Á morgun tökum við á móti José Mourinho og lærisveinum hans í Tottenham Hotspurs í fjórðu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Reyndar verður þetta þriðji deildarleikurinn okkar þar sem við sátum hjá í fyrstu umferðinni vegna Evrópudeildarleikja í sumar. Byrjun leiktíðarinnar hefur verið frekar döpur þótt United hafi í raun sigrað alla leikina nema einn.
Þrír sigrar og eitt tap gefur hreinlega ekki rétta mynd af stöðunni, í fyrstu umferð vorum við teknir í kennslustund af Crystal Palace, áttum síðan tæplega skilið stig gegn Brighton & Hove Albion og hinir leikirnir voru gegn Luton Town og varaliði Brighton í bikarnum. Liðið rétt marði Luton á lokasprettinum en sigraði síðan Brighton í deildarbikarnum í miðri viku nokkuð örugglega. Sá leikur fór 0-3 fyrir United en taka verður með í reikninginn að þarna voru nánast varalið hvors liðs að spila og breiddin hjá United er talsvert meiri en hjá Brighton.
En á morgun mætir Tottenham á Old Trafford klukkan 15:30 í fyrsta stórleik United á tímabilinu en þeir hafa haft talsvert meira að gera en United á síðustu vikum. Á meðan United hefur spilað þessa fjóra leiki hefur Tottenham hvorki fleiri né færri en sjö leiki. Þeir hikstuðu í upphafi rétt eins og við og byrjuðu á að tapa á heimavelli gegn Everton 0-1 og rétt höfðu Lokomotiv Plovdiv 1-2 í umspili fyrir riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
En síðan hrökk vélin í gang og næst völtuðu þeir yfir Southampton 2-5 þar sem Heung-Min Son fór á kostum og skoraði fernu. Þá kláruðu þeir Shkendija frá Makedóniu 1-3, voru rændir stigum í deildarleik gegn Newcastle 1-1 og lögðu síðan Chelsea í vítaspyrnukeppni núna á þriðjudaginn. Þá fengu þeir Maccabi Haifa í heimsókn á fimmtudaginn var þar sem þeir höfðu betur 7-2. Þeir stilltu upp sínu sterkasta liði í leiknum gegn ísraelska liðinu (fyrir utan Son sem er meiddur) og því verða eflaust einhverjir leikmenn í byrjunarliðinu gegn United sem hafa ekki náð 3 sólarhringa hvíld frá þeim leik.
Það verður því áhugavert að sjá hvort Mourinho sendi sama lið út á völlinn á sunnudaginn en liðinu hefur gengið ágætlega að skora á sama tíma og þeir hafa verið að leka inn mörkum. Ekki ósvipað og í byrjun stjóratíðar Mourinho hjá Lundúnarliðinu, þar sem liðið virtist bara hafa það að markmiði að skora einu marki meira en andstæðingurinn og hinn þétti, varnarsinnaði leikstíllinn sem einkenndi Mourinho í mörg ár virtist í algleymingi.
Mourinho fékk ef til vill meira fjármagn til leikmannakaupa í sumar en margir höfðu gert ráð fyrir en þeir styrktu sig helst varnarlega. Bakverðirnir Sergio Reguilón og Matt Doherty koma til með að styrkja verulega varnarlínuna fyrir framan Hugo Lloris og þá einnig bæta inn sóknarþunga frá bakvarðarstöðunum, nokkuð sem liðið þurfti að bæta. Pierre-Emile Höjbjerg mun svo enn frekar styrkja liðið en sóknarsinnaði miðjumaðurinn kom frá Southampton en Tanguy Ndombelé virðist ekki vera í náðinni hjá Mourinho. Þá var Joe Hart fenginn á frjálsri sölu til að fylla upp í stöðu sem þriðji markvörður liðsins.
En fram á við var minn að frétta þangað til fyrir nokkrum dögum þegar Tottenham boðaði heimkomu Gareth Bale en hann kemur á láni frá Real Madrid þar sem hann hefur verið langt frá því að teljast vinsæll meðal stuðningsmanna. Sá velski var mikið orðaður við United á sínum tíma og í raun alla tíð frá því hann var orðaður frá Tottenham árið 2013. En hann hefur ekki verið leikfær síðan hann kom til liðsins og verður ekki í hópnum gegn okkur á morgun. Þá fékk liðið einnig til liðs við sig framherjann Carlos Vinicius frá Benfica en ólíklegt verður að teljast að Mourinho láti brasilíumanninn byrja á sunnudaginn.
Mourinho hefur verið að notast við 4-2-3-1 á þessari leiktíð en breytti þó í 3-5-2 gegn Chelsea í bikarnum og spilaði líka 4-3-3 í einum Evrópudeildarleik. Búast má við að hann haldi sig við 4-2-3-1 með þá Harry Wink og Höjbjerg djúpa á miðjunni fyrir framan vörnina. Frammi má búast við að Dele Alli fái óvænt tækifæri í fjarveru Son og Harry Kane leiði framlínuna enda nánast steyptur inn í byrjunarliðið.
