Þrjúhundruð og fimmtíu dögum eftir að José Mourinho var rekinn úr starfi sínu sem stjóri Manchester United, stígur hann aftur inn á Old Trafford en í þetta sinn sem arftaki þess stjóra sem margir töldu að yrði hans arftaki hjá United, Mauricio Pocchettino, sem varð þó ekki raunin.
Þess í stað tók norðmaðurinn knái, Ole Gunnar Solskjær, við liðinu eins og frægt er orðið en eftir frábæra byrjun þess norska hefur verulega tekið að halla undan fæti hvað varðar úrslit og spilamennsku.
Það er kómísk íronía að hugsa til þess en Mourinho gæti orðið þess valdandi að Solskjær verði atvinnulaus, a.m.k. ef marka má nokkra sparkspekinga. Þó verður að teljast hæpið að sú verði raunin en sætið hans Solskjær er orðið verulega heitt.
Liðinu hefur lítið sem ekkert gengið á þessari leiktíð í deildinni, spilamennska liðsins verið döpur og sífellt ný meiðsli litið dagsins ljós sem er þó engan veginn nægjanleg afsökun. Ekki hjálpaði það svo að Pocchettino varð skyndilega atvinnulaus.
Síðustu leikir liðsins hafa verið vonbrigði svo ekki verði meira sagt. Jafntefli við spræka nýliða, tvo leiki í röð, er einfaldlega langt frá því að vera nógu gott en það sorglegasta er að United átti ekki skilið meira en það.
Í fjarveru Scott McTominay og Paul Pogba er miðjan okkar gjörsamlega heillum horfin og virðist ekki ráða við að spila í Úrvalsdeildinni. Juan Mata hvarf í leiknum gegn Aston Villa, Perreira hefur lagt sig fram við að vera arfaslakur í vetur og Fred á leiki inn á milli sem gefa manni von um að eitthvað geti ræst úr honum en sú von stendur á brauðfótum.
Mótherjinn
Á meðan United vélin hökktir og skröltir hafa fleiri af stóru liðunum gert það einnig. Eftir að fara í gegnum tvo leikmannaskiptaglugga án þess að versla neina leikmenn tókst Pocchettino að koma Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili en síðan þá hefur liðið nánast verið í frjálsu falli og núna í síðasta mánuði var sá argentíski rekinn.
José Mourinho tók við keflinu en hann hefur nú stýrt liðinu í þremur sigurleikjum í röð. Fyrst sigraði liðið West Ham á útivelli 3-2, síðan kom 4-2 sigur gegn Olympiacos í Meistaradeildinni og að lokum 3-2 heimasigur gegn Bournemouth í deildinni.
Þó að Mourinho sé vissulega búinn að skila inn fullu húsi stiga þá hefur liðið ekki verið mjög stöðugt varnarlega séð og síðan sá portúgalski tók við hefur liðið sótt boltann úr netinu í tvígang í öllum leikjum. Hins vegar fram á við hefur liðið spila gríðarlega áhrifaríkan fótbolta og þar liggur munurinn á liðunum einna helst.
Son Heung-Min hefur verið þeirra allra besti leikmaður það sem af er en nýja mulningsvélin á miðjunni, Tanguy Ndombele, sem var orðaður við United áður en hann hélt til Lundúna, hefur verið fljótur að aðlagast ensku deildinni.
Þá hefur Dele Alli verið að detta í gang á undanförnum vikum og Harry Kane heldur áfram að raða inn mörkum eins og hann fái vel borgað fyrir það.
Mourinho hefur verið að stilla upp í 4-2-3-1 með Eric Dier og Harry Winks fyrir framan vörnina. Reyndar brá hann á það ráð að kippa Eric Dier útaf í leiknum gegn Olympiacos eftir að Lundúnarliðið lenti 0-2 undir á heimavelli. En annars má gera ráð fyrir að liðið verði eithtvað á þá leið:
United
Það er erfitt að finna marga jákvæða hluti við liðið einsog það er í dag en fyrir tímabilið var vitað mál að tímabilið yrði í besta falli barningur. Liðið styrkti þrjár bráðnauðsynlegar stöður á vellinum en skildi eftir stórt skarð á miðjunni sem hefur skilað sér í döprum og illa skipulögðum sóknarleik og þá hefur vörninni okkar ekki verið hlíft sem skyldi.
