Í kvöld fór fram fyrri viðureign Manchester United og LASK frá Austurríki í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Eins og víða annars staðar í Evrópu var leikið fyrir luktum dyrum vegna kórónaveirunnar en það átti eftir að reynast United vel. Ole Gunnar Solskjær stillti upp sterku liði:
Varamenn: De Gea, Lindelöf, Tuanzebe, Andreas, Matic, Chong, Greenwood.
Strax á upphafsmínútunum sást ákveðinn gæðamunur á liðunum og því kom ekki á óvart að LASK skyldi liggja djúpt á vellinum og reyna að beita skyndisóknum. Framan var United mikið með boltann án þess þó að gera mikið við hann eða skapa sér nokkuð. En loksins á 18. mínútu komst Luke Shaw í álitlega stöðu og setti góðan bolta inn í teiginn en Schlager blakaði boltanum út í teiginn. Þar var Juan Mata fljótur að átta sig og tók skot sem fór af varnarmanni og í horn.
Um fimm mínútum síðar kom fyrsta hættulega færið þegar Daniel James fékk nægt pláss við vítateigsbogann, hlóð í sleggju en Schlager í markinu gerði vel og varði í horn.
Á 28. mínútu dróg hins vegar loks til tíðinda þegar Bruno nokkur Fernandes tók boltann á lofti og kom hinum á Ighalo sem var við vítateigsbogann. Þar með var kennslustundin hafin. Því sá nígeríski gerði sér lítið fyrir og tók á móti boltanum með hægri, hélt á lofti með vinstri, aftur hægri áður en hann smellhitti tuðruna í slánna inn.
Mörkin gerast varla heiðarlegri, hreint út sagt gull af marki og gríðarlega dýrmætt útivallarmark komið í hús fyrir framan tóman völlinn. Þetta átti þó ekki eftir að vera eina mark leiksins.
Fyrsta hættulega færi heimamanna kom eftir tæplega 40 mín leik þegar Maguire fleytti áfram fyrirgjöf frá hægri kantinum yfir á Frieser sem átti fast skot að markinu en Eric Bailly stoppaði skotið. Rétt undir lok fyrri hálfleiks fengu United hornspyrnu en skallinn frá Harry Maguire sigldi rétt framhjá stönginni.
Síðari hálfleikur
Heimamenn mættu sprækir út á völlinn og ekki leið á löngu áður en Luke Shaw krækti sér í gult spjald og gaf aukaspyrnu út við vítateigshornið en eins og í fyrri hálfleik tókst heimamönnum ekki að komast framhjá veggnum.
Hinu megin á vellinum áttu United menn nokkur hættulítil skot, Mata, McTominay og Ighalo, áður en heimamenn komust í næstu sókn. Sú sókn átti reyndar eftir að draga dilk á eftir sér en þegar sóknin rann út í sandinn snéru United vörn í sókn og geystust upp völlinn.
Ighalo átti hnitmiðaða sendingu á Daniel James sem rak boltann upp vinstri kantinn áður en hann tók hornrétta beygju inn að vítateigsboganum og tók skotið snemma. Varnarmenn LASK og Schlager í markinu voru varnarlausir og boltinn endaði í markinu. 0-2 og staðan í einvíginu orðin ansi vænleg fyrir gestina.
Örstuttu síðar voru United aftur komnir í sókn þar sem Ighalo komst einn inn fyrir eftir frábæra stungusendingu frá Bruno en skotið hans endaði í stönginni innanverðri án þess þó að fara inn í markið.
Þá kom Tahith Chong inn fyrir Daniel James á 70. mínútu til að fagna nýjum samning en hver annar en Eric Bailly meiddist í sömu andrá? Síðan kom Andreas Pereira inn fyrir Bruno Fernandes þegar um korter lifði leiks og gott að sá portúgalski gat fengið smá hvíld fyrir Tottenham leikinn.
