Ole Gunnar Solskjær gerir tvær breytingar frá leiknum gegn FC Kaupmannahöfn. David de Gea og Victor Lindelöf komu inn í liðið sem klæddist nýju svörtu treyjunum í kvöld:
Á bekknum voru þeir Romero, Grant, Bailly, Fosu-Mensah, Mengi, Mata, Matic, McTominay, James, Lingard, Pereira og Ighalo.
Lið Sevilla: Bono (M), Navas, Koundé, Carlos, Reguilón, Fernando, Banega, Jordán, Ocampos, Suso og En-Nesyri.
Leikurinn fór mjög líflega af stað og Greenwood og Maguire gerðu sig báðir líklega til að ógna marki Sevilla en þeim spænsku tókst að bægja hættunni frá.
Strax þegar um sex og hálf mínúta var liðin af leiknum komst Marcus Rashford inn fyrir vörn Sevilla og átti skot sem Bono í markinu varði en um leið og skotið reið af kom Diego Carlos eins og brasilísk jarðýta og skóflaði Rashford í jörðina. Hreint ótrúlegt að brotinu fylgdi ekki spjald en trúlega hefur Felix á flautunni ekki vilja láta spjöldunum rigna í svona stórum leik.
Á punktinn steig okkar maður Bruno Fernandes sem setti boltann upp í vinstri Samúel og eins og þeir segja þá „verja þeir hann ekki þarna!“. 1-0 og lífleg byrjun á líflegum leik.
Á 14. mínútu vann Fred boltann á miðjunni og brunaði fram en voru United þá fjórir gegn þremur varnarmönnum Sevilla. Bruno fékk boltann frá Fred og lagði hann svo inn í teiginn fyrir Fred aftur sem átti ágætis gagnhreyfingu en skot hans framhjá markinu.
Lucas Ocampos átti síðan fínt skot úr þröngu færi eftir laglegt spil Sevilla liðsins en boltinn fór tiltölulega beint á de Gea sem blakaði boltanum í horn en ekki kom úr þeirri hornspyrnu.
Hörkuleikur og opinn á báða bóga en Sevilla menn virtust duglegir að sækja upp kantana eins og við mátti búast á meðan United dreifði sóknum sínum nokkuð jafn á milli kanta og miðju. United virtist vera að vinna miðjubaráttuna en nokkur hiti var í mönnum og Brandon Williams og Diego Carlos fengu báðir að líta gula spjaldið með stuttu millibili. Fred var hörkuduglegur að vinna bolta á miðsvæðinu og lét finna vel fyrir sér og lét höfund éta orðin sín með að Nemanja Matic ætti að byrja leikinn. http://gty.im/1266647329
Allt virtist vera að detta í dúnalogn í leiknum þegar Sevilla sótti upp vinstri kantinn eins og svo oft áður þar sem Reguilón fékk boltann eftir góðan undirbúning frá Ocampos og átti svo frábæra fyrirgjöf þvert yfir teiginn. Sú fyrirgjöf rataði beint á Suso sem þakkaði pent fyrir sig með því að hamra boltann framhjá de Gea og jafna fyrir Sevilla. 1-1 og allt orðið hnífjafnt á ný.
Næsta hættulega sókn United kom þegar rúmur hálftími var liðinn af leiknum þegar Pogba dansaði örlítinn salsa með boltann fyrir utan teig Sevilla en missti boltann frá sér til samherja en að lokum barst boltinn út að vítateigsboganum þar sem Anthony Martial kom á fleygiferð og snéri boltann innanfótar um 56cm yfir þverslána. Þarna hefði sá franski geta gert mun betur en inn vildi blaðran ekki.
Eftir þónokkra pressu frá United tókst þeim að krækja í aukaspyrnu af um 30-35 metrunum eftir að Ever Banega fór full groddalega í Pogba og Rashford ákvað bara að skjóta en Bono í markinu tókst að slá boltann í burtu.
