Eftir langa og stranga baráttu við kanarífuglana í austurhlutanum á laugardaginn var er United komið áfram í undanúrslit bikarsins ásamt Manchester City, Arsenal og Chelsea.
United munu þar etja kappi við Chelsea og vonast til að vinna á í fjórða sinn á leiktíðinni en Chelsea telfdi fram mikið breyttu liði, rétt eins og United, þegar þeir báru sigur út býtum gegn Leicester City á meðan United þurfti framlengingu og mark frá Harry Maguire til að komast í undanúrslitin.
Þessi leikur við Norwich í bikarnum var kjörið tækifæri fyrir marga af leikmönnum United sem hafa ekki spilað síðan fyrir COVID-19 til að sýna sig og sanna enda gerði Solskjær átta breytingar á liðinu frá því liðið lagði Sheffield á Old Trafford. Jesse Lingard, Juan Mata, Diogo Dalot ásamt fleiri leikmönnum fengu þarna kjörið tækifæri til að spila með lykilmönnum liðsins eins og Bruno og Maguire.
Eitthvað virtist liðið hiksta og mikið ryð var í mönnum en Solskjær þurfti að skipta út sex af þessum átta „nýju“ leikmönnum til þess að sigra neðsta lið deildarinnar sem léku manni færri alla framlenginguna. En fyrirliðinn tók það að sér að snúa taflinu okkur í vil þegar um tvær mínútur voru eftir áður en vítaspyrnukeppnin hæfist.
En það hafðist á endanum og United komið í undanúrslitin en næsti leikur liðsins er gegn Brighton and Hove Albion undir stjórn Graham Potter. Þessi fyrrum vinstri bakvörður tók við Brighton á síðasta ári af Chris Hughton sem stýrði liðinu rétt framhjá falli með 36 stig eftir níu sigurleiki og jafn mörk jafntefli.
Undir stjórn hans hefur liðið nú þegar náð í 33 stig, þremur minna en allt tímabilið í fyrra og er sex stigum frá fallsæti þegar sjö umferðir eru eftir. Potter hefur verið mjög sveigjanlegur þegar kemur að uppstillingu og taktík en hann hefur oftast notast við 3-4-3, 4-2-3-1 og 4-3-3 en hefur þó breytt til og spilaði t.a.m. 4-2-2-2 gegn Leicester í síðustu umferð og náði að krækja í stig á King-Power vellinum, nokkuð sem mörgum öðrum liðum hefur mistekist.
Þá virðist Brighton koma ansi vel undan COVID-19 þar sem liðið náði einnig að leggja Arsenal 2-1 í umferðinni þar á undan með dramatísku marki frá Neil Maupay sem fékk heldur óblíðar móttökur frá Guendouzi eftir að hafa brotið á Bernd Leno fyrr í leiknum með þeim afleiðingum að sá þýski spilar ekki meira á tímabilinu.
United stendur því í mikilli þakkarskuld við Potter og hans menn fyrir að hafa stolið 5 dýrmætum stigum af liðum sem eru í Evrópubaráttunni. Það er þó af og frá að Brighton fái að halda því áfram á morgun en sigur í þessum leik er gríðarlega mikilvægur, þar sem Chelsea heldur áfram að vinna, Leicester er að dragast niður í baráttuna um 4. sætið og Wolves halda áfram að berja á Meistaradeildardyrnar með báðum framloppunum. Þeir eru sem stendur þremur stigum á undan okkur en eiga eftir leiki við Everton, Arsenal, Chelsea og Sheffield.
Leikurinn fer fram á heimavelli „Mávanna“, Falmer vellinum (American Express Community Stadium), sem rúmar vanalega rúmlega 30 þúsund manns en sökum ástandsins á Englandi verður ekki hræða í stúkunni. Það gæti reynst United vel, þar sem United hefur átt í nokkru basli með litlu liðin á útivelli á síðustu árum og ekki síst með Brighton & Hove Albion.
Lið heimamanna verður líklegast mjög svipað því og í Arsenal leiknum, en ég spái byrjunarliði þeirra þannig:
Neal Maupay mun leiða framlínuna en Leandro Trossard og Aron Mooy verða líklegast sitthvoru megin við Pascal Groẞ í 4-2-3-1 uppstillingu. Graham Potter getur huggað sig við það að einungis José Izquierdo er á meiðslalistanum en þó eru þeir Lewis Dunk og Davy Pröpper einu gulu spjaldi frá leikbanni en það mun líklegast ekki verða til þess að þeir fái ekki byrjunarliðssæti. Þó kann að vera að Webster nái ekki leiknum en hann þurfti að fara útaf í leiknum gegn Leicester City og verður að koma í ljós hvort hann verði leikfær.
