Morgunleikurinn gerðir kapphlaupið um Meistaradeildarsæti verulega spennandi, jafntefli Tottenham og Arsenal þýddi að bæði lið töpuðu stigum og United var í færi að komast í fjórða sætið á ný.
Liðið sem átti að sinna því verkefni var svona
Varamenn: Grant, Dalot 52′, Bailly, Marcos Rojo, Fred 82′, Gomes, Chong 95′
Lið Southampton var að mestu eins og búist var við
United setti strax í gír og það voru tvær mínútur á klukkunni þegar Lukaku fékk boltann af varnarmenni inn á teiginn en Gunn varði mjög vel í horn. Gunn þurfti að verja aftur vel þegar hann misreiknaði bolta frá Andreas og náði að slá hann yfir á síðustu stundu. Eftir hornið var hann síðan á réttum stað til að verja skot Lukaku af markteig!
Eins og svo oft áður þegar lið pressar strax í byrjun slaknar á pressunni og Southampton fékk horn eftir 11. mínútu og Jannik Vestergaard skallaði yfir næsta óvaldaður, ekki alveg nógu gott þar. Stutt síðar var Smalling stálheppinn að fá ekki dæmt á sig víti, Redmond gaf innfyrir og Bertrand var í kapphlaupi við Smalling, Smalling greip í treyju Bertrand sem var um það bil kominn fram fyrir Smalling og féll við. Þetta hefði eiginlega átt að vera víti þó það hefði verið í harkalegri kantinum.
Leikurinn var síðan kominn í eitthvað moð. United náði engan veginn að halda boltanum eða byggja upp spil og þeim var refsað þegar 25 mínútur voru liðnar. Southampton var með boltann, sótti að og Valery fékk boltann á auðum sjó hægra megin um tuttugu og fimm metra frá marki, lék áfram og lét síðan vaða og boltinn small í netinu. Rosalegt mark.
United liðið vaknaði þó að minnsta kosti við þetta, Shaw átti góða fyrirgjöf sem Rashford potaði í og tók þannig skotið af Lukaku og Lukaku náði síðan ekki skalla eftir góða fyrir gjöf Andreas. Sánchez var frekar týndur úti vinstra megin en átti þó sendinguna á Shaw sem skapaði fyrirgjöfina þarna. Sömuleiðis var þessi fyrirgjöf Andreas fyrsta fyrirgjöfin sem tókst hjá honum eftir nokkrar ansi misheppnaðar.
Smalling var næstum búinn að skora með skalla eftir horn, en boltinn fór rétt framhjá. Reyndar hélt Rashford boltanum í leik en ekkert varð úr því. Aftur hefði United getað fengið víti á sig, Bertrand fór framhjá Young rétt við ytri mörk teigsins, Young greip í hendi Bertrand sem kastaði sér niður. Þetta átti annað hvort að vera víti eða gult og þar með rautt á Bertrand en Stuart Attwell athafðist ekkert.
Þetta var frekar slakur fyrri hálfleikur hjá United. Færi komu jú og leikmenn hefðu átt að klára eitt eða tvö þeirra en það var enginn að spila af fullri getu. Rashford var ekki í stuði, slakur úti á kanti en Lukaku kom betur út eftir að þeir skiptu, Rashford þó lítið betri inni á teig.
Gárungarnir voru að segja að De Gea hefði átt að verja markið, var með hendur í boltanum, en skotið var þvílíkt bylmingsskot að hann hélt honum ekki
Seinni hálfleikur byrjaði ekki með sömu flugeldasýningu og sá fyrri en fljótlega meiddist Sánchez og Diogo Dalot kom inná. Dalot hafði reyndar verið að hita upp frá í hálfleik þannig skiptingin kom ekki á óvart.
Dalot var ekki búinn að vera lengi inná þegar hann sneri vel af sér tvo varnarmenn og náði fínni fyrirgjöf en Rashford á fjær skallaði framhjá. Þarna átti hann sannarlega að hitta markið!
