Paul Pogba byrjaði í fyrsta skipti síðan á annan í jólum og Mason Greenwood fékk tækifæri
Varamenn: Romero, Williams, Bailly, Fred, McTominay, Mata, Andreas, James, Ighalo
Lið Sheffield United
Leikurinn byrjaði hressilega, sóknir á báða bóga og Sheffield United var öllu meira með boltann en United sóknirnar voru hraðari, United náði svo að setja pressu á Sheffield United í smá tíma og úr innkasti fékk Rashford boltann, vippaði skemmtilega upp að endamörkum og stakk eina 3 varnarmenn af á tveimur metrum og gaf fastan lágan bolta og þar var Martial á markteignum nær og skoraði með föstu innanfótarskoti. Flott samvinna og United komið eitt – núll yfir á 7. mínútu.
United sótti áfram en voru næstum búnir að klúðra því þegar George Baldock var allt í einu leyft að valsa inn í teiginn og virtist í opnu skotfæri en vörnin náði að blokka og United kom upp í hraða gagnsókn. Rashford stakk boltanum inn fyrir og Martial var á auðum sjó en missti boltann of langt frá sér, og Moore komst fyrir boltann sem barst á Rashford sem var kominn hálfu skrefi of langt, hitti boltann afar illa og hann skoppaði framhjá. Hrikaleg sóun þar.
Rashford fékk hins vegar mun betra færi þegar 19 mínútur voru liðnar. Eftir mjög smekklegt spil á miðjunni, vippaði Pogba inn á teiginn, Rashford var í skotfæri en hitti boltann hrikalega illa þegar hann reyndi að taka viðstöðulaust skot. Maguire skallaði í netið rétt á eftir eftir horn en var búinn að ýta Jagielka aðeins of hressilega þannig það var dæmt af. United hélt áfram að pressa, Fernandes og Pogba báðir mjög öruggir og skapandi.
Í báðum hálfleikjum gegn Tottenham hafði United misst niður tempóið þegar tekið var drykkjarhlé um miðjan hálfleik og var það þá frekar ónauðsynlegt, í dag var hins vegar 32° hiti og vatnið vel þegið. United náði ekki alveg að koma upp sama takti og Sheffield United hélt boltanum vel í sókn en ógnaði ekki marki og John Lundstram reyndi skot af löngu færi, hátt yfir. Næsta sókn þeirra var hins vegar mun grimmari, og leikmenn þeirra fengu boltann þrisvar inni í teig án þess að vera undir pressu, úr því varð horn, sem svo varð ekkert út. Aftur var vatnshléið að leika United grátt, liðið náði ekki vopnum sínum almennilega. Mousset meiddist eitthvað en Sheffield gerði ekki skiptingu og loksins náði United góðri pressu sem endaði á því að Wan-Bissaka kom upp hægra megin, gaf fastan bolta fyrir þar sem margir United menn voru í miðjum teignum, þar á meðal Anthony Martial sem gat óáreittur sent boltann í netið, aftur með föstu innanfótarskoti. 43 mínútur liðnar og staðan orðin tvö núll. Sanngjörn forysta þó að vissulega hefði United átt rólegan tíma um skeið.
Sheffield United gerði tvær breytingar í hálfleik, Ollie McBurnie kom inná fyrir Mousset og Sander Berge fyrir Ollie Norwood. Gamli United unglingurinn hafði reyndar átt alveg þokkalegan leik. United menn komu hins vegar mun sterkari út úr klefanum, settu mikla pressu á Sheffield United og voru búnir að hrekja varnarlínu þeirra alveg inn í teig. Fyrstu tíu mínúturnar náði United að halda boltanum 75% af tímanum. Veggur Sheffield United var auðvitað þéttur eins og gefur að skilja þegar flestir voru komnir upp að teig. Þetta hélt áfram, United með örugga forystu og tóku enga óþarfa sénsa, Sheffield United átti engin svör.