Á 82. mín handsamaði Romero boltann eftir máttlausa sókn frá heimamönnum og kastaði boltanum út á hægri vænginn á Pereira sem tók hárfína snertingu yfir á Mata. Sá spænski brunaði upp kantinn og lagði boltann aftur til baka inn að miðju þar sem Fred tók við honum. Mata hélt hlaupinu áfram og enginn virtist taka eftir því nema Fred sem lagði boltann framhjá öllum varnarmönnunum og spænski galdramaðurinn gerði engin mistök og lagði boltann í hægra hornið framhjá Schlager og breytti stöðunni í 0-3.
Síðasta skiptingin var svo Mason Greenwood inn fyrir Odion Ighalo sem hafði átt stórfínan leik.
Uppgefinn uppbótartími var einungis þrjár mínútur enda eflaust ekki neinn tilgangur í að kvelja heimamenn mikið lengur en margt getur gerst á þremur mínútum. LASK voru í sókn en Bailly virtist vera í áskrift af hreinsunum og átti eina slíka beint í lappirnar á Chong sem brunaði upp miðjuna.
Sá ungi sá frábært hlaup frá Greenwood bakvið vörnina og stakk boltanum í svæðið fyrir hinn táninginn. Sá þakkaði laglega fyrir sig með því að bruna inn í teiginn og skjóta í stöngina, stöngina inn úr þröngu færi. Glæsilegt mark hjá Greenwood og stoðsending fyrir Chong.
0-4 og um mínúta eftir af uppbótartíma en greinilega nægur tími til stefnu eða að minnsta kosti fyrir Pereira. Brasilíumaðurinn tók aukaspyrnu á miðjum vallarhelming heimamanna hratt, gaf aftur á Fred sem sendi til baka í fyrsta og Pereira ákvað að þruma bara á markið fyrst ekki voru nema örfáar sekúndur eftir. Eitthvað fipaðist Schlager enda eflaust orðinn þreyttur að sækja boltann úr netinu en hann kom engum vörnum við og 0-5 útisigur staðreynd.
0-5 útisigur, sá stærsti í Evrópukeppni hjá United í meira en 7 ár og þótt engin viðureign sé tæknilega búin í fyrri hálfleik þá verður að segjast eins og er að Ole Gunnar Solskjær gæti eflaust hvílt allt byrjunarliðið úr Tottenham leiknum í síðari viðureigninni.
Fyrir leikinn hefðu margir hverjir sætt sig við 0-1 sigur til að auðvelda síðari viðureignina en United valtaði yfir LASK og litu virkilega vel út þótt leikurinn hefði farið hægt af stað.
„Panic–kaupin“ okkar í janúarglugganum, Odion Ighalo (9), er nú þegar búinn að sanna sig en hann hefur sýnt það að hann býður upp á hæfileika sem United skorti, jafnvel á meðan Lukaku var hér. Hann er sterkur og leitast endalaust eftir því að fá boltann og býður upp á heilmikla möguleika sem þessi fókuspunktur fremst á vellinum. Ekki skemmir fyrir að hann er með frábærar snertingar eins og sást í fyrsta markinu í kvöld þar sem hann vafði boltann inn í bómull með löppunum áður en hann klíndi honum í slánna inn.
Bruno Fernandes(8) heldur áfram að vera frábær og ótrúlegt hvað hann virkar eins og púslið sem vantaði inn í jöfnuna. Flæði sóknarleiksins, ákefðin og krafturinn er í nýjum hæðum með hann innan liðsins og aðrir leikmenn blómstra í kringum hann. Hver veit, kannski tækist honum að láta Pereira og Lingard líta út fyrir að vera í heimsklassa, svo góður er hann.
Sergio Romero (6) hafði ekkert að gera enda stóð vörnin fyllilega fyrir sínu rétt eins og í síðustu leikjum. En Argentínumaðurinn hefur enn ekki tapað leik á þessu tímabili og hefur reynst okkur frábær varakostur frá því hann kom til liðsins.
Bailly (7) og Maguire (7) áttu frekar þægilegan dag á skrifstofunni en flestir boltarnir sem þeir þurftu að takast á við voru æfingaboltar. Shaw (7) og Williams (7) voru flottir, sérstaklega fram á við og áttu góð hlaup sem olli heimamönnum vandræðum þótt þeir misstu báðir boltann nokkuð oft fyrir minn smekk. McTominay (6) átti ekki sinn besta leik en skilar engu að síður sínu en Fred (8) átti enn einn skínandi góðan leikinn og kórónaði hann með frábærri stoðsendingu á Juan Mata.