En á næstu mínútu skoraði Andreas Pereira með stórfenglegu skoti. Hann fékk boltann nokkuð utan teigs og var leyft að leggja hann fyrir sig óáreittur og sveiflaði síðan hægri fæti eins og sleggju. Skotið sveigði glæsilega og fór í markið rétt undir þverslána. Það var auðvitað Dalot sem átti sendinguna á Pereira þó ekki hefði hún skipt meginmáli.
Southampon svaraði með að leggja í stórsókn sem varði í nokkrar mínútur með hálffærum, hornum og látum, en það var United sem skoraði. Andreas átti sendinguna, Lukaku losaði sig við tvo menn í teignum og setti boltann í fjær hornið
Úr 0-1 í 2-1 á fimm mínútum, frábær viðsnúningur og nú verðum við að spyrja okkur hvort það var því að þakka að Alexis Sánchez fór útaf.
Sóknir United héldu áfram og ljóst að liðið saknaði Sánchez lítt. Andreas var kominn framar á völlinn og Rashford og Lukaku voru báðir frammi, en meira til hliðanna. Diogo Dalot var kominn með allt sjálfstraustið og reyndi tvö langskot sem fóru framhjá. Hann og Luke Shaw sáu um breiddina úti á köntum.
En eins marks forskot er brothætt og á 75. mínútu fékk Southampton aukaspyrnu rétt utan teigs, James Ward-Prowse tók hana og sveiflaði boltanum yfir vegginn og í hornið rétt utan fingurgóma David de Gea. Enn eitt frábært markið í leiknum. United náði ekki upp pressu eftir þetta og skiptingin á 81. kom smá á óvart, Andreas Pereira sem hafði átti fínan leik í seinni hálfleik fór af velli og Fred kom inná.
Það leit út eins og allur vindur væri úr liðinu en þeir áttu þá smá eftir. Fred var með boltann á miðjunni nálægt teig, gaf út á Shaw, fékk boltann aftur og stakk á Lukaku sem sneri og skaut á punktinum og setti hann bara inn úti við stöng!
Southampton hélt áfram sinni fínu frammistöðu síðustu mínúturnar en Pogba náði boltanum og sótti upp, gaf á Rashford sem fór inn á teig, fyrsti maður náði að trufla Rashford en sá næsti, varamaðurinn Armstrong fór beint aftan í Rashford og vítið óumflýjanlegt. Pogba skaut hins vegar beint á markið þannig að Gunn náði sinni síðustu vörslu í leiknum, krækti fæti í boltann.
Tahith Chong fékk mínútu inn á vellinum sem varamaður fyrir Rashford en ekkert gerðist frekar utan að Pogba fékk gult fyrir að tefja innkast.
Þetta var hrottalega tæpt og Southampton má vera svekkt með að fara ekki með stig. 4-2 hefði því sem næst verið móðgun en við þiggjum þetta. United er komið í fjórða sætið, þremur stigum á eftir Tottenham og einu á undan Arsenal sem verða einmitt mótherjarnir um næstu helgi.
OLE’S AT THE WHEEL!
Auðunn says
United þarf að nýta sér jafntefli Spurs og Arsenal, dauðafæri á að komast í betri stöðu.
Þetta verður áhugaverð barátta 3 og 4 sætin.
Líst ágætlega að þetta lið þótt ég sé enginn sérstakur aðdáandi Scott en ætla að gefa honum sanngjarnt tækifæri á að sanna að ég hafi rangt fyrir mér varðandi hans getu.
Hann er samt betri en Fellaini enda þarf ekki mikið til, þarf eiginlega ekkert til.
Hlakka til leiksins, það verður rífandi stemmari á vellinum. Vona að það skili sér í góðum sigri ⚽⚽⚽
Dóri says
Smalling og Young.. halló ætla þeir aldrei að læra? Young með heilalausar sendingar og Smalling enn og aftur að toga í treyjur manna inn í vítateig.. vorum heppnir að fá ekki á okkur víti.
