Þá er það næsti leikur í deildinni. Manchester United fer í heimsókn á Selhurst Park og spilar gegn Crystal Palace. Leikurinn hefst klukkan 19:15 að íslenskum tíma, dómari leiksins verður Graham Scott.
Manchester United var grátlega nálægt því að stökkva upp í þriðja sætið á mánudagskvöld en jöfnunarmark Southampton í viðbættum uppbótartíma hélt okkar mönnum í fimmta sætinu eitthvað áfram. Þá heyrðist í ansi mörgum stuðningsmönnum Manchester United: týpískt Manchester United.
Þetta hefur vissulega verið einkennandi fyrir liðið á síðustu árum, að það virðist oft ómögulegt fyrir liðið að nýta tækifærin þegar það getur komist í Meistaradeildarsæti eða nýtt sér það þegar önnur lið misstíga sig. Það hefur verið einkennandi fyrir það sem vantaði upp á í karakter liðsins.
En það er mitt mat að þessi orð eigi ekki alveg við í þetta skiptið. Bæði á liðið skilið fullt kredit fyrir frábæra spilamennsku síðustu vikna og að hafa náð að koma sér í þessa stöðu að eiga núna mjög góðan möguleika á að taka þriðja eða fjórða sætið í deildinni og tryggja þannig Meistaradeildarþátttöku á næsta ári. Það er einhvern veginn önnur ára yfir liðinu þessa dagana, jafnvel þótt liðið hafi ekki náð að klára þennan leik. Megi það halda áfram sem lengst. En svo á Southampton líka skilið kredit fyrir það að vera öflugt lið sem mætti vel til leiks í þessum leik.
Ég held líka að þarna höfum við í fyrsta skiptið séð Manchester United tapa á áhorfendaleysinu. Ef liðið hefði verið að spila þennan leik, með þetta undir, eftir spilamennskuna og árangurinn síðustu vikur, á pakkfullum Old Trafford þá hefðu áhorfendur gefið liðinu aukakraft í leiknum. Sérstaklega síðasta hálftímann þegar liðið vantaði orku til að halda í sína spilamennsku og klára leikinn. Þar hefði munað um tólfta manninn, ég er handviss um það. Ekki það, ég geri mér grein fyrir því að önnur lið eru líka að finna fyrir þessum mun (fyrir utan Manchester City auðvitað, þeir eru vanir því að spila á tómum heimavelli) og auðvitað hefði Manchester United líka getað klárað þennan leik með því að nýta færin betur eða verjast betur í lokin. Ég bara sakna áhorfendanna á leikjum!
Fimmta sætið
Það kom svosem ekki mikið á óvart að Manchester City náði að fá Meistaradeildarbanninu sínu aflétt. Ekki aðeins hafa eigendur Manchester City endalausa peningasjóði til að dæla með misvafasömum hætti inn í félagið í þeim tilgangi að breiða yfir eigin mannréttindabrot og aðra glæpastarfsemi heldur geta þeir einnig notað sömu sjóði til að ráða her lögfræðinga til að hnekkja á því sem UEFA reynir af vanmætti að nota til að koma einhvers konar lögum yfir þessa óreiðu. Ekkert nýtt að City noti illa fengna fjármuni til að kaupa sig út úr hlutum og ekkert nýtt að UEFA sé vanhæft í því sem þeir gera. C’est la vie, það er þá ekkert annað í stöðunni en sækja topp 4 sæti, fimmta sætið gefur ekkert meira en vanalega.
United komst upp í fimmta sætið með sigri á Watford 23. febrúar og hefur svo haldið sig í því sæti síðustu 9 umferðirnar. Þá var liðið 3 stigum á eftir Chelsea og 9 stigum á eftir Leicester. Núna er United hins vegar búið að ná Leicester og var fyrir þessa umferð 2 stigum á eftir Chelsea. Chelsea vann sinn leik í gærkvöldi en á eftir strembna tvo leiki í lokaumferðunum, gegn Liverpool og Wolves.
