Í dag fór fram viðureign Leicester City og Manchester United á King Power Stadium í Leicester þar sem okkar menn höfðu tækifæri á að komast upp í 5. sætið a.m.k. tímabundið þar sem Arsenal átti leik síðar um daginn. Chelsea vann sinn leik nokkuð örugglega í gær enda kannski ekki von á öðrum þar sem þeir mættu Huddersfield sem virðist vera að stefna lóðrétt niður í Championship deildina á ný. United þarf því að bíða lengur eftir möguleikanum á því að skjótast upp í Meistaradeildarsætið eftirsóknarverða en tókst þó að klifra upp fyrir Arsenal.
Ole Gunnar Solskjær gerði nokkrar breytingar frá leiknum á móti Burnley og menn eins og Ander Herrera og Eric Bailly byrjuðu báðir. Á bekknum voru þeir Romero, Jones, Dalot, Fred, Martial, Mata og Lukaku.
En að leiknum sjálfum. Fyrsta færi leiksins leit dagsins ljós á 3. mínútu þegar Eric Bailly hitti boltann illa og gaf heimamönnum hornspyrnu. Ndidi reis manna hæst í teig United en tókst ekki að stýra boltanum á rammann. Fyrsta stórhættulega færið kom hins vegar hinu megin á vellinum þegar Luke Shaw átti mjög fallega og nákvæma sendingu fyrir markið á fjær þar sem Marcus Rashford kom á ferðinni en skalli hans fór yfir þverslána.
Mikill hraði í leiknum en fyrsta markið kom á 9. mínútu þegar Ricardo átti mjög vonda sendingu sem endaði beint á Paul Pogba. Sá franski var snöggur að hugsa og vippaði snyrtilega yfir vörn heimamanna þar sem Rashford var réttur maður á réttum stað. Hann tók boltann niður í hlaupinu með frábærri snertingu og hamraði boltann í fjærhornið og kom United í forystu. 0-1!
Heimamenn bættu í eftir markið og komust í álitlega sókn sem endaði með því að James Maddison komst í skotfæri inn í teignum en Luke Shaw og Eric Bailly hentu sér báðir fyrir skotið sem hrökk af þeim og aftur fyrir endamörk og ekkert varð úr horninu. Eftir þetta færðist ansi mikil ró yfir leikinn og lítið um annað en hálffæri. Bæði lið áttu þó skotfæri fyrir utan teig undir lok hálfleiksins en United fór inn í klefa marki yfir.
Reyndar átti Rashford hættulegt skot rétt fyrir lok fyrri hálfleiks eftir enn ein mistökin hjá varnarmönnum Leicester en Kasper Schmeichel sá við honum enda var skotið tiltölulega nálægt honum. Báðum liðum mistókst að ná yfirvegun og stjórn á leiknum, mikið af mistökum á báða bóga.
Victor Lindelöf hélt uppteknum hætti áfram og leit vel út enda sterkasti miðvörðurinn okkar um þessar mundir. Eric Bailly stóð sig vel, þrátt fyrir nokkur tilvik þar sem fílabeinsstrendingurinn olli stuðningsmönnum örlitlu tilfinningalegu uppnámi en samvinna þeirra í dag var nánast óaðfinnanleg.
Victor Lindelöf & Eric Bailly’s combined stats vs. Leicester City:
88% pass accuracy
9 clearances
3 interceptions
0 fouls committed
0 errors leading to shots
0 goals concededCould develop into a fine partnership. 👍👍👍 pic.twitter.com/UHk8EqTgFw
— Statman Dave (@StatmanDave) February 3, 2019
Síðari hálfleikur
Heimamenn mættu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og komust í árennileg færi en sem betur fer varð lítið úr þeim. Í raun voru fyrstu fimm mínúturnar ein stór sókn þar sem Leicester menn voru mun grimmari og líklegri til að jafna. Pogba virtist eitthvað vera pirra sig og kannski réttilega þar sem Mendy braut á honum rétt fyrir utan teig en ekkert dæmt þar sem dómarinn sá ekki brotið.
Skömmu síðar fengu Leicester aukaspyrnu hinu meginn á vellinum sem fór í varnarvegginn en barst engu að síður til Vardy sem stóð fyrir innan vegginn í miðjum teignum. Vardy reyndi að hálfpartinn klippa boltann aftur fyrir sig en David de Gea varði vel og handsamaði knöttinn í annarri tilraun, fyrsta skiptið sem virkilega reyndi á þann spænska eftir rúmlega klukkustundar leik.
Kannski til marks um ágætis skipulag hjá varnarlínunni okkar enda voru gestgjafarnir hættulegastir úr föstu leikatriðunum, sem hafa verið ákveðinn veikleiki hjá United. Lindelöf og Bailly virtust vera nokkuð vel samstilltir auk þess að Shaw og Young voru búnir að sinna sinni varnarvinnu mjög vel.
