Við vonum að lesendur okkar hafi það gott á þessum fordæmalausu tímum. Við fengum sendan þennan pistil frá Tómasi Gauta sem þið getið vonandi haft gaman af í fótboltaleysinu. Hér er pistillinn:
Hver einustu landsleikjahlé líða fyrir mér eins og heill mánuður í hvert skipti. Þá skoða ég dagatalið á hverjum degi og tel óþolinmóður niður dagana. Það hefur kannski aðeins breyst síðustu ár eftir að karlalandslið okkar varð frábært knattspyrnulið og hafa þeir nú gefið okkur endalaust af ljúfum minningum. „Aldrei vekja mig,“ eins og Gummi Ben sagði. Engu að síður þá fæ ég enn í dag fótbolta „fráhvarfseinkenni“ þegar þessi hlé taka við.
Nú eru breyttir tímar. Það er liðinn meira en mánuður síðan við sáum okkar lið spila í ensku úrvalsdeildinni. Áður en ég held væli mínu áfram vil ég auðvitað segja að þessi heimsfaraldur er miklu stærri en fótbolti. Á meðan þetta ástand er í gangi sem er eins og ár af landsleikjahléi og íþróttafráhvörfin í botni hef ég verið að rifja upp gömul tímabil. Ég fæ hlýja tilfinningar við það að rifja upp þrennutímabilið, fyrstu skref Ronaldo og Rooney, Ferguson rebuild tímann sem tekst ótrúlega vel og líka bara tímabil sem voru ekki eins góð þar sem Ruud blómstar og gleymdir leikmenn eins og Bellion birtast. Svo mikil nostalgía. Ég hef ekki enn lagt í árin eftir Ferguson. Örugglega smá afneitun í gangi en vonandi getur maður rifjað upp þau tímabil sem „skemmtilega“ nostalgíu seinna meir.
Hugurinn hefur heldur betur reikað á ýmsa staði í þessu ástandi. Ég hef eytt nú þegar þremur vikum í sóttkví og velti því fyrir mér á meðan því stóð hvernig væri best að gera Sir Alex Ferguson kvikmynd. Margar spurningar vöknuðu upp. Hver myndi leika Ferguson? Hver myndi leikstýra? Hvers konar kvikmynd ætti þetta að vera? Öll ævisagan? Eða bara eitt tímabil? Hvaða tímabil? Er yfir höfuð hægt að gera góða kvikmynd um knattspyrnu?
Ég hef séð örugglega yfir 20 leiknar kvikmyndir um knattspyrnu og þær eru því miður allar frekar slappar. Þessari spurningu var varpað fram í hlaðvarpinu Football Cliches hjá Atletic, af hverju eru knattspyrnukvikmyndir svona lélegar? Goal er ein sú frægasta og þó hún sé allt í lagi þá fær maður hroll þegar aðalleikarinn fær boltann. Stutta svarið í hlaðvarpinu var að ástæðan er að það er mun erfiðra að choreographa knattspyrnu en aðrar íþróttir. Ég held það sé rétt. Þá velti ég því fyrir mér af hverju knattspyrnumenn geta þá bara ekki leikið í kvikmyndum? Svarið við því er að þeir eru flest allir ömurlegir leikarar fyrir utan kannski Neymar.
Eric Cantona og Vinnie Jones hafa þó gefið af sér gott orðspor á hvíta tjaldinu. Vinnie Jones lék auðvitað í Mean Machine sem eldist ágætlega. Ég held að lykillinn að góðri knattspyrnumynd sé að einblína ekki á knattspyrnumennina sjálfa. Ein besta knattspyrnumyndin að mínu mati er Mike Bassett. Ótrúlega fyndin, kómísk mynd um enskan þjálfara sem tekur við enska landsliðinu þar sem óspart er gert grín að kúltúrnum og landsliðinu. Four-four-fucking-two kemur þaðan.
Er kannski betra að gera mynd um þjálfara? Það hafa þegar komið út 2-3 kvikmyndir þar sem Sir Matt Busby er í sviðsljósinu. Hvaða annar þjálfari gæti orðið góður efniviður fyrir kvikmynd? Þar sem ég er United stuðningsmaður hugsaði ég nær eingöngu um þjálfara United. Mér datt reyndar enginn í hug sem hefur ekki stýrt United í fljótu bragði nema kannski skandinavísk realísk íslensk sveitakvikmynd um tannlækninn Heimi Hallgríms. Ég þarf að pitcha þá hugmynd síðar til Baltasars.
