Það var enginn Luke Shaw í hóp í dag en liðið að öðru leyti fullkomlega fyrirsjáanlegt
Varamenn: Romero, Fosu-Mensah, Bailly, Fred, James, Lingard, Mata, McTominay, Ighalo
Frískleg byrjun á leiknum gaf þó ekki mikið af færum. Bæði lið reyndu að sækja en náðu ekki samfelldu spili að ráði. Leicester var ef eitthvað var aðeins ferskari, United átti erfitt með að bregðast við pressu Leicester þegar United náði boltanum. United var að reyna að halda boltanum en voru oft næstum uppi við teig og í eitt skiptið gaf Matic þversendingu sem endaði hjá Leicester manni og síðan fékk Ndidi boltann og skaut yfir. Alls ekki nógu gott.
Leicester áttu síðan eina líklegustu sóknina í gagnstókn, voru komnir þrír á tvo, Iheanacho skaut í staðinn fyrir að gefa á Thielemans, de Gea hélt ekki boltanum, Vardy fylgdi á eftir, de Gea varði það en Vardy var svo dæmdur rangstæður. Afskaplega slakt allt hjá United og heppni að ekki varð mark úr.
United kom reyndar boltanum í netið þegar Fernandes kláraði laglega sendingu frá Pogba en hann var því miður kominn vel innfyrir þegar sendingin lagði af stað. United var loksins farið að halda boltanum betur og það á vallarhelmingi Leicester.
Eftir sem áður voru Leicester samt hættulegri, Thielemans fékk boltann óvaldaður við teiginn af því að Matic hafði bakkað alltof mikið og reyndi eiginlega að senda boltann í hornið neðst og var ekki nema sentimetrum frá. Vörn United langt frá því að vera sannfærandi þar sem fyrr.
United sótti á síðustu mínúturnar, Rashford skaut yfir úr þokkalegri stöðu í D-inu, Martial fékk horn úr góðri stöðu og úr horninu átti Rashford neglu beint á Schmeichel og í horn.
Strax í upphafi seinni hálfleiks fékk Martial frábæra stungu innfyrir frá Matic, en var ekki nógu snöggur að koma sér í færi og Justin náði að nikka í boltann, illa farið með gott tækifæri og Leicester hreinlega tók völdin í nokkurn tíma þar á eftir.
Þó lið Leicester liti út sem 4-4-2 á pappír var það í raun 3-5-2 en eftir klukkutima leik var komið nóg, Ayoze Pérez kom inn á fyrir Iheanacho.
Leikurinn var afskaplega slakur, United var meira með boltann og loksins vann Greenwood boltann, barst til Bruno sem gaf stunguna, Martial náði boltanum og bæði Morgan og Evans fóru i hann, náðu ekki boltanum en fóru báðir í Martial, alltaf víti. Bruno Fernandes renndi boltanum í hornið eftir að eftir að Schmeichel var farinn í hitt. Núna kom drykkjarpásan alveg á réttum tíma. Leicester gerði þrefalda skiptingu og Harvey Barnes var bara nokkuð lúnkinn í teignum rétt á eftir, fékk að taka skot í snúningnum óáreittur, ekki alveg nógu fast og þó De Gea væri óviðbúinn tókst honum að grípa boltann.
Fyrst skipting United var ekki fyrr en á 75. mínútu, Jesse Lingard kom inná fyrir Greenwood.
Markið breytti litlu, Leicester hélt áfram að ógna og eiga skot að marki en United skapaði ekkert hinu megin. Scott McTominay kom inná fyrir Bruno.
Jonny Evans fékk rautt rétt undir lokin fyrir slæma tæklingu ef tæklingu skyldi kalla, nelgdi í legginn á Scott McTominay. United sótti síðustu mínútuna og Tim Fosu-Mensah og Odion Ighalo komu inná en fengu ekki tækifæri til að gera neitt að ráði en það var hins Jesse Lingard sem hnýtti endahnútinn á þetta furðulega tímabil og tryggði United þriðja sætið, hann fór í Kasper Schmeichel sem fékk sendingu til baka, Schmeichel reyndi að leika á Lingard en tókst ekki og Lingard hirti lausan boltann og renndi í netið. Eina færi United að ráði í leiknum og gaman fyrir Lingard að klára þetta.
