Jólagjöfin sem stuðningsmenn fengu í dag var ein sú súrasta sem sést hefur og vonir hljóta að standa til að sem flest ykkar hafi nýtt tímann í jólaundirbúning og útréttingar frekar en að horfa á þennan leik. Spáin fyrir leik að þessi gæti orðið vesen var alltof góð.
Eftir að hafa misst af nær öllu tímabilinu var Paul Pogba loksins kominn í næga æfingu til að sitja á bekknum gegn botnliði Watford.
Varamenn: Romero, Mata, Matic, Pogba, Pereira, Greenwood, Young
Lið heimamanna var svona
Fyrstu tíu mínúturnar einkenndust fyrst og fremst af þreifingum, og lítið markvert var að gerast. Watford menn voru ekkert hræddir við að sækja og vörnin hjá United var eins og oft áður ekkert alltof traust. Watford var búið að fá fleiri horn en United og úr einu slíku komu þeir boltanum í netið en til allrar hamingju var það eftir að brotið hafði verið á De Gea, í þetta skiptið var hann með hendur á boltanum þannig að dómarinn gat ekki komist hjá því að dæma, ólikt Everton markinu um síðustu helgi.
Þetta hélt áfram og fyrsta hálftímann var nákvæmlega ekkert að frétta hjá okkar mönnum, miðjan réði engu, ekkert kom upp frá bakvörðunum og sóknin var bitlaus. Loksins kom færi þegar Martial stakk vel inn á Jesse Lingard sem hafði nógan tíma til að leika upp að teig og þegar Ben Foster kom út á móti honum ákvað Lingard að vippa yfir markmanninn en alltof hátt og yfir. Ekki rétta ákvörðunin hjá manni sem hefur ekki skorað frá því á annan í jólum í fyrra.
Það var ef eitthvað var meiri ógn í Watford, þeir komu boltanum inn í teig og reyndu að finna glufur og fengu reyndar ágætt færi þegar Doucoure skallaði framhjá. Engin stór ógn í því samt.
Það var hreinlega léttir þegar dómarinn flautaði til hálfleiks og þessi leiðindi tóku enda. Hvorugt lið átti skot a mark í fyrri hálfleik sem segir sitthvað, United var miklu meira með boltann en gerði ekkert með hann sem máli skipti.
Ole Gunnar gerði engar breytingar í hálfleik og ef fyrri hálfleikur hafði verið slakur, byrjaði sá seinni hroðalega.
Á innan við fimm mínútum var Watford búið að ná forystunni í fyrsa skipti á heimavelli í vetur og það var alfarið David De Gea að þakka.
Watford fékk aukaspyrnu og gaf inn á teiginn, X skallaði og Sarr tók laust og slakt skot sem fór í jörðina og upp og beint á De Gea en á óskiljanlegan hátt fór það milli handanna á honum og inn. Einhver skelfilegstu markmannsmistök sem sést hefur í síðari tíð.
Það voru ekki liðnar tvær mínútur þegar þetta versnaði enn, sending upp völlinn, og Aaron Wan-Bissaka tók óskiljanlega ákvörðun að fara alltof seint í Sarr og brá honum. Víti dæmt, VAR sammála og Troy Deeney gerði engin mistök. 2-0 fyrir Watford á 54. mínútu.
United átti loksins skot á mark þegar Scott McTominay reyndi sig utan teigs, Foster varði ágætlega og þegar boltinn kom aftur á McTominay skaut hann himinhátt yfir.
Það var kominn tími til að líta til Mason Greenwood og hann kom inná fyrir Dan James. Það breyttist ekkert við það, í það minnsta ekki strax og Paul Pogba kom inná fyrir Jesse Lingard á 63. mínútu.
Tæpar tíu mínútur af bitleysi fylgdu og síðasta tilraunin til að breyta leiknum var að senda Juan Mata inná fyrir Scott McTominay. Það fóru aðeins að sjást batamerki á leik United og það var helst Pogba að þakka. Hann átti sextíu metra sendingu fram á Mason Greenwood sem reyndi eins og Lingard í fyrri hálfleik að vippa en aftur fór boltinn yfir.
