Eftir tvo frábæra sigra í röð í ensku úrvalsdeildinni er aftur kominn tími til að beina sjónum okkar að Evrópukeppninni sem liðið okkar tekur þátt í þennan veturinn. Það er komið að sjötta og síðasta leiknum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. United hefur þegar tryggt sér sæti í 32-liða úrslitunum en það er þó mikilvægt að halda efsta sætinu því þannig sleppur liðið við að mæta efstu liðunum í hinum riðlunum eða þeim fjórum liðum sem koma úr Meistaradeildinni með bestan árangur. Að auki myndi liðið þá fá seinni leik á heimavelli. Jafntefli dugar Manchester United til að halda efsta sætinu í riðlinum en við viljum auðvitað enda þessa riðlakeppni með sigri. Það verður dregið í 32-liða úrslitin á mánudaginn, klukkan 12:00 að íslenskum tíma.
Þessi leikur fer hins vegar fram annað kvöld, klukkan 20:00. Dómari leiksins verður Sandro Schärer frá Sviss. Hann sver sig vonandi í ættina og verður hæfilega hlutlaus í þessu öllu.
Staðan í riðlinum
Staðan í L-riðlinum er ljómandi fín eins og er:
Liðið hefði getað tryggt sér sigurinn í riðlinum með sigri í síðasta leik en það var skynsamlegt að taka ekki of mikla sénsa í fimbulkuldanum í Astana. Og alltaf gaman að sjá efnilega unglinga fá sénsinn, það er eitt af því sem Manchester United hefur staðið fyrir í gegnum tíðina. Markaskorunin hefur ekki verið alltof góð í þessari keppni en varnarleikurinn frábær að mestu, fjórum sinnum hefur liðið haldið hreinu í fimm leikjum.
AZ hefur á móti verið í miklu markastuði í þessari keppni, þrátt fyrir að hafa ekki náð að skora gegn okkar mönnum í fyrri leik liðanna í þessari keppni. AZ hefur náð að skora í öllum hinum fjórum leikjunum til þessa, samtals 15 mörk. Að vísu hafa 11 af þessum mörkum komið í leikjunum tveimur gegn Astana.
Manchester United
Þótt markaskorunin hafi ekki verið upp á tíu til þessa í Evrópudeildinni þá hefur sóknarleikur Manchester United verið að batna til muna á síðustu vikum, ef horft er á allar keppnir. Eftir leikinn gegn Chelsea í upphafi tímabils tóku við 12 leikir í röð þar sem United náði ekki að skora meira en 1 mark í leik. Í þeim 10 leikjum sem eru liðnir síðan sú törn endaði er United búið að skora að meðaltali 2,1 mark í leik.
Það hefur auðvitað munað heilmikið um að fá Anthony Martial inn í liðið aftur, sá er einn hæfileikaríkasti sóknarmaðurinn í enska boltanum og hefur verið að sýna mjög flotta og stöðuga tölfræði á tímabilinu. Það er að segja þegar hann hefur getað spilað, það sem hefur aðallega verið að trufla hann eru meiðsli.
Þá hefur Marcus Rashford verið gríðarlega heitur í síðustu leikjum, bæði með enska landsliðinu og Manchester United. Það er vonandi að hann haldi áfram á því striki og haldi áfram að þagga niður í að mörgu leyti óverðskulduðum gagnrýnisröddum.
Það eru enn meiðslavandræði að hrjá liðið. Paul Pogba verður því miður ekki tilbúinn ennþá. Bailly, Fosu-Mensah, Dalot og Rojo eru líka frá, auk þess sem Matic og Shaw eru skráðir tæpir. Það munaði þó heilmiklu að fá akkerið Scott McTominay aftur á miðjuna. Viljum við að Solskjær taki sénsinn á að spila honum í þessum leik eða passa frekar upp á að hann verði klár í slaginn gegn Duncan Ferguson og félögum í Everton um helgina?
Svona væri hægt að stilla upp annað kvöld:
Hvernig mynduð þið vilja sjá liðið í þessum leik?
AZ Alkmaar
AZ er í 2. sæti hollensku úrvalsdeildarinnar, 3 stigum á eftir Ajax. Liðið hefur unnið 12 leiki af 16, gert 2 jafntefli og tapað 2 leikjum. Í þessum 16 leikjum hefur AZ skorað 38 mörk (2,375 pr leik) en fengið á sig 8 (0,5 pr leik). AZ hefur, eins og Manchester United, þegar tryggt sér áfram upp úr riðlakeppni Evrópudeildarinnar með því að vinna 2 leiki og gera 3 jafntefli.
Markahæsti leikmaður liðsins, bæði í hollensku deildinni og Evrópudeildinni, er hinn 18 ára gamli Myron Boadu. Hann hefur skorað 10 mörk í deildinni og 4 í Evrópudeildinni. En hann fékk rautt spjald gegn Partizan í síðustu umferð og missir því af þessum leik. Fjórir leikmenn eru næstmarkahæstir hjá AZ í Evrópudeildinni, allir með 2 mörk. Einn þeirra er líka næstmarkahæstur hjá AZ í hollensku deildinni, það er hinn 23 ára gamli Oussama Idrissi. Idrissi er með tvöfalt ríkisfang, bæði hollenskt og marokkóskt, og er baneitraður, réttfættur vinstri kantari sem hefur gaman af því að leita inn á völlinn og láta vaða. Hann hefur líka skorað 9 mörk í hollensku deildinni, 6 mörk í 3 bikarleikjum auk markanna 2 í Evrópudeildinni. Leikmaður sem þarf að passa upp á.
Það eru tveir menn meiddir hjá AZ. Annars vegar er það Albert Guðmundsson, hins vegar er það gríski varnarmaðurinn Pantelis Hatzidiakos.
Líklegt byrjunarlið hjá AZ:
Karl Garðars says
Myndi vilja sjá þetta lið byrja nema að McT og Fred mættu taka 60 mín til að halda áfram að þróa sitt samstarf. Matic og Perreira gætu þá komið inn til að drepa niður allan hraða, tapa mögulegri forystu og tryggja okkur annað sætið og sjálfum sér örugga sölu í janúar. (Þetta er kaldhæðni)
Jón B says
Það er toppslagur í hollensku deildinni á sunnudag þegar AZ tekur á móti Ajax. Þeir eru, eins og við, búnir að tryggja sig áfram. Ætli þetta verði ekki varalið hjá báðum liðum í kvöld