Ole Gunnar Solskjær gerir nokkrar breytingar frá því um helgina fyrir leik kvöldsins gegn Istanbul Başakşehir í þriðju umferð H-riðils í Meistaradeildinni.
Á bekknum voru þeir: De Gea, Fosu-Mensah, Lindelöf, Mengi, Williams, Fred, James, McTominay, Pogba, Cavani, Greenwood og Ighalo.
Heimamenn stilltu upp í 4-2-3-1
Fyrri hálfleikur
Fyrsta færið kom þegar Maguire átti sendingu frá miðjum velli inn í teig heimamanna en viðstöðulaust skotBruno endaði í innkasti. Flott pressa hjá United og mikil yfirvegun og þolinmæði á fyrstu tíu mínútunum. Gæði í sendingum og hlaupum hjá Juan Mata, Donny van de Beek og Bruno Fernandes skiluðu sér í góðu skotfæri fyrir United þegar Luke Shaw var einn og óvaldaður á vítateigshorninu en skot hans kitlaði stöngina.
Edin Visca átti síðan fyrsta færi heimamanna þegar hann átti skot yfir slánna. Áfram hélt pressa United og á tímabili voru 7 leikmenn United inn í vítateig heimamanna en slíkt getur auðvitað skapað ákveðna hættu sem gerði það að verkum að Istanbul Basaksehir fékk næsta færi sitt. United tapaði boltanum hátt á vellinum og eftir sendingu sem var hálfgerð hreinsun frá vítateig Basaksehir datt boltinn fyrir Demba Ba sem var gjörsamlega Palli einn í heiminum á vallarhelming United. Hann bar boltann og Nemanja Matic, sem var 15 metrum frá honum í byrjun, átti ekki möguleika á að ná honum. Ba renndi boltanum framhjá Henderson úr auðveldu færi og skoraði um leið fyrsta mark Basaksehir í Meistaradeildinni og breytti stöðunni í 1-0 Hreint út sagt ótrúlega viðvangingslegt mark til að fá á sig í keppni sem þessari.
Eftir markið virkaði sem leikmenn liðsins misstu þolinmæðina og fóru að reyna erfiðari sendingar með litlum árangri. En upp úr litlu sem engu kom næsta færi United þegar Aaron Wan-Bissaka komst inn í sendingu á miðjum vellinum og tók laglegan þríhyrning við Rashford og á sama tíma var Bruno kominn í álitlega stöðu í teignum en bakvörðurinn valdi að skipta yfir á Martial sem var við hitt vítateigshornið. Á meðan boltinn var í loftinu tókst varnarmönnum að komast í betri stöðu og Rafael náði að kasta sér fyrir skot frakkans.
Strax í kjölfarið komst Basaksehir í sókn sem endaði með fyrirgjöf og föstum skalla beint í fangið á Dean Henderson. Áfram hélt frekar hugmyndasnauður sóknarþungi frá United en það voru heimamenn sem fengu næsta hættulega færið þegar þeir brunuðu upp vinstri kantinn og komu boltanum fyrir vítateiginn þar sem enginn virtist vera þar til Edin Visca kom brunandi og hamraði boltann fram hjá Henderson og tvöfaldaði forystu Basaksehir. Aftur mjög dapur varnarleikur og heimamenn að færa sér þau í nyt.
Staðan var þó ekki lengi þannig þar sem Anthony Martial fékk gullfallega fyrirgjöf frá vinstri kantinum og stangaði boltann í fjærhornið og lagaði stöðuna. 2-1 og enn nokkrar mínútur fram að hálfleik.
Síðari hálfleikur
Solskjær gerði eina breytingu í hálfleik, hann tók Alex Tuanzebe útaf fyrir Scott McTominay og færði um leið Matic í miðvörðinn. McTominay gerði vel eftir að hann kom inn á og fleygði sér í hverja tæklinguna á fætur annarri og var grimmur á miðjunni. Eftir um átta mínútna leik fengu United aukaspyrnu eftir að Rafael kastað sér í tæklingu á móti Bruno. Portúgalinn tók spyrnuna sjálfur en markvörðurinn átti ekki í miklum vandræðum með skotið.
Síðari hálfleikurinn tók þó brátt þá stefnu sem undirritaður óttaðist, United hélt boltanum að miklu leyti en sköpuðu sér ekki mikið af hættulegum færum. Heimamenn héldu áfram að beita skyndisóknum en oft vantaði ákveðin gæði, t.a.m. í síðustu sendingarnar sem oft urðu til þess að færið rann út í sandinn.