Reyndar kom örlítill skjálfti í okkar menn stuttu eftir að Rachid Ghezzal kom inn fyrir Maddison, en þá náðu heimamenn að setja mikla pressu á vörnina og áttum við erfitt með að halda boltanum í einhvern tíma. Luke Shaw var klaufi þegar hann braut á óþreyttum Ghezzal en alsíringurinn tók aukaspyrnuna sjálfur og setti boltann yfir vegginn alveg upp við markvinkilinn en spænski kötturinn í markinu varði boltann og minnti enn og aftur á hvers vegna hann er einn allra mikilvægasti leikmaðurinn okkar ef ekki sá mikilvægasti.
Aftur fengu Leicester aukaspyrnu í boði Luke Shaw þegar um tíu mínútur voru eftir og að þessu sinni kom fyrirgjöf inn í teiginn þar sem Maguire var einn og óvaldaður (reyndar rangstæður) og skallaði boltann í átt að vítateigspunktinum. Þar var gamall United maður, Jonny Evans, fyrstur að boltanum en gerði gömlu félögum sínum greiða og ákvað að hitta ekki boltann og United náði að hreinsa.
Næsta færi féll fyrir Lukaku eftir ágætt samspil hans við Pogba en aftur varði sá danski í markinu. Spennan jókst eftir því sem nær dróg 90. mínútu en bæði lið áttu fín færi til að breyta stöðunni. Anthony Martial, sem kom inn á þegar um 20 mínútur voru eftir, átti fínt skot en enn og aftur beint á Schmeichel.
Þegar um hálf mínúta var eftir af uppbótartímanum fékk Harry Maguire enn eitt færi þegar hann geymdist inn í teignum en honum tókst að skófla boltanum framhjá markinu. Ekki gerðist fleira marktækt í leiknum og því 0-1 sigur United í höfn.
Pælingar að leik loknum
Solskjær tókst að stilla upp liði sem kom okkur aftur á sigurbraut og er núna búinn að vinna 9 af fyrstu 10 leikjum sínum, þar af 7 í deildinni. Liðið hefur verið að raða inn stigum og loksins í dag komst liðið upp um sæti (a.m.k. tímabundið). Þegar Ole Gunnar tók við var liðið 8 stigum á eftir Arsenal og 11 stigum á eftir Chelsea. Núna eru bara 2 stig í 4. sætið (og nokkur mörk) þegar 11 umferðir eru eftir. Það verður því ansi fróðlegt að fylgjast með á næstu vikum, hvernig þeim norska tekst sem bráðabirgðastjóri liðsins en óhætt að segja að byrjunin hefur verið nánast óaðfinnanlegt.
Það eru þó nokkri punktar sem Solskjær þarf að huga að á næstunni, sérstaklega þar sem nú er að koma að mjög erfiðri leikjadagskrá fyrir liðið. Flest mörk sem liðið hefur fengið á sig undir stjórn Solskjær hafa komið eftir föst leikatriði og liðið virðist vera óskipulagt þegar kemur að því að verjast þeim. Það liggur einhvern veginn alltaf hætta í loftinu þegar andstæðingurinn á hornspyrnu eða aukaspyrnu og það skapar auðvitað auka spennu og óöryggi.
Svo er það með Alexis Sanchez að hann virðist engan veginn vera að takast að láta ljós sitt skína inn á vellinum. Þessi gríðarlega hæfileikaríki leikmaður er bara ekki að vinna inn fyrir laununum sínum og það læðist að manni óþægileg tilfinning að þessi ofurlauna samningur sem hann er á hafi neikvæð áhrif á liðið. En burt séð frá því öllu þá var sigurinn í dag mjög kærkominn og nú er bara að bíða og vona að City klári Arsenal en þegar þetta er skrifað er staðan 1-1.
Auðunn says
Verður mjög erfiður leikur
Gífurleg mikilvægt að ná þremur stigum í dag bæði til að viðhalda og auka sjálfstraust fyrir komandi átök og halda í við Chelsea.
Tap í dag væru nokkur skref afturábak fyrir Ola Gunnar og liðið.
Bjarni Ellertsson says
Heppnir að klára þetta, svo einfalt er það. Leikmenn virtust alveg búnir á því í seinni hálfleik, bentu bara á hvern annan. Tafa Young einn leiðinlegasti leikmaður ever, einblínir allan leikinn að fá alla á móti sér, ótrúlegt að hafa hann sem fyrirliða. Annars gott að fá 3 stig en ef standið á okkur verður svona í næstu leikjum, þá er ekki von á góðu. Látum ekki blekkjast en er á meðan er.
GGMU
Auðunn says
Bjóst við erfiðum leik og svo varð raunin.
Fáir leikmenn áttu góðan leik og ótrúlega mikið af lélegum sendingum eitthvað sem liðið mun ekki komast upp með gegn PSG né í öðrum komandi leikjum.