Daniel James (8) komst loksins aftur á blað en markið hans var kærkomin viðbót ofan á fína frammistöðu hans. Hinu megin spilaði svo Juan Mata en eins og oft vill verða þá dróg Mata sig mikið inn að miðju vallarins en hann hreinlega óð í færum og hálffærum og átti fyllilega skilið að komast á blað líka.
Nú hefur liðið spila ellefu leiki í röð án þess að tapa, haldið hreinu í níu af þessum ellefu en á sama tíma skorað 29 mörk og fengið á sig 2. Nýju leikmennirnir hafa báðir smellpassað inn í liðið og greinilegt að United er að rétta úr kútnum. Þó vissulega þurfi að taka inn í myndina að United hefur verið talið mun sigurstranglegra í sumum þessara leikja þá er samt gígantískur munur á leik liðsins. Liðið hættir ekki lengur eftir að komast í 1-0 eða 2-0, heldur varnarmúrnum þéttum og það er eitthvað að segja mér það að andinn í klefanum er mun léttari og leikmenn greinilega tilbúnir að berjast til síðasta blóðdropa fyrir Solskjær og byrjunarliðssæti.
Næsti leikur er eins og áður segir gegn Tottenham á útivelli en lærisveinar José Mourinho eru í afleitum málum, Moussa Sissoko, Harry Kane og Heung-Min Son eru allir meiddir og liðið hefur ekki unnið í 6 síðustu leikjum sínum og féll úr leik í Meistaradeildinni gegn RB Leipzig. Þá hefur Mourinho kastað Tanguy Ndombele undir rútuna eftir slaka frammistöðu hans um helgina og greinilegt að þungt er yfir liðinu og mórallinn langt frá því að vera uppörvandi og líflegur.
Það er því kjörið tækifæri fyrir United að hamra járnið á meðan það er heitt eða öllu heldur hamra liðið á meðan það er kalt og setja enn meiri pressu á Lampard og bláliðana hans í Chelsea sem hanga í fjórða sætinu.
Auðunn says
Spáið í því að eiga Alexis, lána hann út og fá svo leikmann eins og Ighalo lánaðan.
Ég held að allir geti verið sammála því að Alexis hefur meiri knattspyrnulega hæfileika á meðan Ighalo hefur rétt hugarfar, dugnað og vilja.
Og hvor hefur komið betur út fyrir klúbbinn? Held að það sé augljóst svar við því.
Þetta segir okkur að rétt hugarfar er verðmætara en maður með hæfileika sem nennir ekki að leggja sig fram.
Þvílík bomba hjá Ighalo í þessu marki, frábærlega vel gert 👍👌⚽⚽
Cantona no 7 says
Ja takk fyrir
G G M U
Silli says
11 !
GGMU.
Robbi Mich says
@Auðunn: Hárrétt. Enda skrifaði SAF í bók sína ‘Leading: Learning from Life and My Years at Manchester United’ frá 2015 að hann tók alltaf hard-work og determination fram yfir talent.
Mæli með þeim lestri, hafði mjög gaman af þeirri bók.
Helgi P says
Flottur sigur bara gefa allt í þessa keppni
Sindri says
Frábært að fá aðra flugeldasýningu.
Vonandi að þetta hafi ekki síðasti leikur tímabilsins, þó maður óttist það.
Það verður allavega frí um helgina hjá okkur og ansi ólíklegt að LASKverjar fljúgi til Englands í næstu viku.
.
Ef að allt fer á versta veg og þessi vírus veldur meira en bara nokkurra vikna hléi, verða allavega ekki krýndir neinir Englandsmeistarar í ár
guðmundur Helgi says
Ahrif fernandes a liðið minnir svolitið a ahrif cantona a utd a sinum tima,baðir smellpassa i liðið og virkja aðra leikmenn liðsins og gera betri,
Heiðar says
Ef nýr þáttur af Djöflavarpinu er í bígerð, koma hér nokkrar spurningar.