Eftir klukkustundarleik komu þeir Edinson Cavani og Paul Pogba inn á fyrir þá Donny van de Beek og Juan Mata. Skömmu síðar lék Bruno á tvo varnarmenn og kom boltanum á Martial sem gaf boltann auðveldlega frá sér. Þetta var svolítið saga síðari hálfleiks og virtist engu skipta hvaða leikmaður reyndi fyrir sér, fyrirgjöf frá Pogba eða Wan-Bissaka, engin raunveruleg hætta við mark heimamanna skapaðist.
Næsta sókn þeirra kom svo ekki fyrr en um korter var eftir af leiknum, þegar Kahveci komst upp kantinn og tók stefnuna inn á völlinn og fann þar Visca en fyrirgjöf hans fór í varnarmann og aftur í hann og þaðan aftur fyrir endalínu. Síðustu mínúturnar í leiknum voru síðan bara eins og venjuleg æfing fyrir varnarmenn Başakşehir, ekkert sem þeir réðu ekki við.
Þar til loksins á annarri mínútu uppbótartíma þegar United átti hornspyrnu. Luke Shaw átti ágætis fyrirgjöf sem endaði á enninu á Maguire sem skallaði í átt að markinu en fer af Cavani eða varnarmanni og er að skoppa inn í markið þegar Epureanu er fyrstur að bregðast við og sparkað í boltann fyrir marklínunni. Þrátt fyrir að hann hitti boltann illa og setur mikinn snúning á hann og beint upp í loftið en hárfínt framhjá slánni. Með marklínutækninni kom í ljós að boltinn var ekki hálfnaður á leiðinni inn en tæpara mátti það varla standa.
Pælingar eftir leikinn
Matic átti mjög dapran dag, missti einbeitinguna í fyrsta markinu og var víðsfjarri fremsta manni Basaksehir en það verður að teljast ólíklegt að hann Matic hafi átt að vera aftasti maðurinn okkar. Marcus Rashford var ólíkur sjálfum sér og lítið gékk upp hjá Martial í dag. Bruno reyndi og reyndi allan leikinn en eins og svo oft áður vantaði allan bitkraft í okkar menn. Mikið með boltann en fá færi virðist vera mest lýsandi þessa dagana ef frá er talinn RB Leipzig leikurinn. En tap í þessum leik þýðir einfaldlega að H riðillinn er galopinn. Núna á eftir mætast PSG og RB Leipzig og getur þá annað liðið jafnað okkur að stigum. Það yrðu þó engin endalok en það verður að teljast afar svekkjandi að ná ekki að kroppa í þó ekki væri nema eitt stig.
En Ole og strákarnir hans halda áfram að kynda vel undir sætinu hans. Liðið virðist vera á heimsmælikvarða eina vikuna og síðan eiga heima á neðri hluta töflunnar þá næstu. Um helgina tekur við ekki minni prófraun þegar United mætir Carlo Ancelotti og Everton liðinu sem hefur verið í býsna miklu stuði það sem af er leiktíðar. Þeir verða þó án Lucas Digne og Richarlison og hugsanlega líka James Rodríguez en engu að síður hörkuleikur þar á ferð. En þangað til eru þrír dagar sem ég vona að Ole Gunnar og United liðið allt noti til að rífa sig í gang.
Thorleifur says
Mjög áhugaverð uppstilling 🤔😊
Runar P. says
Van de Beek :)
Bjarni Ellertsson says
Er bara gleði og stolt hjá leikmönnum þegar vel gengur? Maður spyr sig. Nú er fokið í flest skjól, erum að spila eins og byrjendur, getum ekki haldið bolta lengur innan liðsins. Kannski ekkert skrítið með suma stirðbusa inná og aðra ellismelli. Það er meiri stemming í matsalnum á Hrafnistu heldur hjá leikmönnum, einsog menn þoli ekki hverja aðra. Auglýsi eftir leiðtoga liðsins, hann er ekki sýnilegur í dag eða er lítill inní sér. Kemur úr hýðinu þriðja hvern leik. Getum alveg unnið þennan leik en skiptir það einhverju máli í stóra samhenginu. Held ekki, erum í langri vegferð í leið að stöðugleika, byrjum þar.
Annars bara nokkuð góður.
