Eftir annars ágætis landsleikjahlé er röðin komin að ensku Úrvalsdeildinni á nýjan leik. 13. umferð tímabilsins er að hefjast og að þessu sinni ferðast Rauðu djöflarnir til Bramall Lane þar sem nýliðarnir í Sheffield United taka á móti okkur.
Sheffield situr öllum að óvörum í fimmta sæti deildarinnar eftir tólf umferðir og er stigi á undan Manchester United með 17 stig, jafnmörg og Arsenal en með betri markatölu. Sá fótboltaspekingur sem hefði haldið því fram að á þessum tímapunkti í deildinni væri Sheffield United fyrir ofan bæði okkur og Arsenal hefði eflaust verið talinn búinn að missa vitið.
Fyrir yfirstandandi tímabil voru sparkspekingar og áhugamenn hreint ekki sammála um neitt annað en að baráttan um titilinn yrði aftur á milli Manchester City og Liverpool… og að Sheffield United væri að fara beinustu leið niður í Championshipdeildinna og gætu þess vegna verið fallnir í mars. Sú er þó aldeilis ekki raunin og Chris Wilder, stjóri liðsins, hefur stungið fýlusokk rækilega á kaf ofan í vélindað á þessum fyrrnefndu spámönnum.
Sheffield United
Fótboltaklúbburinn Sheffield United var stofnaður árið 1889 sem afsprengi af krikketliði í Sheffield og hefur spilað á heimavellinum, Bramall Lane, alla tíð síðan. Liðið er fyrsta fótboltalið Englands sem notaðist við United í nafninu en liðið varð til fyrir ákveðna slembilukku í raun og veru. Sheffield Wednesday spiluðu á Bramall Lane en vegna þrætumáls um miðaverð og annað slíkt fluttust þeir á nýjan heimavöll og eftir stóð auður völlur.
Því var liðið sett á laggirnar og fljótlega fékk liðið viðurnefnið ‘the Blades’ sem vísar til þess að Sheffield var á þessum tíma helst þekkt fyrir framleiðslu hnífapara og annars borðbúnaðar á Englandi. Liðið var ekki lengi að koma sér í fremstu röð en blómaskeið liðsins hófst einungis 7 árum eftir að liðið var stofnað. Frá árunum 1895-1925 tókst liðinu að verða Englandsmeistarar í eitt skipti, enda í öðru sæti tvisvar og vinna FA-bikarinn í fjórgang. Síðan 1925 hefur hins vegar liðið ekki unnið bikar.
Árið 2010 keypti hins vegar Abdullah bin Musa’ad bin Abdulaziz Al Saud hlut í liðinu en prinsinn frá Sádí Arabíu keypti 50% í félaginu á £1 (um það bil 160 kr) og lofaði að færa félaginu aukið fjármagn í þeirri von um að koma liðinu aftur í Úrvalsdeildina og hefja nýtt blómaskeið en liðið var þá statt í C-deildinni (League One).
Reyndar tókst liðinu að komast í undanúrslit deildarbikarsins og fjórðungsúrslit FA-bikarsins árið 2014-15 en mistókst að komast í Championship deildina. Árið 2016 fékk hann svo Chris Wilder til að taka við þjálfun liðsins árið 2016. Wilder náði einungis 1 jafntefli úr fjórum fyrstu leikjunum sínum en eftir það fór liðið á flug og endaði með 100 stig og komst í B-deildina.
Þar stoppaði liðið stutt, endaði fyrsta tímabil sitt í 10. sæti eftir að hafa daðrað við sæti í umspilinu framan af á tímabilinu. En árið eftir, á 130 afmæli liðsins, tókst Wilder að koma liðinu í efstu deild á nýjan leik. Wilder er uppalinn stuðningsmaður Sheffield United og kemur úr akademíu liðsins en hann spilaði með aðalliðinu frá 1986-1992 og aftur tímabilið 1998-1999.