Hef miklar áhyggjur af hægri bakvarðarstöðunni okkar, Young engan veginn nógu góður varnarlega, ótraustur og oft alveg úti að aka.
En virkilega sterkt og mikilvægt að ná 3 stigum í dag.
MSD says
Komumst upp með þetta í dag en moment of brilliance tryggði þetta frá Rashford og Pogba. Geggjað mark. En menn virtust þreyttir í seinni hálfleik. Gott að fá nokkra daga frí þar til næsti leikur er.
Þetta lið stal stigum af Liverpool í síðustu umferð þannig að ég er mjög feginn að við náðum að halda þetta út í seinni hálfleik.
Keep calm and carry on…
Bjartur says
Vonast til að Dalot fái tækifærið fannst Young engan veginn nógu góður í dag.
Audunn says
Skilst að Ole Gunnar hafi flogið beint til Lyon eftir leikinn til að sjá Lyon vs PSG, ég ætla að vona að hann hafi ekki bara fundið svör við leik PSG heldur líka séð gæði hins 22 ára Mousa Dembele og miðjumannsins Nabil Fekir. Þetta eru leikmenn sem United á að kaupa í sumar ásamt miðverði og hægri bakverði.
Það má losa sig við Rojo, Smalling, Young, Valencia, Mata og jafnvel Lukaku mín vegna fyrir þá menn.
United á svo líka nokkra efnilega sem eru byrjaðir að banka upp á hjá aðalliðinu, það eru strákar sem má fara að gefa séns á næsta tímiabili í minni leikju.
Runar P says
Vill bara segja að ég sammála öllu sem Auðunn hefur skrifað
Og föst leikatrið voru vandamál sem fylgdi liðinu sem Ole tók við, alveg viss um sð hann mun laga það ;)
MSD says
Sýnist Auðunn nú þurfa að sætta sig við A.Young áfram, hann er við það að skrifa undir framlengingu skv fréttum. En sammála því að við þurfum annan byrjunarliðsmann í hægri bakvörðinn. Þá má Young vera áfram sem squad rotation player mín vegna.
Sindri says
Frábært að vera í baráttunni um 4. sætið. Ranieri borubrattur fyrir laugardaginn og þetta verður aftur 1til2-0.
Hvað varðar Young tel ég að best sé að framlengja við hann, á þeim forsendum að hann verði back-up fyrir Shaw.
Fá svo alvöru signing í hægri bak, sem getur verið með Dalot sem back-up, eða að berjast um stöðuna.
Björn Friðgeir says
Jones skrifar undir nýjan samning. Erum við ekki öll ánægð með það?
Karl Garðars says
Svona la la. Hefði viljað sjá Martial, Herrera og DDG skrifa fyrst af öllum undir. Mér persónulega var eiginlega drullu sama um aðra.
En upp á reynslu og breiddina máttu mögulega Mata og Young koma næst. Þar næst Jones og Smalling en þó með semingi. Ég hefði t.a.m alltaf kosið að gefa yngri leikmönnum frekar séns og að fá inn aðra sterkari leikmenn.
Ef maður lætur sig dreyma þá væri gaman ef Lindelöf og Bailly myndu sjá um vörnina með Koulibaly eða einhverjum sterkum uxa. Meiðslapésarnir Smalling og Jones gætu verið til vara.
Það er samt allt rangt við að Smalling sé að fara að fá Testimonial. Gjörsamlega ALLT!
Bjarni Ellertsson says
Frábært að Jones sé búinn að skrifa undir, okkar Baresi, fjölhæfur og kattliðugur á boltanum, með afburða sendingargetu og ákvarðanatökur til fyrirmyndar. Sumir segja að hann sé leiðtogaefni og fyrirmynd ungra varnarmanna sem líklega hefur vegið þungt í ákvörðuninni hjá Ole og co að framlengja dvöl hans.
En að öllu gamni slepptu þá spyr ég hvort meðvirknin(MUTV) ráði ríkjum á Gömlu Tröð eða hvað? Nú er bara að framlengja við Valencia, Pereira og Rojo og allir glaðir, þá þarf ekkert að velta sér uppúr því að fá inn nýja varnarsinnaða leikmenn.
Nú er mál að dumpa feitum, í tilefni dagsins.
GGMU
Rúnar Þór says
Af hverju í ósköpunum er verið að framlengja við Jones og Smalling? Þeirra tími löngu liðinn, alltaf meiddir og ekki hægt að stóla á þá, og hreinlega bara ekki nógu góðir.
Burt með þá og fá nýja menn inn takk, þetta er fullreynt
Björn Friðgeir says
Það er verið að framlengja svo við fáum 20-30 millur fyrir hann þegar við seljum hann í sumar
Karl Garðars says
Vonandi Björn. En það er eitthvað sem segir manni að það sé ekki alveg málið.