Í dag fór fram gríðarlega mikilvægur leikur þar sem erkifjendurnir í Liverpool freistuðu þess að komast aftur á topp ensku Úrvalsdeildarinnar með því að taka stig frá Old Trafford. Á sama tíma vonuðust stuðningsmenn United til að slá tvær flugur í einu höggi, halda 4. sætinu og leggja sitt af mörkum til þess að deyfa titilvonir Liverpool, en þeir voru jafnir Manchester City að stigum fyrir leik en með mun færri mörk skoruð. Liverpool hafði leikið einum leik færra og því gæti munurinn legið í þessum eina leik og því hafði hann svo mikið vægi fyrir mörg lið í deildinni.
Ole Gunnar Solskjær stillti upp mjög svipuðum liði í 4-3-1-2 eins og á móti Chelsea í bikarnum en gerði tvær breytingar, Scott McTominay kom inn fyrir Nemanja Matic sem er að glíma við meiðsli og einn allra besti varamarkmaður ensku Úrvalsdeildarinnar settist á bekkinn fyrir besta markvörð í heimi.
Á bekknum voru því þeir; Sergio Romero, Eric Bailly, Jesse Lingard(’25), Alexis Sanchez(’42), Fred, Diogo Dalot og Andrea Pereira(’20).
Fyrri hálfleikur
Leikurinn sjálfur fór kröfuglega af stað og reyndar stefndi í svo mikinn hörkuleik að höfundur gleymdi að skrifa hjá sér hvað gerðist fyrsta hálftímann, langt síðan slík spenna hefur fylgt United leik og því ber að taka fagnandi. Liverpool hefði getað fengið sannkallaða draumabyrjun eftir að Ashley Young átti hörmungarsendingu aftur á David de Gea í markinu sem handlék boltann og gat gestunum óbeina aukaspurnu rétt fyrir utan markmannsteiginn en sem betur fer fipaðist James Milner eitthvað bogalistin í óskipulagðri aukaspyrnunni og varnarmenn United náðu að loka fyrir skot hans.
Mikill hraði og ákefð en fá færi einkenndu næstu mínútur þangað til að Joel Matip tók upp á sitt eins dæmi að bera upp boltann frá miðju og hreinlega labba framhjá miðjumönnum United, komst að d-boganum en þar hindraði Ander Herrera för hans og aukaspyrna dæmd. Úr spyrnunni skapaðist engin hætta þar sem Mohammed Salah þrumaði himinhátt yfir markið en egyptinn átti alls ekki góðan dag í dag.
En eftir um 20 mínútna leik fór að syrta í álinn. Leikmenn virtust vera að meiðast út um allan völl, haltrandi hver innan um annan og svo fór að Herrera neyddist til að fara útaf og kom Andreas Pereira inn á í hans stað. Einungis fimm mínútum síðar þarf Juan Mata einnig að yfirgefa völlinn og Jesse ‘JLingz‘ Lingard kom inn á en hann var nýstiginn upp úr meiðslum eftir Meistaradeildarleikinn við PSG. Verður að teljast nokkuð umdeild ákvörðun hjá Solskjær sérstaklega í ljósi þess að Lingard virtist finna til þegar hann var að hita upp.
Liverpool misstu líka mann útaf á fyrsta hálftímanum þegar Roberto Firmino þurfti að koma útaf og Daniel Sturridge kom í hans stað. Allar þessar snemmbúnu mannabreytingar urðu til þess að flæði leiksins raskaðist og kerfin sem liðin spiluðu fengu ekki að njóta sín. Þó tókst United að skapa sér nokkur hættuleg færi eftir þetta, það fyrsta kom þegar Paul Pogba kom upp vinstri vænginn með boltann og átti skot frá vítateigshorninu en Virgil van Dijk skallaði boltann í horn.