Fyrir vikið situr Manchester United í 9. sæti deildarinnar langt á eftir efstu liðum. Hins vegar eru ekki nema 5 stig sem skilja að 5. sætið og 14. sætið. En United hefur hins vegar ekki náð stöðugleika og fært sér það í nyt þegar önnur lið hafa misstigið sig eins og núna um helgina.
Ole Gunnar Solskjær blés nýverið á sögusagnir þess efnis að hann væri við það að fá sparkið heldur stæði stjórn United enn við bakið á honum. Hann lét líka hafa eftir sér á sama tíma að Paul Pogba yrði ekki leikfær fyrir leikinn en hins vegar má gera ráð fyrir að Scott McTominay nái leiknum sem verða að teljast góðar fréttir enda hefur sá skoski verið einn mikilvægasti leikmaðurinn okkar.
Nemanja Matic er líka að ná sér eftir meiðsli og miðað við frammistöðu miðjunnar okkar gæti serbinn verið skárri kostur en sumir sem hafa verið að spila undanfarið.
Vörnin verður líklegast með hefðbundnu sniði og þá mun David de Gea líklegast vera í búrinu. Fram á við er svipaða sögu að segja, flestar stöður velja sig sjálfar en verður áhugavert að sjá hvort Mason Greenwood fái fleiri mínútur en hann kom inn á í Sheffield United leiknum með kraft í liðið. Annars spái ég fyrir liðinu þannig:
Það er óhætt að segja að þessi viðureign verði áhugaverð að mörgu leyti. José Mourinho snýr aftur í fyrsta sinn á Old Trafford síðan hann var rekinn en það verður að viðurkennast að það er ákveðinn sigur fyrir áhugamenn ensku Úrvalsdeildarinnar að sá portúgalski sé að stýra liði í deildinni.
Á síðasta tímabili vann útiliðið í báðum þessum viðureignum en ekkert lið hefur tapað jafn oft gegn United í Úrvalsdeildinni frá stofnun hennar. Samt hafa Spurs unnið þrjá af síðustu sjö viðureignum á Old Trafford.
Með sigri gæti United skotist upp í 5. sæti deildarinnar, upp fyrir Arsenal, Wolves, Sheffield United og auðvitað Tottenham. En miðað við gengi liðsins á þessari leiktíð og undir lok þeirrar síðustu verður að teljast líklegra að United kasti því tækifæri frá sér en hver veit?
Leikurinn er kl 19:30 og dómari leiksins verður Paul Tierney.
Bjarni says
Ætla að spá því blákalt að við verðum kjöldregnir í þessum leik. Er staddur í Manchester en sem betur fer á heimleið, sá síðustu hörmung og mun örugglega horfa á þennan leik í settinu heima. Hollingin á liðinu okkar er ömurleg frá aftasta til fremsta manns frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu. Það sem einkenndi síðasta leik úr stúkunni séð var, leti, hræðsla, baráttuleysi og klaufaháttur í bland við stirðbusahátt í meðferð bolta. Nær allir sem tóku þátt sýndu eitthvað af þessum einkennum, sumir meira en aðrir. Skömm var sjá og er þetta versta holling af liði sem ég hef séð á Gömlu tröð í langan tíma. Þeir vita upp á sig skömmina því við fjölskyldan biðum í rúman klukkutíma eftir leikmönnum ásamt hundruðum aðdáenda. Loks stauluðust þeir út einn af öðrum, flestir huldu andlit sín og gáfu sig hvorki að áðdáendum né veifuðu til okkar. Strunsuðu út í bílana og meira að segja Martial hljóp í bílinn sinn, hraðar enn hann gerði í leiknum. Einu sem nýttu sér sviðsljósið voru nýliðarnir, ungliðar og gamlar kempur (Rio klikkar ekki á svona smáatriðum) aðrir voru merkilegheitin uppmáluð. En hvort leikmenn hafi verið svona fókuseraðir á næsta leik er ekki gott að segja, ég kaupi það ekki fyrr en ég sé þá taka á því. Kjöldregnir eða slefum í jafntefli, önnur úrslit sé ég ekki í kristalkúlunni.