Young Boys í kvöld og tryggja þar með sæti liðsins í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Frábær afgreiðsla hans í uppbótartíma skyldi liðin að í leik þar sem Manchester United hafði nokkra yfirburði úti á vellinum en þurfti samt að treysta á besta markmann heims til að lenda ekki undir.
Þegar byrjunarlið félaganna voru tilkynnt var ýmislegt sem kom á óvart. Bæði það að Alexis Sánchez var ekki einu sinni í hópnum hjá Manchester United en ekki síður það að Mourinho notaði ekki tækifærið, gegn lægra skrifuðum andstæðingum á heimavelli, til að hvíla Nemanja Matic. Serbinn hefur virkað hægur og þreyttur upp á síðkastið og hefði eflaust getað nýtt hvíldina. Þess í stað fengu Pogba og Lukaku að setjast á bekkinn en það var vissulega ánægjuleg sjón að sjá Fred fá aftur tækifæri í byrjunarliði Manchester United.
Manchester United byrjaði með þetta lið:
Varamenn: Romero, Bailly, A. Pereira, Mata, McTominay, Pogba, Lukaku.
Gestirnir frá Bern stilla upp þessu byrjunarliði:
Varamenn: Wölfli, Bertone, Ngamaleu, Fassnacht, Schick, Garcia, Seydoux.
Leikurinn sjálfur
Það var hörkustemning á vellinum þegar leikurinn byrjaði, mest þó hjá útivallaraðdáendum sem höfðu með einhverjum hætti náð að smygla blysum inn á Old Trafford. Þeir sungu og létu vel í sér heyra. Hins vegar mátti víða sjá tóm sæti á öðrum stöðum á leikvangnum. Það má að einhverju leyti útskýra með ársmiðahöfum sem nenntu ekki að mæta í kvöld, eða einfaldlega gátu það ekki og náðu ekki að finna aðra til að fara í sinn stað. Enda var það kannski ekki að undra, Manchester United hafði jú ekki tekist að skora mark á heimavelli í keppninni til þessa. 5 mörk á útivöllum en ekkert ennþá á heimavelli. Paulo Dybala var sá eini sem hafði skorað Meistaradeildarmark á Old Trafford á þessu tímabili fyrir þennan leik.
Það var eitthvað um að leikmenn væru að detta inn í byrjunarliðið sem höfðu ekki verið þar oft áður, eða ekki í langan tíma. Og þeir komu missterkir inn í þennan leik. Fred sýndi strax að hann ætlaði að nýta sénsinn vel og var sprækur frá fyrstu mínútum. Phil Jones kom sömuleiðis mjög sterkur inn og átti öflugan leik.
Aðrir byrjuðu ekki eins vel. Marcus Rashford fékk dauðafæri strax á 5. mínútu þegar hann fékk nokkuð óvænta stungusendingu sem sendi hann einan inn fyrir vörn Young Boys. Hann hljóp að markverði Young Boys, setti boltann yfir markvörðinn en því miður líka yfir markið. Hefði átt að gera betur við færið þarna, ekki í síðasta skipti í leiknum.
Rashford vann sig þó inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn, átti marga mjög álitlega spretti en oftar en ekki brást lokasnertingin eða ákvarðanataka honum. Hann hélt þó sífellt áfram að taka menn á, reyna að opna fyrir samherja og gera eitthvað. Hann hefur svo margt við sig sem ég fíla en að sama skapi er enn stór hluti af leiknum hans sem hann þarf að bæta ef hann ætlar að verða sóknarmaður á toppleveli.
Fellaini nýtti hvert tækifæri sem gafst til að fara fram í sóknina. Oft var hann í holuhlutverkinu en hann var líka oft kominn sem fremsti maður. Ef þurfti þá bakkaði hann líka niður á miðjuna til að aðstoða Matic og Fred. Matic átti ekkert sérstakan dag. Svo stóð ég mig að því að vera búinn að steingleyma hver væri hægri bakvörður hjá liðinu, Valencia hefur oft verið meira áberandi. Luke Shaw var hins vegar mjög áberandi allan leikinn og studdi mjög vel við allan sóknarleik liðsins.
United átti meira í fyrri hálfleiknum, náði m.a.s. stundum upp afskaplega skemmtilegu spili en það var oftast nýtt í að skjóta boltanum framhjá markinu eða yfir það. Að vísu kom það tvisvar sinnum fyrir í fyrri hálfleiknum að aðstoðardómarinn tók álitlega sóknaruppbyggingu af Manchester United með röngum rangstöðudómum þegar leikmenn United voru að komast á góða staði. Það var ekki nógu gott. Annars var ekki yfir neinu að kvarta hvað dómgæslu varðaði.