GGMU
gummi says
NO COMMENT
Þorsteinn says
Ég man ekki eftir jafn lélegu Manchester United… Ever – held það skipti engu máli þó Norðmaðurinn verði rekinn, amma mín er betri í að koma fólki í stuð fyrir helgarþriðnað en hann er með þetta lið.
Helgi P says
Þurfum við ekki að fara stöðva þennan circus sem er í gangi ég veit ekki hvað Solskjær er að gera þarna þetta er eitt versta þjálfaða fótbolta liðið í heiminum í dag
Egill says
Jæja, þetta hlýtur að hafa verið síðasti leikur Ole, þetta er gjörsamlega til skammar. Liðið höndlar ekki þegar lið pressa, enginn í þessu liði virðist kunna að senda fyrirgjafir, liðið getur ekki sent einfaldar sendingar og gerir enn og aftur skelfileg varnarmistök þrátt fyrir að vera með skipulagsfræðing þarna í vörninni. Illa þjálfað lið frá a-ö.
Beek? Hver er tilgangurinn með honum? Ég hef ekki hugmynd um hvert hlutverk hans er á vellinum, og hann virðist ekki vita það sjálfur.
Tuanzebe er ekki eins góður og hann virkaði gegn PSG, það hefur alltaf verið ljóst fyrir öllum nema Ole.
Við þurfum mark gegn liði sem pakkar í vörn og Ole ákveður að skipta um bakvörð, eins og það væri að fara að breyta einhverju.
Svo er ég alveg kominn með nóg af Maguire, sterkur í loftinu en skelfilega lélegur skallamaður. Hann er kannski góður leiðtogi í FM en ekki í raunheimum, alltof miklum peningum eytt í þennan mann þegar við vorum með Smalling og Rojo sem eru alls ekki verri leikmenn. Ég er farinn að hata þennan leikmann.
Við erum í verri stöðu í dag en þegar Ole tók við, liðið lélegra, verr þjálfað og allur andi farinn.
Ég get ekki einu sinni verið pirraður lengur, ég hef bara ekki trú á þessu liði.
Eftir höfðinu dansa limirnir, og Ole þarf því að víkja og það fyrir löngu síðan.
Hilmar V says
Solskjær var ekki nógu góður fyrir cardiff hvernig getur þá verið að hann sé nógu góður stjóri fyrir United algjör brandari
Herbert says
Nú er ég andskoti hræddur um að Solskjaer sé kominn á endastöð. Hann er alveg týndur í að rífa menn í gang og algjört andleysi yfir þessu! er algjörlega gáttaður á sumarglugganum! að hafa keypt framliggjandi miðjumann með breiddina sem við höfum á köntunum og frammi er algjörlega galið…. Ekki það að De Beek er ábyggilega hörkuleikmaður. hefði bara alltaf keypt fyrst mann til að leysa af Daniel James og Mata.
Karl Garðars says
Jæja, ég hef fengið nóg.
Út með allt þjálfararuslið, þetta er ekki á nokkurn einasta hátt boðlegt.
Ég dýrkaði Ole sem leikmann og vonaði svo að þetta myndi ganga en hann er vonlaus þjálfari.
Það sést langar leiðir að leikmenn bera enga virðingu fyrir þessu þjálfaraliði og Ole virðist annað hvort vera tognaður á heila eða bara allt of gúddí gæji til að láta menn heyra það þegar þeir eiga það skilið.
Öll sóknaruppbygging virðist þurfa að byrja á Mcguire, Matic, Lindelof eða McTomay. Allt saman menn sem gætu ekki hitt í hausinn á sér með haglabyssu. Ef ekki það þá er Shaw látinn hlaupa með boltann í bölvaðar ógöngur.
MSD says
Ég er hreinlega kominn á það að skipta um mann í brúnni. Ég hef ekki haft þessa skoðun hingað til en núna er bara andleysið algjört og engar lausnir. Ég held reyndar að þetta sé ekki bara Ole að kenna, fyrir mitt leyti mætti allt þjálfaraliðið fá endurnýjun lífdaga með nýjum manni. Þetta er hreinlega ekki boðlegt.
Ég er ekki bjartsýnn fyrir helgina. Liðið var alveg viljalaust í kvöld og hreinlega ömurlegt að horfa upp á þetta. Við erum líka með 33 ára Cavani sem kom í lok gluggans eins og eitthvað panic dæmi korter í lokun og 31 árs þungan framherja úr kínversku deildinni. Það er hinsvegar ekki hægt að kenna Óla um það fuckup. Á sama tíma kaupir Liverpool ungan ferskan mann frá Wolves sem slær í gegn hjá þeim.
