Eftir brösótt gengi hjá Manchester United það sem af er yfirstandandi tímabili hefur United tekist að rétta skútuna af með þremur einkar sterkum sigrum. Fyrst lagði liðið José Mourinho og lærisveina hans í Tottenham eftir að sá portúgalski hafði stýrt liðinu í þremur sigurleikjum í röð.
Eftir það lá leiðin í bláa hluta borgarinnar á Etihad völlinn þar sem United hreinlega lék sér að veikri vörn heimamanna og málaði borgina rauða í kjölfarið. Þetta var í fyrsta sinn á tímabilinu þar sem liðinu tekst að vinna tvo deildarleiki í röð. Til að láta kné fylgja kviði tók liðið svo upp á því að slátra hollenska liðinu AZ Alkmaar 4-0 í lokaumferð riðlakeppninnar í Evrópudeildinni núna á fimmtudaginn var.
Það má því vissulega færa rök fyrir því að ákveðinn skriðþungi sé að myndast með liðinu og liðið undir stjórn Ole Gunnar Solskjær virðist vera að finna sinn stíl með liðið. Sá leikstíll sver sig kannski ekki í United-ættina, að liggja aftarlega og þéttir fyrir og leyfa mótherjanum að sitja á boltanum og beita svo leifturhröðum skyndisóknum.
En ólíkt United-liðinu í tíð Mourinho þegar varnarsinnaði boltinn skilaði úrslitum kannski en var ekki mikið fyrir augað, virðast stuðningsmenn margir hverjir vera tilbúnir til að fyrirgefa Solskjær þennan leikstíl því þegar liðið brýst fram til sóknar halda því engin bönd.
Leikmenn eins og Marcus Rashford, Anthony Martial og Daniel James eru eins og rakettur með utanborðsmótor eftir endilöngum vellinum og eru sífelld ógn við varnarlínur andstæðinganna.
Þá hefur vörnin hægt og sígandi verið að þéttast og þó að samvinna Harry Maguire og Victor Lindelöf verði betri með hverjum deginum þá er án efa stærstu breytinguna að finna hægra meginn þar sem Aaron Wan-Bissaka nokkur er búinn að reisa 183 cm háan múr sem enginn virðist eiga leið í gegnum.
Raheem Sterling átti t.a.m. ekki skot á rammann í City leiknum og Son Heung-Min var sömuleiðis haldið í skefjum en saman hafa þessir leikmenn komið að 21 deildarmarki á tímabilinu.
Báðir þessir leikmenn fengu sína lægstu einkunn á tímabilinu fyrir 90 mínútna deildarleik inn á WhoScored.com í viðureignum sínum gegn Wan-Bissaka. Englendingurinn ungi hefur verið hreint út sagt stórkostlegur og afburðaleikmaður í sinni stöðu.
Þá hefur miðjan okkar mikið verið í brennideplinum sérstaklega í fjarveru Paul Labile Pogba og hnignandi fótboltaferils hjá Juan Mata og Nemanja Matic en skoski skriðdrekinn og brasilíska túrbínan hafa stigið allhressilega upp og sýnt hvað í þeim býr í síðustu leikjum.
Hér er að sjálfsögðu átt við Fred og Scott McTominay. Þeirra samvinna hefur verið algjört lykilatriði í þessum baráttusigrum okkar en enn vantar einn göldróttan sendingasnilling í hæsta gæðaflokk til að fjölga færunum sem liðið skapar. Það verður því spennandi að sjá hvað Solskjær gerir í janúarglugganum.
En þá að leiknum. Mótherjinn að þessu sinni verður Everton en eins og flestir muna á United harm að hefna eftir að Gylfi og félagar slátruðu veiklulegu United liðinu með fjórum mörkum gegn engu á Goodison Park í apríl.
En Everton liðið hefur ekki átt sjö dagana sæla á þessu tímabili en liðið tilkynnti um brotrekstur Marco Silva þann 5. desember. Liðið sat þá í fallsæti og virtust allar bjargir bannaðar en leikjaplanið sem blasti við Everton var ekki af léttari endanum.
Eftir grátlegt tap gegn Leicester City og svo hinn örlagaríka 5-2 leik við Liverpool 4. desember biðu leikir við Chelsea, Manchester United, Leicester í bikar, Arsenal og stuttu síðar Manchester City. Það var því stór spurning hvort reka ætti Silva og fá inn nýjan stjóra/bráðabirgðastjóra til að taka við strax eða bíða þar til þessari leikjahrinu væri lokið.
Stjórn félagsins lét þó slag standa og fékk Silva sparkið strax eftir Liverpool leikinn og réð því tímabundið Duncan Ferguson (stóra Dunc) til að stýra liðinu þar til annar stjóri væri fáanlegur. Skotinn spilaði fyrir fyrir Everton á árunum 1994-1998 og svo aftur frá 2000-2006 og á að baki yfir 200 leiki fyrir félagið og er í miklum metum meðal stuðningsmanna liðsins.
