Ole Gunnar Solskjær gerði tvær breytingar á liðinu sem vann Tottenham á miðvikudaginn. Luke Shaw kemur til baka úr meiðslum og tekur sæti Ashley Young sem Ole sagði of gamlan til að þola tvo leiki á fjórum dögum. Anthony Martial var sömuleiðis orðinn góður af skammvinnum meiðslum.
Varamenn: Romero, Tuanzebe, Williams, Young, Andreas, Mata, Greenwood
Lið City:
Strax á annarri mínútu byrjaði fjörið, Daniel James var í góðu skotfæri við teiginn en Ederson varði helst til auðveldlega og City brunaði upp og á endanum var skot Kevin De Bruyne blokkað.
Það var annars vitað fyrir leikinn að það yrði ekki boðið upp á neitt annað en að City yrði með boltann þorra leiksins og fljótlega var megnið af leikmönnum United komið inn í teig. Ef United fékk boltann var síðan keyrt í sókn og reynt að taka City á hraðanum.. Það tókst næstum því stundum og fyrstu fimmtán mínúturnar voru ansi fjörugar þó að sóknir United enduðu yfirleitt í teignum en City náði að koma boltanum að marki þó þeir teldust ekki ná skoti á mark enda var vörn United fjölmenn og jafnvel í markteignum.
Það var samt Ederson sem þurfti að verja vel á 16. mínútu, góð sókn United þegar Rashford gaf út á James sem sótti upp og gaf svo til baka á Martial. Ederson varði skotið ágætlega.
Rashford var sparkaður niður í teignum, Bernardo Silva keyrði inn í hann, dómarinn dæmdi ekki og City fór í sókn. hún rann út í sandinn og varsjáin var kölluð til og dæmdi að sjálfsögðu víti!
Marcus Rashford tók vítið sjálfur og gerði engin mistök, sendi Ederson í vitlaust horn og renndi boltanum í hitt. 1-0 fyrir United á 23. mínútu og sanngjörn forysta eftir góðan leik. Rétt á eftir fékk hann ágætis færi til að bæta við, enn á ný kom sókn upp hægra megin og sending Martial á Rashford á auðum sjó í teignum vinstra megin en Rashford setti boltann framhjá bær og hefði átt að gera betur. Ekki tveimur mínútum eftir það var United enn í sókn, James upp hægra megin og gaf fyrir, Rashford var á vítateigslínunni og reyndi að sveigja boltann yfir vörnina með innanfótarskoti en boltinn small í slánni.
En það þurfti ekki að hafa áhyggjur af því því að á 29. mínútu kom enn ein sóknin, samspil Martial og James endaði á að Martial fékk boltann á hægri fótinn inn í teig, setti hann yfir á vinstri og tók þannig út varnarmann, sveiflaði síðan vinstri fætinum og skoraði alveg úti við stöng. Ekki fastasta skotið en Ederson var greinilega óviðbúinn.
Frábær fyrsti hálftími frá United en þarna fór City aðeins að vakna og pressa meira. David Silva skaut föstu skoti utan teigs, beint á De Gea og United var komið í pakkavörnina. Þetta var samt fyrsta skot City á mark en United hafði átt fimm þegar þarna var komið sögu. City fékk svo prýðilegt færi þegar De Bruyne gaf fallega inn á teiginn og Gabriel Jesús skutlaði sér fram en skallaði framhjá fjærstönginni. Rétt á eftir skaut De Bruyne yfir úr aukaspyrnu utarlega vinstra megin. Pressan var orðin ansi mikil og aukaspyrna utan teigs hefði getað verið hættuleg en skot David Silva var það laust að De Gea gat hreinlega hlaupið til og gripið boltann.
United hafði tvisvar sloppið við víti í hálfleiknum, fyrst þegar tækling McTominay fór í brjóst hans en ekki hönd, og síðan þegar boltinn fór af mjöðm Lindelöf í hendi hans án þess að hann fengi við ráðið og í blálok hálfleiksins komst City upp að endamörkum, gaf fyrir og Fred kom í skriðtæklinguna til að bjarga og boltinn fór í hendina á honum en varsjá komst að því að hann hefði ekkert getað að því gert og ekkert var dæmt.
United hélt þannig út þessa pressu City og fór inn í hálfleik með verðskuldaða forystu eftir einhvern besta hálftíma sem sést hefur frá liðinu síðustu ár jafnvel.
