Eftir flottan sigur á Huddersfield á öðrum degi jóla er komið að þriðja leik Ole Gunnar Solskjær sem bráðabirgða knattspyrnustjóra Manchester United en að þessu sinni er það heimaleikur gegn Bournemouth.
Fyrstu tveir leikirnir skiluðu 6 stigum í hús og markatölunni 8 skoruð mörk gegn 2 og má því segja að Ole Gunnar Solskjær hafi fengið draumabyrjun, en það þarf þó að taka það fram að mótherjar okkar í þessum leik voru neðsta lið deildarinnar sem hefur ekki fengið stig í síðustu 5 leikjum og liðið sem hangir einu sæti fyrir ofan fallsæti.
Næst mætir Eddie Howe með lærisveina sína á Old Trafford en það er ekki langt síðan liðið frá suðurströnd Englands sat yfir ofan United í deildinni. Síðast mættust liðin í nóvember en þá var United liðið í tómu tjóni og virtist ekki með nokkru móti geta spilað saman sem ein heild í meira en 45 mínútur í senn.
Leikurinn vannst þó með marki frá Marcus Rashford í uppbótartíma eftir mikla pressu frá United undir lokin en leikurinn hefði getað farið á hvorn veginn sem var. Bournemouth tapaði svo næstu þremur leikjum og hefur í raun einungis unnið 2 leiki síðan á meðan United hefur skriðið á snigilshraða upp töfluna. United situr núna í 6. sæti deildarinnar og verður það eftir þennan leik sama hver úrslitin verða á meðan Bournemouth hefur fallið niður í neðri hluta deildarinnar, í 11. sæti.
Bournemouth
Það er því ekkert orðum of aukið að Bournemouth hefur verið í vandræðum undanfarið og kristallaðist það í síðasta leik liðsins sem var núna á annan í jólum gegn Tottenham þar sem Lundúnarliðið kjöldróg Kirsuberin (e. the Cherries) með fimm mörkum gegn engu. Raunar hefur liðið átt í basli með að skora en í síðustu 5 leikjum hefur liðinu einungis tekist að skora gegn Brighton and Hove Albion. Þar að auki hefur liðinu ekki tekist að halda hreinu síðan í október að undanskildum þeim leik.
Eddie Howe ásamt öllum leikmönnum Bournemouth verður því örugglega ólmur í að rétta skútuna af næstkomandi sunnudag þegar Bournemouth heimsækir leikhús draumanna í Manchesterborg. Liðið varð þó fyrir gífurlegri blóðtöku í vikunni en fyrirliðinn Simon Francis sleit krossband undir lok fyrri hálfleiks í leiknum gegn Tottenham.
Francis, sem spilaði í d-deildinni með Southend United fyrir nokkrum árum síðan, missir að öllum líkindum af síðari hluta tímabilsins en hann hefur verið mjög þýðingarmikill í vörninni fyrir Bournemouth og líklega verður hans sárt saknað út leiktíðina.
En bestu leikmenn Bournemouth á þessari leiktíð hafa án efa verið framherjinn Callum Wilson og miðjumaðurinn Ryan Fraser. Wilson er kominn með 8 mörk og 5 stoðsendingar á meðan Fraser hefur sett 4 mörk sjálfur en er með 8 stoðsendingar en einungis Eden Hazard er með fleiri. Raunar hafa Wilson og Fraser lagt upp 3 mörk fyrir hvorn annan og fáir sem virðast ná betur saman í ensku Úrvalsdeildinni en tvíeykið.
Sem betur fer fyrir Ole Gunnar og okkar menn virðist hafa dregið verulega úr markaskorun þessara leikmanna og vonandi tekst okkur að halda hreinu á sunnudaginn en ef undan er skilinn markalausi jafnteflisleikurinn við Crystal Palace þá hefur liðið ekki haldið hreinu í deildarleik síðan 2. september þegar við unnum Burnley 0-2. En ég tel að Eddie Howe muni stilla liðinu upp í 3-4-3 í fjarveru fyrirliðans:
United
Af síðustu 7 viðureignum þessara liða hefur Bournemouth einungis unnið eina og náð einu jafntefli. Það er kannski við hæfi að minnast á það að maður leiksins í eina tapleiknum okkar var Simon Francis sem verður ekki með eins og áður sagði.