Wilder gerði Billy Sharp, annan uppalinn, gallharðan Sheffield mann, að fyrirliða liðsins og var duglegur að nota uppalda leikmenn og fá leikmenn á frjálsri sölu. Wilder hefur notast við mestmegnis sömu leikmennina síðan hann tók við og ekkert verið að kaupa erlenda leikmenn fyrir gríðarlegar upphæðir og fyrir vikið er liðið eins breskt eins og hugsast getur, langflestir leikmenn liðsins eru frá Bretlandseyjum.
Vegna þess hve snögglega liðið vann sig upp um tvær deildir, hafa til þessa margir sparkspekingar spáð liðinu þráðbeint niður í-deildina í vor. Það hefur því komið mönnum vægast sagt í opna skjöldu hve stöðugir og flottir lærisveinar Wilder hafa verið það sem af er.
Þessari velgengi Sheffield United undir stjórn Wilder er að miklu leyti tilkomin fyrir leikkerfið sem liðið spilar. Liðið stillir upp í 3-4-1-2 en það sem er áhugaverðast við kerfið er það þegar liðið er í sókn, þar sem einungis einn vængbakvörður/kantmaður er sitthvoru megin á vellinum, er það hlutverk miðvarðanna að koma í ‘overlap‘ og taka þátt í sókninni.
Þá einkennir leik liðsins flæði leikmanna, þeir eru ekki kyrfilega fasti í einni stöðu allan leikinn heldur eru duglegir að skipta um stöður sem veldur andstæðingnum oftar en ekki vandræðum. Þannig geta miðverðir færst inn á miðjuna eða út á kant, meðan miðjumaður dettur í miðvarðarstöðu, framherji inn á miðju og svo koll af kolli.
Fyrir áhugasama þá má finna hér stutt myndband sem útskýrir kerfið í þaula.
Þetta hefur valdið liðum og þjálfurum hugarangri en margir töldu að stóru liðin í deildinni myndu ekki eiga í stökustuvandræðum með þetta en raunin varð önnur. Sheffield hefur náð góðum úrslitum en þeir hafa meðal annars unnið Everton, Southampton, Burnley og Arsenal og gert jafntefli við Tottenham, Chelsea og West Ham.
Liverpool verða að teljast heppnir að hafa sigrað Wilder og hans lærisveina þar sem klaufaleg markmannsmistök urðu til þess að boltinn lak í netið og skilaði Liverpool 3 stigum. Virkilega grátlegt þar sem Liverpool hafði ekki átt skot á markið í fyrri hálfleik og Sheffield United voru búnir að vera líklegir.
Þegar kemur að liðsmönnum Sheffield United eru kannski ekki mörg nöfn sem hinn hefðbundni stuðningsmaður Rauðu djöflanna ætti að þekkja. Þó er vert að minnast á það að Harry Maguire er uppalinn hjá Sheffield United og var þar til 2014 en skipti þá yfir til Hull City. Það verður áhugavert að sjá hvernig móttökur enski landsliðsmaðurinn fær á sunnudagseftirmiðdaginn á Bramall Lane.
Helsta stjarna Sheffield manna á yfirstandandi tímabili er hins vegar án efa John Lundstram en þessi 25 ára gamli englendingur er kominn með 3 mörk og eina stoðsendingu en hann spilar sem varnartengiliður eða varnarsinnaður miðjumaður.
Hann barðist við að komast inn í liðið á síðustu leiktíð og reiknuðu eflaust ekki margir með því að honum tækist það eftir að liðið komst upp. Hins vegar hefur hann stigið tvö, ef ekki þrjú skref upp á við og er orðinn ómissandi hluti af þessu skemmtilega liði.
Þá er aðalmarkmaður liðsins, Dean Henderson (Deano), sem spilað hefur alla leiki liðsins á tímabilinu, á láni frá Manchester United og má hann því ekki spila gegn United. Synd fyrir Sheffield þar sem Henderson hefur staðið sig frábærlega, að undanskildu mistökunum í leiknum gegn Liverpool. Því búast sumir við því að Michael Verrips verði í rammanum á sunnudaginn kemur.
Það kann þó að vera í hættu, þar sem KV Mechelen, belgíska liðið sem Verrips var á mála hjá áður, hefur kvartað til FIFA vegna félagaskipta Hollendingsins, en hann dæmdi samning sinn við liðið dauðan og ógildan.