City kom út í nákvæmlega sama gírnum og pressaði frá byrjun. United náði ekki að koma sér upp hraðaupphlaupum, hvað þá heldur að halda boltanum á miðjunni og De Gea fékk gult fyrir að tefja. United var síðan í afspyrnu vandræðum að hreinsa á 55. mínútu, hvorki Wan-Bissaka né Fred náðu því og það endaði á sendingu á De Bruyne. Hann var frír í teignum en Victor Lindelöf náði á frábæran hátt að koma sér fyrir skotið.
Í fágætu hraðaupphlaupi sparkaði Kyle Walker Lingard niður en fékk ekki spjald frá Anthony Taylor sem hafði verið slakur. Fyrir utan að þurfa VAR fyrir vítið hafði hann sleppt Fernandinho við spjald fyrir groddalega tæklingu á James í einu hraðaupphlaupinu í fyrri hálfleik þegar hann lét leikinn réttilega halda áfram.
Um þetta leyti tognaði John Stones og Nicolás Otamendi kom inná, miðvörður fyrir miðvörð þar.
Lindelöf hafði verið góður en hann gerði herfileg mistök þegar hann hreinlega gaf á Sterling, Sterling tók frábært hlaup inn í teig en á síðustu stundu náði Wan-Bissaka að koma tá í boltann og senda hann í horn. City pressaði og pressaði og United var í nauðvörn hvað eftir annað. Önnur breyting Pep var að senda Riyad Mahrez inná fyrir Bernardo Silva, engin breyting á taktík þar, enda varla þörf á.
Loksins fékk United tækifæri fjórir á fjóra en það var Lingard sem fékk boltann utarlega og Angelino gerði vel að stöðva hann og United fékk fyrsta hornið í leiknum á móti tíu slíkum frá City.
Í horninu fékk Fred flösku í bakið og leikurinn var stöðvaður í smá tíma. Úr horninu varð síðan ekkert. Hinu megin reyndi Raheem Sterling að fiska víti þegar Maguire var nálægt honum en VAR sá auðveldlega við svoleiðis vitleysu.
Þetta var farið að verða erfiðara og erfiðara, United með níu manns inn í teig og voru í björgunarstörfum hvað eftir annað. Ráð Solskjær við því var að senda Andreas Pereira, hann gerði ágætlega í sókn um leið og hann kom inná og þegar það brotnaði niður tók hann Sterling niður á vallarhelmingi City. Gult þar og var kannske alveg nógu hættulegt til að grípa til örþrifaráða.
Wan-Bissaka getur líka rennt sér fyrir skot og tók eitt þannig til að stöðva skot frá De Bruyne, úr varð horn og svo annað horn og Maguire skallaði beint á Jesús en hann náði ekki að skjóta. Heppni þar.
City menn voru farnir að verða verulega pirraðir og skyldi engan undra og Kevin De Bruyne fékk gult fyrir asnaspark í McTominay í fágætri sókn United. Jesús hefði átt að fá slíkt líka fyrir að sparka í McTominay rétt á eftir langt inni á vallarhelmingi United.
Jesse Lingard var orðinn fremsti maður þá sjaldan United sótti og hann náði að setja fótinn í fína sendingu Pereira innfyrir en ekki alveg nógu vel og boltinn beint á Ederson.
Það er erfitt að segja „það hlaut að koma að því“ en á 85. mínútu kom 15. horn City og Otamendi rústaði Maguire og Lindelöf í loftinu og Etihad vaknaði. City setti allt í gang og David de Gea þurfti að verja hörkuskot Mahrez rétt á eftir. Frábær varsla.
Ole gerði tvöfalda varnarskiptingu á 88. mínútu. Luke Shaw var með krampa og fór útaf og Ashley Young kom inná. Þáttur Jesse Lingard sem framherja var líka lokið og Axel Tuanzebe kom inná og skipt var í þriggja manna vörn síðustu mínúturnar. Það var heilum fimm mínútum bætt við og þegar United fór í sókn og vann horn fóru Fred og Andreas í að tefja, unnu reyndar annað horn en síðan var það búið og City tók við. Á síðustu mínútu var svakalegur darraðardans í teig United en vörnin náði enn á ný að stöðva City og sigur í svakalegum leik staðreynd.
Þetta var svo sannarlega tvískiptur leikur. Fyrsti hálftíminn sem fyrr segir sá besti í mörg ár, frábærar sóknir þar sem fremstu fjórir menn tættu í sig vörnina hjá City hvað eftir annað og liðið hefði getað skorað 3 í viðbót, meira að segja Lingard var næstum búinn að skora, en Ederson varði það.