Bjarni Ellertsson says
Sanngjörn staða 0-1 liðið nennir þessu ekki og hvað þá ég að horfa á þetta. Ef við slysumst til að vinna er alltaf hægt að sjá leikinn seinna. Þetta er algjör tímasóun á fögrum vordegi.
Auðunn says
Versta frammistaða liðsins undir stjórn Ole.
Ég myndi gera 2-3 breytingar í hálfleik. Allt of margir leikmenn alveg úti á þekju og spilamennskan eftir því.
Heppnir að vera ekki 0-3 undir, áttum að fá dæmd tvö víti dæmd á okkur.
Ingvar says
Getum við ekki sótt um að spila alla leiki á útivelli, enn ein hörmungin á Old Trafford….
Turninn Pallister says
Guð minn góður hvað Sánchez er lélegur. Hugsa að það hefði verið hægt að setja tóman bónusplastpoka inn á völlinn í staðinn fyrir hann og fá betri leik út úr liðinu. Sorglegt að hugsa til þess að Mkhitaryan hefði pottþétt passað eins og flís við boltann sem Solskjær er að spila…
Hjöri says
Það þyrfti að setja þykka belgvetlinga á Smalling fyrir hvern leik, svo hann næði ekki gripi á peysu andstæðingsins.
Björn Friðgeir says
Ég sé ekki hvernig Sánchez á að komast aftur í liðið?
Runar P says
Lukaku……….
Helgi P says
Ég held að við séum búinn að finna lélegri leikmann en Fellaini í Alexis hvað kom fyrir þennan gæja
Ingvar says
Jæja tæpt var það en þessu siglt í höfn. Er þetta ekki örugglega síðasta vítið sem Pogba tekur fyrir þetta lið.
Auðunn says
Alexis eru ein stærsta mistök Manchester United ásamt ráðningu Moyes og Mourinho.
Ekki bara að kaupa hann heldur gefa honum þennan svaðalega samning.. gjörsamlega galið.
Það er ekki séns að hann fari í sumar, hvaða lið ætti að borga honum álíka laun?
Það eru líka fleiri þarna sem mættu taka pokann sinn.
Smalling og Young eru eins og tifandi tímasprengja. Maður þarf næstum því áfallahjálp að horfa á þessa leikmenn. Jesús hvað þeir geta verið skelfilegir.
Þetta var erfiður leikur og við sáum hvað við söknum margra þeirra sem eru meiddir. Sluppum með skrekkinn í dag sem betur fer. Virkilega mikilvæg stig.
Sáum markt jákvætt eins og Daliot og Lukaku en heilt yfir var þetta frekar slakt.
MSD says
Dalot kom inn með góðan kraft í liðið fannst mér. Gríðarlega mikilvæg stig sem við tókum þarna í dag. Mæli samt með því að Pogba fari að æfa þessar vítaspyrnur ef hann ætlar að taka þær áfram. Hvernig er tölfræðin hans á vítapunktinum annars?
En guð minn almáttugur hvað Sanchez er slappur. Að hugsa sér að þetta sé okkar lang launahæsti leikmaður, hann hefur engan veginn staðið undir tékkanum. Held það sé bara ágætt að hann sé meiddur, þá er ekki verið að troða honum í liðið í von um að hann finni mójóið sitt aftur.
guðmundurhelgi says
Anægður með urslitin ekki leikinn,dalot var mjog ferskur,young hvað getur maður ekki sagt. Endum i þriðja sætinu .
Rúnar P says
Ég held að við seljum Sánchez til Benfica í sumar í skiptum við þessa tvo leikmenn sem við viljum fá frá þeim og svo kemur einn frá Sporting Lisabon – United verður hálf portúgalskt ;)