Eftir hremmingar helgarinnar er ljóst að United verður ekki með í bikarúrslitaleiknum en fær þess í stað rými til að einblína á deildina og Evrópudeildina en báðar þessar keppnir geta boðið okkur leið inn í Meistaradeildina. Núna eru einungis tvær umferðir eftir í deildinni og eftir þær tekur við Evrópudeildin í ágúst þar sem United mætir LASK Linz í síðari viðureign liðanna.
United er hreint út sagt á ótrúlegum stað miðað við brösótt gengi framan á leiktíðinni. Liðið er komið í dauðafæri á að tryggja sér annað hvort þriðja eða fjórða sætið eftir langa og stranga baráttu við Leicester og Chelsea. Chelsea hefur verið á góðri siglingu undir stjórn Lampard á leiktíðinni og þrátt fyrir að hafa tapað þrisvar fyrir United á leiktíðinni hefur þeim tekist að halda okkur fyrir neðan sig í deildinni án undantekninga.
Leicester sem hefur verið í þriðja sætinu síðan í september þar til nú fyrir stuttu hefur hreinlega verið í frjálsu fallið síðan deildin hélt áfram eftir COVID-pásuna. Á sama tíma var United að berjast við að komast og halda sér á efri hluta töflunnar. En sagan breyttist við komu Bruno Fernandes í lok janúar. Eftir sorglegt tap gegn Burnley hefur liðið snúið við blaðinu og unnið upp þann 21 marks mun sem var á liðunum í lok gluggans og standa nú liðin jöfn að stigum og markatölu en United á leik inni.
United hafði ekki tapað í 20 leikjum í röð fyrir helgina og átt nokkrum sinnum kost á því að yfirstíga Chelsea í fjórða sætinu en allt kom fyrir ekki, þegar Chelsea tapaði stigum, tapaði United stigum líka.
En núna er svo komið að United á möguleika á að komast upp fyrir Leicester fyrir lokaumferðina þar sem United mætir einmitt á King Power Stadium til að etja kappi við Leicester í leik sem verður alltaf einskonar úrslitaleikur um Meistaradeildarsætið. Í millitíðinni mæta Rauðu djöflarnir til Lundúna þar sem David Moyes og Hamrarnir hans taka á móti okkur en svo lengi sem við töpum ekki þeim leik verður United í sterkari stöðu en Leicester fyrir „úrslitaleikinn“.
Reyndar má ekki gleyma Chelsea sem getur auðvitað tapað báðum sínum leikjum en þeir eru einungis stigi á undan okkur og með mun verri markatölu. Chelsea eiga leik við Liverpool á miðvikudaginn og Úlfunum í lokaumferðinni, tveir mjög erfiðir leikir og vonandi taka þeir ekki stigin sex úr þessum tveimur leikjum.
Ef West Ham leikurinn endar með sigri eða jafntefli fara United inn í lokaleikinn með forskot á lærisveina Brendan Rodgers og því myndi jafntefli duga okkur, einkum ef Chelsea tapar fyrir Liverpool. En það er hægt að spá og spekúlera endalaust en eins og Ole Gunnar Solskjær hefur ítrekað sagt í viðtölum og á fréttamannafundum þá er það bara næsti leikur sem skiptir máli.
West Ham
Okkar fyrrum stjóri, David Moyes, gerði okkur greiða nú fyrir stuttu þegar þeir lögðu Chelsea 3-2 en eins og hefur verið sagan í gegnum þetta tímabil þá tókst United ekki að nýta sér það. Hamrarnir hafa verið viðloðandi falldrauginn undanfarnar vikur en með sigri á Watford í seinasta leik lyftu þeir sér upp í 37 stig og hreint ótrúlegir hlutir þyrftu að gerast til að þeir myndu falla. Allt stefnir í að Bournemouth og Aston Villa falli með Norwich niður í Championship deildina.
Ef Aston Villa sigrar ekki Arsenal núna á eftir verður West Ham öruggt með sæti sitt í deildinni fyrir leikinn okkar á morgun og vonandi gæti það skapað ákveðið kæruleysi hjá þeim því United þarf helst að vinna og vinna stórt. Ef United sigrar West Ham 2-0 og tapar svo 1-0 á King Power stadium þá komast Leicester í Meistaradeildina á okkar kostnað með jafnmörg stig, sama markamun en fleiri mörk skoruð. Það má ekki gerast.
David Moyes stillir oftast upp í 4-2-3-1 kerfið eftir hléið en þó hefur hann brugðið útaf vananum og stillt upp í 4-4-2 (gegn Arsenal) og 4-3-3 (gegn Tottenham) og 4-1-4-1 (gegn Liverpool). Það er því engin leiðað vita hvað sá skoski ætlar sér en ég ætla að skjóta á 4-2-3-1.
Einn leikmaður verður alltaf á blaði hjá Moyes fyrir leikinn gegn United en það er Michael Antonio sem er með fimm mörk í síðustu tveimur leikjum. Reyndar komu fjögur af þeim gegn Norwich sem voru nýfallnir en engu að síður telja þau jafn mikið.
Þá hefur pólverjinn Thomáš Souček, sem kom á láni frá Slavia Prague í lok janúar, reynst þeim ansi drjúgur á endasprettinum en þessi stóri og stæðilegi varnarsinnaði miðjumaður er kominn með þrjú mörk fyrir liðið. Annars býst ég við að Moyes stilli upp eftirfarandi byrjunarliði
Manchester United
Enn og aftur fær United tækifæri til að klifra yfir Chelsea og Leicester á töflunni góðu en meira að segja jafntefli myndi duga okkur til að komast í þriðja sætið a.m.k. um sinn. Chelsea spilar við Liverpool síðar sama dag og það mun því koma í ljós eftir þann leik hvernig United stendur fyrir lokaumferðina.