Loksins kom færi á 89. mínútu, Martial gaf inn í teiginn á Rashford sem fékk nægan tíma, sneri og tók skotið en ekki alveg nógu gott og Foster varði vel. Aukaspyrna Mata framhjá var svo síðasti krampakippurinn áður en þessari martröð lauk.
Þetta var United liðið eins og við vorum vön að sjá það áður en sigrarnir á City og Spurs gáfu von, en það er sem fyrr ekki nokkur von til þess að United ráði við að skora þegar liðið er meira með boltann. Það er svo mikið að í þessu liði, of marga leikmenn vantar herslumuninn uppá að vera í toppklassa, það vantar alla baráttu og það er hreinlega ekki nógu mikið spil í þessu liði.
Það verður kannske reynt að gera eitthvað í janúarglugganum en með hverjum svona leik verður spurningin hvort gera eigi einföldustu breytinguna, hvort sem hún er sú sem er líklegust til árangurs eða ekki. Það er nær útilokað að hlutirnir versni. Manchester United á ekki að tapa fyrir neðsta liðinu, liði sem hefur unnið einn leik á vetrinum og hefur skipt tvisvar um þjálfara.
Auðvitað er kýrskýrt að það þarf skapandi miðjumann í þetta lið og helst líka annan til sem getur verið hvort tveggja sterkur og nægilega vel spilandi. En ef það fæst ekki í janúarglugganum eins og verið er að ýja að hlýtur að þurfa að reyna að breyta einhverju á æfingasvæðinu.
Næstu sex vikur mun draga til tíðinda.
Emil says
3-2 sigur. Deeney skorar 2 skallamörk þar sem gersamlega sultar Lindelöf í skallaeinvígi, sem verður fyrir vikið rassaður frá markteig í hálfleik. Martial, Scotty Busquets og Rashford redda þessu svo í seinni halfleik
Auðunn says
Ömurlegur fyrrihálfleikur.. myndi gera amk tvær breytingar.
Kemur ekkert út úr þessum James og Fred er búinn að vera mjög slakur.
Vantar miklu miklu meira fram á við hjá þessu liði.
gummi says
Hvernig er það kann Solskjær bara eina taktík sem stjóri þetta er alltaf það sama leik eftir leik
Ragnar says
Flott sjálfsmark hjá DeGea.
gummi says
Hvað kom fyrir De Gea hann er bara orðinn lélegur
Bjarni Ellertsson says
Þegar menn leggja ekki neitt á sig í leik og starfi þá uppskera þeir eins og sáð er til. Þetta lið er því miður bland af pylsum og sultum. Héldu menn virkilega að þeir væru búnir að vinna heiminn er þeir unnu City, þá er hægt að minna þá á að heimsmeistarar félagsliða voru krýndir í gær, ekki voru það við.
ggmu (með litlum stöfum)
Auðunn says
Hversu oft drífa sendingar ekki á samherja því þær eru svo lausar?
Gaman að sjá líka mann eins og Carrick á bekknum horfandi upp í loftið og naga á sér neglurnar.. það er enginn með lífsmarki í þessu liði, hvorki innan né utan vallar..
Bjarni Ellertsson says
Sammála Auðunn, hending að allt liðið innan sem utan vallar nái að tikka saman. Við erum bara lélegir. Vonandi sjá einhverjir ljósa punkta, ég sé þá ekki.
Turninn Pallister says
Ég get ekki varið Lingard lengur. 25 klst af engu er gjörsamlega ólíðandi og gerir það með öllu ómögulegt að finna ljósan punkt hjá honum sem leikmanni. Hann bara hlýtur að verða sendur í límverksmiðjuna eftir þetta tímabil. Fengum 3 dauðafæri í þessum leik og ömurlegt að menn séu ekki með hausinn skrúfaðan á þegar spilað er á móti lang lélegasta liði deildarinnar.
Herbert says
Nú verður að laga til og ráða yfirmann knattspyrnumála. Brandari að hafa eytt 130milljónum punda í varnarmenn og vera með launahæsta markmann heims í markinu og geta ekki haldið hreinu. Verið að borga himinhá laun til leikmanna sem eru bara ekkert að geta. Verst af öllu að það er keypt fyrir svimandi háar upphæðir og svo brunaútsala. Hvað er langt síðan united hefur selt leikmann með hagnaði??? Svo er rannsóknarefni hvað þetta lið spilar óstabílann bolta.
