Það kom á óvart að Diogo Dalot fékk tækifærið á hægri kantinum eftir góða frammistöðu gegn PSG. Liðið var annars í frekar venjubundinni 4-3-3 uppstillingu.
Varamenn: Romero, Bailly, Rojo, McTominay, Pereira, Martial (71′), Greenwood (80′)
Arsenal stillti upp í þriggja manna vörn, og með báða framherjana inná, Lacazette og Aubameyang. Það var sá fyrrnefndi sem fékk fyrsta tækifærið en náði ekki til boltans á markteig, hefði getað orðið hættulegt þar.
Þetta setti frekar tóninn fyrir fyrstu mínúturnar, Arsenal réði lögum og lofum á vellinum og United náði ekki að halda boltanum eða ná upp spili. Fyrsta sókn United gaf þó gott færi, Lukaku skaut í slá, nokkru pressa fylgdi en Arsenal náði á endanum að hreinsa frá.
Sóknir Arsenal héldu áfram en það virtist ekki mikil hætta á 12. mínútu þegar Xhaka fékk boltann á miðjunni en það var enginn United maður nálægt og Xhaka fékk óáreittur að skjóta. Skotð sveigði mikið og De Gea misreiknaði það algjörlega og mark var raunin. Virkilega slakt hjá United og alger mistök hjá De Gea.
Fred átti næsta markskot United, fínt skut utan teigs, en eins og hjá Lukaku var það í rammann. Fred var annars að eiga ágætan leik, virkur á miðjunni og alltaf í boltanum. Uppúr miðjum hálfleiknum var United komið meira inn í leikinn, Rashford átti að gera betur í sendingu Lukaku inn á teiginn en það virtist eins og varnarmaður hefði snert boltann í horn, en ekki fékk United það.
United skipti síðan yfir í þrjá miðverði, Young færðist inn á miðjuna. Þó að Arsenal væri sterkara liðið héldu United áfram að skapa færi, Rashford stakk á Lukaku sem hristi af sér tvo varnarmenn og var næstum búinn að fara fram hjá Leno en Leno varði síðan skotið.
Undir lok hálfleiksins átti United frábæra sókn, Pogba gaf snilldar sendingu þvert á völlinn á Lukaku, hann gaf á Dalot og boltinn kom út í teiginn og Rashford var helst til seinn og lenti illa saman við Xhaka.
Seinni hálfleikur byrjaði fjöruglega, sóknir á báða bóga, og á 50. mínútu átti Rashford frábæra stungu inn á Lukaku, en Leno varði frábærlega. Leikurinn var áfram gríðarfjörugur, hraðar sóknir á báða bóga, brot og læti. Leno var betri en enginn í marki Arsenal, hirti m.a. boltann af tánum á Rashford eftir enn eina stungusendingu gegnum vörn Arsenal.
Það var orðið verulega pirrandi að sjá United ekki nýta tækifæri og á 67. mínútu kom þetta í bakið á þeim. Lacazette kom inn í teig, Fred kom í hliðina á honum og var aðeins rúmlega öxl í öxl þannig að Lacazette fór niður. Frekar ódýrt og Aubameyang skoraði úr vítinu með að renna boltanum í mitt markið. Hrikalega slappt.
Þá var loksins kominn tími á Anthony Martial, sem kom inná fyrir Dalot.
Rétt á eftir var United enn í ruglinu, Lindelöf mislas bolta alveg og lét hann skoppa yfir sig. Aubameyang skaut samt framhjá þannig það bjargaðist.
Þessi leikur var á leiðinni í fyrsta tap Solskjær í deildinni og þegar 10 mínútur voru eftir ákvað hann að taka áhættuna og henda 17 ára Mason Greenwood inná. Greenwood hafði fengið 2 mánútur móti PSG en fékk núna betra tækifæri. Hann var duglegur en það gerðist fátt þessar síðustu tíu mínútur eða þær fimm sem Jon Moss bætti við og dapurt tap var staðreynd.
Að leik loknum
Það hlaut að koma að því að norskir töfrar nægðu ekki. Það var ýmislegt dapurt í leik United í dag. Pogba var slakur, Matic sýndi engan veginn að hann ætti sætið skilið á kostnað McTominay og Victor Lindelöf átti sinn versta leik í langan tíma. Marcus Rashford var alls ekki nógu beittur, og má líklega skrifa á álag, síðan hann meiddist gegn Liverpool. Diogo Dalot var síðan heldur ekki sá sami og gegn PSG. Fred var góður en var óvarkár gegn Lacazette sem leyfði Arsenal manninum að henda sér niður og fiska ódýrt víti. Að lokum verður að endurtaka að David de Gea átti að verja frá Xhaka og síðan var vítið ekki það besta heldur
En það var ekki slök frammistaða frá einstökum leikmönnum sem fyrst og fremst olli þessu tapi heldur slök færanýting og góð frammistaða Leno. Það verður ekki alltaf svo.
Að lokum þarf að minnast á Jon Moss dómara, sem var afspyrnuslakur. Ekki hlutdrægur en bara lélegur. Stoppaði oft leik að óþörfu vegna meiðsla, dæmdi illa og hefði alveg mátt sleppa að dæma þetta víti.
Vika í næsta leik og síðan kemur landsleikjahlé og vonandi verða allir leikmenn orðnir góðir af meiðslum þá.