Undir hans stjórn tókst liðinu að leggja Lampard og leikmenn hans í Chelsea 3-1 á Goodison Park. Reyndar hefur Lundúnarliðið verið í miklu basli undanfarnar vikur svo hugsanlega má ekki lesa of mikið í þann leik en engu að síður sterkur sigur fyrir stóra Dunc.
Eins og flestum landsmönnum er kunnugt leikur Gylfi Þór Sigurðsson með Everton en hann hefur nánast verið í áskrift þegar kemur að því að skora á Old Trafford en íslenski fyrirliðinn hefur skorað 4 mörk í síðustu 5 heimsóknum sínum í Leikhús draumanna.
Gylfi hefur þó eitthvað hökkt í byrjun tímabilsins rétt eins og flestir leikmenn Everton liðsins. Í sumar fengu þeir kærkominn liðsstyrk þegar Moise Kean kom frá Juventus á tæpar 30 millj. punda og Alex Iwobi kom frá Arsenal fyrir svipaða upphæð.
Þá var André Gomes keyptur frá Barcelona en hann var á láni hjá Everton á síðustu leiktíð. Þessir leikmenn áttu að hjálpa liðinu að komast úr flokki næstbestu liðanna utan „stóru 6“ en þeim hefur ekki tekist það og úrslitin á tímabilinu sjaldnast fallið með Everton.
Everton glímir við ágætis meiðslapakka rétt eins og United en Yerri Mina, Seamus Coleman, André Gomes, Fabian Delph og Jean-Philippe Gbamin eru allir frá vegna meiðsla. Þá bættust bæði Morgan Schneiderlin og Theo Walcott á listann eftir æfingu í vikunni sem gerir málin enn flóknari fyrir Ferguson. Því má gera ráð fyrir að byrjunarlið Everton muni líta út eitthvað á þá leið:
Leikurinn sjálfur verður þó merkilegur að mörgu öðru leyti. Því að öllum líkindum verður leikurinn sá 4000. í röð hjá Manchester United þar sem liðið er með uppalinn leikmann úr akademíunni í hópnum. Allar götur síðan í október 1937 hefur United verið með leikmann úr akademíu liðsins í hópnum eða í 82 ár samfleytt.
Á þessu tíma hafa 279 uppaldir leikmenn verið í hópnum en 237 þeirra hafa spilað fyrir liðið. Þó að 42 þessara uppöldu leikmanna hafi ekki spilað keppnisleik fyrir hönd Rauðu djöflanna þá er ekki þar með sagt að ekkert hafi orðið úr þeim. Meðal þessara leikmanna eru Tom Heaton, Danny Drinkwater og Matty James svo fáeinir séu nefndir.
Í aðeins 13 af þessum 3.999 leikjum sem komnir eru hefur viðkomandi einungis vermt tréverkið en ekki komið inn á völlinn. Hreint út sagt mögnuð og áhugaverð tölfræði en ekkert lið kemst með tærnar þar sem United hefur hælana í þessum málefnum.
Þessi leikur verður því skráður í sögubækurnar hvernig sem hann fer en þó að United virðist vera á skriði og Everton liðið gæti virst brothætt þá er kannski áhugavert að rýna betur í smáatriðin og tölfræðina.
United hefur þrjá sigra og tvö jafntefli í síðustu fimm leikjum á meðan Everton hefur tapað þremur og unnið tvo. United hefur yfirleitt gengið vel gegn Everton en í 54 deildarleikjum í Úrvalsdeildinni hefur United unnið 36 gert 9 jafnteflið og 9 tapað, nú síðast í apríl þegar Everton skoraði fjögur.
Þá hefur Everton ekki riðið feitum hesti frá heimsóknum sínum til Manchesterborgar en í 26 leikjum hefur liðið einungis unnið einu sinni (5 jafntefli og 20 töp). Hins vegar er önnur áhugaverð tölfræði sem vert er að líta til. Á tímabilinu hefur United staðið sig einkar vel gegn liðum í efri hluta deildarinnar en virðist eiga í erfiðleikum með liðin í 10. – 16. sæti eins og sjá má af þessari töflu.
Græn merking táknar sigurleik gegn liðinu, blátt þýðir jafntefli og rautt er tap. Það sést því vel þegar taflan er skoðuð hvar vandamálið í stigasöfnun United á leiktíðinni liggur.
Solskjær þarf því að finna lausn á þessu vandamáli hið fyrsta enda er það neðri hluti deildarinnar sem er að velkjast fyrir okkur. Vissulega hefur liðið verið með einn lengsta meiðslalista Evrópu það sem af er leiktíðar en það útskýrir einungis hluta. Það er spurning hvort menn séu einfaldlega ekki að mæta rétt gíraðir í þessa leiki en virðast eiga mun auðveldara með undirbúning fyrir stóru leikina.
