Það er fátt sem yljar íslenskri sál meira en skreppa í góða ferð til sólarlanda þegar stuttir dagar og mikið myrkur reyna sitt besta til að kremja andann hjá okkur sem af einhverjum ástæðum búum enn á þessu kalda og vindasama skeri. Það er vonandi að þessi sólarlandaferð liðsins okkar muni færa okkur svipaða gleði í fótboltaáhorfið okkar og vænn skammtur af sól og D-vítamíni getur gefið þeim sem flýja íslenskan vetur og verðlag.
Manchester United ferðast sumsé alla leið á austurströnd Spánar, til þriðju stærstu borgar landsins og mætir þar samnefndu liði Valencia í leik þar sem lítið er í raun undir. Manchester United gæti mögulega náð efsta sæti riðilsins en þá þarf alltaf að treysta á að Ungu Strákarnir frá Bern nái stigi eða stigum gegn Æskunni frá Tórínó. Það er langsótt en þó auðvitað um að gera að gefa því séns. United er þó komið áfram úr riðlinum og það er stórleikur framundan um helgina svo það er vonandi að það verði ekki teknir óþarfa sénsar með lykilmenn, sérstaklega ef einhverjir þeirra eru tæpir vegna meiðsla.
Leikurinn verður spilaður á Mestallavellinum, eða Estadi de Mestalla eins og hann heitir á valensísku. Hann hefst klukkan 20:00 annað kvöld og dómarinn í leiknum verður Georgi Kabakov frá Búlgaríu.
Valencia
Knattspyrnufélagið Valencia Club de Fútbol, eða Valencia CF, var stofnað í mars árið 1919. Félagið spilaði sína fyrstu leiki á Algirósvellinum en færði sig svo yfir á Mestallavöllinn árið 1923 og hefur spilað þar síðan.
Mestallavöllurinn tekur núna 55.000 áhorfendur en tók um 13.000 áhorfendur fyrst þegar hann var opnaður. Þetta var fyrsti völlurinn á Spáni til að fá stúku með þaki, hún kom við stækkun árið 1927, í kjölfarið tók völlurinn 17.000 áhorfendur. Eftir spænsku borgarastyrjöldina var völlurinn töluvert skemmdur eftir að hafa verið notaður undir útrýmingabúðir og ruslageymslu. Aðeins aðalstúkan slapp við skemmdir eftir þá meðferð.
Völlurinn var þó endurbyggður eftir stríð, með hógværum hætti þó. En um miðja öldina réðst Valencia í uppbyggingu sem félagið kallaði Grand Mestalla, þegar aðalstúkan var endurbyggð frá grunni og allar hinar stúkurnar umhverfis leikvöllinn voru stækkaðar. Þeirri uppbyggingu lauk árið 1955 og þá gat leikvangurinn tekið við 45.000 áhorfendum.
Nottingham Forest var fyrsta erlenda félagið til að spila á vellinum. Það gerðist í Inter-Cities Fairs keppninni, forvera UEFA bikarsins sem síðar varð að Evrópudeildinni. Tímabilið 1961-62 drógust Valencia og Nottingham Forest saman í fyrstu umferðinni og var fyrri leikurinn spilaður á Mestallavellinum 13. september 1961. Það var sneypuför fyrir enska liðið því brasilíski framherjinn Waldo Machado skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri heimamanna. Waldo bætti svo við öðrum 2 mörkum í seinni leiknum sem gestirnir frá Valencia unnu með 5 mörkum gegn einu.
Valencia var með flott lið á þessum tíma og endaði á að fara alla leið í úrslitaviðureign mótsins. Þar mættu þeir samlöndum sínum í Barcelona í tveggja leikja viðureign. Valencia vann fyrri leikinn 6-2 og tryggði sér svo titilinn með 1-1 jafntefli á Camp Nou.
Þetta var þó ekki í eina skiptið sem Valencia og Nottingham Forest áttust við í Evrópu. Árið 1980 mættust félögin aftur, nú í ofurbikar Evrópu eða European Super Cup. Nottingham Forest hafði orðið Evrópumeistari 1980, annað árið í röð, á meðan spænska liðið hafði unnið Evrópukeppni bikarhafa. Í þá tíð voru úrslitaviðureignir ofurbikarsins tveggja leikja einvígi. Fyrri leikurinn fór þá fram á City Ground í Notthingham og endaði 2-1 fyrir heimamenn. Argentínumaðurinn Darío Felman kom Valencia yfir en Ian Bowyer tryggði Forest sigur með 2 mörkum. Seinni leikurinn fór fram á Mestallavellinum í desember 1980 og þá var það Úrúgvæmaðurinn Fernando Morena sem skoraði eina mark leiksins og tryggði Valencia sigur á útivallarmörkum. Þetta er í eina skipti sem ofurbikar Evrópu réðst á útivallarmarkareglunni.
