Eins og við fórum yfir í nýjasta þættinum af Djöflavarpinu, sem kom út í byrjun vikunnar, þá hefur liðinu okkar gengið helvíti vel síðasta mánuð. Gengið hefur verið fullkomið hvað úrslit snertir, sjö sigrar í sjö leikjum. Raunar er það svo að strákarnir hans Solskjærs hafa ekki einu sinni lent undir síðan hann tók við liðinu. Aðeins einu sinni hefur liðið haldið inn í leikhlé án þess að hafa náð forskoti. United hefur unnið 10 hálfleika af 14 síðan Norðmaðurinn fljúgandi tók við liðinu, seinni hálfleikurinn gegn Brighton er eini hálfleikurinn sem liðið hefur tapað síðan stjóraskiptin áttu sér stað, rétt eftir miðjan desember. Liðið hefur líka komið sér aftur í bullandi Meistaradeildarsætisbaráttu í deildinni og er komið í 4. umferð enska bikarsins þar sem andstæðingurinn er einn af hörðustu erkifjendum okkar manna frá stofnun úrvalsdeildarinnar. Það verður alvöru áskorun að takast á við Arsenal á erfiðum útivelli. Við hljótum að hlakka til að sjá hvað Solskjær og þjálfarateymið ætla að bjóða okkur upp á í þeim leik.
Að þessu sinni fáum við föstudagsleik, hefst hann klukkan 19:55. Að venju verða spilaðir 16 leikir í fjórðu umferðinni en nú ber svo við að í sex þessara leikja verður stuðst við myndbandsdómgæslu, þessi leikur er einn þeirra. Dómarinn í leiknum verður Craig Pawson.
Solskjær, bikarinn og Arsenal
Ole Gunnar Solskjær var, eins og flest ykkar ættuð nú að vita, leikmaður hjá Manchester United frá 1996 til 2007. Hann spilaði á þeim tíma 366 leiki fyrir félagið og skoraði í þeim 126 fótboltamörk. Hann var þekktur fyrir sérstaklega öflugar innkomur af bekknum, enda var honum skipt inn á í 150 af þessum 366 leikjum.
Solskjær vann 12 titla með Manchester United, þar af náði hann tvisvar að vinna enska bikarinn. Samtals spilaði hann 30 leiki í þeirri keppni, viðeigandi að í 15 þeirra kom hann inn á sem varamaður. Hann náði líka að skora 8 mörk í bikarleikjunum 30, þeirra eftirminnilegast án efa sigurmarkið gegn Liverpool á leið liðsins að þrennunni 1999. Hann var einnig í byrjunarliðinu bæði í frægum bikarleik gegn Arsenal í undanúrslitum og í úrslitaleiknum gegn Newcastle. Þegar liðið vann svo Millwall í úrslitum bikarsins 2004 byrjaði Solskjær á bekknum en kom inn á þegar skammt var eftir og úrslitin þegar tryggð.
Lokaleikur Solskjær á ferlinum var svo úrslitaleikur bikarsins 2007. Solskjær hafði tekið þátt í 5 af 7 leikjum liðsins fram að því í keppninni það tímabilið og skorað í þeim sigurmörk gegn Aston Villa og Reading.
Hann byrjaði hins vegar á bekknum í úrslitaleiknum gegn öflugu Chelsea-liði. Þegar leikurinn var markalaus og framlengingin komin í seinni hálfleik ákvað Ferguson að sjá hvort Solskjær ætti eina loka kraftaverkainnkomu inni fyrir félagið og setti hann inn á völlinn á 112. mínútu. Því miður varð sá rómantíski endapunktur aftan við knattspyrnuferil Solskjær ekki að veruleika þann daginn því stuttu síðar skoraði Didier Drogba sigurmark Chelsea í leiknum. Solskjær lagði svo takkaskóna á hilluna en tengingu hans við Manchester United var langt í frá lokið og enn hefur hann tækifæri til að skrifa fleiri kafla í þá bók. Hver veit nema hann fái tækifæri til að bæta titlum við þá 12 sem hann vann sem leikmaður með Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær þekkir andstæðinga þessa leiks afskaplega vel, Arsenal er það lið sem Solskjær spilaði flesta leiki gegn sem leikmaður Manchester United. Alls tók hann þátt í 19 leikjum gegn Arsenal, 10 þeirra í byrjunarliðinu og 9 sem varamaður. Hann skoraði 2 mörk í þessum leikjum gegn Arsenal sem bæði komu í deildarleikjum. Annars vegar í 2-1 sigri á heimavelli í febrúar 1997 og hins vegar í 6-1 upprúllun á Old Trafford í febrúar 2001.
