Eftir góðu fréttirnar um fastráðningu Ole Gunnar Solskjær sem knattspyrnustjóra Manchester United hélt liðið upp á það með lélegri frammistöðu gegn Watford sem þó skilaði sigri. Nú er komið að því að mæta Úlfunum aftur. Það var heldur betur svekkjandi að horfa upp á liðið henda frá sér afskaplega öflugum bikarsigrum á útivöllum gegn Arsenal og Chelsea með því að tapa verðskuldað fyrir Úlfunum í fjórðungsúrslitum. En nú er tækifæri til að bæta fyrir báðar þessar frammistöður og sýna úr hverju liðið er gert.
Það er kominn sumartími á Bretlandi svo þessi þriðjudagsleikur hefst klukkan 18:45 að íslenskum tíma. Flautuleikari verður konsertmeistarinn Mike „drop the mic“ Dean.
Úlfarnir
Wolves eru sem stendur í sjöunda sæti deildarinnar, með 44 stig eftir 31 leik. Liðið hefur unnið 12 leiki, tapað 11 leikjum og gert 8 jafntefli. Markatalan þeirra stendur á sléttu, 38 mörk skoruð og fengin á sig. Þeirra markahæsti leikmaður í deild er Raúl Jiménez með 12 mörk og á eftir honum koma Diogo Jota með 6 mörk og svo fjórir leikmenn með 3 mörk hver. Stoðsendingahæstur er João Moutinho með 7 stoðsendingar og fyrrnefndur Raúl Jiménez kemur þar á eftir með 6 stoðsendingar. Mexíkóinn Jiménez er okkar mönnum kunnugur eftir að hafa skorað fyrra mark Wolves í bikarsigrinum á United um daginn.
Wolves er ansi sérstakt lið og hefur átt mjög sveiflukennt tímabil, þótt það sé heilt yfir búið að vera gott hjá liðinu eins og 7. sæti í deild og undanúrslit í bikar gefa til kynna. Wolves hefur á þessu tímabili náð að sigra Chelsea, Tottenham, Liverpool og Manchester United auk þess að ná jafnteflum gegn Manchester City, Arsenal, Chelsea og Manchester United. En á móti hefur liðið á einhvern hátt náð að tapa báðum deildarleikjunum gegn Huddersfield (Huddersfield er með einn annan sigurleik á tímabilinu, í öllum keppnum, gegn Fulham) og tapaði gegn Huddersfield og Cardiff City í sömu vikunni. Í síðustu þremur leikjum náði Wolves jafntefli við Chelsea í deild, vann svo United í bikar áður en liðið steinlá gegn Burnley í síðasta deildarleik.
Það er einn leikmaður frá hjá Wolves í þessum leik, miðvörðurinn Ryan Bennett tekur út seinni leik sinn í leikbanni. Að öðru leyti getur Nuno Espírito Santo stillt upp sínu sterkasta liði. Sem er líklega eitthvað í þessa áttina:
Djöflarnir
Hinn nýbakaði faðir Victor Lindelöf missti af síðasta leik og munaði ansi mikið um það þegar kom að öryggi liðsins í varnarleiknum. Svíinn knái hefur sannarlega komið sterkur inn á þessu tímabili, sér í lagi eftir að Solskjær tók við, þótt hann hafi verið orðinn besti varnarmaður liðsins töluvert fyrir þann tíma. Solskjær gaf honum frí í síðasta leik, hann var ekki meiddur, og eru því góðar líkur á að hann snúi aftur í liðið í þessum leik. Sem er vel. Hann þarf að vera í toppformi í næstu viku þegar fyrri leikur 8-liða úrslita Meistaradeildarinnar verður spilaður. Say no more.
Anthony Martial tók eitthvað hnjask með sér úr sigrinum gegn Watford en ætti þó að vera klár í að spila þennan leik. Við gætum því mögulega séð byrjunarlið í þessa áttina:
Þó er spurning hvort Solskjær vilji frekar nota Lukaku eða hafi lært eitthvað af bikarleiknum sem kallar á breytingar frá liðinu hér að ofan. Miðað við hvernig Matic hefur verið að spila þá væri það langt í frá hræðileg tilhugsun að sjá Scott McTominay koma inn á miðjuna í staðinn fyrir Serbann. En við sjáum hvað verður. Í það minnsta þarf ekki að hugsa um að hvíla menn fyrir helgina því United á frí næstu helgi vegna leikja í enska bikarnum.
Bjarni Ellertsson says
Hef engar áhyggjur hver dæmir leikinn né hverjir eru meiddir heldur frekar hvort leikmenn ætla að mæta til leiks eða ekki. Það vantar nefnilega ekki stóru orðin eða sömu gömlu frasana eftir lélega leiki, „we will bounce back“, „we need to put things right“ ogsvo videre eða „the old buzz is back at united“ sem skv Gaal mætti þýða „gamla rútan mætt aftur“. Við aðdáendur erum ekki fífl, kannski sumir, þannig að ég vona að menn mæti til leiks, vinni helvítis leikinn og klári þetta tímabil af sæmd, „play for the badge“, enn ein gamla tuggan. Úlfarnir eru gott lið, erfiðir fyrir okkur og munum við rétt hanga/slefa í jafntefli því mér finnst eins og að allur vindur sé úr okkar mönnum eftir frábæran tíma síðan Ole tók við, þó við höldum áfram að vinna leiki en nú sé komið að skuldadögum og munum við fá á baukinn í næstu leikjum. Síðast þegar ég var svona neikvæður þá unnum við 4 í röð þannig að ég vonandi hef aftur rangt fyrir mér.
Get samt ekki beðið eftir því hverjir fara og hverjir koma og hvernig liðið mun koma út á völlinn næsta tímabil.
GGMU
Audunn says
United getur amk ekki farið inn í þennan leik og spilað eins og í þremur síðustu leikjum.
Spili liðið ekki vel og nær ekki ásættanlegum úrslitum þá þarf Ole að fara að svara erfiðum spurningum ásamt því að það verður strax komin bæði pressa á hann sem og Ed Woodward.
Það er hellingur af ósvöruðum spurningum sem tengjast ráðningu Ola Gunnar og best er að svara þeim inn á vellinum með góðum úrslitum.
Þetta ætti að vera mjög góður tími til að mæta Wolves. Þeir eiga einn stærsta leik sinn í áratugi framundan um helgina og eflaust eru þeir með hugann við þann leik.
Þeir hafa ekki að miklu að keppa og munu þar að leiðandi eflaust hvíla nokkra leikmenn.
Hvað varðar United þá hreinlega verða þeir að vinna þennan leik.
Ef Pogba og félagar mæta ekki til leiks í þessum leik þá þarf Ole Gunnar og félagar að fara í algjöra naflaskoðun á þessu liði frá a-ö.
Ég ætla rétt að vona að liðið verði í góðum gír í komandi leikjum, verður afskaplega súrt að mæta á Old Trafford I næstu viku og horfa á einhverja hörmung.
Þessi Wolves leikur er gífurlega mikilvægur varðandi framhaldið í komandi leikjum.