Audunn says
Veit ekki hvort liðið var að spila við lélegasta lið deildarinnar í dag.
En það er búið að reyna þetta Ole Gunnar Solskjær dæmi nógu lengi núna. Það er komið ár og ekkert hefur batnað. Eða er einhver sem sér annað?
Þetta er að mínu viti full reynt og engin ástæða til að halda þessu áfram. Liðið er gjörsamlega hræðilegt og Ole kann ekkert plan B eða bregðast við þegar hlutirnir ganga ekki upp..
Erlingur says
Það hlýtur að vera markmið klúbbsins að vera ofar en Sheffield united
MSD says
Þegar liðið er að drulla á sig af hverju er þá enginn á hliðarlínunni að gera neitt? Maður sér Guardiola og Klopp brjálaða ef liðin þeirra eru ekki að fara eftir þeirra leiðbeiningum. Eða er þetta kannski bara uppleggið og allir að fylgja plani???
Frábær hugmynd hjá Lingard að reyna vippu á fullri ferð yfir markmann sem stendur uppréttur ennþá hafandi ekki skorað í 25 klst samfleytt. Magnað!
Það er 100% á hreinu að veikleiki liðsins er þegar liðið á að stjórna leikjum. Við erum flottir gegn stærri liðum en þegar minni liðin eru annars vegar þá skítum við á okkur. Hinsvegar virðist ekki vera nein framför á því sviði og það hræðir mann!
Björn Friðgeir says
Liðið hefur unnið einn af síðustu sautján leikjum þar sem liðið hefur verið meira með boltann.
Egill says
Ég ætla ekki koma nálægt einhverju De Gea væli, þetta er besti markmaður í heiminum og hann sýnir það reglulega. Hann er ekki sá eini sem getur gert mistök.
Jesse fokking Lingard!! Af hverju er þessi maður atvinnumaður í fótbolta? Hann getur akkúrat ekki neitt, og það versta við þetta er að Pereira er næsti maður inn á eftir honum og er jafnvel enn lélegri leikmaður.
Maguire kostaði fullt af pening, er gjörsamlega useless í föstum leikatriðum, bæði í sókn og vörn, og getur ekki einu sinni sent einfaldar sendingar. Við borguðum í alvörunni 80 milljón pund fyrir mann sem er lélegri en Smalling.
Luke Shaw er lélegur varnarmaður, og enn verri sóknarmaður.
Martial er lélegur sem nía, hann á bara að vera á kanntinum, það hefur sýnt sig svo rosalega oft. Hann sást loksins reyna eitthvað þegar hann var færður á kanntinn.
Pogba er eini miðjumaðurinn okkar sem getur skapað eitthvað eftir að Herreira fór FRÍTT í sumar.
Ole ber ábyrgðina á öllu ofangreindu. Hann veit ekkert hvað hann er að gera þarna, erum að tapa trekk í trekk gegn lélegum liðum. Watford voru ekki einu sinni góðir í dag, við vorum bara lélegri, sama saga og gegn Everton og fleiri andstæðingum.
Ole er búinn að fá tvo leikmannaglugga en hefur nýtt þá í að losa sig við menn en ekki keypt gæði í hópinn. Bissaka er frábær, James er efnilegur en Maguire er ekki nógu góður. Við gefum Mata, Lingard, Pereira og Shaw endalausan spilatíma en losuðum okkur við Smalling, Valencia, Herreira og Fellaini, allt leikmenn sem við hefðum svo sannarlega getað notað á þessu tímabili.
Ole talar um uppbyggingu en það eina sem hann er að gera er að rífa liðið niður í öreindir. Hvað gerum við svo þegar Pogba fer í sumar? Á þá að kaupa 18 ára efnilegan gæja og láta hann bjarga okkur frá falli?
Ég er farinn að hata Ole.
Karl Garðars says
Sammála Pallister með Lingard, þetta er löngu fullreynt. Svo má nefna að það er einstakt að Shaw og Young haldi Williams fyrir utan þetta lið.