United var í 10. sæti í nóvember eftir tap gegn Bournemouth sem féll í dag, og í 8. sæti 22. desember eftir tap gegn Watford sem líka féll í dag. Síðan að Bruno Fernandes kom til sögunnar tapaði liðið hins vegar ekki leik í deild og það er það sem hefur tryggt þriðja sætið í dag. Ótrúlegt eftir það sem á undan er gengið og ef segja á sannleikann minnti leikur liðsins í dag ekki mikið á lið í þriðja sæti.
Það verður loksins aftur Meistaradeildarlag á Old Trafford næsta vetur. United fer beint í riðlakeppnina sem minnkar leikjaálagið örlítið. Framundan er Evrópudeildin samt. Fyrst er leikur gegn LASK miðvikudaginn 5. ágúst og Ole er búinn að gefa út að leikmenn fái nú eitthvað frí á milli . Fimm-núll forysta úr fyrri leiknum þýðir að það verður varalið inná í þeim leik. Síðan er förinni heitið til Þýskalands, mánudaginn 10. ágúst verður leikið gegn İstanbul Başakşehir eða FC København.
Dolla er dolla og það er vonandi að vel gangi, en það verður að spila fleiri mönnum í þessum leikjum en gert hefur verið undanfarið. Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar er 21. ágúst og úrvalsdeildin hefst 12. september. Þar á milli eru landsleikir í Þjóðadeildinni 3-8. september þannig að frí landsliðsmanna gæti orðið aðeins tvær vikur.
Þetta kemur allt í ljós sem og hvernig United styrkir sig. Glugginn opnar á morgun og það er alls ekki víst að United hafi úr miklum peningum að spila, sér í lagi ekki ef Sancho kostar sitt.
gummi says
Ömurleg spilamenska eins og alltaf
Scaltastic says
Algjör óþarfi að leggjast í skotgrafir. Þeir eru alveg jafn stressaðir og okkar menn.
Karl Garðars says
Þetta lagðist illa í mig fyrir leik og enn verr núna þegar Chelsea eru komnir 2 yfir.
Þetta verða erfiðar 45mín.
Danni says
Brendan búinn að finna blóðlyktuna, Perez að koma inn á til að reka síðasta naglann í kistuna hjá okkur :(
Scaltastic says
Get in!!!
Fokk já
Turninn Pallister says
Jájájá Jessie Lingard, loksins loksins!!
Sindri says
Jájájájájá.
Lingard fékk að kveðja okkur með marki meira að segja.
CL í vetur, fyrst er það samt að vinna Evrópudeildina.
GGMU
Hjöri says
Mér finnst neikvæðni á þessari síðu búin að vera alltof mikil, og menn eru byrjaðir nánast að kommenta áður en leikir hefjast, með neikvæðum athugasemdum. Meistaradeildarsætið komið meir að segja 3ja sætinu náð, hver hefði trúað því að það næðist, þegar leikar hófust í aðdraganda covit, þar sem liðið hefur staðið sig vel. Góðar jákvæðar stundir.
MSD says
Það þurftu bara að nást úrslit í síðasta leiknum. Mér er sama um frammistöðuna. Markmiðinu var náð að lokum. Það leit ansi illa út á þessu tímabili og ótrúlegt hvað koma eins manns hefur skipt sköpum, Bruno Fernandes. Hef held ég aldrei séð neinn koma inn í lið á miðju seasoni með jafn miklum látum og áhrifum eins og hann. Liðið allt á þó hrós skilið að rífa sig upp og klára tímabilið með sæmd. Eins og staðan var um áramótin þá hefði ég aldrei tippað á að við ættum séns á 3.sætinu.
En hreinsunin þarf að halda áfram sem og endurnýjun leikmanna. Það þarf enn að hreinsa út. Jones, Rojo, Pereira, Lingard. Lánsmennirnir Smalling og Sanchez. Það þarf að losa þá af launaskrá og helst fá eitthvað í kassann líka til að nota í leikmannakaup. Spurning hvað Mata og Dalot gera og hvort það sé kominn tími á að losa út ofurlaunakeeperinn De Gea af launaskránni. Ef það fengist góður peningur fyrir hann þá væri ég alveg til í að sjá hann fara ef það myndi þýða styrkingu á öðrum stöðum á móti. Pogba mun eflaust taka ákvörðun að fara eða vera áfram. Ef hann velur seinni kostinn þá þarf hann að skuldbinda sig félaginu með nýjum samningi. Þessi gluggi verður fróðlegur.