Aftur að efninu. Það er bara einn þjálfari sem kemur til greina. Það er Sir Alex Ferguson. Einn sigursælasti þjálfari allra tíma og það kemur enginn annar til greina í það minnsta hjá okkar klúbbi. Það er samt eitthvað sem segir mér að kvikmynd um tímabilið hjá David Moyes gæti orðið þyngri en grískir harmleikir. Nóg um það. Ég er búinn að ákveða að gera kvikmynd um Sir Alex Ferguson.
En hver ætti að leika hann? Ég held að það sé ein stærsta spurningin. Ég hef séð marga Kana gera tilraun með skoskan hreim og það er alltaf jafn vont í eyrað. Þannig við þurfum held ég að fá breskan leikara, helst skoskan. Við erum heppin hvað það eru margir góðir skoskir leikarar til. Ewan Mcgregor og James McAvoy eru full ungir fyrir minn smekk og ég held að enginn vilji horfa á kvikmynd um Ferguson og tímann hans hjá Aberdeen. Við þurfum gamlan skoskan leikara. Sean Connery er með sjarmann en ég vil leikara sem myndi ráða við að taka hárblásarann sannfærandi, eins og að drekka vatn.
Ég kynni til leiks Emmy verðlaunahafann Brian Cox. Hann er á frábærum aldri (73 ára), er skoskur, sjarmerandi og það er held ég ekki til leikari í heiminum sem er betri að öskra og að snöggreiðast eins sannfærandi og Ferguson var þekktur fyrir. Sjá klippu úr þættinum Succession.
Við erum komin með aðaleikarann. Sjarmerandi skoskur leikari sem getur auðveldlega tekið fræga hárblásarann.
Stóra spurningin er þá hvenær á myndin að gerast? Auðvelda svarið er 1998-1999. Við höfum öll séð þá sögu. Íþróttalið sem tekst hið ómögulega. Eins vel og það hljómar að horfa á dramatíska lokakafla þar sem lýsandinn öskrar „…and Solskjær has won it!“ og lokasetning myndarinnar frá Ferguson “Football, bloody hell!” þá er ég ekki sannfæður að það væri besta sögusviðið. Það væri held ég of klisjuleg mynd og ekki hægt að kafa eins djúpt í Ferguson og hans karakter.
Lokatímabilið væri fallegt en kannski einum of leiðinlegt? Ferguson kaupir Van Persie og the rest is history. Við þurfum sögusvið þar sem Ferguson hangir á bláþræði og sem sýnir okkur hversu magnaður hann er. Hvað var það sem einkenndi hann og væri áhugaverðast að sjá kvikmyndalega séð? Tímabilið 2006/2007. Manchester United eru nýbúnir að selja einn besta framherja heims Ruud Van Nistelrooy. Tímabilið áður voru þeir 8 stigum á eftir meisturum Chelsea. Til að bæta svörtu ofan á grátt þá varð Cristiano Ronaldo einn hataðasti knattspyrnumaðurinn á Englandi þegar hann bað dómarann að reka liðsfélaga sinn Wayne Rooney útaf og blikkaði í kjölfarið til Portúgalana á bekknum það á HM það sumar.
Cristiano Ronaldo sagði í viðtali að það væri kannski best ef hann myndi yfirgefa Manchester United. Hann hafði ekki sprungið út á þessum tíma en fáir efuðust um hæfileika hans og þá sérstaklega Sir Alex Ferguson. Það var einfaldlega ekki séns að hann yrði seldur, Ferguson krafðist þess.