Á 40. mínútu dróg aftur til tíðinda, þó ekki þeirra sem við vonuðumst eftir, en þá áttu United hraða sókn þar sem Romelu Lukaku tókst að opna svæðið á vinstri vallarhelming Liverpool og stakk boltanum á Pogba sem bar boltann upp að vítateigshorninu og renndi boltanum fyrir markið aftur á Lukaku sem var staddur við d-bogann. Lukaku lagði boltann fyrir sig á vinstri fæti og héldu eflaust allir áhorfendur, leikmenn og amma þeirra að sá belgíski væri að fara hlaða í skot.
Þess í stað kom hann öllum að óvörum og laumaði boltanum snyrtilega framhjá varnarmönnum gestanna í hlaupaleiðina fyrir Lingard sem tók ágætissnertingu á boltann en Alisson Becker var fljótur út á móti honum og náði að koma höndinni fyrir boltann og stoppa hann áður en Lingard næði skotinu.
Því miður kom í ljós að Lingard gat ekki haldið áfram eftir þennan sprett og því fór þriðji leikmaður United útaf í fyrri hálfleik og Ole Gunnar Solskjær gat þar með hent síðari hálfleiks plönunum sínum út um gluggann. Inn á kom Alexis Sanchez.
United átti ágætisfæri skömmu síðar þegar Lukaku stökk manna hæst upp í teignum í baráttu við Robertson en skalli hans var laus og fór beint í grasið og Alisson ekki í nokkrum vandræðum með hann.
Síðari hálfleikur
Það var eins og liðin hefðu sammælst um það í göngunum að sættast við jafnteflið og ganga frá borði með jafnan hlut því svo lítið virtust liðin vera að reyna að vinna leikinn. Það var greinilegt að hvorugt lið vildi tapa leiknum og síðari hálfleikurinn var þar af leiðandi drepleiðinlegur, sérstaklega í ljósi allrar þeirrar athygli sem hann hefur fengið á undanförnum dögum.
Þó tókst United að krækja í tvær aukaspyrnur með stuttu millibili í byrjun hálfleiksins. Sú fyrsta í boði Fabinho en úr henni kom ágætis fyrirgjöf sem Pogba tókst að skalla á markið en var kolrangstæður. Síðari spyrnan var keimlík þeirri fyrri nema að þessu sinni var það Sanchez sem átti skallann en var einnig rangstæður.
Liverpool átti líka sín færi og áttu t.a.m. skyndisókn þar sem Jordan Henderson komst upp hægri vænginn alveg einn og ónáðaður en fyrirgjöf hans var slöpp og United tók að koma boltanum í horn. Úr horninu kom skallafæri og annað horn þar sem Scott McTominay varðist vel í báðum tilfellum og sá til þess að trufla Georginio Wijnaldum. Sá hinn sami átti svo skot að marki United stuttu síðar en hátt yfir markið.+
Þá gerði Klopp tvær breytingar, með stuttu millibili; Henderson út fyrir Xherdan Shaqiri og Mohammed Salah út fyrir Divock Origi. Fyrri skiptingin mjög skiljanleg til að vilja blása til sóknar en sú síðari segir kannski svolítið til um hversu vel Luke Shaw tókst að halda aftur af Salah. Þegar Liverpool vantar mark að þeirra helsti markaskorari sé tekinn útaf. Enda átti hann einungis eitt skot í leiknum og það var úr aukaspyrnunni sem fór hátt, hátt yfir markið.
Reyndar tókst United að koma boltanumm inn í markið á milli þessara skiptinga hjá Liverpool. Liðið fékk aukaspyrnu langt út á velli sem McTominay setti í svæðið við fjærstöngina þar sem Chris Smalling var mættur fyrstur manna. Hann átti góða fyrirgjöf í fyrstu snertingu beint fyrir markið þar sem Matip brást bogalistin og hamraði boltann í markhornið framhjá Alisson. En markið fékk ekki að standa þar sem Smalling var hálfu skrefi inn fyrir varnarlínu Liverpool þegar sendingin kom.
Eftir þetta virtust liðin bara vera komin í „auto-pilot“ gírinn þar sem stakt stig var nógu gott fyrir báða aðila. Ekkert marktækt gerðist þar til á 90. mínútu þegar Lukaku átti flotta fyrirgjöf inn í teig frá hægri vængnum en Chris Smalling kláraði ekki hlaupið sitt á fjær og náði ekki til boltans.
