Í kvöld fór fram síðasti leikurinn í bikarnum þegar Wayne Rooney og félagar í Derby tók á móti United. Í vikunni komust Arsenal, Sheffield United, Manchester City, Leicester, Newcastle og Chelsea eru öll komin áfram og þá lögðu kanarífuglarnir í Norwich lærisveina José Mourinho í leik þar sem sigurvegarinn myndi mæta sigurvegara úr leik kvöldsins.
Ole Gunnar Solskjær stillti upp í hefðbundið 4-2-3-1 með óhefðbundnu byrjunarliði þar sem Mata var út á hægri kantinum og Lingard á þeim vinstri með nígeríska prinsinn Ighalo upp á toppnum.
Bekkur: De Gea, Tuanzebe, Williams, Andreas, Matic, Greenwood, Martial.
Leikur fór mjög hægt og rólega af stað og ekki neitt markvert gerðist fyrstu mínúturnar. Fyrsta færið féll heimamönnum í vil, þegar Long átti ágætt skot rétt framhjá. Stuttu síðar fékk Luke Shaw gult spjald á 17. mínútu þegar hann braut af sér en Rooney tók boltann og stillti upp.
Úr aukaspyrnunni kom fínt skot, þétt upp við stöngina sem Romero í markinu þurfti að hafa sig allan við að blaka réttu megin við stöngina. Þetta átti ekki eftir að verða eina hættan sem skapaðist frá fyrrum United framherjanum.
Fyrsta hættulega færi United kom á 32. mínútu eftir frábæra sendingu inn fyrir frá Scott McTominay og Odion Ighalo náði fyrstur til boltans en Kelle Roos í markinu var fljótur út á móti og skot nígeríumannsins fór í öxlina á markmanninum.
Á 33. Mínútu dróg loksins til tíðinda þegar Luke Shaw brunaði upp vinstri kantinn og átti sendingu út í teig á Jesse Lingard sem skaut í jörðina og þaðan í varnarmann. Þaðan barst boltinn til Bruno Fernandes sem átti svipað skot sem skoppaði af varnarmúr heimamanna en í það skipti endaði boltinn hjá Shaw sem var þá kominn inn í teiginn og átti þriðja skotið sem skoppaði en í þetta skiptið skoppaði boltinn í bakið á Jesse Lingard og þaðan yfir markmanninn og í netið. 1-0 eftir líklegast eitt af furðulegri mörkum United á leiktíðinni.
Örstuttu síðar átti Bruno skot í höndina á leikmanni Derby innan teigs og hefði réttilega átt að dæma víti en flautan var ekki brúkuð í það skipti. En það átti ekki eftir að koma að sök þar sem Luke Shaw var á vellinum.
Sá enski bar boltann upp að teignum á 41. mínútu og virtist enginn ætla að mæta honum. Ighalo var eini United leikmaðurinn í teignum, umkringdur þremur varnarmönnum en tókst þó að búa til pláss og þráðbein sending frá Shaw rataði beint í lappirnar á Nígeríumanninum sem gerði vel í að hrista af sér varnarmennina og lagði boltann snyrtilega í vinstra hornið og tvöfaldaði forystuna.
Í síðari hálfleik voru Derby mun grimmari til að byrja með og fengu dauðafæri þegar fyrirgjöf frá hægri kantinum rataði beint á kollinn á Waghorn en skalli hans rétt framhjá. Þarna sluppu gestirnir með skrekkinn en betri leikmaður hefði stangað þennan í netið.
Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik komst Shaw inn í teiginn með boltann og átti sæmilegt skot með hægri fætinum, sem Roos varði með hægri fætinum á sér. Mínútu síðar átti McTominay skot en rétt framhjá.
Þegar um klukkustund var liðin af leiknum elti Bruno háan bolta í átt að teignum en markmaður Derby var snöggur úr á móti og kýldi boltann frá en lenti í samstuði við samherja. Boltinn barst út þar sem Juan Mata náði honum og lét vaða af um 35 metrum en markmaðurinn átti ekki í teljandi vandræðum með þann bolta.
Fyrsta skiptingin kom á 65. mínútu þegar Bruno var hvíldur og Andreas Pereira kom inn. Stuttu síðar fær Ighalo boltann í fæturnar rétt fyrir utan vítateig og stakk boltanum inn fyrir vörnina á Pereira sem lagði boltann aftur út á Nígeríumanninn sem átti skot af stuttu færi. Skotið fór í varnarmann en Ighalo fékk boltann aftur og gerði engin mistök í seinna skiptið og smurði tuðruna upp undir slánna í þaknetið og tryggði farseðilinn inn í 8 liða úrslitin.