Eins og sést af markaskorurunum í þessum leikjum gegn Nottingham Forest þá hefur Valencia löngum haft sterka og góða tengingu við Suður-Ameríku. Sömuleiðis þá hefur Valencia stundum átt fínu gengi að fagna í Evrópukeppnum. Félagið vann Inter-Cities Fairs keppnina tvisvar, bæði 1962 og 1963. Það voru fyrstu titlarnir í Evrópu, eftir það kom sigurinn í Evrópukeppni bikarhafa árið 1980, ofurbikarsigurinn sama ár, liðið vann Intertoto-bikarinn árið 1998 og svo UEFA bikarinn árið 2004. Liðið vann svo Ofurbikar Evrópu aftur í kjölfarið á þeim titli, með því að leggja Evrópumeistara Porto að velli í Mónakó í ágúst 2004.
Í Meistaradeild Evrópu afrekaði Valencia það að komast tvisvar í röð í úrslitaleikinn en því miður fyrir félagið þá tapaði það báðum þeim leikjum. Árið 2000 tapaði Valencia 3-0 gegn Real Madrid. Ári seinna mætti liðið Bayern Munchen í úrslitum, eftir að hafa m.a. verið í riðli með Manchester United. Bayern vann þann úrslitaleik eftir vítaspyrnukeppni. Leikurinn stóð í 1-1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu, þar sem bæði mörk leiksins komu einnig úr vítaspyrnum. Bayern skoraði svo úr 5 vítum en brenndi af 2 á meðan Valencia skoraði úr 4 en brenndi af þrisvar sinnum.
Heima fyrir hefur Valencia líka náð skorpum af góðum árangri, þótt það hafi yfirleitt staðið spænsku risunum í Barcelona og Real Madrid að baki. Valencia hefur sex sinnum unnið La Liga, sem er fimmti besti árangurinn á Spáni á eftir Real Madrid (33), Barcelona (25), Atlético Madrid (10) og Athletic Bilbao (8). Valencia hefur sjö sinnum unnið spænska bikarinn. Það er líka fimmti besti árangurinn á Spáni, á eftir Barcelona (30), Athletic Bilbao (23), Real Madrid (19) og Atlético Madrid (10).
Árangurinn á þessu tímabili hefur þó ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir. Liðið er eins og stendur í 14. sæti deildarinnar, með 18 stig eftir 15 leiki. Liðið hefur í sjálfu sér ekki tapað nema 3 deildarleikjum en á móti þá hefur Valencia aðeins náð að vinna 3 leiki. Þessi 9 jafntefli sem liðið hefur gert í 15 leikjum hafa verið ansi dýr. Það náði þó að sigra CD Ebro í 32-liða úrslitum spænska bikarsins en þegar haft er í huga að Ebro spilar í fjórðu efstu deild á Spáni og leikur á 1.000 manna velli þá er það ekki svo mikið afrek.
Valencia er líka örugglega langt frá því að vera sátt við árangurinn í Meistaradeildinni á tímabilinu. Aðeins einn sigur kominn og liðið öruggt um að þurfa að taka þátt í hinni frekar óvinsælu Evrópudeild eftir áramót.
Það er eitthvað um fjarvistir í leikmannahópi Valencia. Vinstri bakvörðurinn José Gayá er í leikbanni og þá eru einhverjir tæpir vegna meiðsla. En það er talið líklegt að Valencia stilli upp einhverju í þessa áttina:
Þó gæti liðið notað tækiðfærið til að hvíla leikmenn. Enda getur Valencia hvorki endað ofar né neðar í þessum riðli.
Manchester United
Það vakti töluverða athygli í aðdraganda þessa leiks að ungstirnin Mason Greenwood og James Garner sáust ferðast með hópnum til Spánar. Að auki vantaði ansi marga af þeim fastamönnum liðsins sem ekki eru skráðir meiddir. Það er rökrétt í ljósi þess hversu lítið er undir í leiknum og hvaða leikur er framundan hjá liðinu um helgina. Það væri óskandi að ungu leikmennirnir njóti góðs af þessari ferð og það væri sannarlega ekki leiðinlegt að sjá hinn sjóðheita Mason Greenwood fá einhverjar mínútur annað kvöld.
Að öðru leyti er erfitt að spá fyrir um byrjunarliðið. Nemanja Matic virðist þó ekki hafa ferðast með liðinu, það er gott að heyra því kallinn hefur gott af því að hvíla sig aðeins.
