Þá er komið að leik sem verður að teljast einn allra erfiðasti leikur deildarinnar, hvert einasta tímabil. Erkifjendurnir í Liverpool mæta í leikhús draumanna núna á morgun en gengi þessara liða hefur verið mjög ólíkt það sem af er tímabils.
Á meðan Liverpool hefur vart stigið feilskref, glímt við fá meiðsl og meistaraheppni virðist hafa elt þá á röndum í sumum leikjum þá hefur United varla stígið rétt skref síðan í fyrstu umferð og hver mistökin og ólánin á eftir öðru virðist hrjá liðið.
Enn og aftur virðast meiðsli ætla að setja of stórt strik í reikninginn á leiktíðinni hjá United en Anthony Martial, Eric Bailly, Daniel James, Paul Pogba, Victor Lindelöf, Aaron wan-Bissaka, David de Gea, Phil Jones, Luke Shaw, Jesse Lingard og Timothy Fosu-Mensah hafa allir misst af leikjum vegna meiðsla og/eða veikinda það sem af er og virðist ekkert lát vera þar á.
Ole Gunnar Solskjær var mjög dulur í máli þegar hann var spurður á fréttamannafundi fyrir leikinn hvort einhverjir leikmenn af meiðslalistanum gætu átt möguleika á því að ná leiknum á morgun. Leikmenn eins og Martial, Shaw og Pogba hafa helst verið í umræðunni en þeir eru samt í besta falli tæpir og ekki leikmenn í heilan leik. Þá virðist á hreinu að Pogba þurfi meiri hvíld sem eru ekki góðar fréttir fyrir stuðningsmenn.
Þrátt fyrir afleitt gengi á þessari leiktíð og téð meiðslavandræði liðsins var Solskjær brattur fyrir leikinn og talaði um að þessi viðureign væri ávallt sú sem skapaði mesta umræðuna og væri beðið eftir með eftirvæntingu frá stuðningsmönnum beggja liða, burtséð frá stöðu og gengi í deild og öðrum keppnum.
Síðan Jurgen Klopp tók við Liverpool í október 2015 hefur hann unnið 3 leiki gegn United, 2 hafa tapast en jafntefli hefur orðið niðurstaðan í 5 viðureignum. Það má því fastlega gera ráð fyrir mikilli spennu og baráttu þegar liðin mætast í 9. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar.
Mótherjinn
Liverpool hefur eins og áður sagði varla stigið feilskref á þessu leiktímabili og situr nokkuð örugglega á toppi deildarinnar, höfundi til mikillar mæðu, með fullt hús stiga. Þeim hefur tekist að vinna sína leiki bæði örugglega og nokkuð áreynslulaust en svo hafa erfiðari leikir einnig unnist með dramatískum mörkum á lokamínútunum eins og leikurinn gegn Leicester í síðustu umferð þar sem Milner tryggði þeim stigin 3 úr vítaspyrnu í uppbótartíma.
Engu að síður, þá hafa þeir verið að skila sínu í hverjum leik þótt á köflum hafi fylgt ákveðin heppni en margir tala um að það sé einmitt það sem þarf þegar lið ætlar sér að verða deildarmeistari ofan á góða frammistöðu.
Liverpool hefur ekki verið laust við meiðsli en Alisson meiddist strax í upphafi tímabils en Adrían hefur fyllt hans skarð prýðisvel að undanskildum fáeinum mistökum. Alla jafnan hefur liðið vel ráðið við þau meiðsl sem upp hafa komið og greinilegt að breidd hóps og jafnvægi er með eindæmum gott hjá Klopp og hans mönnum.
Fyrir þennan leik eru leikmenn á borð við Mohammed Salah, Alisson Becker og Joel Matip tæpir en gætu þó allir náð leiknum.
Allir þessir leikmenn eru byrjaðir að æfa að fullu með liðinu og það er því alls kostar óvíst hvort þeir fái tækifæri í þessum leik eða komi síðar inn í liðið. Hins vegar ætla ég að gerast svo djarfur og spá því að Klopp spili sitt hefðbundna 4-3-3 kerfi með Firmino sem falskri níu og stilli mjög sterku liði til að freista þess að jafna met Manchester City (18 sigrar í röð í deildinni) en þá gæti liðið litið út svona:
Þeirra hættulegasti leikmaður, Sadio Mané, hefur farið hamförum á þessu tímabili og ljóst er að ef wan-Bissaka verður ekki með til þess að hafa gætur á honum mun vörn United standa höllum fæti stóran hluta leiksins.