Manchester United
Það virðist vera nánast hægt að afrita/líma meiðslalistann hjá United. Þeir Alex Tuanzebe og Phil Jones eru læstir á honum og virðast ekkert ætla að ná sér. Ekki heldur virðist sumarið ætla að verða gjöfult, kaupin á Donny van de Beek eru ennþá einu kaup sumarsins þrátt fyrir að annar hver leikmaður í Evrópu hafi verið orðaður við United virðist lítið vera að gerast og einungis 2 dagar þar til glugginn lokar.
Sergio Reguilon fór til Tottenham, Gabriel Magalhaes til Arsenal og nú virðast samningar við Porto um kaup á Alex Telles vera að sigla í strand. Jadon Sancho sirkusinn mun eflaust halda áfram þar til næsta sumar og nú virðist vera kominn ákveðinn panic-fnykur af kaupstefnu United enda stutt til stefnu. Það kæmi undirrituðum ekki á óvart þótt Edinson Cavani, sem verður 34 ára í febrúar, kæmi hingað á ofurlaunum og svo einhver bráða- bráðabirgða hægri kantmaður til að stoppa upp í gatið sem langflestir stuðningsmenn hafa búist við að yrði bætt í með Jadon Sancho.
Jákvæðnin í kringum liðið sem skapaðist á tímum COVID og sérstaklega eftir gengi liðsins þegar boltinn fór aftur af stað í sumar virðist vera löngu gleymd og grafin og getuleysi stjórnarinnar skín nú sem aldrei fyrr. Það verður að teljast góður árangur miðað við fyrri hluta síðustu leiktíðar að liðið endaði í þriðja sætinu og tryggði sig inn í Meistaradeildina en þar stoppar metnaðarlest eigenda liðsins og hrekkur í bakgírinn. Í stað þess að þrýsta fastar á bensíngjöfina er hvert pund sparað og það kæmi ekki á óvart þó liðinu myndi bæði mistakast að komast upp úr Meistaradeildinni og ná Meistaradeildarsæti í deildinni í ár, einungis til þess eins að sama hringavitleysa fari í gang aftur og gerðist með fyrri stjóra.
Ole Gunnar Solskjær þarf verulega gott spark í óæðri endann á liðinu sínu eftir mjög slaka frammistöðu í deildinni fram að þessu. Fyrsti stórleikurinn og einfaldlega ekki í boði að vera með 3 stig úr þremur fyrstu leikjunum, sérstaklega í ljósi þess að markmiðið fyrir þessa leiktíð hlýtur að hafa verið að saxa á forskot liðanna í 1. og 2. sætinu. Bæði Liverpool og Manchester City hafa styrkt sig í þeim stöðum sem helst vantaði breidd. Einnig virðast öll önnur lið í deildinni vera meðvituð um þörfina fyrir að hressa upp á liðið milli leiktíða.
En að leiknum. Fastlega má búast við því að Solskjær haldi sig við 4-2-3-1 leikkerfið sitt en það kæmi á óvart ef liðsvalið yrði óbreytt frá síðasta deildarleik. David de Gea er eflaust farinn að finna pressuna frá Dean Henderson sem mun þó líklegast vera á bekknum á meðan sá spænski ver rammann. Aaron Wan-Bissaka og Luke Shaw koma líklega til með að vera á sitthvorum endanum í varnarlínu United en það kæmi eflaust ekki mörgum á óvart að sjá breytingar á miðvarðarstöðunni. Sérstaklega í ljósi afleiddrar frammistöðu Victor Lindelöf að undanförnu. Eric Bailly var mjög flottur í vikunni og vonandi helst hann heill því hann á klárlega erindi í baráttuna um sæti í liðinu.
Miðjan verður líklega áfram sú sama, okkar sterkasta miðja samanstendur af Matic Bruno og Pogba en sá franski virðist ekki vera búinn að ná sér fyllilega eftir að hafa fengið kórónuveiruna og hefur verið langt frá sínu besta. Hins vegar gæti Solskjær brugðið á það ráð að nota Donny van de Beek í hans stað en það verður að teljast ólíklegt. Bruno verður í holunni og vonandi situr serbinn okkar fyrir aftan hann en annars spái ég liðinu svona:
Ef United hefði gengið frá kaupunum á Alex Telles fyrir nokkrum dögum hefði United geta stillt upp í 3-5-2 leikkerfi sem ekki hefði verið of varnarsinnað. Rashford og Martial hefðu leitt sóknina með Bruno fyrir aftan þá. Sitthvoru meginn bak við hann væru þeir Pogba og van de Beek og væru þeir með talsvert frjálsara hlutverk en í hefðbundna 4-2-3-1 þar sem þriggja miðvarða vörn með þá Bailly, Maguire og Shaw þyrfti ekki eins mikla aðstoð frá djúpum miðjumanni.
En Solskjær þar að notast við það sem hann hefur. Það hefur gengið ágætlega gegn Tottenham undanfarið en United hefur ekki tapað fyrir liðinu í síðustu fjórum viðureignum (3 sigrar og 1 jafntefli). Allir hafa þeir unnist með einu marki og hvort lið skoraði sitthvort markið í jafnteflinu svo búast má við hörkuleik, enda vill Mourinho sjaldnast tapa og hvað þá fyrir fyrrum vinnuveitendum sínum.
Flautan verður í umsjón Anthony Taylor en flautað verður til leiks kl 15:30 að íslenskum tíma.
Skildu eftir svar