United fengu 1-2 færi stuttu eftir það en að þeim loknum fór afmælisbarnið Fred útaf og Martial kom inn á í hans stað. Þegar korter var til leiksloka fengu Derby þó ágætis færi þegar Marriott elti bolta inn fyrir og náði hörku skoti á markið en Romero var vel á verði og bægði hættunni frá enda staðráðinn í að fá skráð á sig enn eitt hreint lak í búrinu.
Þá fór Luke Shaw útaf fyrir Brandon Williams. Í uppbótartíma gaf McTominay aukaspyrnu út við vítateigshornið og aftur tók Rooney það að sér að taka spyrnuna. Rooney, sem skoraði þónokkur mörk fyrir United, var hársbreidd frá því að skora en Romero var ekki á þeim buxunum að hleypa neinu inn í kvöld.
Þótt boltinn hafi verið á leiðinni í skeytin gerði Argentínumaðurinn sér lítið fyrir og varði boltann og þar sem síðasta möguleika Derby til að komast á blað í leiknum.
Að leik loknum
Maður leiksins var án efa Luke Shaw, hvort sem fyrsta markið skráist á hann eða öxlina á Jesse Lingard. Shaw hefur verið einstaklega góður á undanförnum vikum og hélt uppteknum hætti í kvöld og kórónaði frammistöðuna með marki og stoðsendingu.
Odion Ighalo gerði tilkall til þess einnig enda með tvö mörk í kvöld og sýndi það vel hvaða möguleika hann getur boðið Solskjær upp á. Líkamlegur styrkur, fremst á vellinum sem getur haldið boltanum og dreift honum en er einnig duglegur að skapa sér pláss í boxinu.
Varnarlega séð var United skothellt í kvöld. Þótt Romero hafi þurft að henda í þrjár sýningarvörslur var lítið að gera hjá honum og varnarlínu United sem hélt hreinu í sjötta skiptið í síðustu 9 leikjum. Nú hefur United ekki tapað síðan þeir fengu útreiðina gegn Burnley og hefur liðið skorað 22 mörk og einungis fengið á sig 2.
Auðvitað þarf að taka inn í myndina að þarna eru tveir deildarleikir og svo tveir leikir við Club Brugge en það er þó góðs viti engu að síður. Núna um helgina fer fram ein risastór prófraun þegar Manchester City mætir á Old Trafford en þó City menn vilji sjálfsagt hefna fyrir töpin á Etihad vellinum fyrr á leiktíðinni er leikurinn líklegast stærri fyrir United.
United þarf nauðsynlega á stigum að halda í baráttunni um Meistaradeildarsætið en næstu þrír leikir Chelsea, sem situr nú í 4. sætinu, eru Everton (h), Aston Villa (ú) og Leicester City (ú). Á meðan United mætir City (h), Tottenham (ú) og Brighton (ú).
Það verða því ansi strembnar næstu vikur en til að auka álagið þá verður einnig spilað í Evrópukeppnum á milli þessara leikja þar sem við eigum leik við LASK frá Austurríki. Það er því nóg af spennandi leikjum framundan.
Karl Garðars says
2-4
Ighalo með 2, bruno og greenwood sitthvort.
Roo með tvennu.
Þið lásuð það fyrst hér!
Sumarliði árnason says
Hvenær ætlar solskjær að skilja að með lindgard í liðinnu ertu einum færri. Það er ekki nóg að vera duglegur að hlaupa. Svo ertu með mata sem hleypur hægt. Vonlausan lindelöf í vörninni. Og feitan senter frá kína. Vonandi fer þetta vel.
Sumarliði árnason says
Líklega þarf ég fljótlega að fara að éta sokk.
Sindri says
Gott að nýta Mata í þessa leiki. Feiti senterinn frá Kína er væntanlega fenginn til að spila og skora í svona leikjum.
Gomes eða Chong hefðu samt alveg mátt starta á kostnað Jesse Lingard (muniði þegar hann var kallaður ‘Messi’ Lingard í tvo mánuði).
sigurvald says
@Sumarliði – Vonandi smakkaðist sokkurinn þokkalega :-)
GGMU <3