Manchester United
Í leiknum gegn Norwich áttu lykilleikmenn á borð við Rashford, Pogba, Matic og Martial að vera hvíldir en sökum þess hversu arfaslakt B-lið United var, þurftu þessir leikmenn að stíga upp og spila 30-60 mínútur og verða því eflaust ekki eins sprækir og við hefðum óskað okkur. Bruno Fernandes átti líklega sinn slakasta leik en var engu að síður betri en flestir af leikmönnunum í kringum hann eins og Lingard, Mata og fleiri.
United hefur verið að reiða sig gífurlega á sköpunar- og leiðtogahæfileika hans, hugsanlega um of, svo réttast væri að hvíla hann þó það kunni að bjóða hættunni heim. United hefur ekki enn tapað á meðan Bruno hefur spilað og er ósigrað í síðustu 14 leikjum. En 120 mínútur um helgina og leikur á þriðjudegi býður upp á möguleg meiðsl svo það liggur í augum uppi að Solskjær þarf að gefa honum einhvers konar hvíld.
Það mætti leysa með því að setja Fred, Matic og Pogba á miðjuna saman. Nemanja Matic er búinn að vera hreint út sagt stórkostlegur á þessu ári og verið algjör lykilmaður í þessum „hreinu lökum“ sem liðið hefur haldið og hefur serbinn troðið sokk ofan í margan stuðningsmanninn, ekki síst höfund. Með hann fyrir framan miðvarðarparið okkar virðast andstæðingarnir fá færri skottækifæri og varnarlínan eins og hún leggur sig, virðist þéttari og lekur færri mörkum.
Að hafa Pogba í liðinu segir sig sjálft en eftir að vera varla búinn að spila leik í átta mánuði kom franski miðjumaðurinn og stjórnaði leiknum gegn Sheffield og snarbreytti Tottenham leiknum eftir að hann kom inn á. Gæði sem þessi leikmaður býr yfir eiga sér enga samstæðu innan liðsins og því augljóst val. Síðasta staðan á miðjunni verður væntanlega annar hvor brasilískur eða skoskur vinnuhestur, Fred eða Scott McTominay, sem einskonar box-to-box leikmaður við hlið hins hægláta serba.
Fram á við skortir ekki gæðin, Marcus Rashford og Anthony Martial virðast hafa fæðst til að spila saman sparkbolta og eru langhættulegustu leikmenn liðsins þegar kemur að því að skora fótboltamörk. Báðir eru þeir með 14 mörk í deildinni og geta auðveldlega rofið 20 marka múrinn heilt yfir tímabilið, þrátt fyrir að hafa verið báðir frá vegna meiðsla.
Martial hefur verið með 2,88 skot/90 mín í ensku Úrvalsdeildinni á tímabilinu og x/G (expected goals) 11,69 en er þó kominn með 14 mörk nú þegar. Sú staðreynd að hann er með fleiri mörk skoruð en búist er við segir okkur að hann klárar fleiri færi (chance conversion rate) en hann ætti að gera, miðað við þau færi sem honum gefast. Á öllum fimm tímabilum hans með United hefur hann verið að gera það en hér að neðan má sjá samanburð frá síðustu leiktíð á leikmönnum úr „Stóru liðunum 6“.
Það er svo í höndum Solskjær að ákveða hver verður á hægri kantinum með þeim Martial og Rashford en þar sem Daniel James spilaði ekkert gegn Norwich má ætla að hann fá tækifærið gegn Brighton. Ungi kantmaðurinn frá Wales hefur ekki náð að finna sitt fyrra form eftir að hafa byrjað leiktíðina stórkostlega en eflaust hefur Solskjær neyðst til að spila honum mun meira en hann ætlaði. Walesverjinn býr yfir gríðarlegum sprengikraft og gæti hæglega reynst varnarlínu Brighton erfiður ef liðið færir sig of framarlega á völlinn.