Ingvar says
Eins stór og þessi leikur er þá stækkaði hann töluvert við þessi úrslit hjá Spurs og Chelsea…..
Rúnar P says
Djöfull líst mér á þetta byrjunar lið!
Turninn Pallister says
Fáránlega lélegt hjá De Gea. Hlusta ekki á bull um að það hafi verið mikill snúningur á boltanum eða að það hafi verið svo mikill vindur. Skotið er jú fast, en ekki það fast að heimsklassa markmaður ætti amk að hafa hönd á boltanum. Fyrir utan það að Xhaka er talsvert fyrir utan teig. Staðsetningin hjá DdG er bara slæm og hann virkaði sofandi.
Annars er fáránlegt að við séum ekki búnir að skora í þessum leik. Vonum að það standi til bóta í seinni hálfleik.
gummi says
Eins mikið og de Gea er góður þá er hann ömurlegur að verja víti
Heidar says
Leikur hinna glötuðu tækifæra. Við fengum fram að stöðunni 2-0 öll bestu færi leiksins en nýttum ekkert þeirra. Það gengur ekki á Emirates enda verða færin ekki óteljanleg sem lið fá á þeim bænum. Rashford var að mínu mati langt frá sínu besta. Gekk ekkert upp hjá honum og ákvörðunartökur slæmar oft á tíðum.
Það er ekki oft sem maður getur kvartað undan De Gea en þetta fyrra mark var náttúrulega óskiljanlegt að horfa upp á. Seinna markið sem var úr mjög soft víti var líka slakt að hálfu De Gea… ekki góð vítaspyrna en sá spænski las þetta ekki frekar en áður því eins magnaður og hann er þá kemur varla fyrir að hann verji víti. Ætli vítið sem hann varði í 8-2 sigrinum forðum hafi verið það eina ?
Pétur Lárusson says
De Gea á að gera betur en samt sjaldan séð annan eins snúning eins og var á skotinu hjá Xhaka
Ingvar says
Fannst við koma illa stemmdir inní þennan leik og nálgunin einhvernvegin alls ekki nógu góð. Fannst þetta alltaf vera leikur sem mætti ekki tapast en væri alls ekki must win, mjög vont að missa Arsenal 2 stigum fram úr á þessum tíma. Menn mættu of kokkí eftir París og héldu að þeir þyrftu ekki lengur að hafa fyrir hlutunum. Þrátt fyrir fullt af góðum færum þá náðum við aldrei nenum takti í þessum leik, mikil vonbrigði.
P.S. Moss er bjáni
MSD says
Sá bara fyrri hálfleik en miðað við hann fannst mér hart að við værum 1-0 undir og klúður að ná ekki að koma inn marki hjá þeim miðað við færin. De Gea hefði átt að gera betur í markinu. Hann sér boltann allan tímann og maður í hans klassa á að taka þetta. En ætli hann eigi ekki inni svona mistök miðað við öll skiptin sem hann hefur bjargað okkur.
Sá ekki þann seinni þannig að ég get ekki lagt dóm á hann. Baráttan um meistaradeildarsætið verður í gangi fram í lokaumferð held ég.
kristjans says
Sammála flestu ef ekki öllu sem kemur fram í leikskýrslunni hér að ofan. Takk fyrir frábæra síðu og vandaða umfjöllun.
De Gea sýndi að hann er mannlegur og gerði sig sekan um sjaldséð mistök og manni fannst vítið vera soft. Að sama skapi fannst mér ótrúlegt að liðinu hafi ekki tekist að skora. Það var eitthvað andleysi í mannskapnum í dag og manni fannst liðið eiginlega hengja haus og gefast upp eftir seinna mark Arsenal. Saknaði þess að sjá ekki gömlu góðu gleðina og stemmninguna sem hefur verið til staðar að undanförnu; frábært að sjá gleðina þegar Young skoraði á móti á Palace og hvernig liðið fagnaði mörkunum gegn Southampton. Áhyggjuefni með Rashford, fannst hann vera slakur í dag, slakar sendingar og ákvörðunartaka, e.t.v. er álag að segja til sín.
Pétur Lárusson says
Nú er bara að gleyma þessum leik sem fyrst og fókusa á bikarleikinn gegn Úlfunum um næstu helgi.
Helgi P says
Þetta tap getur bara verðið jákvætt koma mönnum aðeins niður á jörðina
Halldór Marteins says
Fyrsta markið var alltaf að fara að hafa mikið að segja og það var svekkjandi að sjá mína menn gefa þeim markið með þessum hætti, það hefði verið svo auðvelt að koma í veg fyrir þetta mark.
Þessi úrslit fá mig samt alls ekki til að setja spurningamerki við Solskjær. Fannst hann setja leikinn upp nokkuð vel en það sem meira er um vert, mér fannst hann bregðast vel við í leiknum sjálfum. Það er raunar það sem mér finnst hafa verið einn hans mesti styrkur síðan hann tók við liðinu, hann er óhræddur við að breyta til í miðjum leikjum og oftar en ekki hafa þessar breytingar hans jákvæð áhrif, hvort sem er varnar- eða sóknarlega.
Leno átti frábæran leik, færanýtingin var ekki upp á sitt besta þess utan en heilt yfir var ég ekkert mjög óánægður með spilamennsku liðsins.
Það verður mjög áhugavert að sjá hvað Solskjær og co. taka með sér úr þessum leik til að læra af. Baráttan um sæti 3 og 4 verður áfram gríðarlega spennandi.