Enn á ný virðist þráðurinn ansi stuttur hjá mörgum stuðningsmönnum liðsins og virtust ansi neikvæðar raddir skutu upp kollinum á ný eftir hroðalegan leik um helgina gegn Chelsea. David de Gea var eflaust kveikjan að flestum þeim en sá spænski átti vægast sagt slæman leik en í sannleika sagt var það ekki hann sem tapaði þeim leik og hefði litlu skipt hvort hann hefði varið frá Mason Mount eða ekki, United virtist aldrei líklegra liðið til að komast áfram.
Leikurinn var uppfullur af mistökum frá fremsta manni til þess aftasta en það er víst margfalt hættulegra að gera mistök sem markmaður en sem framherji og því verður de Gea auðveldur skotspónn gagnrýnisradda meðal stuðningsmanna og annarra fótboltaáhugamanna. En Solskjær stóð með sínum manni á blaðamannafundinum fyrir leikinn og neitaði að gera hann að umræðuefninu.
En fyrir þá sem halda að þetta hafi verið upphafið af endinum þá var þetta fyrsti ósigur Bruno Fernandes í treyjunni góðu og í raun fyrsti tapleikur liðsins síðan 22. janúar. United hefur eins og áður segir unnið upp bilið að Leicester og Chelsea og er að mér best vitandi eina liðið sem ekki hefur tapað deildarleik eftir að enski boltinn snéri aftur á skjáinn. Liðið hefur líka verið að leika skemmtilegan bolta og samstaðan í hópnum er margfalt betri en á fyrri hluta tímabilsins.
Þrátt fyrir stíft leikjaálag og tiltölulega óbreytt byrjunarlið í deildarleikjunum hefur liðið sloppið ágætlega við meiðsli leikmanna og fyrst núna sem þreytan virðist vera farin að segja til sín enda skildi engan furða. Það er þó ekki neinn tími til að hvíla leikmenn núna, þessi tveir síðustu leikir þurfa að vinna eða United a.m.k. að ná í 4 stig úr þeim samanlagt og tryggja sig þannig inn í Meistaradeildina.
Anthony Martial, Paul Pogba og Luke Shaw byrjuðu ekki leikinn um helgina og ættu því að vera sprækir fyrir morgundaginn en hugsanlega er Luke Shaw ekki búinn að jafna sig eftir að hann snéri ökklann á sér í sínum síðasta leik. Ég ætla þó að spá liðinu gegn West Ham á þessa leið:
Eric Bailly, Luke Shaw, Alex Tuanzebe og Phil Jones eru allir á meiðslalistanum en Luke Shaw gæti talist 50/50.
Solskjær stillti upp í 3-4-1-2 gegn Chelsea en þurfti síðan að breyta því þegar Eric Bailly fór útaf meiddur. En hann mun væntanlega hverfa aftur til 4-2-3-1 með Pogba og Matic/McTominay fyrir framan vörnina og Martial sem níuna. Mason Greenwood og Marcus Rashford fá væntanlega að skipta á milli sín kantstöðunum þar sem Daniel James hefur ekki verið að heilla í þeim leikjum sem hann hefur fengið upp á síðkastið.
Það kom eflaust einhverjum á óvart í leiknum gegn Crystal Palace að Solskjær virðist ekki treysta bekknum sínum til að klára leikina en hann notaði einungis tvær af fimm skiptingum þar í stað þess að freista þess að hvíla leikmenn fyrir undanúrslit bikarsins. Menn eins og Jesse Lingard og Andreas Pereira virðast alveg komnir í frystikistuna og eiga í erfiðleikum með að komast á tréverkið, hvað þá að fá mínútur á vellinum. Þeir hljóta því að vera á leið frá klúbbnum báðir en það þarf að koma í ljós síðar.
Þessi viðureign ætti að henta okkur enda hafa Hamrarnir ekki sótt sigur á Old Trafford síðan 2007 í deildarleik. Þá er United líka ósigrað í síðustu tólf leikjum í deildinni (átta sigrar, fjögur jafntefli) og hefur verið á góðri siglingu undanfarið og ef mér skjátlast ekki þá er United eina taplausa liðið eftir COVID-pásuna. Miðað við það tækifæri sem stendur fyrir framan okkar menn þá er það óafsakanlegt að mæta áhugalítill og þreytulegur til leiks á morgun, það er einfaldlega of mikið í húfi.
Ekki bara gleðin fyrir okkur stuðningsmenn að fá Meistaradeildarkvöldin okkar aftur heldur líka fyrir fjárhagslegu hliðina og sem auka aðdráttarafl fyrir þá leikmenn sem United mun eltast við í næstu gluggum. Síðasta viðureign liðanna fór 0-2 fyrir West Ham og því er þessi leikur vel til þess fallinn að ná fram hefndum og koma okkur á sama tíma í betri stöðu gagnvart Leicester fyrir lokaleikinn og setja pressuna á þá að þurfa að sækja í leiknum.
Dómari leiksins verður Paul Tierney en flautað verður til leik 17:00 og leikur Chelsea og Liverpool hefst beint að þeim leik loknum. GGMU!
Skildu eftir svar