Það var vegna þess að KV Mechelen var kippt út úr Evrópudeildinni vegna gruns um hagræðingu úrslita og stendur rannsóknin enn yfir. Haft hefur verið eftir fólki úr herbúðum Sheffield United að Verrips muni ekki spila á meðan rannsókninni er ólokið.
Því gæti það komið í hlut Simon Moore að verja búrið en hann hefur gert það í öðrum keppnum. Moore á, þrátt fyrir að vera að detta í þrítugt, einungis að baki 92 leiki en hann hefur verið á mála hjá liðum á borð við Brentford, Cardiff og Bristol City.
Miðverðir liðsins, Jack O’Connell, John Egan og Chris Basham sjá um að hlífa markverðinum sem mest en vanalega er Egan akkerið á meðan O’Connell og Basham taka meira þátt í sókninni. Allir þessir leikmenn hafa spilað yfir 1000 mínútur það sem af er og munu að öllu óbreyttu mynda öftustu línu varnarinnar núna á sunnudaginn.
Ásamt Lundstram þá er markahæsti maður SUFC Frakki að nafni Lys Mousset en hann ásamt David McGoldrick leiða að öllum líkindum framlínu liðsins eins og í síðustu tveimur leikjum. Liðið mun verða eitthvað á þessa leið:
Manchester United
Loksins eftir að United virtist vera að finna þráðinn að nýju og smá vonarglæta skein úr augum bjartsýnustu stuðningsmanna liðsins var okkur kippt rækilega niður á jörðina við dapurt 1-0 tap gegn Eddie Howe og hans mönnum í Bournemouth í þar síðustu umferð. Þó verður að segjast eins og er að síðan að Anthony Martial kom til baka úr meiðslum hefur liðið verið mun hættulegra fram á við og loksins erum við farnir að skora meira en eitt mark í leik á nýjan leik.
Eftir frábæran leik í Carabao bikarnum þar sem Marcus Rashford sló út lærisveina Frank Lampards á Stamford Bridge með ólöglega fallegri aukaspyrnu og tvo sterka sigra gegn Partizan Belgrad stendur United vel að vígi í öðrum keppnum.
En enska Úrvalsdeildin er mál málanna og þar hafa flest öll stig reynst okkar mönnum torsótt og það er eiginlega ekki liðinu að þakka að við sitjum í 7. sæti með 16 stig heldur öllum hinum liðunum sem hafa sammælst um það að vera ekkert að safna of mikið af stigum í ár.
Næstu tveir leikir eru gegn nýliðum, Sheffield United og Aston Villa, en slíkir leikir verða að skila 3 stigum í hús ef liðið ætlar sér að gera raunverulega og raunhæfa atlögu að Meistaradeildarsæti. Eftir nýliðaviðureignirnar er það nefnilega enginn annar en José Mourinho sem snýr aftur á Old Trafford eftir að hann tók við stjórnartaumunum hjá Tottenham Hotspur núna á miðvikudaginn.
Enn og aftur er United í miklu basli hvað varðar meiðsl á leikmönnum, nú síðast meiddist Scott McTominay sem hefur án efa verið einn okkar allra besti maður það sem af er. Hann bætist á lista með mönnum eins og Axel Tuanzebe, Diogo Dalot, Eric Bailly, Nemanja Matic, Paul Pogba, Timothy Fosu-Mensah og Luke Shaw.
Sem betur fer hafa þeir leikmenn sem United hefur leitað til stigið upp og tekist á við áskorunina af krafti. Fred hefur komið öllum á óvart og er loksins farinn að sýna hvers hann er megnugur. Brandon Williams hefur leikið eins og engill þegar hann hefur fengið tækifærið í fjarveru Ashley Young og Luke Shaw. Þá hefur framlínan okkar sjaldan verið jafn spræk og Daniel James virðist smellpassa inn þar, öllum að óvöru.