Í öllum leikjunum sem Solskjær spilaði gegn Arsenal var Arsene Wenger stjóri andstæðinganna, enda komu þeir báðir inn í enska boltann haustið 1996 og Wenger entist aðeins lengur sem stjóri en Solskjær sem knattspyrnumaður. Sá franski hafði oftar betur en Norðmaðurinn á þessum tíma, alls enduðu 9 leikir með sigri Arsenal á meðan United vann 7 leikjanna. 3 enduðu svo með jafntefli.
Af þessum 19 leikjum voru 4 þeirra bikarleikir. Solskjær kom inn á í framlengingu í markalausu jafntefli í undanúrslitunum 1999 en spilaði svo allan tímann í endurteknum leik nokkrum dögum síðar, þegar stórkostlegt mark Ryan Giggs tryggði United sigur í frábærum leik.
Solskjær var líka í byrjunarliðinu á Old Trafford í 5. umferð bikarsins árið 2003. Þá tryggðu Edu og Wiltord Arsenal 2-0 sigur. Solskjær spilaði allan leikinn en náði ekki að hafa áhrif á úrslitin. Eftir þann leik sparkaði Ferguson takkaskó í andlit David Beckham eins og frægt er.
Í undanúrslitum 2004 var Solskjær aftur kominn í byrjunarliðið gegn Arsenal í bikarnum. Paul Scholes skoraði þá eina mark leiksins og Solskjær var tekinn af velli á 75. mínútu fyrir Phil Neville þegar United hugsaði sem mest um að halda fengnum hlut. Það hafðist og liðið fór alla leið í úrslit þar sem það hafði sigur og lyfti bikarnum. Það er því nokkuð athyglisvert að í bæði skiptin sem Solskjær vann enska bikarinn sem leikmaður þurfti hann að fara í gegnum Arsenal til að komast í úrslitaleikinn.
Bikarliðið Arsenal
Arsenal hefur á síðustu árum verið virkilega öflugt bikarlið. Gárungarnir hafa viljað halda því fram að þessi góði árangur Arsenal í bikarkeppnunum hafi aðallega náðst vegna þess hversu langt liðið hefur verið frá alvöru baráttu um nokkurn annan titil. Það má vissulega finna sannleikskorn í því en engu að síður er það meira en að segja það að ná svona árangri eins og Arsenal hefur náð á síðustu árum í þessari merkustu bikarkeppni heims.
Arsenal vann sinn fyrsta bikar árið 1930. Þá leiddi Herbert Chapman Arsenal til sigurs gegn sínu gamla félagi, Huddersfield Town. Þessi merkilega knattspyrnustjóri hafði náð að vinna deildina tvisvar og bikarinn einu sinni með Huddersfield og náði síðan sama árangri með Arsenal. Chapman hafði reyndar farið með Arsenal í úrslitaleikinn árið 1927, fyrsti úrslitaleikur félagsins í sögunni í keppninni, en tapaði þar gegn Cardiff City.
Á næstu áratugum vann Arsenal bikar öðru hvoru og fyrsta tímabil ensku úrvalsdeildarinnar vann Arsenal bikarinn í sjötta skiptið, ásamt því reyndar að vinna enska deildarbikarinn í annað skiptið. Auk þess að hafa þá unnið bikarinn sex sinnum hafði Arsenal fimm sinnum tapað úrslitaleiknum. Næst þegar Arsenal vann bikarinn var Wenger tekinn við liðinu, raunar vann liðið tvennuna í það skiptið, tímabilið 1997-98. Andstæðingurinn í úrslitaleiknum var Newcastle United, sama lið og Manchester United vann í úrslitaleiknum tímabilið á eftir.
Arsenal hefur svo bætt sex bikartitlum í safnið frá árþúsundamótum. Liðið vann Chelsea 2-0 árið 2002 og endaði með tvennuna það tímabil. Árið eftir vann Arsenal 1-0 sigur á Southampton í bikarúrslitunum en náði þó ekki að verja deildartitilinn. Árið 2005 kom Arsenal í veg fyrir að Manchester United næði að verja enska bikarinn með virkilega ósanngjörnum sigri í vítaspyrnukeppni eftir að Manchester United hafði verið sterkara liðið í leiknum sjálfum. Vieira var þar að spila sinn síðasta leik fyrir Arsenal og Roy Keane á síðustu metrunum fyrir Manchester United.