United
Það skyldi engan undra að heyra það að leikmenn liðsins séu í sárum. Þetta var haft eftir Andreas Pereira á dögunum þar sem hann sagði leikmenn liðsins væru sjálfir mjög ósáttir við gengi liðsins og væru staðráðnir í að gera betur. Því kæmi þessi leikur við Liverpool á hárréttum tíma fyrir United þar sem góð úrslit gætu verið vendipunktur fyrir liðið.
Það verður þó hægara sagt en gert, Liverpool er um þessar mundir sterkasta liðið í deildinni og þótt þeir hafi ekki unnið United á heimavelli í deildinni í lengri tíma þá má fastlega gera ráð fyrir því að þeir ætli sér að blása til sóknar og hirða stigin þrjú.
David de Gea meiddist í landsleikjahléinu og Pogba þurfti að draga sig út úr franska landsliðshópnum og verða þeir ekki með á morgun. Því mun Sergio Romero verja rammann og miðjan okkar mun að öllum líkindum samanstanda af Nemanja Matic, Scott McTominay Juan Mata eða Fred en sá skoski er sá eini þeirra sem hefur átt nokkurt erindi inn í liðið.
Framlínan fær vonandi að njóta krafta Anthony Martial á ný en frakkinn hefur misst af síðustu átta leikjum liðsins eftir tognun. Mikið hefur verið rætt um að United hefði þurft að kaupa framherja til að leysa af hólmi Lukaku eftir að sá belgíski fór til Inter en liðið hefur ekki skorað meira en 1 mark í leik síðan í fyrstu umferðinni (þetta á líka við um í öðrum keppnum!).
Vonandi nær þó Ole Gunnar að skafa liðið upp úr þessu svartnætti sem einkennt hefur okkar menn á síðustu vikum og nái að undirbúa liðið fyrir þessi átök því deildarleikirnir verða eflaust ekki mikið stærri en þessi, hvort sem er fyrir leikmenn eða stuðningsmenn.
Fari svo að liðið tapi mun Liverpool halda fullkominni sigurgöngu sinni áfram og vera með 27 stig, á meðan United myndi sitja í 15. sæti eða neðar og vera nálægt fallsæti fyrir 10. umferðina.
Þá fengi Liverpool líka færi á að bæta met City með því að vinna næsta deildarleik og ef þetta er ekki nóg til þess að hvetja leikmenn liðsins til að leggja sig 110% fram á morgun þá er allt eins hægt að pakka í töskur fyrir þá og senda þá alla til Ítalíu.
Með sigri gæti liðið hins vegar lyft sér upp í efri hluta deildarinnar á ný og komist upp fyrir Tottenham og West Ham (athugið að þegar þetta er skrifað er Tottenham að tapa sínum leik og WHUFC tapaði fyrr í dag) og verið einungis 3-4 stigum frá 4. sætinu.
Öll von er því ekki úti ennþá en það verður að segjast eins og er að United hefur fengið auðveldari leiki en þennan og tekist að klúðra því.
Leikurinn verður mikil prófsteinn fyrir þá leikmenn sem ganga út á Old Trafford á morgun kl 15:30 en dómari leiksins er Martin Atkinson.
Auðunn says
Hef enga trú á þessu verkefni og spái því að leikurinn endi 0-2 og það kæmi mér ekki á óvart að í framhaldinu verði Ole Gunnar látinn taka pokann sinn enda virðist hann engan veginn ráða við þetta starf.
Að sjálfsögðu vonar maður að United komist í gang og þessi leikur ætti að öllu eðlilegu að vera drauma tækifærið fyrir leikmenn United til að sanna sig og sanna fyrir stuðningsmönnum að þeir hafi trú á þessu verkefni undir Solskjær.
Held bara að svo sé ekki sem og eru allt of margir leikmenn United ekki með nægileg gæði til að vinna þennan leik.
Annað er að taktík Ole Gunnar er svo tilviljunarkennd að ég hef því miður enga trú á þessu.
Erlingur says
Muni Fred spila vinnst þessi leikur
Oddinn says
Liverpool maður hér.
Fyrst af öllu þá tel ég Klopp ekki fá betra færi á Trafford. Verð ósáttur með allt annað en 3 stig.
Hinsvegar þá hefur sagan kennt okkur það að þessi leikir eru 50/50
enda man ég eftir mörgum leikjum sem LFC vann United þegar himinn og haf voru milli liðanna þá United í hag.
LFC hafa verið “heppnir” oft í haust, meistaraheppni segja sumir en allar sigurgöngur taka enda og spái ég þessum leik 1-1
Sendi ykkur kveðjur en vorkenni ykkur ekki neitt þartil félagið ræður Roy Hodgson sem stjóra – þá sjáið þið krísu. Vona samt svo innilega að i náinni framtíð þá bítist þessir klúbbar um titilinn í æsispennandi “title race”
Ekkert skemmtilegra en kljást við erkifjendurna.