Shaw virðist ekki mega vera frá með kvef í einn dag nema að mæta svo eins og aligrís til baka.
Annars ekkert að segja um þessa sorglegu hnakkaskitu nema kannski að þetta er löngu orðið algjörlega ólíðandi og burtséð frá öllum skárri punktum tímabilsins þá er komin lykt af þessu þjálfarateymi ef þeir ná ekki að berja liðið áfram gegn minni liðunum. Hugarfarið í liðinu er handónýtt og það hefur versnað ef eitthvað er.
Það þýðir ekkert að vera alltaf næs gaurinn við svona prímadonnur, það þarf að sýna tennurnar líka og koma þeim í skilning um að leti verði ekki liðin.
Egill says
Sigurhlutfall Ole í deildinni síðan hann var fastráðinn ef víti eru ekki tekin með: 7%
26 leikir, tveir sigrar án vítaspyrnu.
Sigrar gegn Watford á síðasta tímabili og svo Brighton um daginn.
Þetta segir okkur allt sem segja þarf um sóknarleik liðsins undir stjórn Ole.
Afglapi says
Undirstrika ummæli 15🤣😆
„Ég ætla ekki koma nálægt einhverju De Gea væli, þetta er besti markmaður í heiminum og hann sýnir það reglulega“
gummi says
Hann var besti markmaður í heiminu en því miður er hann ekki búinn að vera góður í ár og var ömurlegur í fyrra
Afglapi says
Mögulega var hann bestur fyrir 2 árum, þó ég vilji meina að markmaður sem ávallt hefur verið slakur að eiga við fyrirgjafir geti aldrei verið sá besti.
Í dag er DDG ekki meðal 20 bestu og launin hans eru fjórföld laun Alisson Becker.
Elis says
De Gea getur ekki talist heimsklassa lengur því að hann er alltaf að gera misstök og er sá markvörður í úrvaldsdeildinni síðustu 2 ár sem hefur gert flest misstök sem kosta mörk eða 6 talsins.
Egill says
Gaman að Alisson Becker skuli vera nefndur, það eru nokkrar vikur síðan hann greip boltann fyrir utan teig og lét reka sig útaf og gerir reglulega klaufaleg mistök. De Gea er að bjarga okkur trekk í trekk í nánast hverjum einasta leik á meðan Alisson fær varla skot á sig.
Jú De Gea er ekki góður í að höndla fyrirgjafir, en það er líka hans eini ókostur.
Ég man ný þegar Neuer átti að vera besti markmaður í heimi á sama tíma og maður var nánast vikulega að sjá fyrirsagnir á þessa leið „Neuer með sjaldséð mistök“.
Af einhverri ástæðu þarf De Gea alltaf að gera meira en aðrir markmenn til að fá sama hrós.
En menn mega svosem vera ósammála, ég myndi ekki vilja neinn annan markmann.
Makket says
Það er mjög auðvelt að vera ósammála þér Egill. Ddg er búin að sanna það með döprum leikjum undanfarin tvö ár. Þar á undan var hann maðurinn sem oft á tíðum einn hélt mutd á lífi. AB er búinn að gera mistök sem nb kosta ekki stig
Ragnar says
Það er líka ekki langt síðan að Allison var valinn besti markvörður heims þú ekki þann titil fyrir að gera „reglulega klaufaleg mistök“
Golli Giss says
Björn Friðgeir sagði að liðið hefði unnið einn leik af síðustu sautján sem liðið hefur verið meira með boltan. Af hverju í ósköpunum er þá ekki prófað í þó ekki væri nema eitt skipti gegn þessum svokölluðu lélegri liðum í deildinni, sem virðast á þessu tímabili geta gengið að því vísu að fá stig eða öll stigin í leik gegn MU, að vera hreinlea minna með boltan. Gefa boltan á hitt liðið og pakka í öfluga vörn, sækja svo hratt með þennan mikla hraða sem MU hefur og skora. Ég er nánast viss um að ef þetta væri gert meðvitað og markvisst þá gengi mun betur. Láta bara lélegu liðin um boltan og láta þau koma. Er vissulega engin mannvitsbrekka þarna að störfum í þessu blessaða þjálfara teymi sem gæti komið upp með þessa augljósu hugmynd eða taktík. Ertu nokkuð til í það Björn að koma þessum skilaboðum frá klúbbnum á Íslandi til liðsins að prófa þetta í næsta leik á móti Newc. Öflug vörn, hröð sókn. Liðið hefur ekki gæði í meira allavega á þessu tímabili. Menn verða að sætta sig við það. En þetta: Minnameðboltan=meiriárangur er greinilega uppskriftin af árangri á þessu tímabili.