Solskjær hefur gert skemmtilegar og áhugaverðar breytingar á liðinu (aðrar en liðsuppstillingu) og er mun sókndjarfari en forveri hans í starfi ef marka má nýjustu fréttir en en samkvæmt þeim á bakvörðuinn Luke Shaw ásamt fleiri liðsfélögum sínum að hafa hrósað þeim norska fyrir að koma inn með ferskan og sókndjarfan hugsunarhátt í liðið á ný.
Það hefur hann gert til að mynda með því að ýta bakvörðunum ofar sem gerir auðvitað það að verkum að liðið er opnara til baka. En með besta markvörð í heimi og verðandi sænska varnartröllið Victor Lindelöf að rísa upp úr öskunni sem okkar öflugasti miðvörður þá ætti það ekki að vera vandamál. Ef okkur tekst ekki að halda hreinu þá þurfum við bara að skora örlítið meira sem virðist vera stíll liðsins þessa dagana.
Focused and ready for #MUNBOU! 💪🔴 pic.twitter.com/KorCkQtfob
— Manchester United (@ManUtd) December 29, 2018
Af framlínunni okkar er það að frétta að Anthony Martial var veikur á annan í jólum og var því ekki með en hann ásamt þeim Romelu Lukaku og Alexis Sanchéz og Antonio Valencia eru allir byrjaðir að æfa á nýjan leik. Þegar þeir koma til baka verður eflaust mjög spennandi að sjá hvernig sá norski kemur til með að stilla upp liðinu. Í fyrsta sinn í þó nokkurn tíma verður Jesse Lingard fyrsti maður á blað en leikmaðurinn hefur átt þátt í 6 mörkum í síðustu 5 leikjum sínum. Annars spái ég því að liðið verði ekki ósvipað og síðasta.
Það verður því áhugavert að sjá hvort liðið geti nýtt sér þennan skriðþunga í kjölfar stjóraskiptanna og haldið áfram að safna stigum á töfluna. Liðið virkar frjálsara og leikmenn liðsins virðast njóta sín betur sem sést best í léttleikandi einnrar snertingarbolta sem sést í mun meira mæli en áður og jákvæðni norðmannsins smitast einnig yfir á leikmennina sem fyrir vikið virðast njóta sín mun betur fyrir vikið.
Þó skulum við halda okkur rólegum enda á stjórinn eftir að fá almennilega stóra viðureign enn sem komið er þó Bournemouth sé vissulega erfiðari mótherji en Cariff og Huddersfield, en þangað til að því kemur skulum við njóta hvers einasta litla hænuskrefs í átt að jákvæðari og skemmtilegri fótbolta.
Leikurinn fer fram á Old Trafford kl. 16:30 á morgun en dómari leiksins verður Lee Mason.
ABP says
4-0 . Clean sheet og allir glaðir.
Martial, Lingard, Rashford og segjum Sanchez negli einu gulli í hornið í lokin!
Smaðurinn says
Schanzes kemur inn á fyrir Rashford í striker stöðunni 3 – 0 og setur eitt.
Auðunn says
Fyrir rétt c.a 3 vikum hefðu menn verið að spá þessum leik 1-0 eða 1-1. Þeir allrar bjartsýnusti 2-0.
Þetta verður mjög erfiður leikur og United liðið er töluvert langt frá því að vera fullkomið þótt það séu að sjálfsögðu mikil bata merki á liðinu.
Vörnin er ennþá mjög brothætt og alls ekki sannfærandi.
Annars staðar á vellinum er miklar framfarir.
Það er vonandi að við höldum hreinu í dag.
Ætla að spá 2-0 í frekar opnum og skemmtilegum leik þar sem bæði lið fá slatta af færum.