1. Það er augljóst að koma Bruno Fernandes hefur haft ævintýralega góð áhrif á United liðið. Enn á ný virðist Ole Gunnar Solskjær og co. vera að velja hárréttan mann inn í liðið, nokkuð sem hafði gengið afar illa frá tímum Sir Alex Ferguson. Er Ole Gunnar smám saman að sanna sig sem stjóri liðsins, eða er einhver þarna úti sem gæti verið að gera betur?
2. Paul Pogba og sagan endalausa. Nú ku Pogba vera farinn að hafa áhuga á að spila í rauðu á nýjan leik, eftir að liðið fór að styrkjast. Hæfileikarnir eru augljósir en er Pogba „United maður“, þ.e.a.s. rétti maðurinn til að koma inn í liðið og þá á kostnað hvers? (Hafa ber í huga vinnureglu Sir Alex Ferguson sem a) valdi alltaf vinnusemi framyfir hæfileika, og b) seldi leikmenn þegar þeir þóttust vera stærri en liðið.)
3. Sumir (lesist LFC aðdáendur) hlógu kaldhæðisnlega þegar Odion Ighalo var fenginn að láni frá Kína í janúarglugganum. Staðreyndin er þó sú að nígeríumaðurinn hefur spilað afar vel og nýtur hverrar mínútu í United treyjunni. Ættu Man.Utd að kaupa Ighalo í sumar og nota hann sem varaskeifu fyrir Rashford, Martial og Greenwood?
4. Það er vandasamara að tala um hvaða stöður á vellinum eigi að kaupa leikmenn í en fyrir nokkrum mánuðum. Hvaða stöður á vellinum er mikilvægast að finna nýja leikmenn í fyrir næsta tímabil?
5. Gefið að tímabilinu sé lokið, hvaða útfærslu mynduð þið vilja sjá á niðurstöðu deildarinnar? Nú hefur verið í umræðunni að LFC verði viðurkenndir meistarar enda þótt ekkert meira verði spilað. Þyrfti þá ekki að láta bottom 3 falla um deild að sama skapi þó það sé ansi hart miðað við stöðuna í botnbaráttunni?
Sveinbjorn says
Ég fagna öðru Djöflavarpi! Þetta eru mín tvö sent.
1.
Hann Ole má nú bara eiga það að hann hefur hitt naglann gríðarlega vel á höfuðið í sínum leikmannakaupum. Allir þeir sem hafa komið hafa staðið sig mun betur heldu en þeir sem komu í stjóratíð Moyes, Lois van Gaal og Mourinho. Þó svo Bruno og Ighalo séu búnir að vera stutt þá sést strax að bæði kaupin voru góð. Fyrir mína parta er ljóst að hann er á réttri leið með liðið og á hann því að halda áfram að vinna sína vinnu. Það þarf ekki nema 1-2 jafn góð kaup og hann hefur gert nú þegar til þess að berjast um sæti 1-3 að mínu mati.
2.
Hafa ber í huga að b-liðurinn átti við í flestum tilfellum hja SAF, en þó ekki öllum. Ég minnist þess þegar Rooney var farinn að gefa öðrum liðum undir fótinn og fór í fílu við SAF. Það var ekki vingott á milli þeirra tveggja, Rooney einn sá allra besti leikmaður þessa tíma og langbestur innan United liðsins. Ferguson lét hann samt ekki fara frá United og samþykkti áður óséða launahækkun hjá þrítugum leikmanni.. Þó var Rooney búinn að vinna marga titla með United þegar þetta gerðist, annað en Pogba okkar. Ef Pogba vill nýjan samning hjá United og Ole treystir honum að þá er ég sáttur. Ef Ole treystir honum ekki og lætur hann fara þá er það líka flott. ERGO: Ég treysti OGS fullkomlega fyrir því að taka rétta ákvörðun með Pogba. Hann hefur sýnt það í vetur að hann er óhræddur við að standa upp á móti mögulega besta miðjumanni heims og henda honum í kistuna ef hann er með stæla. Það væri flott að hafa hann í liðinu og flestir stuðningsmenn verða fljótir að gleyma þessu veseni á honum þegar hann byrjar að senda stoðsendingar og klína boltanum í samskeytin af 35 metra færi aftur.