afglapi says
22
„Jú De Gea er ekki góður í að höndla fyrirgjafir, en það er líka hans eini ókostur“
Markið sem hann fékk á sig í dag var nú bara laust skot á markið, þannig að hann hefur greinilega fleiri ókosti. Við frekari endursýningar var hann ljónheppinn að dæmt var brot á Watford þegar þeir skoruðu snemma í leiknum því aldrei var um neitt brot að ræða heldur réð DDG ekki við fyrirgjöfina.
Aðrir veikleikar De Gea eru t.d. léleg sendingageta, skortur á leiðtogahæfni og virðist ófær um að verja víti, aðeins varið 2 í United búningnum.
„De Gea er að bjarga okkur trekk í trekk í nánast hverjum einasta leik á meðan Alisson fær varla skot á sig“
Fyrir þessa umferð höfðu Man Utd fengið á sig 69 skot á rammann, og 20 mörk fengin á sig.
Liverpool: 47 skot á rammann og 14 mörk fengin á sig.
Ekki styður þessi tölfræði fullyrðingu þína, (sirkja 30% af skotum sem bæði lið fá á sig enda í netinu) en hafa ber í huga að Adrian hefur spilað helming leikja í marki LFC í vetur.
Í fyrra fékk De Gea á sig 173 skot á rammann og 54 mörk. 31,2% af skotum eru mörk.
Alisson: 97 skot á ramma og 22 mörk. 22,7% af skotunum eru mörk.
Tímabilið 18/19 eru tölurnar hjá De Gea 146 skot og 28 mörk, eða 19,2%
Svo um er að ræða mikla afturför þar sem sterkasta hlið De Gea er að verja skot.
Heimid: http://www.footstats.co.uk/index.cfm?task=league_shots
Þess utan spilar Alisson sem Sweeper keeper (ein af ástæðum þess að hann fékk rautt um daginn) með vörn sem spilar ofarlega og bakverði sækja meira en þeir verjast. Hann er góður í fótunum og öruggur í fyrrigjöfum.
De Gea er línukeeper í liði sem vill liggja aftarlega. Í ljósi þessa er nokkuð undarlegt að Man Utd er að fá á sig sirka helmingi fleiri mörk en LFC.
Dave says
Ofboðsleg neikvæðni er þetta.
Veit ekki betur en við séum í uppbyggingu og eigum fullt af mjög efnilegum leikmönnum.
Leikur okkar er solid og lið eru farinn að óttast okkur mjög, enn meira eftir að við snýtum city.
Tel okkur standa jafnfætis td Liverpool á góðum degi, framtíðin er björt enda með marga af efnilegustu og bestu leikmönnum heims í liðinu.
Koma svo.
afglapi says
27
„Tel okkur standa jafnfætis td Liverpool á góðum degi, framtíðin er björt enda með marga af efnilegustu og bestu leikmönnum heims í liðinu“
Já nokkuð góð úrslit að ná jafntefli gegn þeim á Old Trafford, en því miður er bilið 24 stig og gæti orðið 27 stig ef þeir vinna leikinn sem þeir eiga inni gegn West Ham. Þess ber að geta að mótið er hálfnað.
Því miður er bilið breiðara en það hefur nokkurn tíman verið, amk í þessa áttina.
Varðandi bestu leikmenn heims þá voru Liverpool með 10 leikmenn á nýja Guardian top 100 listanum á meðan United voru með 3 og allir mjög neðarlega.
Heiðar says
David de Gea er enn að bjarga United reglulega. Hann átti t.a.m. frábæra leiki gegn Tottenham og Man.City. Það er hinsvegar rétt að síðasta 1,5 tímabilið hefur hann verið síðri en þegar hann var upp á sitt allra besta. Og já, hann er beinlínis búinn að kosta liðið nokkuð mörg mörk á þeim tíma. Hann bókstaflega getur ekki varið víti (2 víti varin á rétt um 10 árum í United). Engu að síður er hann á þeim aldri að maður veit að hann á mörg góð ár eftir.