En stóra spurningin fyrir tímabilið var hver átti að skora mörkin? Margir framherjar voru orðaðir við United og hingað til hafði Ruud séð um að skora. Á þessum tíma vorum við með meiddan Alan Smith eftir skelfilegt fótbrot. Louis Saha hafði átt ágætis spretti tímabilið á undan en var oft meiddur og Wayne Rooney var einn efnilegasti framherji heims en var kannski ekki að fara að skora neitt sérstaklega mikið. Stuðningsmenn bjuggust við stóru nafni til að fylla skarð Ruud. Það var eitt annað skarð sem átti enn eftir að fylla. Roy Keane var ekki lengur í liðinu og Paul Scholes glímdi sömuleiðis við skrýtin meiðsli sem tengdust sjóninni hans og var meira en minna frá allt tímabilið áður. Á endanum var Michael Carrick keyptur. Miðjumaður hjá Tottenham sem var kominn til Manchester United til að fylla skarð Roy Keane. Kaupin urðu ekki fleiri. Margir fjölmiðlar spáðu United í 4-5 sæti og fylgdi yfirleitt með orðunum: „Who’s gonna score the goals?“
United hafði ekki unnið deildina í þrjú ár. Voru búnir að detta einu sinni út í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á þessum tíma líka. Stuðningsmenn vildu hann burt og þótti hann vera þrjóskur og kominn yfir sitt besta. Cristiano Ronaldo og Rooney sættust en stuðningsmenn United voru ekki búnir að fyrirgefa Ronaldo. Það tók einn leik að fyrirgefa honum. Fyrsti leikur í úrvalsdeildinni fór 5-1 fyrir okkur. Ferguson tróð því sokki uppí marga fótboltasérfræðinga. Ronaldo varð besti leikmaður sem United hafði átt lengi. Saha varð virkilega góður. Vidic og Evra sem höfðu verið keyptir í janúar glugganum áður sýndu að þeir voru ein bestu kaup sem Ferguson hafði gert. United vann deildina. Carrick var límið sem vantaði og 7 leikmenn frá United voru valdir í lið ársins. Öll varnarlínan ásamt Edwin van der Sar, Ronaldo, Scholes og Giggs. Cristiano Ronaldo var sömuleiðis valinn besti ungi leikmaður deildarinnar og sá besti. Sá fyrsti til
að hljóta þann heiður. Rest is history.
Þetta var líklega mikilvægasta árið hans Ferguson. Fólk hafði misst trú á honum. Hann breytti mikið um taktík og sannaði að hann gæti aðlagað sig. Fyrir hafði Ferguson mestmegnis notað 4-4-2, hann hélt því áfram en notaði oft 4-3-3 gegn stærri liðum. Hann átti eftir að gera United að besta liðs heims aftur. Lið gátu ekki snert Manchester United og hann hafði gert mikilvægustu kaupin sín á ferlinum fyrir utan kannski Eric Cantona. Koma Evra, Vidic og Carrick bjó til góðan grunn að einu besta United liði allra tíma. Þetta er tímabilið sem væri hvað áhugaverðast að sjá á hvíta tjaldinu. Ímyndið ykkur Ferguson fá kaldan svita þegar Rooney er rekinn af velli og Ronaldo verður einn umdeildasti leikmaður í ensku deildinni. Efasemdirnar í sjónvarpinu, fjölmiðlum og frá stuðningsmönnum. Hvernig hann aðlagaði sig. Öskrin í klefanum þegar Nigel Reo Coker fór illa með miðjumenn okkar. Stoltið sem hann fyllist af þegar gulldrengurinn hans Ronaldo springur út. Stuðningsmennirnir muna aldrei aftur efast um hann. Snilligáfuna að hafa keypt Vidic, Evra og Carrick. Lyfta þeim stóra aftur. Þetta er myndin sem ég vil sjá.
Þó myndin myndi einblína á Ferguson þá þurfum við samt leikara í hlutverk liðsins og það er smá höfuðverkur. Það tók mig þó mjög stutta stund að finna hvaða leikari ætti að leika Wayne Rooney Þeir gætu verið tvíburar. Leikarinn heitir Devon Murray og er þekktastur fyrir hlutverk sitt Seamus í Harry Potter kvikmyndunum.
Vona bara að hann kunni eitthvað í knattspyrnu. Annars gæti Rooney svo sem verið bara staðgengill fyrir þau atriði. Næstur á blað er Cristiano Ronaldo. Eftir að hafa ráðfært mig við góðan vin minn frá Portúgal þá komst ég af því að það er enginn leikari með eins fullkominn líkama sem gæti höndlað portúgalska hreim og verið eitthvað í líkingu við knattspyrnu hæfileika hans. Því hef ég ákveðið að Cristiano Ronaldo leikur sjálfan sig. Hann eldist hvort eð er ekki og hefur örugglega ekkert að gera þegar ferli hans líkur. Hendi í hann nokkra seðla og hann mun elska að vera á hvíta tjaldinu.
