Þá er komið að sjöttu umferð ensku Úrvaldsdeildarinnar en hún hófst í gær þegar Southampton steinlá á heimavelli fyrir Bournemouth 3-1. United leikur hins vegar á sunnudeginum eftir Evrópudeildarleik í miðri viku. Rúnar Már Sigurjónsson og félagar í FC Astana mættu þá í Manchesterborg en þeim leik lauk með 1-0 sigri United.
Miðað við þann fjölda breytinga sem Ole Gunnar Solskjær gerði á liðinu og þau meiðslavandræði sem hafa verið hrjá United verður það að teljast þokkalegt og gaman að sjá leikmenn eins og Tahith Chong, Angel Gomes og Mason Greenwood fá tækifæri.
West Ham
Undir stjórn Manuel Pellegrini tókst Hömrunum að landa 10. sætinu með jafnmörg stig og Leicester City en í sumarglugganum fengu þeir til liðs við sig þá Sébastian Haller frá Eintract Frankfurt og Pablo Fornals frá Villareal. Haller er franskur framherji en hann er kominn með þrjú mörk í fjórum leikjum fyrir Hamrana og er markahæsti leikmaður þeirra. Fornals hefur ekki fengið eins mikinn spilatíma og aðallega komið inn af bekknum.
Þessi leiktíð fór ekki vel af stað en Lundúnarliðið steinlá fyrir ríkjandi meisturum í Manchester City 5-0 en síðan þá hefur leiðin legið upp á við. Í næsta leik gerði liðið 1-1 jafntefli við Brighton en eftir það tóku við 3 sigurleikir en í síðasta deildarleik gerði liðið markalaust jafntefli við nýliðina í Aston Villa. Liðið situr því í 9. sæti með sama stigafjölda og United en verri markatölu.
Pellegrini hefur notast við bæði 4-1-4-1 og 4-2-3-1 en ég tel líklegra að hann haldi sig við 4-1-4-1 með Haller einan upp á toppnum.
Mikil reynsla er í liði Hamranna með mönnum á borð við Mark Noble og Pablo Zabaleta en margra augu verða eflaust á Declan Rice, varnarsinnaða miðjumanninum sem hefur verið sterklega orðaður við Manchester United á undanförnum vikum.
Þrátt fyrir að vera einungis tvítugur hefur leikmaðurinn þegar spilað fimm leiki fyrir A-landslið Englands. Hins vegar virðist West Ham ekkert vera á þeim buxunum að selja hann og hafa skellt 90 millj. punda verðmiða á enska landsliðsmanninn.
United
Það er engum hulið að United á í meiðslavandræðum en Luke Shaw, Anthony Martial og Paul Pogba verða allir fjarri góðu gamni en Solskjær staðfesti það á fréttamannafundi fyrir leikinn. Þá er Daniel James líka tæpur en Solskjær hefur tekið þann pól í hæðina að vera ekki að taka neinar áhættur með leikmenn liðsins.
Þá má gera fastlega ráð fyrir því að Ole Gunnar geri margar breytingar frá Evrópudeildarleiknum enda stutt á milli leikjanna. Scott McTominay mun að öllum líkindum koma inn á miðjuna og þá líklega með Pereira og Fred sér við hlið.
Síðustu leikir liðanna á heimavelli West Ham hafa reynst United erfiðir en af síðustu fjórum hefur liðið tapað 2, unnið 1 og gert eitt jafntefli. Hins vegar hefur ekkert lið úr ensku Úrvalsdeildinni fengið á sig jafnmörg mörk í viðureignum gegn Manchester United eins og West Ham. Þá hefur United einungis tapað 2 af síðustu 21 viðureign liðanna og skorað í öllum þeim nema tveimur.
Heimamönnum hefur líka gengið afleitlega gegn stóru 6 og vonandi heldur það áfram á morgun en leikurinn hefst 13:00.
Skildu eftir svar