Rétt undir lok fyrri hálfleiks tókst Fred að vinna enn einn boltann og setti boltann á Bruno sem hélt boltanum á lofti áður en hann hamraði boltanum beint á markið. Sevilla brunuðu upp í sókn strax í kjölfarið en áður en þeir gátu skapað sér færi stálu United boltanum og komu boltanum á Rashford sem geystist upp völlinn, tók skæri þegar hann var kominn inn í teiginn en virtist svo gleyma hvað hann ætlaði að gera og færið rann út í sandinn og þar með fyrri hálfleikurinn.
Síðari hálfleikur
Seinni hálfleikurinn fór mjög hressilega af stað en strax á fyrstu mínútu átti Bruno Fernandes frábæra stungu inn á Mason Greenwood sem var kominn einn á móti Bono en sá var snöggur út á móti og lokaði vel fyrir markið. En greinilegt að okkar menn ætluðu ekki að bíða með að sækja. En þetta var ekki búið. Sókn United þyngdist með hverri sekúndunni og í kjölfarið komust þeir í dauðafæri þar sem Martial og Bruno áttu báðir skot en Bono var aftur betri en enginn.
Aftur komst Martial í dauðafæri þegar hann sá sjálfur um að vinna boltann og fékk síðan stungu inn fyrir frá Pogba en aftur var Bono mættur út á móti og lokaði. Á sömu mínútu virtist útsendingin hiksta og nákvæmlega sama atriði vera á skjánum þegar Martial komst inn í teiginn, einn á móti Bono en enn og aftur sá hann við sóknarmönnum United. Sá virtist hafa horft á síðasta leik United og frammistöðu Karl Johann Johnsson í markinu og hugsað með sér „þetta ætla ég að toppa“. Sá var tilbúinn í slaginn.
Þá gerðu Sevilla menn tvöfalda skiptingu þegar Lucas Ocampos og Youssef En-Nesyri settust á tréverkið og inn á í þeirra stað komu Munir El Haddadi og Luuk de Jong til að reyna að hressa upp á sóknarleik spænska liðsins sem virtist hafa orðið eftir inn í klefa í hálfleik.
Loksins eftir 25 mínútna leik í síðari hálfleik tókst Sevilla að setja saman ágætissókn og halda boltanum sem endaði með því að Reguilón tókst að næla í aukaspyrnu við vítateigshornið eftir slaka tæklingu hjá wan-Bissaka. Munir átti skot í vegginn og eftir smávegis basl fór boltinn aftur fyrir endalínu en Sevilla menn vildu meina að þeir ættu að fá vítaspyrnu.
VARsjáin skoðaði atvikið og boltinn virtist fara í olnbogann á Bruno Fernandes sem hélt þó handleggnum þétt upp við búkinn og því ekki vítaspyrna að mati VAR.
En þeir voru hins vegar ekki hættir því að á 79. mínútu áttu þeir laglegt spil upp á hægri kantinn og síðan kom fyrirgjöf sem endaði mitt á milli Lindelöf og wan-Bissaka þar sem Luuk de Jong tróð tánni á sér í boltann og skoraði. 2-1 fyrir Sevilla sem virtist ekki hafa verið í sókn allan síðari hálfleikinn.
Það var eins og það lifnaði yfir Sevilla liðinu og United átti í mestu vandræðum með að ná að koma snertingu á boltann.
Fyrstu skiptingar Solskjær komu loksins á 87. mínútu þegar Timothy Fosu-Mensah og Juan Mata komu inn á fyrir Williams og Rashford. Stuttu síðar kom Daniel James inn á fyrir Wan-Bissaka en þessir leikmenn fengu rétt um tíu mínútur til þess að breyta stöðunni. Odion Ighalo kom síðan inná þegar um tvær mínútur voru liðnar af uppbótartíma.
Sóknir United það sem eftir lifði leiks voru ónákvæmar og allt annað en beinskeyttar og endaði leikurinn 2-1 fyrir Sevilla sem virðist gersamlega ætla að eiga þessa keppni með húð og hári.