Hins vegar er áhyggjuefni að með Pogba, McTominay, Matic og Gomes á meiðslalistanum lítur út fyrir að miðjan okkar verður Fred, Juan Mata og James Garner á sunnudaginn. Það verður að segjast eins og er að líkamlegt atgervi verður ekki eins og best verður á kosið á miðsvæðinu á sunnudaginn, érstaklega í ljósi þess hversu harður þessi leikur gæti orðið. Sheffield United spilar bolta af gamla skólanum, þeir gefa lítið sem ekkert eftir og eru ekki hræddir við að fleygja sér í tæklingar og spila nánast alla leiki eins og um bikarúrslitaleik væri að ræða.
Manchester United hefur þó reyndar gengið mjög vel gegn Sheffield United en síðan að United tapaði 2-1 í fyrsta leik þessara liða í Úrvalsdeildinni (þar sem fyrsta mark deildarinnar var skorað) hefur United unnið alla deildarleiki þessara liða og unnið síðustu 7 viðureignir þessara liða í öllum keppnum með markatöluna 14-1.
Aftur á móti hefur United verið að skapa sér þá hefð undanfarið að eiga í basli með nýliða, töpuðum eftirminnilega fyrir öllum nýliðum deildarinnar í fyrra og þá er ekki að hjálpa heldur sú tölfræði að United hefur ekki unnið nema einn leik af síðustu tíu útileikjum í deildinni. Þegar kemur að hugsanlegri liðsuppstillingu þá verður fróðlegt að sjá hverjum Ole Gunnar Solskjær treystir í þetta verkefni, í fjarveru lykilleikmanna.
Leikurinn verður því án efa mjög erfiður en Sheffield United eru þekktir fyrir að vera harðir í horn að taka en heimamenn hafa ekki tapað í síðustu fimm leikjum sínum í deildinni. Leikurinn fer fram eins og áður sagði á Bramall Lane en völlurinn rúmar 32,125 manns. Dómari leiksins verður Andre Marriner og verður leikurinn flautaður á kl 16:30 á sunnudaginn.
Audunn says
Verður virkilega erfiður leikur og ennþá erfiðari vegna meiðsla margra leikmanna Manchester United.
Veit ekki, er ekkert sérstaklega bjartsýnn en við verðum að vinna þennan leik….
Ætti Manchester United að nýta sér það að pochettino sé á lausu og skipta um stjóra tapist þessi leikur gegn Sheffield United?
Hvað finnst ykkur um það?
gummi says
Við erum eftir sjá eftir því ef við gerum það ekki Solskjær er bara alls ekki nógu góður
Björn Friðgeir says
Tek Solskjær framyfir eins og staðan er og vil sjá hann fá að kaupa menn í janúar.
Sigur á morgun og við förum í fimmta sætið!
Audunn says
Erum 10 stigum á eftir Chelsea og 13 stigum á eftir Leicester.
Ætli United sér að verða inn á topp fjögur þarf liðið að ná þessum liðum, amk öðru þeirra.
Svo er alveg pottþétt að Mourinho á eftir að brillera með Spurs. Ég þori að veðja um það, það er svo týpískt að það er ekki fyndið.
Þannig að það má ekkert klikka hjá Manchester United.. nákvæmlega ekkert. Liðið verður að komast í gang og það núna strax.
En ég skil vel að það séu ekki allir til í að skipta Ole Gunnar út fyrir Pochettino núna.
Það er bara alls alls ekkert víst að það myndi virka, þannig að maður veit ekki.
En tapi Manchester United fyrir Sheffield United á morgun er útlitið orðið ansi dökkt.
Þá erum við búnir að tapa fleiri leikjum en við höfðum unnið sem er hræðilegt á þessum tímapunkti og ekki stuðningsmönnum bjóðandi.
Ég held að þá verði að gera einhverjar breytingar til að bjarga því sem hægt er að bjarga.
Fimm töp í deildinni fyrir desember er ekki vænlegt til árangurs og eitthvað sem ekki er hægt að verja með neinum hætti. Liðið er þá klárlega að taka skref afturábak.
Björn Friðgeir says
Ekki hægt að vera ósammála þessu. En ég hef vonir til að þetta sé á uppleið.