Það segir ýmislegt að United átti 8 marktilraunir í fyrri hálfleiknum en aðeins 1 fór á rammann. Rashford átti það, eftir skemmtilega stungusendingu frá Fellaini, en skot hans meðfram jörðinni var ekki nógu fast til að trufla Ballmoos í marki Young Boys.
Young Boys náði engum almennilegum tilraunum í fyrri hálfleiknum. Þeir reyndu vissulega að nýta tækifærin sem gáfust til að sækja hratt þegar margir leikmenn United voru komnir fram en Phil Jones og Chris Smalling voru virkilega öflugir í þeirri stöðu. Þá verður að minnast á það að Chris Smalling var allt í einu farinn að dúndra fram löngum sendingum til að starta álitlegum sóknum eins og hann hefði aldrei gert annað. Greinilega lært eitthvað af Lindelöf, kallinn.
Young Boys varð fyrir áfalli í lok fyrri hálfleiks þegar fyrirliðinn þeirra, Steve Von Bergen, meiddist eftir misheppnaða tæklingu á Marcus Rashford. Hann þurfti að fara af velli sem þýddi að svissneska liðið þurfti að hringla duglega í liðsuppstillingunni, fór úr 4-2-3-1/4-3-3 yfir í 5-4-1.
United hafði svosem ekkert átt glimrandi fyrri hálfleik en það náðust allavega upp álitlegir sprettir og leikmenn virtust alveg vera að reyna, þótt það strandaði of oft á síðustu snertingu/ákvörðun. Upphaf seinni hálfleiks var þó hægara, kannski var það breytingin hjá Young Boys sem hafði áhrif og þétti pakkann.
Á 55. mínútu náði Matic þó að finna Martial með góðri sendingu. Martial var í teignum, náði að snúa sér framhjá varnarmanni en missti þá boltann aðeins of langt frá sér, yfir til Marcus Rashford sem var vinstra megin við hann. Rashford lét vaða í fyrsta með vinstri en skaut framhjá af stuttu færi. Hefði átt að gera betur þarna, allavega hitta rammann. Þessi síðasta setning á við um of mörg færi sem Rashford kemst í.
Stuttu seinna komu fréttir af því að Juventus væri komið yfir gegn Valencia. Sem var gott fyrir okkar lið, þá myndi sigur tryggja sætið í 16-liða úrslit. Fjótlega eftir það ákvað Mourinho að gera tvöfalda skiptingu. Margir voru undrandi á því að Fred var tekinn af velli en hann hefur ekki spilað mikið svo kannski var það þess vegna sem hann varð fyrir valinu. Matic gat, eins og síðar kom í ljós, leyst af í vörninni og Fellaini er alltaf líklegur til að valda usla í vítateig andstæðinganna. Ásamt honum fór Lingard út af, sá hefur oft spilað betur. Aðallega var það svipað vesen og með Rashford, hann var duglegur að hlaupa, berjast og reyna ýmislegt en lokasnertingar og ákvarðanataka urðu honum of oft að falli. Inn á í þeirra stað komu Pogba og Lukaku.
Pogba var fljótur að sýna takta, hálfpartinn hélt boltanum á lofti framhjá miðjumanni Young Boys sem reyndi sitt ítrasta til að brjóta duglega á Frakkanum. Pogba hélt hins vegar áfram, fann Rashford sem náði skoti með vinstri en framhjá, eitt sinn sem oftar.
Þegar um 20 mínútur voru eftir sóttu gestirnir heldur betur í sig veðrið, náðu að fara að sækja á United og unnu sér hornspyrnu. Upp úr horninu kom skot utan teigs sem skaust af Smalling og Mbabu áður en hann stefndi í bláhornið fjær. Þá tók besti markmaður heims, David De Gea, til síns máls, skutlaði sér eins og köttur á eftir boltanum og veiddi hann af marklínunni. Þetta var einn af þessum boltum sem allir voru farnir að sjá í netinu, nema markmaðurinn. Er m.a.s. ekki frá því að þessir tveir sóknarmenn gestanna, sem voru næstir boltanum, hafi verið byrjaðir að fagna marki áður en Dave varði. Hvílík varsla!
Young Boys ætlaði að láta kné fylgja kviði og hélt áfram að sækja. Þegar þeir unnu sér aukaspyrnu í góðu skotfæri fyrir utan teig notaði Mourinho tækifærið og gerði sína síðustu skiptingu. Liðið tók sér sinn tíma í skiptinguna, eflaust meðal annars í þeim tilgangi að kæla aðeins svissneska liðið. Valencia fór þá af velli og Juan Mata kom inn á. Við það datt Matic í miðvörðinn og Phil Jones fór í hægri bakvörðinn. Aukaspyrnan endaði auk þess yfir og Manchester United náði aftur tökum á leiknum. Mjög skynsamlega tekin skipting.