Vinur minn hann Vilhelm Neto gaf mér þó ráð fyrir annan portúglaskan snilling. Hann Carlos Queiroz. Ég treysti hans ráðum fullkomlega og hefur því Joaquim Almeida verið ráðinn í hlutverk Carlos Queiroz.
Næstur er Paul Scholes. Þarf rauðhærðan góðan leikara sem er breskur. Ég hef ekki mikla trú á Rupert Grint í þessu hlutverki. Ég held hann sé of kómískur. Domnhall Gleeson gæti púllað þetta. Stórt nafn líka. Til hamingju Domhnall Gleeson, þú færð að leika þekktasta rauðhærða Bretann á eftir prins Harry og Vilhjálm.
Næstur er Giggs. Það er erfitt. Ég vildi óska þess að Hugh Grant væri 20 árum yngri því hann gæti leikið krullahærðan fljótan gleðigosa svo óaðfinnanlega. Annar sem kæmi til greina er Benedict Cumberbatch en hann er líka alltof gamall. Spurning um einhvers konar tækni til að
gera hann unglegan? Eigum við bara ekki að vonast til þess að hún sé nógu góð eftir nokkur ár? Látum þá fara í prufu fyrir hlutverkið. Þeir hafa örugglega ekki farið í prufu í mörg ár en þetta er örugglega draumahlutverk þeirra og þeir munu gera allt til þess að fá hlutverkið.
Michael Carrick verður leikinn af mér. Ég æfði með Gróttu þangað til ég var 16 ára og get því hæglega sent boltann í lappir. Þetta er líka mín hugmynd svo ég tek Sylvester Stallone á þetta og mun ekki selja réttinn nema ég sé Michael Carrick. Búinn að lesa Michael Carrick bókina og er strax byrjaður að æfa hreiminn. Eftir að hafa búið eitt ár í Liverpool tel ég mig vera 80% með þetta.
Ég er enginn casting director því treysti ég mér ekki til þess að finna leikara til að leika menn eins og Rio, Vidic og fleiri menn en hef fulla trú að það muni takast. Næst er að velja leikstjóra. Hann eða hún verður að vera breskur. Ég hugsaði með mér Tom Hooper. Góður að gera mynd tengda sögu Englands og hefur unnið óskarinn fyrir The King’s Speech. Hann hefur líka gert kvikmynd um þjálfara áður (The Damned United). Hinsvegar hef ég misst alla trú á þeim ágæta manni eftir að hann gaf út myndina Cats. Hann má leikstýra fræga tímabilinu hjá Arsenal mín vegna með James Corden sem Arsene Wenger.
Ég þarf sjónrænan, góðan leikstjóra sem kann að kóreógrafa vel. Mér dettur í hug Danny Boyle. Gæinn hefur unnið Óskarinn og er breskur. Hann gæti gert hárblásarasenurnar stórkostlegar. Bilað góð tónlist á meðan magnþrungna stemmningin er þegar Ferguson lætur menn heyra það. Kaldur sviti á enni Ferguson þegar Ronaldo verður hataðasti leikmaður ensku deildarinnar. Biluð fagnaðarlæti þegar titillinn kemur í hús. Hann hefur allt. Stílinn, hann er breskur og getur látið tyggjóát Ferguson líta spennandi út. Hann er ráðinn.
Ég skrifa myndina en fæ smá hjálp frá Ferguson og þarf því miður að sötra nokkrar vínflöskur með honum á meðan hann segir mér allt sem gerðist á bakvið tjöldin. Þetta er komið. Þetta er negla. Fyrsta knattspyrnumyndin til að fá Óskarinn. Ferguson mætir á Óskarsverðlaunhátíðina og vinnur þannig séð sinn síðasta titil með Rooney og Ronaldo sér við hlið.
Ronaldo fær tilnefningu sem besti leikari en vinnur því miður ekki.
Þetta var til gamans gert og vonandi styttir þetta ykkur stundirnar. Það gerði það allavega hjá mér í þessari sóttkví.