Eftir þetta kom 8 ára pása hjá Arsenal frá því að komast í úrslit bikarsins. En þegar liðið fór aftur þangað árið 2014 þá var Hull City mótherjinn. Flestir bjuggust þá við öruggum sigri Lundúnarliðsins en Hull var á öðru máli og komst í 2-0 eftir aðeins 8 mínútna leik. Arsenal náði þó að jafna og fara með leikinn í framlengingu þar sem Aaron Ramsey tryggði Arsenal sigur.
Arsenal fór svo aftur í úrslitaleikinn árið eftir en í það skiptið var engin spenna í leiknum. Mótherjinn var Aston Villa og vann Arsenal mjög öruggan 4-0 sigur. Með þeim sigri komst Arsenal upp fyrir Manchester United í fjölda bikara sem félagið hafði unnið. United náði að jafna metin árið eftir með sigri á Crystal Palace en árið 2017 vann Arsenal sinn þrettánda bikar með mjög öflugum 2-1 sigri á Englandsmeisturunum í Chelsea.
Embed from Getty Images
Staðan í bikartitlakeppni Arsenal og Manchester United er því 13-12, Arsenal í vil. Eitthvað sem þarf að sjálfsögðu að leiðrétta sem fyrst.
Gengi Arsenal á tímabilinu
Eftir 22 ár við stjórnvölin hjá Arsenal ákvað Wenger loks að hætta sem knattspyrnustjóri Arsenal síðasta sumar. Við stuðningsfólk Manchester United þekkjum það vel hversu erfitt það getur reynst að finna nýjan stjóra eftir svona langan tíma. Þegar Spánverjinn Unai Emery tók við liðinu áttu því væntanlega flestir von á því að það tæki einhvern tíma fyrir stjórann að ná áttum með liðið og byggja upp á nýtt eftir sínu höfði. Ekki síst þegar ljóst var að Arsenal fengi mjög erfiða byrjun á tímabilinu með leikjum gegn Englandsmeisturum síðustu tveggja tímabila í fyrstu tveimur umferðum deildarinnar.
Eftir tap í þessum tveimur leikjum tók hins vegar við 22 leikja hrina án ósigurs, þar af voru fyrstu 11 leikirnir allt sigurleikir. Arsenal kom sér upp í 4. sæti deildarinnar, fór áfram upp úr riðlinum í Evrópudeildinni og komst áfram í deildarbikarnum. Eftir sigur gegn Quarabag í Evrópudeildinni 13. desember virtist liðið á mjög góðu róli og ætla að gera harða atlögu að Meistaradeildarsæti. En nú, rétt rúmum mánuði síðar, hefur liðið tapað 4 leikjum af síðustu 9 og virkar ekki nándar nærri eins sprækt og það var fyrir áramót.
Og þó, í síðasta leik setti liðið upp sýningu gegn Chelsea og yfirspilaði þá bláklæddu algjörlega. Taktískt var Emery með algjöra yfirburði, liðið fylgdi leikplaninu af ákefð og vann mjög sanngjarnan sigur. Þannig að Arsenal kemur inn í þennan leik bæði með það á bakinu að hafa gefið eftir síðustu vikur en líka vel stemmdir eftir öflugan sigur og frammistöðu í síðasta leik.
Öflugasti leikmaður Arsenal á tímabilinu hefur verið hinn gabonski Pierre-Emerick Aubameyang. Hann hefur skorað samtals 16 mörk í 28 leikjum í öllum keppnum. Í deildinni hefur hann náð að skora 14 mörk og auk þeirra gefið 3 stoðsendingar. Hann hefur að vísu ekki skorað í síðustu 2 leikjum en er þó kominn með 4 mörk í síðustu 6 leikjum.
Á eftir honum í markaskorun kemur Frakkinn Alexandre Lacazette, hann hefur skorað 10 mörk í öllum keppnum. Lacazette hefur einnig tekið þátt í 28 leikjum en á meðan Aubameyang hefur 24 sinnum verið í byrjunarliði hefur Lacazette verið 16 sinnum í byrjunarliði en 12 sinnum komið inn á sem varamaður. Lacazette er með 8 mörk í deildinni og 5 stoðsendingar.
Það gerir Lacazette að næststoðsendingahæsta leikmanni Arsenal, ásamt hinum meidda Hector Bellerín. Það munar án efa heilmikið fyrir Arsenal að hafa misst Bellerín í þessi slæmu hnémeiðsli. Sá stoðsendingahæsti hjá þeim er hins vegar Walesverjinn Aaron Ramsey, með 6 stoðsendingar.