Pælingar að leik loknum.
Hér mættust tveir ólíkir leikstílar í leik sem var frábært fyrir hinn hlutlausa áhorfanda því leikurinn var bæði opinn og skemmtilegur. United byrjaði báða hálfleikana með krafti og uppskar vítaspyrnu strax í byrjun leiks en á 96 mínútum tókst liðinu ekki að skora úr opnu færi. Eins og gegn FC Kaupmannahöfn fengum við frábær færi á færibandi en maður leiksins, Bono í markinu hjá Sevilla, hreinlega lokaði á allt nema vítaspyrnuna.
Solskjær setti pressu á stjórn United með því að segja á fréttamannafundi fyrir leik að til þess að fá leikmenn sem bættu liðið þyrfti að borga alvöru upphæðir og vafalaust á hann við um Jadon Malik Sancho. Enn fremur virðist hann ætla að sýna stjórninni að hann treystir ekki bekknum sínum þar sem hann neitaði að gera breytingar þar til að þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
En nú er leiktíðinni lokið og sú næsta byrjar eftir tæpan mánuð eða 12. september. Þriðja sætið ásamt því að komast í þrjá undanúrslitaleiki er ekki alslæmur árangur en það er ekkert til að stæra sig af eins og Solskjær sagði. Kröfur stuðningsmanna eru einfaldlega meiri en það og því verður áhugavert að sjá hvort stjórnin girði sig í brók og sýni stjóranum okkar þann stuðning sem hann vantar. Liðið er á réttri leið eins og sjá má en betur má ef duga skal og að hafa látið þrjá úrslitaleiki renna okkur úr greipum er sárt.
En liðið er ungt og lærir vonandi af þessu eins og Ajax drengirnir, sem töpuðu gegn okkur í Evrópudeildinni 2017, sem voru síðan grátlega nálægt því að komast í úrslit Meistaradeildarinnar í fyrra. Nú tekur við „silly season“ af alvöru og verður áhugavert að fylgjast með á komandi vikum hvernig United hyggst brúa bilið að titlinum fyrir komandi tímabil.
Alexander Hurra says
Er ekki alveg ađ skilja Fred inná en ekki Matic
Rúnar P. says
Hvað er De Gea að gera þarna?
Scaltastic says
Romero á betra skiliđ.
Turninn Pallister says
Þessi sending hjá Martial 👌
Rúnar P. says
Wan-Bissaka þarf að fullorðnast og byrja að gefa fyrir!
gummi says
Ef þessi leikur fer í vító þá er þetta búið með de gea í markinu
gummi says
Afhverju gerir þessi jólasvein ekki skiptingu ömurlegur stjóri
MSD says
Guð minn góður hvað ég er pirraður út í sænska linsubuffið. Ánægður með Bruno að láta hann heyra það!! Boltinn er hjá Woodward núna hvert þetta lið ætlar að stefna. Hóstaðu upp þessum peningum fyrir Sancho og verslaðu miðvörð af listanum frá Solskjær ASAP!
Helgi P says
Bara fara og ná í leipzig þjálfaran því við erum ekki að fara vinna neitt með Solskjær það er alveg á hreinu
Scaltastic says
Eins mikil sjónmengun og dúetinn Lindelöf og Wan Bissaka splæstu í kvöld, þá er ekki hægt að varpa sökinni alfarið á þá bakkabræður.
Það er aumkunarvert að við ekki skorað í opnum leik í síðustu tveimur leikjum. Ég vona innilega að Martial og Rashford skilji þessa drauga eftir í Þýskalandi, Rashford hefur verið brutal.
