Eftir glæst og gjöfult ferðalag til Parísar í miðri viku fer United með gott veganesti inn í erfiðan leik í Lundúnum. Chelsea taka á móti okkur í sjöttu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar en rétt eins og hjá okkar mönnum þá hefur lærisveinum Lampard ekki gengið neitt einstaklega vel í fyrstu fimm umferðunum og sitja þeir í 8. sæti deildarinnar. Á sama tíma og United lagði leið sína til frönsku höfuðborgarinnar héldu Chelsea sig heima og tóku þar á móti Sevilla í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar en þeim leik lauk með steindauðu jafntefli. Þar stillti Lampard upp sínu sterkasta liði í 4-2-3-1 leikkerfið til að koma öllum sínum sterkustu leikmönnum í liðið.
Chelsea
Chelsea fór mikinn á leikmannamarkaðinum í sumar og eyddu ríflega 222 milljónum punda í nýja leikmenn eins og Kai Havertz, Timo Werner, Hakim Ziyech, Edouard Mendy, Ben Chilwell og fengu leikmenn á frjálsri sölu eins og þá Thiago Silva og Malang Sarr úr frönsku deildinni. Gríðarlega sterk innspýting af leikmönnum fyrir lið sem endaði í fjórða sæti á síðasta tímabili og greinilegt að Lampard á að fara með liðið lengra.
Chelsea byrjuðu á að leggja Brighton að velli 3-1 í deildinni en eftir það tók við tap gegn Liverpool 0-2 og síðan 3-3 jafntefli við West Brom þar sem Chelsea lenti 3-0 undir á fyrsta hálftímanum en náði síðan að bjarga andlitinu í síðari hálfleik en jöfnunarmarkið þeirra hefði aldrei átt að standa. Þeir bláklæddu svöruðu þessu með því að leggja Crystal Palace 4-0 og virtust þá vera að finna fjölina sína en síðan tók við annar 3-3 leikur gegn dýrlingunum í Southampton.
Í þessum fimm leikjum hefur Chelsea fengið á sig 18 skot sem ratað hafa á rammann en 9 þeirra hafa endað í netinu, eða annað hvert skot. Þeir virðast enn eiga í tómu basli með varnarleik sinn, rétt eins og á síðasta ári og markvarslan hefur ekki verið á pari. En Lampard gaf það út á dögunum að Mendy væri fyrstur á blað og greinilegt að hann treystir hvorki Kepa Arrizabalaga né Willy Caballero fyrir því að vernda búrið. Miðvarðarvandræði Chelsea halda líka áfram þrátt fyrir tilkomu Thiago Silva og vonandi nær United að færa sér það í nyt á morgun.
Lampard hefur ekki mikið verið að stíga út fyrir þægindarammann varðandi taktík og heldur sig mikið við 4-2-3-1 og gera má fastlega ráð fyrir því að það haldi áfram á morgun. Hann stillti þó upp í 4-3-3 gegn Liverpool með döprum árangri en þar áður setti hann upp í 4-2-2-2 gegn Brighton í upphafi leiktíðar með betri árangri.
Á síðasta tímabili var Lampard þó mjög sveigjanlegur taktísklega séð gegn United. Í fyrstu umferðinni stillti hann í 4-2-3-1, kerfið sem hann kýs yfirleitt að nota, en tapaði þeim leik 4-0 eins og frægt er orðið. Eftir það tók við smá tilraunastarfsemi þegar Lampard stillti upp í 4-3-3 tvo leiki í röð (gegn United) með mismunandi byrjunarlið en tapaði báðum leikjunum. Að lokum mættust liðin svo í undanúrslitum bikarsins en þá stillti Chelsea upp í 3-4-3 og tókst að sigra að lokum. Þó spái ég að hann hverfi aftur í 4-2-3-1 enda með talsvert sterkari hóp en fyrir rúmu ári síðan.
Hjá gestunum er ekki mikið um meiðsli, Billy Gilmour er eini sem skráður er á meiðslalistann en hann verður tæplega talinn sem lykilleikmaður eins og hópurinn er í dag. Því spái ég að Lampard stilli upp liði sínu nokkurn veginn á þessa leið:
Manchester United
Því miður er ekki sömu söguna að segja úr herbúðum United en Phil Jones er eins og vanalega fastagestur á meiðslalistanum en honum til samlætis eru þeir Mason Greenwood, Eric Bailly og Jesse Lingard en þar fyrir utan er Anthony Martial ennþá í skammarkróknum eftir rauða spjaldið gegn Tottenham.