Það virtist þó ekki ætla að ganga að sækja sigurinn. Besta tækifærið kom eftir að Fellaini var allt í einu kominn út á hægri kantinn, átti þar fyrirtaks fyrirgjöf beint á kollinn á Lukaku en skallinn hans var framhjá. United hélt boltanum meira eftir það en það var ekki endilega hægt að lesa mjög mikla trú úr andlitum allra leikmanna á að þetta væri að fara að hafast.
En það eru leikmenn í þessu liði sem gefast aldrei upp. Þegar komið var fram í uppbótartíma var Luke Shaw með boltann, átti langa sendingu fram þar sem Lukaku vann skallaeinvígi við D-boga vítateigsins og flikkaði boltanum áfram á Marouane Fellaini. Fellaini var að vanda kominn inn í teig, tók vel á móti boltanum, náði að snúa sér með mann í bakið og sendi þetta líka glæsilega skot milli fóta varnarmanns og í fjærhornið, gjörsamlega óverjandi fyrir Ballmoos markmann. Geggjað! Old Trafford ærðist af gleði, Mourinho greip það sem hendi var næst og grýtti því í grasið í fögnuði og leikmenn fögnuðu með Belganum sterka. Erfiður, en verðskuldaður sigur, og 16-liða úrslitin framundan.
Pælingar eftir leik
Það er líklega eðlilegt að það sé mismikil þolinmæði gagnvart sumu í fótbolta, bæði eftir því hvort það á við um það sem er í gangi í miðjum leik (sérstaklega jöfnum leik þar sem mikið er undir) eða hvort það er eftiráspeki eftir leik sem vannst eða tapaðist. Úrslitin geta haft ýmislegt að segja, ég neita því ekki.
Mér fannst þó ýmislegt jákvætt við margt í þessari frammistöðu í fyrri hálfleiknum og hluta úr seinni hálfleiknum. Það náðist upp spilamennska á köflum, leikmenn voru að reyna ýmislegt og með betri endapunktum hefði mátt klára þennan leik í fyrri hálfleik.
En endapunktarnir eru þó ekkert smámál, ég geri mér grein fyrir því. Hversu mikla þolinmæði á að gefa leikmönnum sem eru enn að finna sig hvað það varðar, eins og á við um Rashford? Og jafnvel enn við stundum um Lingard? Ég er reyndar á því að Lingard bæti það upp með öðru, það þurfa ekkert allir að vera sammála mér með það. En það er alveg spurning á hvaða leið Rashford er. Hann er enn ungur og getur alveg bætt sig. Hann þarf líka að gera það. Hann er local lad auðvitað, veit hvað þetta þýðir allt saman. Það er líka dýrmætt. Ekki myndi hvarfla að mér að stinga upp á að Rashford ætti eða þyrfti að fara fljótlega, þetta eru meira bara vangaveltur. Væri gaman að vita hvað ykkur lesendum þætti varðandi þessi mál.
Fred var flottur, það er vonandi að hann fái fleiri leiki og mínútur.
Mjög ánægður með Phil Jones. Enda hefur það sjaldnast verið vandamál hans að hann geti ekki stigið upp oftast þegar á þarf að halda. Vandamál hans eru frekar að það eru alltaf ein og ein stór mistök í honum auk þess sem hann á erfitt með að haldast heill í einhvern tíma. Þetta er þó gott start á þessari törn hjá honum. Og Smalling fannst mér virkilega flottur í þessum leik.
David De Gea sýndi enn einu sinni snilld sína. Mourinho sagði eftir leik að hann vissi að Spánverjinn vildi vera áfram hjá United. Þá er bara að græja það, einn, tveir og prontó!
Minn maður, Marouane Fellaini, heldur svo áfram að sýna hvers hann er megnugur. Frábær liðsmaður fyrir félagið, sýnir alltaf karakter og baráttuanda. Gefst aldrei upp og laumar alltaf inn mikilvægum mörkum hér og þar. Þetta var 9. sigurmarkið sem hann skorar fyrir Manchester United. Það væri óskandi að þessar tuðraddir hvað hann snertir myndu nú fara að sjá loksins að sér, að þessir mestu neikvæðnispésar myndu nú hætta þessu bulli um að hann sé lélegur í fótbolta. Það væri óskandi, en maður fær víst ekki alltaf allt sem maður óskar sér. Ég hugga mig bara við þetta sigurmark frá mínum manni.