Leiknum lauk því með steindauðu jafntefli, 0-0 niðurstaðan í leik sem hafði svo mikla möguleika til þess að verða eftirminnilegur en varð þess í stað að leik sem flestir vilja bara gleyma strax.
Pælingar að leik loknum
Fyrir leik hefðu ekki margir United menn stokkið á jafnteflið en í ljósi þess að við misstum 3 leikmenn í fyrri hálfleik, allt miðjumenn, ofan á meiðsli Matic fyrir leikinn, sem breytti flæði leiksins algjörlega þá verður að teljast sæmilegt að ná stiginu, úr því sem komið var. Marcus Rashford meiddist snemma í leiknum og þurfti að spila þannig í 90 mínútur, en það sást verulega að hann var langt frá því að vera 100% heill þó að hann gæfi sig 100% í verkefnið. Vonandi hefur þetta ekki afleiðingar fyrir hann og liðið í heild.
Fyrst verður að minnast á mistök Solskjær, að treysta á að Lingard til að spila í 70 mínútur, svona stuttu eftir meiðsli. En það er líka hægt að líta til þess að sá norski var svolítið með bakið upp við vegg, Matic meiddist á æfingu, Mata farinn útaf og sömuleiðis Herrera, en hann hefur ekki treyst Fred í þetta hlutverk. Þá verður að viðurkennast að það er skrýtið að hann fái pláss á bekknum ef hann á ekki að fá tækifærin.
En þó þessi meiðsl og kannski ekki eftirsóttustu úrslitin hafi leikið eins og þrumuský yfir leikhúsi draumanna þá eru auðvitað líka nokkrir sólargeislar inn á milli. David de Gea hélt hreinu í 100. skiptið fyrir United og fékk varla á sig skot í dag, ekkert sem talist gat hættulegt í það minnsta. Það er að mörgu leyti vörninni að þakka en þeir Smalling og Lindelöf voru granítharðir í vörninni í dag.
Young átti sæmilegan dag, miðað við aldur og fyrri störf, en bestur í vörninni var þó Luke Shaw, sem eins og áður segir, pakkaði saman einum besta framherja Evrópu í dag. Mohammed Salah átti eitt skot, úr aukaspyrnu annars hefði hann alveg getað fengið sér sæti í stúkunni, svo lítil áhrif hafði hann á leikinn.
Miðjan okkar var ágæt líka, Pereira var virkilega sprækur eftir afleitan leik síðast og Lingard var hættulegur fram á við og saman virtust þessir tveir vera út um allan völl. Scott McTominay átti ágætan leik sömuleiðis, fyllti vel í þau stóru skörð sem Matic skilur eftir sig, en ekkert er hægt að sakast við skotann, heilt yfir mjög fínn.
Fram á við var kannski ekki mikið að frétta, en það verður líka að líta til þess að Liverpool var meira með boltann, taktur og flæði leiksins var algjörlega hent út um gluggann vegna meiðsla og það litla sem liðið skapaði sér hefði á öðrum degi getað verið nóg til að skila 3 stigum. Frábær varsla Alisson gegn Lingard og hárfínar rangstöður hefðu hæglega geta farið á annan veg en 0-0 jafntefli er enginn heimsendir. Liðið spilað vel miðað við aðstæður og þótt allt virðist hafa verið að blása á móti þá var stemningin á vellinum var rafmögnuð og betri en nokkur sinni fyrr á þessu tímabili.
Svo hefur United tekist ágætlega að halda aftur af Sadio Mané, Roberto Firmino og Mohammed Salah eins og þessi mynd sýnir. Sem hlýtur að teljast ágætt enda sumir sem vilja meina að þetta sé besta sóknarframlína í Evrópu.
Leikmenn United lögðu sig 100% fram í verkefnið og skiluðu verki sem er ekki hægt að vera ósáttur við. Hins vegar má setja spurningamerki við ákvörðun stjórans og læknateymis hans en snúa huganum að næsta verkefni sem er Crystal Palace á Selhurst Park n.k. miðvikudag kl 20:00.