Ole Gunnar Solskjær mun reyna að tengja saman þrjá deildarsigra í röð sem væri þá í fyrsta skiptið frá því að hann tók við sem bráðabirgðastjóri. Enn eru nokkrir leikmenn fastir á meiðslalistanum, Eric Bailly er byrjaður að æfa aftur og sömuleiðis Timothy Fosu-Mensah og Diogo Dalot, Jesse Lingard hlaut minniháttar meiðsl gegn City en Marcos Rojo kemur inn í janúar að öllum líkindum. Þá er Paul Pogba líklegast að koma inn í lok desember en hann hefur ekki spilað síðan í september eftir að hann meiddist á ökkla.
Í vikunni kom Matic til baka en hann var í byrjunarliðinu gegn AZ Alkmaar sem fór eins og áður sagði 4-0. United hefur átt erfitt uppdráttar eftir Evrópudeildarleiki í miðri viku og því var mikilvægt að Solskjær gæti hvílt einhverja leikmenn í vikunni.
Menn eins og David de Gea, Aaron wan-Bissaka, Victor Lindelöf, Jesse Lingard, Scott McTominay, Fred, Luke Shaw, Daniel James og Marcus Rashford fengu allir kærkomna hvíld og ættu því að vera eiturferskir á sunnudaginn gegn Everton.
Með sigri getur United saxað á Chelsea sem situr eins og staðan er í 4. sæti deildarinnar en þeir eiga leik við Bournemouth um helgina. Þá mætir Manchester City á Emirates leikvanginn þar sem Freddie Ljungberg og lærisveinar hans taka á móti þeim en City er þessa stundina í 3. sætinu, 8 stigum á undan United. Það er því mikilvægt að halda rétt á spilunum núna og sigla þessum þremur stigum í hús og halda áfram á beinu brautinni. Meistaradeildarsætið virðist allt í einu ekki vera mjög fjarlægur draumur.
Björn Friðgeir says
Ef United vinnur næstu tvo leiki á móti Everton og Watford verður liðið í fjórða sæti þegar Chelsea tekur svo á móti Spurs í lokaleik næstu umferðar.
Það væri gaman en er auðvitað fjarri því örugg sex stig.
Bjarni Ellertsson says
Mjög góð greining hér á ferðinni og gaman að því að sjá Ole og co í dag framfylgja stefnunni sem Sir Matt Busby innleiddi að stórum hluta og fylgdi henni eftir svo eftirminnilega í gegnum sín stjóraár. Það er einmitt ein megin ástæðan að ég heillaðist af UTD á sínum tíma, ekki að liðið var að spila neitt sérstaklega vel undir Big Ron heldur sögunum af ungum kempum og snillingum sem afi minn og faðir dældu í mig löngum stundum. Ungir leikmenn eiga alltaf að fá tækifæri ef þeir eru nægilega góðir því aldur er bara ákveðin tala hverju sinni. Nú höfum við marga unga leikmenn sem vonandi banka hressilega á dyrnar næstu árin og munu gleðja okkur augljóslega í framtíðinni en þeir þurfa samt reynslumenn, sem eru ekki komnir yfir sitt prime, með sér því það vantar jafnvægi/stöðugleika í liðið í dag einsog sást í síðasta leik og leiknum sem ég fór á um daginn á móti Aston Villa en þar voru leikmenn ekki leggja sig fram að mér fannst. Það sést svo vel hollingin á þeim leikmönnum sem ekki eru nálægt boltanum og þar af leiðandi ekki í mynd, minnti svolítið á þegar bruce og Pallister voru að kjafta saman í vörninni hér í denn og skipuleggja næsta pöbbarölt. Vonandi heldur liðið dampi út leiktíðina og byggir á því sem þeir lögðu á sig í síðustu leikjum og þá tökum við stór skref framávið.
GGMU
P.S
Á meðan ég svo man þá heiti ég Bjarni Ellertsson, Sveinbjörn í millinafni, er Hólmari í húð og hár, búsettur í Kópavogi, enda gott að búa þar einsog allir vita, fæddur 1969 og var því fimmtugur um daginn, takk fyrir það. Ástæða fyrir útskýringunni er sú, ykkur til fróðleiks, að Silli (ekki þó Valdi) og aðrir kommentafélagar, hverjir sem það nú eru, kölluðu eftir því í kommentakerfi síðunnar eftir síðasta leik. Mínir uppáhaldsleikmenn til dagsins í dag eru í þessari röð Robson, Cantona, Keane, Beckham og Vidic þó enginn komi nálægt The King í samanburði. Til að öðlast lífsins styrk er nóg að vera aðdáandi Manchester United.
Yfir til ykkar félagar, opnið þið ykkur, þetta er nú einu sinni árið 2019 😊