Ef þið eruð með hugmyndir að leikurum í öðrum hlutverkum eða jafnvel annað sögusvið í lífi Ferguson ekki hika við að deila skoðunum ykkar hér.
Ef ykkur langar að horfa á fína kvikmynd tengt klúbbnum mæli ég með myndinni United. Fjallar um Munchen slysið og áhrif þeirra á Manchester United. Fínasta mynd og er á Amazon Prime.
Aðrar knattspyrnu myndir sem eru góðar:
Mean Machine
Goal 1-2
Green Street Hooligans
The Firm
The Two Escobars (heimildarmynd)
Mike Bassett: England Manager
Farið vel með ykkur. Verið heima.
Tómas Gauti Jóhannsson
Halldór Marteins says
Frábær pæling og skemmtileg grein.
Ég held að þetta væri stórgóð mynd og myndi svo sannarlega mæta í kvikmyndahús til að sjá þessa eðalræmu. Það sem ég vil þó mótmæla er þessi setning: „…ég held að enginn vilji horfa á kvikmynd um Ferguson og tímann hans hjá Aberdeen.“ Það er eitthvað sem ég held að yrði líka mjög gott bíó.
Ég sé fyrir mér heildstæða biopic í anda kvikmynda um tónlistarmenn, á borð við Walk the Line eða Ray. Byrjar á gamlársdag 1941, seinni heimsstyrjöldin í fullum gangi og í iðnaðarhverfi í Glasgow fæðist Alex Chapman Ferguson. Stiklað á stóru á æskuárunum í umhverfinu sem mótaði hann og svo saga hans sögð í grófum dráttum fram á okkar tíma. Auðvitað ákveðið hundavað en samt ætti að vera hægt að gera góða, langa og dramatíska bíómynd úr efniviðnum.
En það er þó ekki það sem ég held að væri best, það sem ég væri mest til í að sjá væri vönduð þáttargerð. The Crown nema um konung knattspyrnustjóranna. Þrjár seríur af gæðaefni um Sir Alex Ferguson.
Sería eitt væri frá æskuárunum, fótboltaferillinn og upphafið á knattspyrnustjóraferlinum. Það væri geggjað að sjá períóduverk um það að alast upp í Glasgow upp úr seinni heimsstyrjöld, hvernig hann var strax sterkur karakter sem leikmaður, dramatíseraðir atburðir sem mótuðu hann sem leikmann, fótboltahugsuð og manneskju. Ástin er þarna líka, hann kynnist eiginkonu sinni.
Tíu þættir í seríu, sögulínan í þessum þáttum ná fram að því að hann er orðinn stjóri hjá Aberdeen. Dramatíkin í kringum það þegar hann nær fram sturluðu „við gegn öllum hinum“ mentalítedi í liðinu sínu, brýtur einokun Glasgow-risanna með því að vinna deildina og sería eitt klárast á rosalegum hápunkti þegar Ferguson gerir Aberdeen að Evrópumeisturum 1983 með því að sigra Real Mardrid í úrslitaleik eftir að hafa slegið Bayern Munchen út í fjórðungsúrslitum.
Alex verður leikinn af George MacKay í fyrstu seríunni. Flottur leikari sem getur túlkað unglinginn Ferguson, knattspyrnumanninn Ferguson og svo early-years-knattspyrnustjórann Ferguson.
Sería tvö tekur við af því og byrjar á dramatík líka þegar Ferguson stýrir Aberdeen til tveggja deildartitla í viðbót, sérstök áhersla lögð á að seinni af þeim er enn sá síðasti sem lið sem var ekki Rangers/Celtic lyfti, og svo tíminn þegar Ferguson varð aðstoðarþjálfari Jock Stein hjá skoska landsliðinu og upplifði það að sjá vin sinn og læriföður deyja eftir landsleik. Eftir það var hugur hans ekki lengur hjá Aberdeen og hann fór að leita annað.
Nóvember 1986, Ferguson finnur þetta annað og endar hjá Manchester United. Þar er nóg af efni til að fylla 10 þátta seríu. Erfið byrjun, hreinsun í hóp, tiltekt í félagskúltúr, fagmennskuvæðing, starfið hangir á bláþræði. Árekstrar en svo glæstur sigur 1991 og hlutirnir fara að gerast.