Ramsey virðist samkvæmt öllum fréttum vera að spila sitt síðasta tímabil hjá Arsenal, þegar hafa komið fréttir um að hann sé búinn að skrifa undir samning um að ganga til liðs við Juventus í sumar. Jafnvel er talað um að Arsenal gæti selt hann strax í janúar, til að fá þó eitthvað fyrir hann. Hann mun þó líklega verða til taks í þessum leik og án efa gefa allt í leikinn ef hann spilar hann.
Hvorki Aubameyang né Lacazette voru á markaskoraralistanum í þriðju umferð bikarsins, þegar Arsenal vann öruggan sigur á Blackpool á útivelli. Ramsey var þó vissulega á sínum stað og lagði upp eitt marka leiksins. Hinn 19 ára gamli Joe Willock skoraði fyrstu 2 mörk leiksins áður en Alex Iwobi bætti því þriðja við. Það verður áhugavert að sjá hvort Willock fái aftur sénsinn í þessum leik en Iwobi hefur hins vegar tekið þátt í 20 deildarleikjum, skorað í þeim 2 mörk og lagt upp 4, svo það væri minna óvænt ef hann fengi sénsinn í leiknum.
Manchester United
Manchester United fór alla leið í úrslitaleik bikarsins á síðasta tímabili, í annað skiptið á þremur árum. Liðinu tókst þó því miður ekki að ná þrettánda bikarnum í hús heldur tapaði fyrir Chelsea eftir að Eden Hazard skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 22. mínútu. Þannig að í stað þess að komast upp að hlið Arsenal með flesta bikarsigra þá fór United upp að hlið Everton með flest töp í úrslitaleik bikarsins (8 skipti). Það er ekki met sem við höfum áhuga á að eiga til lengdar, miklu frekar að ná hinu aftur.
Manchester United vann Reading í 3. umferð bikarsins. Það var öruggur sigur á heimavelli þar sem Solskjær gat leyft sér að hvíla stóran hluta af lykilleikmönnum án mikilla vandræða. Það sama verður ekki upp á teningnum í þessum leik en það verður þó áhugavert að sjá hvort Solskjær og co. kjósi að rótera eitthvað í liðinu eða ekki. Við höfum séð hvert er öflugasta liðið sem United getur spilað en að sama skapi hafa sumir þeirra leikmanna sem mest hafa spilað verið að sýna ákveðin þreytumerki svo það gæti þurft að treysta hópnum að einhverju leyti í þessum leik.
Það er eitthvað um meiðsli ennþá hjá Manchester United. Smalling og Rojo eru enn frá vegna meiðsla og þá hefur hinn vanmetni Fellaini minna getað tekið þátt í síðustu leikjum en ella vegna meiðslavandræða. Luke Shaw datt út úr liðinu á síðustu stundu um helgina vegna veikinda, spurning hvernig hann hafi jafnað sig af þeim. Að auki er Rashford talinn tæpur en þá aðallega vegna þreytu. Hann er búinn að vera frábær síðan Solskjær tók við, einhvern tímann væri þó skynsamlegt að hvíla hann. Bara spurning hvort það er núna eða seinna. Og sömuleiðis hver ætti þá helst að fá tækifæri til að leiða sóknarlínu Manchester United og hvernig viðkomandi stendur undir því verkefni.
Við hverju megum við búast?
Þetta verður hörkubaráttuleikur. Það verður mikið undir í þessum leik, jafnvel meira en „bara“ það að komast áfram í 16-liða úrslit enska bikarsins. Þetta verður taktískt barátta stjóranna, hugarfarsleg barátta leikmannanna, sálfræðileg barátta liða sem eru orðin hnífjöfn í deildinni í baráttu um Meistaradeildarsæti og í stúkunni mun fámennur (of fámennur!) hópur harðkjarna útivallarstuðningsmanna Manchester United glíma við líklega vel stemmdan og fjölmennan hóp heimavallastuðningsmanna Arsenal. Þetta verður eitthvað!
Emery fann taktískar lausnir fyrir leikinn gegn Chelsea, Solskjær fann mjög sniðugar taktískar lausnir gegn Tottenham sem tryggðu það að United var með yfirburði framan af þeim leik og hefði jafnvel átt að vera komið með meira forskot þegar Tottenham náði yfirhöndinni seinni hluta leiks. Svo hvað munu stjórarnir bjóða upp á í þessum leik?
Emery hlýtur að vilja finna einhverja leið til að koma í veg fyrir að Paul Pogba haldi áfram að blómstra og spila lykilhlutverk í nánast öllum skapandi sóknartilburðum Manchester United. Setur Spánverjinn frakka á Frakkann? Verður hann tví- og þrídekkaður alltaf þegar boltinn kemur nálægt hans svæði? Hvernig bregst United við því, bæði stjóri og leikmenn? Það er alveg ljóst að ef Pogba verður í gjörgæslu þá mun losna um aðra og það munu þeir þurfa að nýta sér.
