Eftir heldur óvenjulegan 5-2 sigur hjá okkar mönnum gegn Eddia Howe og hans mönnum um helgina höfum við þurft að bíða óþarflega lengi eftir næsta leik. COVID-19 pásan hefur orðið til þess að við fáum lítið frí frá boltanum sem er fagnaðarefni. Staðan í deildinni fyrir þennan leik er einstaklega áhugaverð.
Wolves sem höfðu jafnað okkur að stigum fyrir tveimur umferðum síðan hafa misstigið sig í tvígang, gegn Arsenal og nú í kvöld gegn Sheffield United. Leicester halda áfram að tapa stigum eftir jafntefli gegn Arsenal og töp gegn Everton og Chelsea. Chelsea heldur hins vegar áfram að raða inn sigrum og núna er líklegra að við náum Leicester en Chelsea.
Sem betur fer er lítið að frétta úr herbúðum United hvað varðar meiðsli. Phil Jones og Alex Tuanzebe eru enn á meiðslalistanum og hugsanlega er Victor Lindelöf að glíma við smávægileg meiðsli. Ole Gunnar Solskjær sagði fyrir Bournemouth leikinn að hann þyrfti að rótera liðinu enda væri stutt á milli leikja og mikið líkamlegt álag semþví fylgir en sá norski kom öllum að óvörum með því að stilla upp sama byrjunarliðinu, þriðja deildarleikinn í röð sem hefur ekki gerst í lengri tíma hjá Manchester United.
Það skilaði sér með þremur stigum og áfram heldur United eimreiðin með Bruno sem lestarstjóra. Ljóst er að ef United vinnur alla sína leiki sem eftir eru af tímabilinu komumst við í Meistaradeildina á næsta ári. Hvort sem City verður dæmt í bann eða ekki. Lokaleikur liðsins verður gegn Leicester City og allt stefnir í að hann verðir hreinn úrslitaleikur um sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili.
En til þess að svo verði þarf United að halda ferðinni áfram og taka fyrir næsta leik. Solskjær hefur lítið gefið fyrir það að vera ósigraður í sextán leikjum í röð og það er einmitt það hugarfar sem við þurfum á að halda. Aston Villa tekur á móti okkur á fimmtudegi sem vanalega er frátekið fyrir Evrópudeildina en vegna aðstæðna er Úrvalsdeildarkvöld á morgun og því miður eru mótherjarnir í bullandi botnbaráttu og munu því væntanlega gefa allt í verkefnið.
Dean Smith, stjóri Aston Villa, fékk mikið fjármagn til leikmannakaupa fyrir veturinn en illa hefur tekist að fá liðið til að „smella“. Þá hefur COVID-pásan ekki gert þeim gott en í þeim fimm leikjum sem liðið hefur spilað eftir hlé hefur þeim einungis tekist að skora mark í tveimur leikjum. Þeir hafa tapað 3 af síðustu 4 leikjum sínum með eins marks mun en hafa ber í huga að það voru leikir gegn Liverpool, Chelsea og Wolves.
Fyrir hléið töpuðu þeir einnig með einu marki gegn Manchester City og Tottenham sömuleiðis. Þeir eru því fullfærir um að stríða stóru liðunum og því þarf United að taka leikinn alvarlega og tefla fram sínu sterkasta liði. Hjá Aston Villa er sagan hins vegar önnur. Wesley Moraes, Björn Engels, Matthew Targett og Tom Heaton eru allir á meiðslalistanum en sá síðastnefndi hefur nú heldur betur reynst okkur erfiður.
En sá maður sem flest augu verða á í þessum leik, a.m.k. hjá heimamönnum, er Jack Grealish sem hefur verið lang-, lang-, langbesti leikmaður liðsins. Hann hefur verið þrálátlega verið orðaður við United, sérstaklega ef Paul Pogba yfirgæfi félagið, en englendingurinn hefur skorað átta mörk og lagt upp önnur sjö fyrir Aston Villa í deildinni. Hann hefur því komið við sögu í fimmtán af þeim 36 mörkum sem liðið hefur skorað eða 41,7% markanna.
Dean Smith hefur verið að spila 4-3-3 í öllum leikjum sínum eftir hlé og ég sé ekki að hann sé að fara víkja út frá þeirri reglu. Því spái ég liði heimamanna á þá leið:
Manchester United
Það verður að segjast eins og er að það ætti hver sem er sem fylgist með enska boltanum að geta séð fyrir sér lið United fyrir þennan leik. Eina mögulega breytingin sem ég sé fyrir mér væri Eric Bailly inn fyrir Lindelöf ef rétt reynist að sá sænski er að glíma við meiðsli. En fílabeinsstrendingurinn leit ekki mjög vel út eftir að hann kom inn á gegn Bournemouth og gaf botnbaráttuliðinu vítaspyrnu á silfurfati.
Nemanja Matic fær vonandi að fagna nýjum þriggja ára samning með því að tengja saman öftustu línuna við sókndjarfari frampartinn þar sem M-in okkar þrjú, Mason, Martial og Marcus, halda vonandi uppteknum hætti og raða inn mörkunum.
Þessi leikur hreinlega verður að vinnast. Aston Villa eru ekki langt frá öruggu sæti og gætu því freistast til að sækja stig í eintölu frekar en sigurinn. Þeim hefur hins vegar gengið hörmulega að halda hreinu og vonandi reyna þeir að sækja í stað þess að setja 11 menn fyrir aftan boltann í 90 mínútur.
Síðustu viðureign þessara liða lauk með 2-2 jafntefli þar sem Grealish skoraði stórglæsilegt marká 11. mínútu sem varð ekki til þess að minnka áhuga stuðningsmanna á því að fá hann til liðsins. Reyndar á Aston Villa ekki mjög farsælan ferli í efstu deild gegn United en þeir hafa bara unnið einn leik af síðustu 42 gegn Rauðu djöflunum í efstu deild, 30 þeirra hafa tapast. 11 ár eru liðin frá þeim sigri.
United hefur ekki tapað á útivelli gegn Villa í tuttugu síðustu skipti sem liðin hafa mæst á þessum velli í deildinni eða síðan 95/96 en ekkert lið hefur sambærilegt tak á öðru liði í efstu deildinni. Það er því margt sem bendir til þess að United ætti að fara með sigur af hólmi en það er einmitt slíkur hugsunarháttur sem hefur komið okkur í koll áður fyrr. Ef enska Úrvalsdeildin hefur kennt okkur eitthvað er að ekkert er gefins í deild þeirra bestu og allt getur gerst. Hins vegar ætla ég að vera bjartsýnn og spá því að United setji 3 mörk, fjórða leikinn í röð og fikri sig nær fjórða sætinu með 3-1 sigri. GGMU!
Skildu eftir svar