Það var í Manchester ferð, trúlega 2003, sem félagi minn greip ævisögu Nobby Stiles ofan úr hillunni í Megastore. Hann opnaði hana af handahófi og lenti beint á setningunni: „Ég var umsvifalaust rekinn út af.“ Setningu sem er trúlega einkennandi fyrir Stiles.
„Hann var eins og klipptur út úr teiknimynd, minnti kannski helst á Stjána-Bláa. Lítill maður með þykk og mikil gleraugu,“ sagði Vinny Jones um Stiles í heimildamynd sinni um harðjaxla enska boltans.
Sú saga gekk alltaf að George Best spilaði aldrei með legghlífar, nema í þau skipti sem hann þurfti að mæta Stiles sem var í landsleikjum Englands og Norður-Írlands. Best vissi að Stiles væri alvarlega nærsýnn og þótt hann spilaði með linsur ætti hann það til að misreikna hreyfingar mótherjans. Og Nobby dró aldrei neitt af sér í tæklingum.
Meistaratitlarnir
Stiles fæddist 18. maí árið 1942 í kjallara húss fjölskyldunnar í Manchester, en það var notað sem loftvarnabyrgi í síðari heimsstyrjöldinni. Hann vakti athygli með að komast inn í enska U-15 ára landsliðið og 18 ára gamall spilaði hann fyrsta leikinn með United.
Stiles var annar tveggja leikmanna Manchester United sem urðu heimsmeistarar með enska landsliðinu sumarið 1966. Hinn var Bobby Charlton. Stiles spilaði þann leik, eins og flesta aðra, í stöðu varnartengilliðs. Alf Ramsey, þjálfari Englendinga, sagði síðar að hann hefði haft fimm leikmenn í heimsklassa í liði sínu og Stiles hefði verið einn þeirra.
Í þeirri stöðu var það hlutverk hans að stoppa leikstjórnendur, oft helstu stjörnur, mótherjanna. Hann gerði það eftirminnilega í leik Englendinga gegn Portúgölum í keppninni þar sem hlutverk hans var að gæta Eusébio. Hann hafði aftur betur gegn Eusébio tveimur árum seinna þegar United lagði Benfica í úrslitum Evrópukeppni meistaraliða. Til viðbótar við þessa titla varð Nobby Englandsmeistari 1965 og 1967.
Ekki hinn dæmigerði knattspyrnumaður
Í þeim minningargreinum sem ritaðar hafa verið um Stiles síðustu daga, eftir að hann lést 30. október síðastliðinn, er þess minnst að hann hafi ekki beint litið út fyrir að vera fótboltamaður. Hann hafi verið lágvaxinn, undir 170 cm á hæð og sköllóttur fyrir aldur fram en reyndi að fela það með að greiða yfir skallann. Þetta hafi hann bætt upp við mikilli baráttu og keppnisskapi.
Það er líka komið inn á að hann vantaði framtennurnar. Utan vallar var Nobby með gervitennur en tók þær úr sér fyrir leiki til að virðast ógnvænlegri. Þess er minnst að hann hafi fagnað heimsmeistaratitlinum með gullstyttuna í annarri hendinni og gervitennurnar í hinni en breitt bros á andlitinu.
Varnarvinna Stiles skipti lið hans miklu máli því hún gerði þeim sem voru framar, svo sem Charlton og George Best hjá United, kleift að gera það sem þeir voru bestir í. Því fer þó fjarri að Stiles hafi bara verið tannlaus harðjaxl, hann var góður í að senda boltann og fljótur að koma honum til mannanna fyrir framan sig.
Eftir þetta fór að fjara undan ferli Stiles, hann glímdi við meiðsli og yfirgaf United árið 1971, fyrst fyrir Middlesbrough, síðan Preston þar sem hann lauk leikmannsferlinum og varð stjóri liðsins árið 1975. Hann þjálfaði síðan um tíma yngri flokka lið United, meðal annars hinn fræga 92 árgang.
Erfiðir tímar
Saga Stiles er því ekki bara sigurganga. Nefna má að hann var ekki aðlaður fyrr en árið 2000 að undangenginni herferð enskra fjölmiðla sem bentu á að drottningin hefði ekki enn heiðrað fimm leikmanna heimsmeistaraliðsins.
Hann lenti líka í fjárhagskröggum. Árið 2010 seldi hann verðlaunapeninganna sína á uppboði. Fjölskylda hans gagnrýndi United fyrir að hafa ekki gert nóg til að styðja fyrrum leikmenn, til dæmis Stiles, sem hafði þjónað félaginu dyggilega. United brást við með að kaupa verðlaunapeningana.
Hann missti líka heilsuna. Árið 2013 greindist hann með krabbamein í blöðruhálskirtli. Árið 2005 var orðið ljóst að hann glímdi við heilahrörnun. Aðeins nokkrum dögum eftir andlát Stiles var greint frá því að félagi hans Charlton væri kominn í sömu stöðu.
Fjölskylda Stiles er meðal þeirra sem bent hefur á nýlegar rannsóknir um að heilahrörnun sé algengari meðal knattspyrnumanna en annarra. Heilsufar hans og Charlton hefur vakið upp mikla umræðu í Englandi um áhættuna sem fylgir því að skalla boltann. Í þá daga sem þeir spiluðu var boltinn úr leðri og mun þyngri en boltarnir sem notaðir eru í dag. Það breytir því ekki að umræðan um hættuna af skallaboltum fer vaxandi og sem dæmi má nefna að nokkur ár eru síðan Bandaríkjamenn bönnuðu að skalla boltann í yngstu flokkunum.
Að leiðarlokum
Ég gekk eðlilega út úr Megastore á sínum tíma með bókina um Nobby í farteskinu. Ég verð hins vegar að játa það á mig að ég kom því aldrei í verk að lesa hana. Í einni stórtiltektinni var ákveðið að gefa hana í von um að hún fengi gott heimili. Ég vona að svo hafi verið, rétt eins og ég vona að söguhetja hennar hafi núna líka fengið góðan stað til sinnar hinstu hvílu.
En það er svo að minningin deyr ekki svo lengi sem einhver man eftir einstaklingnum og sögurnar um tannlausa tígurinn lifa vonandi í hugum stuðningsmanna Manchester United.
Höfundur pistils: Gunnar Gunnarsson
Skildu eftir svar