Í kvöld fór fram síðari viðureign Manchesterliðanna í deildarbikarnum en brekkan var ansi brött eftir 1-3 tap á heimavelli. Ljóst var að United þurfi að eiga frábæran leik til að eiga möguleika á að snúa við taflinu en Ole Gunnar Solskjær gat því miður ekki stillt upp sínu sterkasta liði. Hann stillti því upp í 5-3-2 með Luke Shaw í þriggja manna miðvarðarlínu og Williams og Wan-Bissaka í vængbakvarðarstöðum en þó líklega aftar á vellinum en gegn Tranmere um helgina.
Á bekknum voru þeir Romero, Bailly, Dalot, Jones, Andreas, James og Mata.
Pep Guardiola stillti upp sterku liði en hann hafði fyrir leikinn beðið stuðningsmenn liðsins að fjölmenna á völlinn í kvöld, þrátt fyrir sterka stöðu eftir fyrri leikinn.
Bekkurinn var ekki af verri endanum: Ederson, Stones, Jesus, Zinchenko, Silva, Garcia og Foden.
Fyrri hálfleikur
Eflaust voru einhverjir hávissir um hvernig leikurinn færi eftir að sjá fyrstu mínúturnar. David de Gea átti frábæra markvörslu á 7. mínútu eftir skalla frá Aguero. Argentínumaðurinn slapp inn fyrir Luke Shaw og hefði átt að ná forystunni fyrir City. Aftur átti de Gea markvörslu í heimsklassa þegar Mahrez átti ágætis skot á markið. Manchester City voru mun sterkari fyrstu tíu mínúturnar.
Aguero komst aftur í frábært færi á 17. mín en Maguire gerði vel að elta hann og náði örlítið að trufla hann en skotið engu að síður gott og þvingað de Gea í frábæra vörslu enn og aftur.
Eftir um hálftíma leik átti Aguero frábæra stungu inn fyrir vörn United þar sem Sterling bar boltann inn í teiginn en Maguire fylgdi honum vel eftir og bjargaði á seinustu stundu í horn. Úr horninu kom stutt spyrna og síðan fyrirgjöf sem de Gea greip þægilega en meiddist eilítið eftir samstuð við Otamendi.
Stuttu síðar átti Lingard gullfallegt augnablik þegar hann klobbaði tvo leikmenn City en Rodrigo braut á honum í hefndarhug og dæmd aukaspyrna á vinstri kantinum. Lingard og Fred stóðu yfir boltanum en Fred snéri boltanum inn í teiginn þar sem vörn City gerði ekki nógu vel og boltinn skoppaði fyrir Nemanja Matic sem tók hann í fyrsta og hamraði hann á nærstöngina og Bravo gjörsamlega frosinn af undrun. Stöngin inn og staðan orðin 0-1 gjörsamlega þvert á gang leiksins enda var þetta fyrsta skot United í leiknum.
Rétt fyrir hálfleik áttu City menn flotta og hraða sókn sem endaði með fyrirgjöf inn í markmannsteiginn þar sem Sterling var fyrstur mann og potaði boltanum framhjá de Gea en þegar sá spænski kom ekki neinum vörnum við var komið að manninum með flaggið. Rangstaða dæmd réttilega og staðan enn 0-1.
Síðari hálfleikur
Ole Gunnar Solskjær gerði eina breytingu í hálfleik þar sem Mason Greenwood kom útaf og í hans stað kom Daniel James. Sá var ekki lengi að koma sér í ákjósanlega stöðu og vinna aukaspyrnu út á hægri vængnum. Fyrirgjöfin frá Fred var góð en skallinn frá Maguire rétt yfir markið.
United átti flotta pressu í byrjun síðari hálfleiks en misstu boltann og City snéri vörn í sókn og Sterling komst í frábæra stöðu en de Gea fljótur út á móti honum og truflaði hann. Sterling snéri við og endaði með að skjóta hátt yfir markið.
Önnur breyting United kom á 65. mínútu þegar Andrea Pereira kom inn í stað Jesse Lingard. Lítið marktækt þar til Walker átti þrumufleyg frá miðjum vellinum sem de Gea slóg út með krepptum hnefum. Sekúndum síðar gerðist Maguire sekur um hrikaleg mistök þegar hann reyndi að spila boltanum út frá markmannsteignum sem endaði beint á sóknarmanni City. En enn og aftur mistókst þeim að nýta sér mistök United manna.
Aftur náðu United að setja pressu á City í ágætissókn en sending Luke Shaw var auðlesin og City menn brunuðu í skyndisókn sem Matic tók á sig að stoppa. En serbinn var á gulu spjaldi og þetta reyndist síðasta stráið en dómarinn þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um og Matic sá rautt. Þá kom síðasta skipting United, þegar Juan Mata kom inn á fyrir téðan Luke Shaw.
Á 84. mínútu kom enn ein frábær sókn frá heimamönnum sem endaði með Aguero einn á móti de Gea en aftur bjargaði flaggið okkur því argentínumaðurinn kláraði laglega færið. Staðan því enn 0-1 sem betur fer þar sem möguleikinn lifði enn.