Í þetta sinn breytti drykkjarhléið litlu, United náði upp spilinu og hélt áfram að senda á milli sín á vallarhelmingi Sheffield United og það hlaut að gerast að þeir fyndu glufu, Pogba gaf á Bruno, sem setti hann glæsilega á Martial, Martial framlengdi á Rashford sem sendi hárnákvæma sendingu milli varnarmanna og á Martial sem var kominn innfyrir og gerði engin mistök í að setja boltann framhjá Moore. Fyrsta þrenna Martial í aðalliði og fyrsta þrenna United leikmanns í úrvalsdeildinni síðan Robin van Persie setti þrjú á síðasta meistaratímabili United!
Þá loksins gerði United skiptingu, og þær allar fimm í einu enda leikurinn loksins í höfn. Andreas, James, McTominay, Mata og Ighalo komu inná, og útaf fóru Fernandes, Pogba, Rashford, Greenwood og Martial.
United eyddi síðan þvi sem eftir lifði leiks í reitabolta með stöku sendingum inn fyrir á Ighalo sem náði ekki að gera sér almennilega mat úr því, engin sérstaklega opin færi þó.
Þetta var nauðsynlegur og öruggur sigur, nú er Sheffield United skilið eftir, Wolves hanga í United og næstu tveir leikir Chelsea eru gegn City á morgun og Leicester á mánudag. Síðan á City erfiðan útileik gegn UEFA í júlí, og ef þetta heldur svona vel áfram þá er sæti í Meistaradeildinni undir United sjálfu komið.
Karl Garðars says
Það eru mörk í þessu liði. Menn verða bara að berjast.
EgillG says
Flottasti leikur United í langann tíma
Timbo says
Matic var frábær í kvöld. Hann hlýtur að eigna sér sexuna restina af tímabilinu. Martial klínískur og Wan Bissaka með óð til Antonio Valencia. Það verður erfitt að ná Chelsea eða Leicester en miði er möguleiki.
sigurvald says
Þarna!
Björn Friðgeir says
@Timbo Ég tel engar hænur en þetta eru leikirnir sem eftir eru
Manchester United
Norwich City (ú)
Brighton (ú)
Bournemouth (h)
Aston Villa (ú)
Southampton (h)
Crystal Palace (ú)
West Ham (h)
Leicester (ú)
Chelsea
Manchester City (h)
West Ham United (ú)
Watford (h)
Crystal Palace (ú)
Sheffield United (ú)
Norwich City (h)
Liverpool (ú)
Wolverhampton Wanderers (h)
Leicester
Everton (ú)
Crystal Palace (h)
Arsenal (ú)
Bournemouth (ú)
Sheffield United (h)
Tottenham Hotspur (ú)
Manchester United (h)
Leicester er með langerfiðasta prógrammið og okkur í síðasta leik. Chelsea – City í kvöld…
Björn Friðgeir says
Ljótt að gleyma Úlfunum, þeir eru jú jafnir okkur, en eiga strembið prógramm
Aston Villa (ú)
Arsenal (h)
Sheffield United (ú)
Everton (h)
Burnley (ú)
Crystal Palace (h)
Chelsea (ú)
Éljagrímur says
Miði er möguleiki !
Rúnar P says
Er komið sumarfrí hjá fréttamönnum Rauðu Djöflana eða búið að setja alla í sóttkví, ég veit að þetta var ekkert glæsilegur leikur í gær en sigur er sigur og þetta var nú eftir allt bikarleikur 😉
Björn Friðgeir says
Smá mönnunarvesen í gangi, hópurinn orðinn þunnur og svo verður lýst eftir styrkingu í glugganum!
Karl Garðars says
Sá að það er verið að orða Snejder við Rauðu Djöflana. Hann er búinn að vera á góðu skriði í skrifum upp á síðkastið.
Björn Friðgeir says
Við erum því miður með strangar ritstjórnarreglur, eftir einn ei skrifi neinn!