Staðan í riðlinum
Staðan í H-riðli er þá þessi:
- Juventus – 12 stig
- Manchester United – 10 stig
- Valencia – 5 stig
- Young Boys – 1 stig
Í lokaumferðinni fer Manchester United til Spánar og mætir þar Valencia á meðan Juventus fer til Sviss og mætir Young Boys. Manchester United getur enn tryggt sér toppsæti deildarinnar en þá verður liðið að byrja á því að vinna Valencia. Ef það tekst þá þarf að treysta á að Young Boys nái allavega jafntefli gegn Juventus. Ef bæði Juventus og Manchester United enda með 13 stig þá myndi United enda fyrir ofan Juventus á útivallarmörkum í innbyrðis viðureignum. Það verður þó að teljast ólíklegt að Young Boys geri mikið gegn Juventus, það er aðallega bara gott að hafa tryggt sig áfram fyrir lokaumferðina.
U19 tryggir sér sigur í riðlinum
Líkt og áður spilaði u19-lið Manchester United í UEFA Youth League gegn sömu andstæðingum og A-liðið spilar í kvöld. Að vanda stóðu United-unglingarnir sig mjög vel. Fyrri hálfleikurinn var þó strembinn, Young Boys komst yfir strax eftir rúmar 4 mínútur en tvö mörk á 4 mínútum frá hinum sjóðheita Mason Greenwood komu United yfir. Young Boys jafnaði þó úr vítaspyrnu og staðan 2-2 í hálfleik. United var töluvert sterkara liðið á vellinum í seinni hálfleik en illa gekk framan af að finna leið fram hjá markverði Young Boys sem átti stórleik. Einnig munaði töluvert um að Angel Gomes vantaði.
En sóknarleikur United-strákanna þyngdist og þyngdist svo eitthvað varð að lokum undan að gefa. Á 78. mínútu fékk United víti sem D’Mani Mellor sótti. Mellor hafði komið inn á sem varamaður í seinni hálfleiknum og fylgdi honum aukið líf í sóknarleikinn. Hann tók þó ekki vítið sjálfur heldur var það miðjumaðurinn Aidan Barlow sem tók vítið og skoraði úr því. Aðeins 2 mínútum síðar fékk United aðra vítaspyrnu. Í það skiptið tók hinn hárprúði Tahith Chong vítið og skoraði líka. 4-2 var þá staðan orðin og úrslitin ráðin. En United-peyjarnir voru aldeilis ekki hættir því Dylan Levitt bætti við fimmta markinu á 87. mínútunni áður en D’Mani Mellor kórónaði góða innkomu sína með lokamarki leiksins á 90. mínútu. 6-2 sigur hjá United og það er ljóst að liðið vinnur sinn riðil. Það hefur aldrei tekist áður hjá u19-liði United svo það ber að hrósa leikmönnum og þjálfurum fyrir flotta keppni. Liðið hefur fengið 13 stig í 5 leikjum, skorað í þeim 18 mörk og aðeins fengið 6 á sig. Verður mjög gaman að sjá hvað liðið gerir í framhaldinu í þessari keppni.
Manchester United 6 -2 Young Boys (Mason Greenwood X2, Aidan Barlow, Tahith Chong, Dylan Levitt et D'Mani Mellor) #MUFC #UYL pic.twitter.com/L8Iga1kuSb
— Fabio (@FabioProd) November 27, 2018
Sérstaklega hefur verið gaman að fylgjast með Mason Greenwood. Hann heldur áfram að vera sjóðandi heitur og er nú kominn með 19 mörk og 8 stoðsendingar í samtals 17 leikjum með u18-, u19- og u23-lið Manchester United á tímabilinu. Bara í þessari keppni hefur hann skorað 5 og lagt upp eitt til viðbótar í 5 leikjum.
Mason Greenwood v Young Boys U19 🔥 [UEFA Youth League]
Incredible performance from Mason with 2 goals and could have had 4 assists as well 🤐 #MUFC #MUNBSCYB #UYL @_MasonGreenwood pic.twitter.com/tmeU9dX0Yh
— Bas (@MxZvGx_) November 27, 2018
Bjarni Ellertsson says
Skelfileg vörn, þunglamaleg miðja, hröð sókn. Ávísun á skemmtun? Veit ekki, á von á öllu þegar utd er annars vegar.
GGMU
Sindri says
„Það var Óskar sem týndi skónum hans Ingva“ hefur lengi verið sungið í Laugardalnum.
Hver stal skónum hans Rashford? Honum er fyrirmunað að hitta á rammann.