Eric Cantona kemur inn. Hvílíkur gúrmeikarakter fyrir svona seríu. Leikarinn sem verður svo heppinn að landa því hlutverki mun raka inn verðlaunum á helstu sjónvarpsþáttaverðlaunahátíðum, það er gefins. Innkoma class of ’92, fá einhvern góðan villain-leikara eins og Jonathan Rhys Meyers til að leika Alan Hansen að taka frægu „you can’t win anything with kids“ línuna. Helvíti gott sjónvarp!
Sería tvö nær hápunkti sínum og slúttast á þrennutímabilinu. Ferguson er í seríu tvö leikinn af Ewan McGregor.
Sería þrjú tekur svo tímabilið eftir þrennuna. Hæðir og lægðir, Fergie hættir við að hætta, gerir ákveðin mistök eftir þrennuna. Efasemdir um hann. Endurkoma, Evrópumeistarar. Glazerarnir koma inn og handjárna hann fjárhagslega en hann nær samt að finna leið til að sigra. Nýir erkifjendur poppa sífellt upp en Fergie finnur alltaf leið aftur inn. Hliðarsögur um veðhlaupahesta, rauðvínssöfnun og annað slíkt. Nóg af sögum, nóg af drama.
Þarna er Brian Cox vissulega kominn sterkur inn sem Fergie.
Þetta er eitthvað sem ég væri til í að sjá. Ó, svo mikið.
Audunn says
Já mjög skemmtilegar pælingar.
Persónulega hugnast mér leiðin hans Halldórs betur því ég er sammála því að Alex Ferguson hjá Aberdeen er mjög áhugaverður tími og ef myndin er um hann en ekki Manchester United þá finnst mér mikilvægt að fá alla söguna frá a-ö.
Að taka eitt eða tvö tímabil þá er maður ekki að segja nema bara smá pínu brot af sögu Sir Alex sem gæti skilið eftir fleiri spurningar en svör.
Mjög erfitt að gera eina bíómynd í venjulegri lengd um svona kall sem átti svo langan feril og afrekaði svo margt. Þáttaröð væri því málið sem myndi byrja um það leyti sem hann tekur við Aberdeen.
Eftir að hann þjálfaði Skota á HM þá munaði ekki mjög miklu að hann tæki við Arsenal en ef ég man rétt þá var það hans aðstoðarmaður sem hugnaðist ekki sú hugmynd að fara með honum til Arsenal og það hafi að mér skilst úrslitaáhrif á að Ferguson hafnaði þeim.
En það þarf auðvitað að leggjast í töluverða mikla rannsóknarvinnu til að hafa allar staðreyndir réttar.
Tómas Gauti says
Já ég er reyndar sammála með þáttaröð pælingar. The queen pælingin mundi örugglega virka hvað best fyrir svona mann með þennan feril.
TV virðist líka þora gera stuff í dag meir en því kvikmyndir. Skemmtilegar pælingar
Björn Friðgeir says
Eina sem vantar hér að ofan er nafnið á þáttaröðinni og það er auðvelt:
The Boss.
Magnús Þór says
@Björn Friðgeir: Nei, „The Gaffer“ er borðleggjandi.
Björn Friðgeir says
Of óskiljanlegt þeim sem ekki eru innvígð!
Halldór Marteins says
Held að það þurfi ekki greininn. Bara:
Boss
En það mætti líka vera með rúllandi titil eftir seríum.
Sería 1: Ferguson
Sería 2: Fergie
Sería 3: Sir Alex
Tómas Gauti says
Höfum þetta einfalt.
Titillinn verður: Sir
Sigga Clausen says
Skemmtilegar pælingar og gaman að lesa, væri alveg til í þætti um Ferguson og þá með rúllandi leikaraliði eins og í crown. En finnst vanta að mæla með United neð David Tennant, þú minnist á 2 myndir sem fókusa á Busby en vantar nöfnin á þær. Geri ráð fyrir að önnur þeirra sé United, ef ekki þá er hún skylduáhorf!
Tómas Gauti says
Hún heitir Believe og ég hef ekki séð hana. Svo minnti mig það væri önnur tv sjónvarpsmynd en finn hana ekki í fljótu bragði. United er mjög fín hinsvegar. Vel gerð