Liðið hefur sýnt það að það kann að koma til baka eftir erfið úrslit og næsti leikur verður ekki síður mikilvægur svo það er algjör skylda að fara í þann leik með rétt hugarfar og freista þess að komast aftur í 4. sætið. Á sama tíma á Chelsea leik við Tottenham og Arsenal tekur á móti Bournemouth svo einhver af þessum liðum í kringum okkur munu tapa stigum í næstu umferð!
Karl Garðars says
Enginn Matic. Þetta verður erfitt.
Ingvar says
Úffff….maður var nú að vonast eftir að fá Martial eða Lingard inn en ekki missa Matic út….hef því miður enga trú á þessu verkefni með þessu liði en strákar, prove me wrong please..
Auðunn says
Scott mun gefa allt í þennan leik, blóð, svita og tár.
Sem ungur leikmaður sem kemur upp úr ungliða liðum Manchester United þá veit hann mikilvægi þessa leiks. Hann mun ekki gefa tommu eftir.
Ole veit þetta og hann veit að þarna er leikmaður með risa stórt Manchester United hjarta.
Þessvegna treystir hann honum.
Það eru klárlega tækifæri fyrir United á vellinum sem þeir geta nýtt sér.
Þetta verður að sjálfsögðu erfitt en við erum Manchester United og ætlum að vinna þennan leik með einum eða öðrum hætti.
gummi says
Þetta gæti endað illa í dag
halli says
Scott McTominay’s three Premier League starts this season:
👎 3-1 loss to West Ham
👎 2-2 draw with Southampton
🤦♂️ 3-2 win over Newcastle where he was taken off at half-time trailing 2-0
halli says
Ég bara næ því ekki hversu lukaku er hörmulegur að taka á móti bolta.. hjálpi mér allir…
Karl Garðars says
Djöfulsins meiðslabull er þetta hjá okkur.
Tòmas says
Þessi Oliver er kortéri frá því að bara klæða sig í Liverpool treyjuna
Auðunn says
Mistök hjá Ola að setja Lingard inná. Virkaði aldrei heill og vond skilaboð til aðra leikmanna á bekknum að treysta frekar á hálf meiddan leikmann en hinna.
Þetta lýtur ekkert vel sérstaklega sérstaklega með Rashford haltrandi um völlinn og allar skiptingar búnar.
En það er ennþá 0-0 og nú reynir virkilega á úr hverju þessir leikmenn eru gerðir.
Þeir verða að stíga upp og sýna að þeir séu verðugir leikmenn Manchester United.
Koma svo United ⚽⚽⚽
Bjarni Ellertsson says
Eru þetta ekki ásættanleg úrslit, sá ekki leikinn, eins og staðan var orðin í hálfleik. Nú reynir á þunna hópinn og leikmenn verða að spila uppá framtíðina.
Sveinbjorn says
Miðað við aðstæður tekur ég þessu stigi glaður. Það kom mér á óvart hversu ragir Liverpool menn voru að sækja og taka áhættur þegar hálft aðalliðið okkar fór á meiðslalistann. Líklega sanngjörn úrslit miðað við gang leiksins.
Eftir á að hyggja var út í hött að láta Lingard inn á eins og Auðunn nefndi, einnig var skelfilegt að horfa á Scott í leiknum. Það sást langar leiðir hversu stressaður hann var á boltanum og hefði átt að dæma víti á hann.
Karl Garðars says
Hefði verið gott að hafa Fellaini þarna.
Annars mjög sérstakur leikur og púðlurnar ekki að gera merkilega hluti m.v. hremmingar okkar manna. Þeir virðast þreyttir og ég vona svo innilega að blaðran sé sprungin og sjitty taki þetta.
Vörn og miðja héldu vel en við hefðum mátt standa okkur betur þegar boltinn barst fram. Sterkt að setja Marcus og Rom fremsta, Virgillinn gat ekki dekkað þá báða í einu.