Vandamálið er stórt hjá United. Ed og stjórnin eru risa partur af því. Ole og þjálfarateymið er hinsvegar engan veginn stikkfrí og með þennan hóp á að geta gert betur. Menn verða allavega að sýna einhvern vilja til að sigra, berjast og halda áfram og hann er hreinlega ekki til staðar lengur.
Karl Garðars says
Út með Ole og co. Fá Keane inn til að taka leikina á meðan verið er að semja við einhvern þungaviktarmann. Helst að fá Vinnie Jones með tvö kennaraprik sem aðstoðarþjálfara.
Ég er ekki viss um að það sé neinum greiði gerður með að fá Poch inn núna. Liðið er í molum og það þarf sterkan karakter inn til að leiða það úr þessum ógöngum áður en nýju leikmennirnir og þessir uppöldu verða eyðilagðir líka. Síðan þarf að losna við farþegana sem eru hvorki að spila fyrir merkið né eigin metnað.
Helgi P says
Er einhver sem vil að Solskjær
Haldi áfram að rústa þessum klúbbi
Karl Garðars says
Já alveg hellingur af púlurum
Scaltastic says
Avram og Joel Glazer… 3 og hálft ár í viðbót af Adidas samningnum. Maður lifandi hvað ég þrái að félagið verði komið í aðrar hendur að því loknu.
Er ansi hræddur um að þangað til verðum við að troða marvaða :(
Tómas says
Studdi hann frá upphafi og var nokkuð sáttur með hvað var verið að gera í fyrra. Hann þurfti samt að sýna áframhaldandi framfarir í ár.
Þær hafa ekki komið. Stjórnin gerði honum enga greiða… en þetta lítur illa út, virkar stefnulaust og nú þegar orðið upphill battle eftir þessu 4. sæti líkt og í fyrra.
Poch er laus þannig að kannski betra að gera það strax en þegar það verður ljóst að við náum ekki meistaradeild.
Hilmar V says
Ef United lið ferguson hefði fengið svona mark á sig eins og fyrsta markið í kvöld hann hefði sett allt liðið á sölu lista eftir leik hvað er Maguire að gera í þessu liði
Egill says
Poolari hér.
Það ætti að vera löngu ljóst að OGS er ekki maðurinn. Liðið ætti i raun að vera með 4 stig í deildinni þvi það átti ekkert skilið á móti Brighton. Liðið getur unnið leiki ef þeir liggja vel til baka og beita skyndisóknum, sbr PSG og RBL. En þegar liðið þarf að sækja a lið sem liggja til baka er ekkert að frétta. Stjórinn hefur engin svör og skiptingar hans störundarlegar. Ég held að það finnist ekki nokkur maður á þessari jörð sem veit hvaða kerfi hann var að spila í dag (amk í síðari hálfleik). Svo virðist hann breyta liðinu eftir væl i pressunni og reynir að halda öllum ánægðum. Kaup sumarsins stórundarleg, 33 ára EC sem búið var að bjóða öllum en enginn vildi kemur inn á lokadegi og miðjumaður! Cl sætið var heppni (leicester í þvilikum meiðslavandræðuum) og gaf sannarlega falskar vonir. OGS veit ekki hvaða kerfi hann á að spila, hverjum hann á að spila og maðurinn virkar algjörlega punglaus (afsakið orðbragðið). Það er maður á lausu, sá sem United átti að ráða þegar Ferguson hætti, Mauricio Roberto Pochettino Trossero. En hinsvegar vona ég að OGS haldi áfram…
En finn til með ykkur, hef svo sannarlega upplifað jafn svarta daga, við vorum jú með Whoy Hodgson einu sinni…
MSD says
Maður er skíthræddur um að ef Ole plásturinn er ekki rifinn af strax að þá verðum við of seinir að hringja í Poch og endum á að bjalla í Big Sam eftir áramót í von um að halda okkur í deildinni.
birgir says
Ég held að flestir Liverpool menn vonist eftir að Man Utd sigri Everton um helgina.
Ég hef alla tíð viljað sjá Óle í námunda við 4. sætið, sé hann þar er minni hætta á hallarbyltingu. Sem legend hjá félaginu fær hann góðan slaka og menn eru sáttari við meðalmennsku undir hans stjórn en einhvers annars.