Hendum upp temmilega líklegu liði bara, eitthvað svona:
Nett óskhyggja í gangi með miðjuna, væri gaman að sjá Andreas Pereira aftur í þessu djúpa hlutverki á miðjunni. Það mætti annars mín vegna gjarnan hvíla Lukaku og gefa t.d. Mason Greenwood bara sénsinn í byrjunarliðinu. Af hverju ekki?!
U19-liðið klárar líka sína riðlakeppni
En það er ekki bara aðalliðið sem ferðast til Spánar í þetta skiptið. Venju samkvæmt spilar U19-lið þessara sömu félaga fyrr um daginn í UEFA Youth League keppninni. Okkar piltum hefur gengið glimrandi vel í keppninni, þeir hafa unnið 4 leiki, gert 1 jafntefli og ekki tapað neinum leik sem þýðir að þeir eru þegar búnir að tryggja sér sigur í riðlinum. Virkilega vel gert hjá Nicky Butt og strákunum hans.
Það verður því enn minna undir hjá þeim en aðalliðinu á morgun, engu að síður væri gaman að klára riðlakeppnina með sama glæsibrag og þeir hafa sýnt hingað til í keppninni. Það vakti helst athygli fyrir þennan leik að félagið bætti tveimur ungum leikmönnum við á leikmannalistann. Annars vegar hinum 15 ára gamla miðverði William Thomas Fisk frá Englandi. Hins vegar var það svo hinn efnilegi 14 ára gamli sóknar- og vængmaður Shola Shoretire frá Nígeríu. Þeir eru líklegast aðallega þarna til að fá reynslu af því að fylgja liðinu í svona ferð en það væri vissulega gaman að sjá svona unga leikmenn fá einhverja reynslu inni á vellinum líka.
Halldór Marteins says
Mourinho var að klára blaðamannafund. Sagði að James Garner yrði á bekknum á morgun en Mason Greenwood væri hugsaður sem 19. maður, möguleiki til að hafa ef liðið lendir í vandræðum með sóknarmenn á síðustu stundu.
Væri alveg gaman að sjá guttann fá óvæntan séns, þótt það þyrfti þá helst að vera ekki á kostnað einhvers sem lenti í meiðslum.
Heiðar Halldórsson says
Langar að vekja frekari athygli á þessum frábæra árangri sem U19 liðið okkar er að ná. Það eru ekki nema 2-3 ár síðan að unlingaliðið var í rúst og ef ég man rétt var enginn formlegur aðalþjálfari í lengri tíma?!! Man eftir pistli hér á þessarri síðu þar sem miklar áhyggjur voru í gangi vegna þessa.
Nicky Butt gæti verið að stimpla sig inn sem einn allra efnilegasti þjálfari Bretlands. Miðað við þetta flott lið sem hann er búinn að hjálpa til góðs árangurs núna á stuttum tíma hlýtur að koma sá dagur að hann fái tilboð annarsstaðar frá. Vonandi mun Man.Utd halda honum í þjálfarateymi sínu.
Halldór Marteins says
Já, ég hef verið duglegur að láta fréttir af U19-liðinu fylgja með í því sem ég hef skrifað um aðalliðið í Meistaradeildinni.
Nicky Butt hefur vissulega verið að vinna gott starf. Bæði núna sem þjálfari og ekki síður í störfum sínum fyrir akademíuna áður en hann fór að þjálfa liðið. Sömuleiðis á Kieran McKenna mikinn heiður skilið fyrir sín störf við þjálfun á U18-liðinu og öðrum störfum í yngri flokkunum áður en hann fór í þjálfarateymið hjá Mourinho. Hann á mikinn þátt í því að þessi efnilegi hópur fór að spila bæði skemmtilegan og árangursríkan fótbolta.
Það er alveg satt að yngriflokkastarfið var í molum fyrir stuttum tíma. Staðreynd sem sést best á því að U23-liðið hefur ekki getað mikið síðustu ár, féll til dæmis úr sinni deild á síðasta tímabili. Það er mikið til í því sem Mourinho hefur sagt, United á engin alvöru efni í kringum tvítugsaldurinn heldur miklu frekar er það í hópnum í kringum 18 ára aldurinn.
Unglingastarfið, og ekki síst skátastarfið, var þó tekið í gegn fyrir nokkrum árum, minnir að Woodward eigi þar mikinn þátt í því. Þess vegna höfum við verið að sjá félagið sanka að sér mjög efnilegum leikmönnum frá Englandi og Evrópu sem eru á þessum aldri. Það er vonandi að félagið haldi áfram svipuðum uppfærslum á innra starfi í eldri liðum, ekki síst þá aðalliðinu karlamegin með því að drullast loksins til að ráða yfirmann knattspyrnumála. Þá má vonandi fara að vinna markvisst að því að einhverjir af þessum efnilegu leikmönnum geti fengið séns til að blómstra á endanum með aðalliðinu.