Maður verður annars að vera þokkalega sáttur við úrslitin úr því sem komið var. Maður leiksins Ole og co.
gummi says
En hversu slæmur er Fred
Tòmas says
Hindsight is 20/20. Lindgard var talinn tilbúinn í einhverjar mínútur í þessum leik… svo meiðist hann. Þannig að jú út frá því mistök.
Maður er vel svekktur að við glímdum við öll þessi meiðsli. Èg var viss um sigur ef við hefðum haft nálægt okkar sterkasta liði.
Heiðar says
Virkilega flott frammistaða hjá United miðað við öll áföllin. Tvennt er ég ánægðastur með: a) Varnarleikinn. Liverpool stillti í leiknum upp öllum strikerum sem hafa spilað fyrir liðið undanfarin ár en fengu samt ekki færi í leiknum svo heita megi. Þvílík barátta og skipulagssemi. b) McTominay og Pereira. Það hlýtur að vera erfitt að vera búinn að vera úti í kuldanum meira og minna og vera svo hent inn í liðið í leik sem þessum. Að mínu mati stóðust þeir prófið, báðir. Hefði reyndar viljað sjá aðeins meiri hetjuskap hjá Scott fram á við en hann nær undantekningalaust kaus að gefa boltann aftur og róa leikinn þó tækifæri væru til að sækja.
Heilt yfir solid frammistaða og auðvitað áttum við að vinna leikinn.
Verra þykir mér að gamli meiðsladraumurinn sé enn eina ferðina búinn að banka upp á á Carrington. Það er hreinlega með ólíkindum að 4-5 leikmenn meiðist á nokkrum dögum. Þetta er búið að vera vandamál hjá klúbbnum í fjöldamörg ár og virðist engu breyta hverjir eru leikmenn eða hverjir þjálfa.
Rétt í lokin… Solskjær fær mikla gagnrýni fyrir Lingard skiptinguna og það eðlilega. Það er hinsvegar allt í lagi að minnast á það að Lingard hefur verið big game player og því freistandi að nota krafta hans á svona dögum. Hann hefði átt að skora. Þessi ákvörðun Ole og félaga var hinsvegar röng. Mér var hugsað til leiksins gegn Arsenal árið 2016 þegar að Rashford gerði sín fyrstu mörk. Þá var meira en hálft liðið meitt og van Gaal ákvað að treysta unglingunum, sbr. Rashford, Varela, Fosu-Mensah og einhverjum James Weir!! Nú má spyrja sig hví menn eins og Angel Gomes fái ekki oftar tækifæri til að sitja á bekknum þegar staðan er svona. Kannski er sá tímapunktur kominn núna, sjáum til.
Turninn Pallister says
Verð að vera ósammála mönnum hér, Scott stóð sig vel og Perreira líka. Miðað við frammistöðuna hjá Alexis þá skil ég Ola vel að hafa ekki verið spenntur í að setja hann inná. Held að hann sé að stimpla sig úr enska boltanum, væri nothæfur í þeim ítalska eða spænska kannski…
Fín úrslit svona miðað við meiðsli í fyrri hálfleik, Liverpool fengu aldrei opið færi og við í raun að mörgu leiti miklu meira ógnandi sóknarlega.
MSD says
Þetta var nú ekki leikur margra opinna marktækifæra, en ætli við höfum ekki fengið betri færin af þeim fáu sem litu dagsins ljós. Lingard hefði átt að nýta sitt dauðafæri og Smalling var nú nálægt því að stela þessu í lokin ef hann hefði klárað hlaupið sitt á teiginn af einhverri sannfæringu.
Heilt yfir góð frammistaða varnarinnar gegn einu besta sóknarliði deildarinnar. Ég tek þessu stigi miðað við hvernig leikurinn þróaðist með öll þessi meiðsli, bæði fyrir leik og í leiknum. Hef samt aldrei séð lið þurfa að nýta allar sínar skiptingar í fyrri hálfleik áður.
En mér fannst Liverpool samt ragir við að sækja af fullum krafti á okkur og fannst eins og þeir væru hálf partinn sáttir við stig. Þeir náðu heldur aldrei neinum takti í sóknarleikinn hjá sér og komust lítið áleiðis. Finnst þeir reyndar hafa verið að sýna merki um það í undanförnum leikjum að þeir séu aðeins að dala.