Að mínu viti vantar okkur talsvert meiri breidd. Það sást í síðustu leikjunum þegar Ole var búinn að spila á sama liðinu marga leiki í röð. Ég er einnig ekki sannfærður um Lindelöf sem fyrsta kost við hlið Maguire, væri til í að sjá sterkari kandídat sem myndi bæta upp þá kosti sem Maguire skortir,eins og t.d. hraða.
En seasonið er ekki alveg búið. Það er enn bikar í boði fyrir okkur í Evrópudeildinni og að sjálfsögðu gerum við kröfu um að vinna þá keppni.
Cantona no 7 says
Frábær sigur og nauðsynlegur.
Ole verður að bæta við ca. 6 mönnum og auka breiddina mikið.
Það þarf enn að hreinsa aðeins til og fá alvöru menn inn.
Það þarf að vinna Evrópu bikarinn í ágúst.
GGMU
Audunn says
Er nú ekkert sérstaklega sammála því að United hafi verið svona lélegir í þessum leik eins og leikskýrslan segir til um.
leikurinn þróaðsit kannski öðruvísi en maður átti von á,ég hélt að Lester menn kæmu grimmari í þennan leik og var smá hissa hvað þeir voru rólegir sem hentaði Man.utd bara ágætlega.
Miðið við hvað var undir í þessum leik og Lester menn á heimavelli þá gerðu þeir ekki mikið og ógnuðu United aldrei að neinu vitu.. Eitt og eitt hálffæri en ekkert meira en það. man ekki eftir neinu dauðafæri né að De Gea hafi þurft að hafa mikið fyrir hlutunum sem segir manni að United voru bara að spila vel.
Það verður að hæla United fyrir þennan sterka sigur, að vinna Leicester 0-2 án þess að vera að spila á fullu gasi er sterkt. Mér fannst í alvöru United ekki þurfa að hafa neitt sérstaklega mikið fyrir þessum sigri.
Það sást alveg í þessari lokaumferð að mörg lið voru orðin þreytt, United hefur því miður þurft að keyra nánast á sama liði frá því tímabilið fór aftur af stað og það hefur verið þétt leikið eins og við vitum.
Leicester hafa þurft að gera það líka, það sást á báðum liðum í þessum leik að liðin voru þreytt.
Ég fagna þessum mikilvæga sigri, þessi leikur hefði svo sannarlega getað þróast öðruvísi United í óhag en sem betur fer voru Leicester aldrei sérstaklega líklegir til stórræða.
Nú þarf United að versla 3-4 góða leikmenn, ég á svo sem ekki von á að það verði keyptir margir, kannski 3 leikmenn en liðið verður jú líka að geta losað sig við eitthvað af þessum mönnum sem eru á launaskrá.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig leikmannamál munu þróast á komandi vikum.
Scaltastic says
Þakka ritstjórn og pistlahöfundum fyrir þeirra óeigingjarna framlag á tímabilinu. Það yrði gaman að fá hlaðvarp frá ykkur það sem er horft yfir tímabilið og spáð í Evrópudeildina.
Er mjög stoltur af liðinu að hafa klárað dæmið í gær. Það má ekki gleyma því að við höfðum spilað tvo leiki frá síðasta leik Leicester og lykilmenn algjörlega bensínlausir.
Nú er gullið tækifæri að halda áfram að kveðja þá fjölmörgu leikmenn sem eru að komast á seinasta söludag, ásamt því að styrkja hópinn og auka samkeppni um byrjunarliðssæti.
Rúnar P says
Sá ekki allann leikinn en gott að ná allavega þetta langt en ekki ánægjulegt – núna er að spíta í lógann og ná í nokkra góða leikmenn, held samt að hvorki Sancho eða Grealish verði í United á næsti leiktíð, Sancho for frá Manhester borg til þess að spila meir og vill örugglega ekki koma strax aftur í Manchester þokuna og tja.. Grealish er bara ekki það sem ManU vantar
Annars sjáum við bara til, en þori alveg að setja kr1000 á þetta 😉