Vona að taki þetta til sín og setji 1-2 undir lokin.
Turninn Pallister says
Sjá þennan Fellaini! Heilt yfir þá var þetta lélegur leikur en maður verður að taka hattinn ofan fyrir mönnum sem gefast ekki upp og sýna ástríðu fyrir klúbbinn. De Gea með enn eina meistara vörsluna. Fannst annars Shaw vera skástur í dag. Þó ekki væri nema fyrir að flýta fyrir skiptingunum. Vatnsbrúsa strákurinn fær svo sérstakt hrós fyrir að vera snöggur að fylla aftur á brúsana ;)
óli says
Fínt að lokaleikurinn skipti ekki máli og best að senda algjört varalið – Juventus mun ekki tapa stigum á móti Young Boys.
Varðandi Rashford þá vita auðvitað allir innst inni að hann verður ekki leikmaður hjá toppliði eftir einhver ár. Hann er bara ekki nógu góður. Það sama má við um Lingard. Menn geta bara hugsað þetta á hinn bóginn: Ef Rashford hefði alist upp hjá West Ham og væri að spila þar, myndu lið á borð við United hafa áhuga? Svarið er nei.
Tòmas says
@Òli verð að vera òsammàla. Tel að Rashford hafi alla burði að vera toppleikmaður. Þarf aðeins að stilla miðið, en hefur sýnt að hann hefur getað klàrað færi snilldarlega àður.
Heiðar says
Í lok febrúar verða þrjú ár síðan Marcus Rashford kom fyrst inn í lið United og gerði tvær tvennur á fjórum dögum. Fljótlega fylgdi mark í borgarslag gegn City.
Nú spyr ég: Hefðu menn ekki haldið að hann yrði orðinn heilsteyptari að þremur árum liðnum en raun ber vitni? Auðvitað hefur hann margt til síns ágætis en það eru alltof margir gallar í leik hans ennþá og færanýtingin er hreint út sagt slæm (það á reyndar við fleiri í framvarðasveit United). Ég held að meintar framfarir þurfi að eiga sér stað ansi fljótlega því United veitir ekki af leikmönnum sem skora mörg mörk.
Tómas says
Sammála en ég held að hluti af vanda Rashford sé eitthvað sem eigi við um allt liðið. Erum við (united stuðningsmenn) virkilega ánægðir með spilamennsku einhvers fyrir utan De Gea? Jú og kannski fyrirbærisins sem kallast Fellaini. Einnig er spurning um hvort Rashford vandinn, sé ekki fyrst og fremst út af því að hann er ekki með rétta stjórann. Hann hefur þótt leika oftast vel með landsliðinu.
Tómas says
Sterling glímdi við sama vanda. Rashford er þremur árum yngri, ef maður ber saman tölfræði Sterling fyrir þrem og fjórum árum. Við tölfræði Rashford í fyrra, myndi ég segja að Rashford væri jafnvel lengra kominn en Sterling var þá.
Runar P says
Alveg ósammála þessum ummælum ykkar um bæði Rassfót og Lingfót, þessi ummæli ykkar eru nákvæmlega þau sömu og þið létu falla um Lindelöf í fyrr.
Við skulum alveg hafa það á kristal tæru að Móri væri löngu búinn að losa sig við þá ef Þeir væru hálfdrættingar, þið ættuð að vita betur!
TonyD says
Ég held að menn verði að passa upp á gagnrýnina á Rashford og Lingard. Luke Shaw er að sanna sig þótt hann hafi verið mikið gagnrýndur og það réttilega. Þeir eru ekki búnir að eiga gott tímabil frekar en margir í liðinu og að sjálfsögðu má alveg minnast á það. Ég er mjög ánægður með Rashford og held að hann eigi eftir að verða topp leikmaður fyrir klúbbinn, þó hann sé ekki að skora núna. Hann er enn ungur og gerir mistök en mér finnst hann allavega vera að reyna að gera eitthvað þegar hann er á vellinum. Með Lingard þá er hann fínasti leikmaður í hóp og er klárlega ekki einn af bestu leikmönnum í sinni stöðu en liðið varð Englandsmeistari með svona kappa í liðinu. Nú er samkeppnin heldur meiri og kröfurnar líka en viljum við að uppaldir menn fái sénsinn? Hann er landsliðsmaður og ég held að hann sé ekki að ná sínum bestu frammistöðum frekar en margir.
Það vantar einhvernveginn að allt smelli saman og hvort sem það er þjálfarinn eða leikmenn, jafnvægið í liðinu, stjórnin eða allt saman þá eru fáir að spila á fullum afköstum. Það þarf að fá drengina til þess að spila eins og kvennaliðið