Eftir seinna markið tók síðan City völdin og hlutverk Unitedmanna var að sína mestu baráttu sem sést hefur lengi. Það þarf að fara yfir allt liðið til að hrósa. Marcus Rashford er kominn með 13 mörk í 14 leikjum og er í besta formi lífs síns, Martial skoraði mjög fallegt mark (þó að hann sé ekki búinn að sannfæra Roy Keane um að hann geti skorað meira), Jesse Lingard stóð sig mjög vel í að hnýta saman skyndisóknirnar og Daniel James var líklega bestur af þessum fjórum, hraði hans gerir það að verkum að það er alltaf hægt að komast aftur fyrir varnir sem eru framarlega á vellinum.
Á miðjunni voru tvö skrýmsli. Scott McTominay er orðinn aðalmaðurinn í því að United geti spilað og er lykillinn að því liðið getur haldið boltanum. Vð hliðina á honum er Fred loksins að sýna eitthvað af því sem borgaðar voru 52 milljónir fyrir. Hann er alls staðar á vellinum að ná boltanum og koma honum á næsta mann og var nefndur sem besti maður United af Solskjær, nokkuð verðskuldað.
Það er örlítið skrýtið að segja það eftir svona magnaða varnarframmistöðu að minnsta hrósið er hjá sumum varnarmanna. Luke Shaw stóð sig nægilega vel, en eins var Bernardo Silva líklega slakastur City manna í sókninni á móti honum. Vicor Lindelöf átti nokkrar frábærar bjarganir en sem fyrr segir var hann næstum búinn að gefa Raheem Sterling dauðafæri, hann á þetta til að missa einbeitingu. Harry Maguire var líklega slakastur United manna. Hann varðist vel, en gekk oft illa að koma boltanum frá sér, hvort sem var til að hreinsa eða koma boltanum á samherja.
Lindelöf og Maguire áttu svo auðvitað að gera betur í marki City, létu Otamendi rústa sér.
David de Gea er, eins og Ole sagði eftir leik, besti markvörður í heimi og sýndi það með fyrrnefndri markvörslu frá Sterling undir lokin og einnig annarri frábærri frá Rodri.
Það er einungis að nefna þann sem ég tilnefni mann leiksins. Aaron Wan-Bissaka pakkaði Raheem Sterling saman, varðist öllu sem á hann kom, hreinsaði vel og vann tæklingar eins og hann einn getur. Það var vissulega amk einu sinni sem hann átti að gera betur í góðri sókn og við viljum sjá hann bæta þann hluta leiks sins. Það kemur. En í dag var það varnarhlutverkið sem hann afgreiddi af fullkomnu öryggi.
Þetta er einhver svakalegasti leikur sem við höfum séð frá United síðan Sir Alex hætti. Eftir að hafa verið óánægð með stöðuna eftir erfið úrslit undanfarið hefur liðið skilað tveimur frábærum sigrum. Núna þarf að taka þetta áfram og byrja að skila svona úrslitum gegn minni liðunum. Paul Pogba kemur síðan aftur í liðið og með tveimur góðum kaupum í janúar er full ástæða til að vonast eftir að liðið stigi upp úr þeirri þvögu sem liðin fyrir neðan fjórða sætið mynda, allt niður að fallbaráttunni, og geri atlögu að meistaradeildinni.
Bjarni says
Ef vörnin heldur markinu hreinu með eða án VAR þá vinnum við leikinn, svo einfalt er það.
GGMU
Helgi P says
Við gætum verið búnir að skora 4 til 5 mörk á fyrst hálf tíman
Björn Friðgeir says
Getum við ekki bara sleppt seinni hálfleiknum?
Turninn Pallister says
Úff, úff, úff ekki fallegt, en djöfull er mér sama. Manchester er rauð!!
Rúnar P says
Who’s this Pogba everyone speaks off?
Theodór says
Getum við plís bara spilað á móti stóru liðunum þetta tímabil??
Sindri says
Frábær vika að baki. Nú er að láta kné fylgja kviði. Miðjan a.m.m. frábær og Rashford búinn að stíga yfir marga hjalla á þessu ári, getur spilað á hæsta leveli, þangað sem við erum á leiðinni.
.
Hvar eru allir fylgjendur þessarar síðu þegar vel gengur? Er bara áhugi þegar að við töpum fyrir Newcastle?
GGMU
Óskar G Óskarsson says
Geggjaðir seinustu 2 leikir og Ole á mikið hrós skilið !