José Mourinho átti samt nokkuð sterka greiningu á því þegar de Gea fékk risasamninginn. Hann benti á að ári áður hafi de Gea átt möguleika á að fara til Real Madrid eða annars stórliðs. Nú væru öll þessi lið búin að versla góða markmenn og de Gea hafi haft litla aðra kosti í stöðunni en að semja við Man.Utd. Í ljósi þessa væri í raun stórfurðulegt hvað Woodward og co. buðu honum há laun.
Heilt yfir er maðurinn þó búinn að halda United á floti árin eftir Ferguson og ber að þakka honum fyrir það !
Rúnar says
Innlegg í de Gea umræðuna…
Hann hlýtur að þurfa að axla þessa ábyrgð sjálfur.
https://www.givemesport.com/1531918-david-de-gea-has-made-the-most-errors-leading-to-goals-since-the-start-of-last-premier-league-season
Bjarni Ellertsson says
Búinn að labba Laugarveginn með konunni og vinum, versla og reyna að fanga jólastemminguna eftir þessa skitu hjá okkur í dag. Eitt er að tapa leikjum en hvernig farið er að því einsog gerðist í dag þá er ekki skrítið að fúli karlinn á hægri öxlinni vakni til lífsins. Frá fyrstu mínútu leyndi það sér ekki að menn voru með hugann við annað en leikinn og ekki tilbúnir til að berjast fyrir þremur stigum í dag. Menn sem hafa fengið hrós hingað til fyrir fína spilamennsku í vetur féllu í þá gryfju að vera litlir í sér, ragir og staðir, bíðandi eftir því að aðrir gerðu hlutina. Hreyfing liðsins var einsog á diskóteki hjá eldri borgurum, engin bauð sig fram né vildi taka við boltanum, eins og hann væri eldknöttur, um leið og það var snerting við bolta þá skaust hann í burtu frá mönnum einsog hendi væri veifað beint á mótherjann. Það er engin samheldni í liðinu, menn eru ekki að vinna fyrir hvern annan og langar mig að segja að menn eru einungis að hugsa um rassgatið á sjálfum sér. Þetta kalla ég í daglegu tali hollingu á liðinu, menn hreyfa sig ekki fyrr en sendingin kemur, bjóða sig ekki í frí hlaup, hafa ekki snefil að fínsnertingu á boltanum sem þýðir að endalaust er verið að vinna upp glataðar sendingar eða lélegar snertingar. Við flestir hér inni á síðunni getum skammlaust sent frá okkur 5 til 10 metra sendingar og fengið 1000 læk á það á FB. Þetta var því miður ekki einhver einn leikur sem allt klikkaði , þeir hafa verið margir í gegnum tíðina og munu vera fleiri það sem eftir lifir vetrar. Margir leikmenn eru bara ekki nægilega góðir leikmenn, grínlaust, kannski góðar persónur, fínir karakterar út á við en í fótbolta algjörir meðalmenn, vil helst ekki styggja aðdáendur að nefna nöfn en við vitum hverjir það eru. Þannig er staðan á okkur í dag jú það er verið að vinna í að byggja upp en þeir sjá um það sjálfir blessaðir leikmennirnir að skjóta það niður í hvert sinn er þeir hafa smá séns á að klífa hærra upp töfluna. Það kalla ég karakterleysi og gunguhátt í því sem einkennir þessa leikmenn sem spila fyrir UTD merkið í dag.
En það birtir líklega seint um síðir og gæti það tekið nokkur ár að ná stabíli í leik liðsins og við náum loks að berjast um einhver sæti sem gefa eitthvað eða jafnvel eina og eina dollu í nánustu framtíð. Hvort DeGea er sulta, Lindelof raggeit, Tommi kulsækni, Lingard þvælari og Martial fýlupoki svo dæmi séu tekin verða aðrir að dæma um en eitt er víst að lýsingin að ofan er eins og olía á eldinn fyrir andstæðingana hverju sinni, það virðast allir vita hvernig á að taka á okkur. Það er hins vegar okkar að sýna að við séum sýnd veiði en ekki gefin og berjast til þrautar uns yfir lýkur. Það er það eina sem ég bið leikmenn um að gera fram á vor öðruvísi verð ég aldrei sáttur.