3.
Ighalo er búinn að vera flottur og við þurfum alltaf varaskeifu fyrir Rashford, Martial og Greenwood. Það liggur í augum uppi að kaupa hann en mikilvægast er að geta skipt þessum target man inn á sem er alltaf tilbúinn í boxinu að pota boltanum inn. Zlatan var þannig, Lukaku var næstum þannig og Ighalo er þannig, þó hann hafi verið í Kína.
4.
Fyrst og fremst þarf hágæða hægri kantmann. James er alls ekki tilbúinn sem fyrsti kostur ennþá. Ef Pogba verður áfram þarf ekki annan byrjunarliðsleikmann. Ef hann fer þarf að fá annan inn. Ég hef aldrei verið sannfærður um Lindelof. Myndi allavega ekki gráta það ef honum yrði skipt út.
5.
Ég vil helst að tímabilið verði klárað í sumar þar sem ég held að United muni ná fjórða sætinu ef þeir klára tímabilið. Fínt að sleppa þannig við Evrópudeildina á næsta tímabili og fara í CL í staðinn.
En ef maður gefur sér að ekki verði fleiri leikir spilaðir á þessu 19/20 tímabili væri rétt að láta það sama gilda fyrir alla. Þ.e. ef núverandi staða verður lokastaða deildarinnar þá er rétt að þeir sem eru í neðstu þremur falli, Leeds og co fara upp í staðinn og Liverpool vinnur deildina. Ef tímabilið verður ógilt þá er ég á sama máli og Shearer; þá verður enginn sigurvegari, enginn fer upp um deild og enginn fer niður um deild. Á meðan það er stærðfræðilegur möguleiki á að tapa titlinum, þá er hann ekki unninn. Ef það yrði litið hjá þessu og gefið Liverpool titilinn, hvað ætti þá að gera í Frakklandi? Þar er PSG með 11 stiga forskot. Ættu þeir að vinna hann líka? Hversu mörg stig þarf að hafa í forskot, að því gefnu að ekki er búið að vinna deildina fyrir síðasta leik, til þess að fá að vinna deildina ef hætt er við á undan áætlun? Þetta er lína sem er erfitt að setja og í raun ekki hægt. Ef af seinni kostinum verður þá er samt vert að taka fram að Liverpool verða því miður ókrýndir meistarar þetta tímabilið, þó það yrði ekki sett þannig á blað.
Ef við förum út í það að pæla í hverjir skuli taka þessa ákvörðun um hvort skuli ógilda tímabilið eða láta stöðuna gilda eins og hún er þá hef ég séð á óáreiðanlegum miðlum að það muni fara fram atkvæðakosning á milli félaga í hverju landi fyrir sig. Ég veit ekki hvort það séu liðin í öllum deildum eða aðeins efstu deild, en að mínu mati er mun betra að láta svona kosningu fara fram og láta hana gilda heldur en aðrir kostir sem mér detta í hug.
Laddi says
Mín fimm sent:
1) Auðvitað er Olé ekki hinn fullkomni stjóri en úrslitin undanfarna mánuði tala auðvitað sínu máli. Það var vitað að miðjan væri vandamál og tilkoma Bruno hefur aldeilis lyft henni á hærra plan og þá leikmenn sem fyrir voru með. Hefði annar stjóri náð sömu breytingum með tilkomu Bruno? Eflaust, en hann er stjórinn sem er að ná að bæta leik liðsins og fá betri úrslit og ætti þ.a.l. að njóta góðs af því og traust liðsins og aðdáenda.