En djöfull langar mig að fara að sjá einhvern almennilegan hægri bakvörð taka við keflinu af A.Young. Hvað er svo málið með þennan Fred? Er hann bara svona hrikalega slakur að hann er dottinn aftastur í goggunarröðina á miðjunni? Nánast allir meiddir en samt kemst hann ekki í liðið. Móri keypti nú þennan kauða, hann hefði átt að tuða meira yfir hvað liðið væri lélegt þegar hann kaupir svo mesta pappakassann á 50mills.
Er þá meiðslalistinn cirka svona núna?
Rashford, Martial, Mata, Lingard, Matic, Herrera, Rojo…?
Heiðar says
Verð að bæta aðeins við hérna að gefnu tilefni… nú er ég ekki mesti Fellaini maður sem fyrirfinnst en mikið óskaplega finnst mér það furðuleg ákvörðun að hafa leyft honum að fara á miðju tímabili, og það frá liði sem er ekki með mjög breiðan hóp. Hann hefði pottþétt komið inn á í dag og hefði munað um hann í öllum föstu leikatriðunum sem við fengum.
Audunn says
Fellaini var aldrei nógu góður fyrir Manchester United og því skiljanlegt að láta hann fara þegar tækifæri gafst á að fá eitthvað fyrir hann.
Hann hefði engu máli skipt í þessum leik.
Ágætis úrslit og frammistaða miðað við allt sem gekk á.
Er hinsvegar frekar vonsvikinn yfir hversu lítið kemur út úr leikmönnum á borð við Lukaku og Alexis. Þetta eru menn á himin háum launum en skila allt of litlu.
Lukaku er bara í bullandi vandræðum með mjög einfalda hluti eins og taka á móti bolta og skila honum frá sér.
En nú reynir virkilega á Ola og co.
Margir meiddir og mjög erfiðir leikir framundan.
Spurning hvort hann gefi ekki einhverjum kjúklingum séns.
United er bara í þannig stöðu upp á 4 sætið að gera að það má ekki taka óþarfa sénsa og hver leikur gífurlega mikilvægur.
Halldór Marteins says
Enn og aftur rangt hjá þér, Auðunn. Fellaini hefur margsýnt að hann gat komið inn í svona leikjum og haft mikið að segja. Enda sýndi hann gagnsemi sína fyrir félagið oft og mörgum sinnum, sama hversu mikið þú kýst að þykjast ekki sjá það eða muna eftir því.
En get svosem tekið undir rest, það verður mjög áhugavert að sjá hvað Solskjær og co gera í framhaldinu. Það reynir á en þeir hafa staðist flestar prófraunir hingað til. Og það sem betra er, manni finnst þeir sífellt vera að læra af þessum mistökum sem þeir hafa þó gert. Sem er mjög góðs viti.
Alexander Hurra says
Ég verð að vera sammála Auðunn. Hann átti aldrei að vera í þessu liði. Spilar grófan og glataðan fótbolta.
þegar hann er inná þá var bara spilað löngum boltum inní teig, United er betra en það. Mér fannst það alltaf til skammar hvernig liðið spilaði þegar hann var inná. Ekki boðlegt fyrir þennan klúbb. Þetta er mín skoðun á þessum fótbolta manni. Hann er flottur fyrir klúbb eins og Stoke etc
Hjöri says
Nú ætla ég að víkja að öðru en þessum leik, og spyr hvort ekki sé hægt að veita upplýsingar um kvennalið Utd á þessari síðu svo úrslit leikja og stöðu? Ef ekki getur einhver bent mér á hvar hægt væri að nálgast það, er afskaplega áhugasamur um kvennaboltann.
Magnús Þór says
@Hjöri : Við reynum að kóvera kvennaboltann í Djöflavarpinu þegar Halldór Marteins er með.
Annars er kvennaliðið með twitter og instagram reikninga þar sem er mjög þægilegt að fylgjast með öllu sem því viðkemur.
Hjöri says
Takk fyrir Magnús Þór, skoða það.