En svo er bara spurning hvernig menn mæta i næstu 3 leiki, leiki sem við eigum að vinna.
Tap heima gegn everton og þessi leikur núllast út.
Auðunn says
Frábær frammistaða og frábær sigur. Átti ekki von á þessu.
Ég hélt að öll þessi klúður á dauðafærum fyrstu 35 mín eða svo myndi bíta okkar menn í rassinn í síðari hálfleik en okkar menn héldu út sem betur fer.
Það er ekki hægt að gagnrýna liðið fyrir að hafa fengið á sig mark í lokin né að ná ekki að halda boltanum betur síðari hluta leiksins enda fór gífurleg orka í þennan leik og menn búnir á því í lokin.
Það kostar mikla orku að spila við City þegar þeir halda boltanum svona vel eins og þeir gerðu í síðari hálfleik.
En United áttu að klára þennan leik á fyrstu hálftímanum eða svo, það hefði ekki verið ósanngjarnt ef staðan hefði verið 0-4 í hálfleik.
Frábært að vinna bæði Spurs og City á þremur dögum.. breytir stemmaranum heldur betur.
Áfram svona United…
Þessir frábæru sigrar þýða ekkert ef liðið lætur ekki kné fylgja kviði.
Ég ætla að vona að leikmenn liðsins geri sér nú grein fyrir því að ef þeir eru tilbúnir að leggja mikið á sig þá er allt hægt.
Það má ekkert slaka neitt á núna, fulla ferð áfram ⚽⚽⚽
Tómas says
Ekki fallegt, var sagt hér að ofan.
Fannst þetta undurfagurt. Vissulega var mikið varist í seinni en mér fannst við alveg eins líklegir til að klára eina skyndisókn og ná þriðja.
Geggjað! Glory glory!
David says
Wan bisaka maður leiksins!
Vonandi nær ole að leysa hvernig á að spila gegn minni liðunum
Hjöri says
Jæja góður sigur í dag, og vonandi verður áframhald á því, Everton næst og ekki ræða um annað en sigur þar. Síðan tekur jólatörnin við, og það eru lið í neðri kantinum sem bara eiga að vinnast, þó þau lið hafi verið að stríða efri hluta liðunum.
Bjarni Ellertsson says
Jæja, fylgsit með leiknum úr fjarlægð og skal ég segja ykkur að hann er ekkert minna spennandi í textalýsingu en á skjánum. Ekki var ég fyrir vonbrigðum þegar ég renndi honum svo í gegn, fylltist UTD stolti, fyrir baráttuna, áræðnina, kraftinn og aldrei að gefast upp í neinu návígi, sem leik menn sýndu í gær en þetta var það sem mér fannst vanta á móti AV en ég sá þann leik berum augum og eftir þann leik hugsaði ég ekki fallegar hugsanir. En leikmenn hafa stigið upp og vanandi er þetta ekki eitthvað „syndrome“ að spila bara vel í „stóru“ leikjunum því þeir sem hafa fylgst með enska í gegnum tíðina vita að það eru allir leikir stórir, þú þarft alltaf að mæta á völlinn og skilja þitt eftir annars verður uppskeran rýr.
Lykillinn er velgengni er stöðugleiki svo vitnað sé í meistara Keane.
„Ég naut þess að horfa á þá. Þetta er það sem Manchester United snýst um. En lykillinn er stöðugleiki. Vonandi munu ungu drengirnir verða meira stöðugri,“
Hef trú á að við séum að rétta aðeins úr kútnum og vona að þeir taki næsta skref áfram en það er að vinna lið sem eru fyrir neðan okkur en þá þarf að mæta með sama hugarfarið og í City leiknum. Þá efast ég ekki um sömu úrslit.
GGMU
Silli says
Það er akkúrat þetta sem ég elska við Manchester United – og Ole Gunna Solskjær!
Hættum að tjalda til einnar nætur – byrjum frá byrjun með ástríðufullum leikmönnum en ekki einhverjum skítareddingum.
Þeir eru nokkrir hér sem hafa ekki getað sætt sig við að við verðum ekki meistarar um áramótin.. Þetta á vissulega eftir að taka tíma, en ég er enn sannfærðari um að liðið okkar er á hárréttri leið. Eins er ég líka viss um að á leiðinni til heimsyfirráða eigum við eftir að tapa asnalegum leikjum,en allt tekur tíma :-)
GGMU!!!!! <3 <3 <3