Varnarlínan velur sig hreinlega sjálf nema Brandon Williams kemur inn í vinstri bakvörð fyrir Luke Shaw. Táningurinn átti stórkostlega tæklingu í leiknum gegn Norwich eftir að hann kom inn á í stað Dalot í hægri bakvörðinn og á skilið að byrja gegn Brighton. Annars verða Lindelöf og Maguire í miðverðinum með köngulóna á hægri enda varnarinnar fyrir framan David De Gea í búrinu.
Með sigri fer United í 52 stig, jafnir Úlfunum í 5. sæti eftir 32 umferðir, tveimur stigum á eftir Chelsea og þremur stigum á eftir Leicester sem þó eiga bæði inni leik. Chelsea eiga þó eftir Úlfana í lokaumferðinni og nýkrýnda meistara Liverpool í umferðinni á undan og Leicester City eiga eftir Arsenal, Tottenham og viðureign við okkur í lokaumferðinni.
Það skal þó enginn halda að þessi viðureign gegn Brighton sé skyldusigur fyrir United. Mávarnir hafa unnið þrjá síðustu heimaleiki í deildinni gegn Rauðu djöflunum og í öllum Úrvalsdeildarviðureignum þessara liða hefur heimaliðið sótt sigur. Það skal þó minna á að engir áhorfendur verða á vellinum sem sumir sérfræðingar telja að hjálpi United í þessu tilviki.
Graham Potter vill eflaust tryggja veru sinna manna í deild þeirra bestu sem fyrst og sigur á morgun færi langleiðina með það. Það er alltaf erfitt að eiga við liðin sem eru að berjast við að hrissta af sér fallbaráttudrauginn á síðustu metrunum og þó þeir séu sex stigum frá fallsæti eru nóg af stigum í pottinum fyrir liðin fyrir neðan þá í töflunni.
Brighton hafa reyndar ekki tapað leik eftir að deildin fór aftur af stað og hafa haldið markinu hreinu í tveimur af síðustu þremur leikjum sínum. Í leiknum gegn Arsenal lentu þeir undir en komu tilbaka og unnu í uppbótartíma. Manchester United hafa hins vegar haldið hreinu í sjö af síðustu tólf úrvalsdeildarleikjum sínum sem er jafnmikið og í fyrstu 40 leikjum undir stjórn Solskjær.
Síðasta viðureign liðanna endaði með 3-1 sigri United á Old Trafford þar sem þeir Pereira, McTominay og Rashford sáu um að skora fyrir rauðu djöflana. Yfirburði United voru miklir í þeim leik, þar sem gestirnir áttu einungis 2 skot í leiknum á meðan United átti 18 og þar af 11 á rammann. Gestirnir voru reyndar meira með boltann en það kom reyndar ekki að sök því þótt Dunk hefði minnkað muninn í síðari hálfleik tók það ekki nema 2 mínútur að ná tveggja marka forystu aftur og þannig lauk leiknum. Síðasti leikur liðanna á þessum velli fór hins vegar 3-2 fyrir Brighton þar sem heimamenn skoruðu tvö á fyrsta hálftímanum og Pascal Groẞ innsiglaði sigurinn með marki úr vítaspyrnu.
Byrjunarliðið í þeim leik var í raun eins og ég spái fyrir leikinn á morgun nema Pogba og Matic koma inn í liðið í stað Pereira og Fred/McTominay. Það má gera ráð fyrir öguðum og þéttum varnarleik hjá báðum liðum en með okkar framlínu og í ljósi þess að United hefur aldrei tapað „post Bruno“ og skorað í öllum leikjunum nema hans fyrsta (þar sem hann spilaði fyrir framan vörnina en ekki í holunni) þá hef ég ekki miklar áhyggjur af markaþurrð á morgun.
Andre Marriner heldur á flautunni en hann dæmdi síðast leik United við Sheffield sem endaði 3-3. Hann hefur dæmt átján úrvalsdeildarleiki á leiktíðinni og gefið í þeim 46 gul spjöld og eitt beint rautt spjald. Hann flautar leikinn á 19:15 á American Express Community Stadium. Skilum þremur stigum heim í hús og höldum pressunni á liðunum fyrir ofan okkur, Leicester, Chelsea og Wolves. Glory, glory!
Valdi says
Já trúi ekki öðru en Pogba byrji þennan. Fannst frekar furðulegt að hann hafi ekki byrjað gegn Norwich