Í kjölfarið kom frábær sókn hjá United sem endaði með því að Maguire af öllum mönnum fann sig á boltanum í d-boganum en brotið var á honum og United fékk kjörið tækifæri til að jafna metin. Úr aukaspyrnunni kom skot í vegginn og gestunum tókst ekki að koma boltanum fyrir markið. Þetta reyndist síðasta færið sem United fékk en Pep Guardiola var sniðugur og geymdi skiptingarnar sínar þar til í uppbótartíma. 0-1 sigur en samt ekki sigur í einvíginu.
Hugleiðingar eftir leik
Óhætt að segja að fæstir hafi búist við þessu, Manchester City ekki vanir að klikka á heimavelli, en engu að síður frábær barátta frá United. Maður leiksins er án efa David de Gea án nokkurs vafa en á eftir honum hefði Matic átt ágætis tilkall til nafnbótarinnar en rauða spjaldið sem hann krækti í setti strik í reikninginn.
Manchester City eiga þó eftir að bölva því að hafa ekki gert út um leikinn eftir þann urmul færa sem þeir sköpuðu sér en misnýttu. Nú er Manchester United búið að sigra ríkjandi meistara í tvígang á útivelli sem, ásamt fregnum þess efnis að Bruno Fernandes sé kominn yfir þröskuldinn, gætu kveikt þó ekki væri nema örlítinn vonarneista í brjóstum stuðningsmanna.
Liðið er greinilega fært um að skila úrslitum gegn stóru liðunum og vonandi kemur ferskur blær með nýja leikmanninum/leikmönnunum í janúarglugganum sem veitir Ole Gunnar Solskjær meiri möguleika, bæði hvað varðar liðsuppstillingu og leikstíl.
Það þarf þó ekki að fara eins og köttur í kringum heitan grautinn, liðið er að spila langt undir getu og ekki hægt að fela sig eingöngu bakvið meiðsli lykilleikmanna, en leikir á borð við þennan og gegn Tranmere Rovers geta gefið bæði leikmönnum og stuðningsmönnum aukna von um að ástandið geti breyst. Hins vegar má alveg búast við því fastlega að United skelli okkur rækilega niður á jörðina aftur með grátlegri frammistöðu í næsta leik. Vonum ekki.
Sindri says
1-0 Nemanja Matic. Það er þá von.
Theodór says
Hálft city liðið er að narta jaðarinn á teignum, samt rennir David boltanum alltaf á næsta varnamann, sem er umkringdur city mönnum. Þetta er orðin venjan í hverjum einasta leik núna, hreint út sagt magnað að við höfum ekki fengið mark á okkur úr þessu rugli. Þetta hlýtur að vera skipulag frá Óla, en ég hreinlega skil ekki tilganginn, því þeir enda hvort eð er alltaf á að negla boltanum fram eða tapa honum í innkast.
Audunn says
Matic klaufi að fá rautt.. afskaplega mikið óþarfa brot hjá honum.
En mikið svakalega á ég erfitt með að skilja þennan Daníel James..
Hvað ætli hans hlutverk er þegar hann er inn á vellinum?
Hann gerir nákvæmlega ekki neitt.. hvorki varnarlega né sóknarlega. Það kemur nákvæmlega ekkert út úr honum.. nákvæmlega ekki neitt.. hrikalega lélegur leikmaður.. skelfileg kaup og sóun á peningum.
Karl Garðars says
Jesse, one more time and you´re f****** off! Meira af þessu Ole.
David says
Markatalan 12 – 4 úr seinustu 6 leikjum!
Byggja á þessu og bæta liðið
Hörkuslagur gegn Wolves næst og nauðsynlegt að vinna hann, það er 4 stig í 14 sætið og erfiður pakki gegn liðum í kringum okkur ásamt því að vera með snúna dagskrá út leiktíðina.
SHS says
@Audunn,
D.James er ekki nýji Fellaini, engar áhyggjur.
Það virðist sem svo að þú þurfir alltaf einn leikmann til þess að drulla yfir í hvert sinn.
Ég sé mikið í stráknum þó hann hafi ekki átt góða leiki upp á síðkastið, og ég sé ekki annan kantmann sem hjálpar jafn mikið til baka og hann! Hefðir aldrei séð Martial (eða alla hina) reyna að tækla Salah sem aftasti maður um daginn!
Hann er líka á sínu fyrsta tímabili í efstu deild með flestar stoðsendingar af öllum í liðinu.
Og með alvöru framherja væru þær fleiri. Hættu þessu.
Silli says
@Audunn
Þessi „hræðilega lélegi leikmaður“ er samt sá okkar manna sem á flestar stoðsendingar hingað til á tímabilinu – Sem er einmitt hans fyrsta tímabil.
Hér er svo ágætis myndband sem lýsir því hvað hann gerir betur en flestir aðrir:
https://www.youtube.com/watch?v=LDUoHW3rBw8