Í vikunni var enginn Harry Maguire í hópnum en Ole Gunnar Solskjær hefur gefið það út að hann sé vongóður um að fyrirliðinn nái þessum leik en í fjarveru hans voru þeir Victor Lindelöf, Luke Shaw og Alex Tuanzebe í hjarta varnarinnar í þriggja hafsenta kerfi og stóðu sig með prýði. Hreint ótrúlegt að Tuanzebe, sem hefur verið á meiðslalistanum frá því á síðasta ári, hafi komið inn í fyrsta leikinn sinn í tíu mánuði og sett þá Neymar, Mbappé og Dí María í spennitreyju í Meistaradeildinni á útivelli án þess að blása úr nös. Það væri þó kannski fullt stíft að byrja annan leik og spila 90 mínútur svo skömmu eftir fyrsta leikinn en góðu fréttirnar eru þær að hann er kominn til baka úr þessum erfiðu meiðslum.
Þar sem Harry Maguire er að öllum líkindum búinn að jafna sig á smávægilegum meiðslum þá fer hann aftur inn í liðið en áhugavert verður að sjá hvort Bruno Fernandes haldi fyrirliðabandinu eftir PSG leikinn. Aaron Wan-Bissaka og Luke Shaw sýndu sitt rétta andlit í leiknum sömuleiðis og það kæmi verulega á óvart ef annar þeirra missti sætið sitt, þrátt fyrir að Alex Telles hefði átt hörkugóðan leik í vængbakverðinum.
En svo er aldrei að vita, hugsanlega heldur Solskjær sig við 3-5-2 kerfið (eða 3-4-1-2) en af öllum þeim sem spiluðu í Frakklandi þá er víst að Martial verður ekki með í leiknum gegn Chelsea en í hans stað gætum við séð Edinson Cavani í fyrsta sinn í United treyjunni. Hugsanlega væri ekki vitlaust að stilla honum upp á toppinn gegn varnarmanni sem hann hefur tekist á við á æfingum í 7 ár en það verður að koma í ljós. Annars spái ég að sá norski stilli upp eitthvað á þá leið:
Dean Henderson heldur áfram að verma bekkinn enda átti David de Gea stórkostlegan leik á þriðjudaginn og einungis Martial sem tókst að skora framhjá honum. Enginn úr öftustu línu á skilið að missa sætið sitt en þó þarf líklega að rótera mönnum enda stíf leikjadagskrá framundan. Pogba kom með gríðarlega sterka innkomu í leiknum gegn PSG og náði stjórn á miðjunni eftir að Tuchel breytti um leikkerfi. Aðrir miðjumenn stóðu sig líka frábærlega, besti leikur Fred í langan tíma og McTominay var ekki síðri þrátt fyrir að fá gult spjald snemma leiks.
Bruno Fernandes heldur áfram að vinna hug og hjörtu allra stuðningsmanna liðsins og hefur dregið vagninn frá því í janúar og núna með leiðtogahæfileikum sínum einnig. Donny van de Beek er ólíklega að fara að byrja en hann virðist ekki fá margar mínútur en virkar alltaf kröftugur og aggressífur þann litla spilatíma sem hann fær.
Framlínan verður meira spursmál. Odion Ighalo og Edinson Cavani eru klárir en Marcus Rashford virkaði örlítið óöruggur og tók nokkrar slæmar ákvarðanir í leiknum gegn PSG en átti svo frábær einstaklingsframtak sem tryggði okkur öll stigin gegn PSG. Hvorki Nígeríumaðurinn né Úrúgvæinn hafa spilað mikið að undanförnu og alls kostar óvíst hvort svona stórleikur sé heppilegur fyrir þá. Hins vegar eru hendurnar á Solskjær bundnar fyrir aftan bak, Martial í banni og Greenwood frá vegna meiðsla. Það kæmi því lítið á óvart að sjá Cavani þreyta frumraun sína í leiknum á morgun gegn Chelsea.
Síðustu viðureignir þessara liða hafa verið magnaðar. United tapaði eins og áður sagði í síðustu viðureign liðanna í undanúrslitum bikarsins en fram að því hafði United ekki tapað fyrir Chelsea síðan 19. maí 2018. Í síðustu ellefu viðureigum í öllum keppnum hefur United unnið sex leiki, gert tvö jafntefli og tapað í þrígang. Það verður því vafalítið boðið upp á dýrindis skemmtun á morgun kl 16:30 þegar Martin Atkinson flautar leikinn á.
Bjarni Ellertsson says
Eftir góða gönguferð í Parísargarði í vikunni þá er tímabært að láta kné fylgja kviði seinna í dag. Kemur allt í ljós hvernig liðið verður gírað fyrir leikinn og fróðlegt að sjá liðsuppstillinguna. Held það verði ekkert óvænt þar.
GGMU