GGMU
Óskar G Óskarsson says
Eg bara get ekki meira af þessu kjaftæði ! Það er bara ekkert sem réttlætir það að Ole se þarna áfram ! Hvað sjá menn þarna úti? Það er engin framför hja liðinu siðan hann tók við fyrir ári !
Og ekki nóg með það að poolararnir eru að sigra heiminn að þa erum við orðnir að fokking aðhlátursefni !
Karl Garðars says
Ég efast ekki um að Ole sé með prinsippin á hreinu og Mick Phelan hefur reynsluna en ég er fyrst og fremst hræddur við taktískt reynsluleysi hjá þjálfaraliðinu og að þessir gaurar þó kannski fyrir utan Phelan ráði ekkert við stjörnustælana í sumum leikmönnum. Og þá á ég við um framhaldið þó svo að Janúar og sumar gluggarnir myndu gefa vel.
Ole mun alltaf eiga sérstakan stað í united hjartanu í manni en ég er ekki sannfærður um að þetta geti nokkurn tímann gengið, því miður.
Ég hef sagt það áður að lausnin gæti verið að fá Poch inn og “uppfæra” Ole í DOF svo flestir geti gengið sáttir frá borði en svo má spyrja sig hvort að Poch myndi eitthvað frekar ráða við þennan mannskap.. Ole hefur þó alltaf ákveðið bakland innan klúbbsins og söguna með sér.
Að mínu mati mun dæmið ekki ganga upp, burtséð hver þjálfar, fyrr en allir leikmennirnir fara að spila fyrir liðið fyrst og fremst og ég er mest svekktur yfir því að það hugarfar virðist vanta m.a.s hjá uppöldu leikmönnunum sumum hverjum.
Klopp er búinn að gera þetta meistaralega vel hjá púðlunum og þar eru leikmenn sem eru hreinlega ekkert sérstaklega góðir að blómstra og berjast fyrir hvern annan. Það er gjörsamlega ógeðslegt að horfa upp á en maðurinn á allt hrós skilið. :)
Langar pælingar og niðurstaðan engin. Ég mun hins vegar standa við bakið á Ole fram á síðasta dag, hann á ekkert minna skilið frá manni.
gummi says
Solskjær er bara of næs til að stjórna United við lendum 2 _ 0 undir á móti watford og maður situr bara sem rólegasti á meðan pep og Klopp hefðu verið brjálaðir og öskrað á sína menn
Heiðar says
Ég held að klúbburinn sé á réttu róli hvað varðar leikmannakaup og áherslu á akademíuleikmenn. Nokkurn veginn allt annað er í ólagi eða ákveðnu ójafnvægi.
Það vantar klárlega skapandi miðjumann annan en Pogba sem ég held enn að sé á förum frá félaginu næsta hálfa árið. Það vantar framherja á besta aldri, helst einhvern sem þeir ungu litu upp til. Martial er hæfileikaríkur en að mínu viti alltof óstabíll og virkar afar stemningslaus sem getur varla verið smitandi nema á neikvæðan hátt.
Harry McGuire virðist að sama skapi ekki vera alveg sá traktor sem liðið var að leita að. Vissulega er varnarleikurinn skárri en í fyrra en ekki nógu góður samt. Harry er þess utan afar mikill klaufi í föstum leikatriðum, lætur dæma á sig trekk í trekk og einnig hrikalegt þegar hann þarf að senda lengra en tvo metra frá sér.
Karl Garðars says
Harry var einmitt talinn bjóða upp á ógn í föstum leikatriðum, uppspil og ágætis sendingagetu.
Hann er búinn að vera hrikalegur klaufi í þessum síendurteknu brotum en ég held að vandamálið sé allaf það sama. Það virðist enginn í liðinu geta gefið almennilega fyrir og svo virðist enginn vilja fá boltann nema kannski Freddi karlinn. Í það minnsta fara menn frekar í felur bak við mótherjann en að fría sig.