2) Það að Pogba vilji núna allt í einu spila (eftir komu Bruno) er engin tilviljun. Allt í einu er liðið aftur farið að spila árangursríkan fótbolta með tilkomu leikmanns sem er góður í að færa liðið hratt úr vörn í sókn, nokkurn veginn það sem Pogba átti að gera fyrir liðið. Persónulega segi ég að við ættum að selja Pogba því hann hefur hæfileikana en alls ekki rétta viðhorfið. Hann virkar vel með góðum leikmönnum í kringum sig en eiginlega alls ekki án þeirra. Það er áhugavert að bera saman Bruno og Pogba því þó þeir séu um margt líkir leikmenn þá hefur vera þeirra á vellinum mjög ólík áhrif á leikmennina í kringum þá. Bruno hefur rífur menn með sér eins og sannur leiðtogi á meðan Pogba nennir þessu eiginlega bara stundum. Auðvitað er hann miklu betri miðjumaður en Matic og McTominay, en þeir, eins og Bruno, eru tilbúnir að leggja líf og sál í verkefnið sem Pogba mun (sennilega) aldrei gera…
3) Já, engin spurning, kaupa Ighalo, hefur komið ótrúlega vel inn í þetta og hefur augljóslega „markanef“. Hef reyndar lengi haft trú á því að United kaupi Kane en þangað til það gerist þá er Ighalo frábær kostur og býður uppá öðruvísi áherslur fram á við.
4) Örvfættan kantmann (Jadon Sancho?) og svo annan heimsklassa miðvörð með Maguire (Koulibaly?). Svo, ef við gefum okkar að Pogba fari, þarf annan skapandi miðjumann (Maddison eða Grealish). Að lokum, svona áframhald af #3 þá væri heimsklassa framherji vel þeginn og ef United kaupir ekki Ighalo þá væri Kane auðvitað fyrsti kostur en annars væri Diogo Jota mjög sniðug kaup enda verið sjóðheitur undanfarið (auk þess að vera almennt frábær í fótbolta).
5) Prfff, þessi er erfið. Liverpool eru meistarar, það er bara staðreynd og við United menn þurfum bara að sætta okkur við það. Það skásta við þetta er samt að þetta verður svona „asterisk“ tímabil sem verður alltaf merkt þannig sérstaklega á Wikipedia og víðar og þ.a.l. alltaf talað um það sem einhvers konar frávik frá norminu.
En vandamálið er ekki hver vinnur heldur einmitt allt hitt, hverjir falla, hverjir fara í Meistaradeild, hverjir fara í Evrópudeild. Staðan í deildinni núna er ekki afgerandi hvað það varðar og þ.a.l. er engin góð ákvörðun í boði. Sennilega væri réttast að slaufa tímabilinu bara alfarið og láta niðurstöðu þess síðasta gilda varðandi CL/EL. Það er auðvitað fúlt fyrir einhver félög (Leeds og WBA sem fara ekki upp), Liverpool sem yrði þá ekki meistari og United/Wolves/Sheffield United sem færu þá pottþétt ekki í CL.
Það væri auðvitað líka hægt að klára deildina en það er mjög erfitt að segja hvenær hægt væri að spila aftur og því er mikil óvissa með það líka. Talað um að spila leikina án áhorfenda (það virkar) en það er ekki það sama fyrir neinn. Tímabilið er basically ónýtt hvort eð er, sama hvaða leið er farin…
Karl Garðars says
Tökum ekki neitt frá púðlunum, þeir hafa verið algerlega frábærir á þessu tímabili og sjaldan hefur nokkurt lið átt jafn mikið skilið að vinna deildina eins og staðan er í dag.
En er ég einn um það að vera svo ferlega innrættur að finnast það truflað fyndið ef þeir yrðu ekki meistarar.👹👹👹
Ég persónulega væri alveg til í Evrópudeild á næstu leiktíð fyrir áframhaldandi 20-18 þó svo að það komi til með að kosta félagið(Glazera) heil ósköp af peningum.
Alexander Hurra says
Daginn Liđsmenn.
Hvernig væri ađ sprengja í einn podcast á međan allir eru lokađir inni ađ horfa á vegginn.
Hægt ađ tala um hvernig á ađ enda tímabiliđ og hvernig markađurinn verđur, verđur lagt puđ í miđju og fram etc.