Varðandi síðbúnu skiptingarnar hjá OGS, þá er þetta augljós skilaboð til yfirstjórnarinnar að honum finnist vanta gæði í hópinn. Ef Woodward og Glazer’s ná inn Sancho og byrjunarliðs miðvörð í haust. Oh well…
MSD says
Vissulega brást Solskjær seint við með skiptingunum í kvöld, en held einmitt að Scaltastic hitti naglann á höfuðið hér fyrir ofan. Skortur á gæðum á bekknum. Mér fannst enginn sexy valkostur í stöðunni á bekknum. Solskjær uppfyllti kröfu Woodward og Glazers um að koma liðinu aftur í meistaradeild. Nú þarf hreinsunin að halda áfram og kaup á nýjum leikmönnum í staðinn VERÐUR að fylgja með.
Birgir says
Rólegir varðandi væntingar á nýjum leikmönnum.
City og Chelsea eru einu félögin sem þurfa ekki að hafa áhyggjur af tekjutapi.
Í besta falli sé ég 50m punda eyðslu umfram sölur. Óli þarf að vera sniðugur.
Sindri says
Já við þurfum háklassa miðvörð með Maguire það er ljóst. Tap í kvöld fyrir sjötíuogsjöföldum Evrópudeildarmeisturum síðustu 10 árin, og við áttum augljóslega að klára leikinn áður en þeir settu annað mark sitt.
Hvar eru samt allir „stuðningsmennirnir“ á þessu commentakerfi þegar liðið vinnur hvern leikinn á fætur öðrum?
GGMU
Hjöri says
Ég spyr bara eins og Sindri, hvar eru stuðningsmennirnir í commentum hér þegar liðið vinnur leiki? Þið riðjist hér inn er liðið tapar, bölsóttist yfir stjóranum eða hinum og þessum leikmönnum, en haldið kjafti þegar liðið vinnur leiki, og gerir góða hluti. Þetta kalla ég lélega stuðningsmenn.
Tryggvi says
Já hvar voru fagnaðarlætin þegar liðið kláraði hvert stórveldið á fætur öðru;
Astana, Partisan, Alkmaar, Brugge, LASK og FCK…
Sheringham says
Það er auðvitað hrikalega pirrandi að falla út á fyrsta liðinu sem var alvöru áskorun að takast á við í þessarri keppni. Ég sá ekki leikinn en heyrist á öllu að sigur Sevilla hafi verið óverðskuldaður. Það er samt svekkjandi að sjá hvað United hefur gengið illa að skora að undanförnu miðað við stórskotahríðina fyrst eftir Covid.
Ég er 100% sammála Scaltastic hér að ofan. Skilaboðin frá Ole eru skýr: Enginn af varamönnum United eru til þess fallnir að breyta gangi leikja. Það er kannski svolítið hart að segja það, bæði Mata og Ighalo geta gert fína hluti á góðum dögum. Heilt yfir er hópurinn þó langt frá því að vera nógu sterkur og sýnir það sig best í því að Mason Greenwood er 18 ára gamall orðinn algjör lykilmaður.
Vegna tekjumissis í Covid þurfa öll kaup að vera sérlega vel ígrunduð. Sancho, góður miðvörður og annar skapandi miðjumaður væri góð byrjun.
Sheringham says
Svo ég fegri hugsanleg plön Ole Gunnar Solskjær ekki of mikið þá vil ég taka fram að það er vissulega áhyggjuefni að liðið hafi tapað undarúrslitaleikjum í þremur keppnum á tímabilinu. Þar að auki fékk liðið milli 7-10 tækifæri til að komast upp í meistaradeildarsæti á tímabilinu en brágst ávallt bogalistin þar til í blárestina sem skýrðist þó meira af því hvað andstæðingarnir misstu mörg stig.
„Winning mentality“ virðist því vera á einvherskonar undanhaldi.
gummi says
Afhverju vildi solskjær halda Og Ighalo ef hann treystir honum ekki til að koma inná hann er bara búinn að of spila flestum í þessu liði
Helgi P says
Solskjær verður aldrei nógu góður stjóri fyrir United
zorro says
Lindeloff er bara mesta lagi ágætis Darlington leikmaður…..sendir stutt..á nánast enga skallabolta..hvorki i vörn eða sókn……aldrei skilið hvað hann er að gera i liðinu…….þetta sjá allir