Crystal Palace
Crystal Palace hefur átt mjög kaflaskipt tímabil en haldið sig að mestu um miðja deild í töflunni. Hæst fór liðið í 4. sætið en lægst í 14. sætið, sem er einmitt sætið sem liðið vermir núna. Palace var á góðu skriði þegar leik var hætt vegna covid, hafði unnið 3 leiki í röð í febrúar. Það byrjaði líka vel eftir pásu og vann sinn fyrsta leik en síðan þá hafa komið fimm tapleikir í röð þar sem Palace hefur mistekist að skora fjórum sinnum. Markatala Palace í síðustu 5 leikjum er 2-13.
Palace hefur unnið 11 deildarleiki á tímabilinu, átta af þeim hafa komið gegn liðum sem nú eru í neðstu sex sætum deildarinnar. Liðið hefur þó náð jafntefli gegn Manchester City, Wolves og Arsenal (tvisvar). Fyrir svo utan þetta litla smáatriði að fyrsti sigur þeirra í deildinni á tímabilinu kom á Old Trafford í ágúst.
Sprækustu leikmenn Crystal Palace á tímabilinu hafa verið Wilfried Zaha og Jordan Ayew. Zaha er kominn með fjögur mörk og þrjár stoðsendingar í deildinni, hann skoraði síðast gegn Chelsea fyrir rúmri viku síðan. Ayew er markahæsti leikmaður liðsins með 9 mörk og hefur auk þess lagt upp eitt mark. Vinstri vængurinn hefur verið hættulegasta vopn Palace og auk ofantaldra þarf að hafa sérstakar gætur á bakverðinum Patrick van Aanholt sem hefur lagt upp tvö mörk og skorað þrjú á tímabilinu, þar á meðal sigurmarkið gegn Manchester United í ágúst.
Crystal Palace er í ákveðinni miðvarðameiðslakrísu. Gary Cahill, James Tomkins og Martin Kelly eru allir meiddir en þeir hafa spilað 17-25 byrjunarliðsleiki á tímabilinu fyrir liðið. Auk þeirra er Jeffrey Schlupp meiddur og Christian Benteke í leikbanni fyrir rautt spjald í síðasta leik.
Svona má reikna með að heimamenn stilli upp sínu liði annað kvöld:
Manchester United
Það verður áhugavert að sjá hvað Solskjær og þjálfarateymið gera fyrir þennan leik. Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur og nauðsynlegt að ná í 3 stig til að halda pressunni á Leicester og Chelsea. En að sama skapi er stutt í stórleik gegn Chelsea í undanúrslitum bikarsins á sunnudaginn áður en lokaleikirnir tveir í deildinni fara fram.
Það sást vel í Southampton að leikjatörn síðustu vikna hefur tekið sinn toll af byrjunarliðinu. Það er því spurning hvort það þurfi ekki að rótera eitthvað og treysta á hópinn. En þá er spurninginn hvern er hægt að hvíla og hverjum er hægt að treysta.
Ég ætla að giska á að byrjunarliðið verði svona:
Matic hefur verið afskaplega mikilvægur fyrir liðið en verður það líka gegn Chelsea á sunnudaginn og í lokaleikjum tímabilsins í deildinni. Ef það er hægt að hvíla hann þá væri það vel þegið. Greenwood hefur verið frábær en er ungur og má alveg fá smá tíma til að safna kröftum fyrir lokasprettinn, auk þess sem það getur verið gott að hafa hann á bekknum til að koma inn seinni part leiks.
Mynduð þið vilja sjá sama lið og hefur byrjað síðustu leiki eða kannski einhverja aðra róteringu?
Audunn says
Svolítið smeikur fyrir þennan leik sérstaklega ef James á að koma inn fyrir Greenwood.
Finnst vanta alla baráttu í James og hann virkar stundum hálf hræddur við að fara að alvöru í leikmenn. Það veit ekki á gott gegn Zaha ofl.
En við vonum það besta að sjálfsögðu