Hvað hefur Solskjær svo í huga gagnvart Arsenal? Hefur hann spottað einhvern veikleika í þeirra uppstillingu og spilamennsku eins og hann sá hjá Tottenham? Kemur hann jafnvel aftur á óvart með uppstillingu eins og í þeim leik? Það verður verulega spennandi að sjá.
Svo það er áhugavert að pæla í því hvernig liðunum verður stillt upp. Solskjær hefur þegar sagt frá því að Alexis Sánchez taki einhvern þátt í leiknum. Bæði lið eiga síðan deildarleiki strax á þriðjudag, bæði þó á heimavelli og gegn liðum í neðri hluta töflunnar. Arsenal á Cardiff City á meðan Manchester United tekur á móti Burnley. Deildarleikirnir skipta mjög miklu þessa dagana en það ætti að vera hægt að nýta hópinn líka í þeim leikjum.
Ég myndi vilja sjá Manchester United stilla upp í þessa áttina:
Kannski velur Solskjær að hvíla fleiri af lykilleikmönnunum, það væri alls ekki vitlaus pæling. Ég hef trú á því að þetta gæti verið flottur leikur fyrir Alexis Sánchez að koma inn í og ná loksins að spyrna sér í gang með Manchester United. Hans bestu frammistöður hafa líka iðulega komið þegar hann hefur getað verið duglegur að fara upp miðjan völlinn og ég tel að vinnusemi hans og gæði gætu komið Arsenal í vandræði auk þess sem þarna gæti verið tækifæri til að gefa Rashford smá pásu. Rashford hefur staðið sig frábærlega en hann er aðeins 21 árs, það þarf að hugsa vel um hann svo hann geti nýst liðinu sem best út allt tímabilið. Ekki það, ef hann verður í byrjunarliðinu þá mun það peppa mig mikið. Mörkin sem hann hefur verið að skora sýna hvers lags gæðaleikmaður hann er.
Á meðan ég býst við að Arsenal gæti vel stillt upp svona liði:
Það verður leikið í bikarnum alla helgina. Tveir föstudagsleikir, ellefu laugardagsleikir, tveir sunnudagsleikir og svo einn mánudagsleikur. Dregið verður í fimmtu umferð bikarsins á mánudagskvöldið, eftir að leik Barnet og Brentford lýkur. Það er vonandi að Manchester United verði í pottinum á mánudagskvöldið. Miðað við gengið að undanförnu er auðvelt að vera bara nokkuð bjartsýnn á það.
Halldór Marteins says
Samkvæmt fréttum virðist David de Gea ekki hafa ferðast með hópnum til London. Sergio Romero, Lee Grant og Joel Pereira voru hins vegar allir í ferðahópnum sem þýðir þá væntanlega að de Gea fær hreinlega frí í þessu verkefni, frekar en að hann hafi ferðast með öðrum hætti.
Annars er staðfestur hópur sem ferðaðist til London svona:
Sergio Romero, Lee Grant, Joel Pereira, Diogo Dalot, Phil Jones, Eric Bailly, Victor Lindelof, Luke Shaw, Ashley Young, Fred, Nemanja Matic, Ander Herrera, Andreas Pereira, Paul Pogba, Jesse Lingard, Juan Mata, Alexis Sanchez, Anthony Martial, Romelu Lukaku, Marcus Rashford.
Auðunn says
Flott að Fellaini sé ekki í hópnum, það eitt og sér gefur United klárlega töluvert betri möguleika á góðum úrslitum í þessum leik.
Fréttir herma að leikmenn United vilji síður hafa hann í hópnum vegna hversu slæm áhrif hann hafi á mórallinn í liðinu.
En þetta verður mjög erfiður og athyglisverðugur leikur í alla staði.
Arnar says
Ókei flott Auðunn. Allir vita þitt álit á Fellaini. Þegiðu nú
Arnar says
Annars hef ég mikla trú á sigri okkar manna í þessum leik.
Ef að Lichtsteiner byrjar hjá Arsenal verður það hræðilegt fyrir þá, hrikalega lélegur bakvörður.
Ég held að Rashford spili framm á 60. mín og komi Alexis inn fyrir hann. Fallegt væri það ef Sanchez myndi skora sigurmarkið gegn gömlu félögunum.
Sveinbjörn says
Mjög spes ef de Gea hafi einfaldlega fengid frí. Vonandi nýtir hann þad til þess ad skrifa undir nyjan samning hjá okkur, ekki ödrum.