Það er alveg óhætt að segja að lið United sé bara með tvær stillingar þessa dagana. ON og OFF. Við fengum að sjá þær báðar í dag, svo sannarlega.
Solskjær gerði nokkrar breytingar, De Gea, Rashford og Bruno Fernandes voru allir hvíldir vegna mis smávægilegra meiðsla og Paul Pogba kom í byrjunarlið í fyrsta skipti í nokkra leiki.
Varamenn: Grant, Tuanzebe, Williams, Bruno Fernandes (46′), Mata (62′), Matić, Rashford (46′)
Lið West Ham var eins og við var búist
Það voru West Ham menn sem byrjuðu mun betur og voru ágengir, settu boltann í netið á 9. mínútu en það var eftir rangstöðu, engin hætta þar.
Annars var þetta mjög tíðindalítið, United náði loksins smá tökum á spilinu og fór að halda boltanum betur á miðjunni en það var komið fram yfir hálftíma af leik þegar eitthvað gerðist sem var þess virði að skrá, og það var West Ham að verki. Bowen óð upp hægra megin, lék Telles sundur og saman og sendi frábæra fyrirgjöf, Pablo Fornals var á fjær stöng með fínan skalla, í hliðarnetið. Þar hefði auðveldlega getað farið ver.
Fornals var aftur á ferðinni skömmu síðar, fékk boltann í miðjum teignum og ýtti boltanum einfaldlega og lymskulega gegnum klofið á Wan-Bissaka, Henderson var óviðbúinn og boltinn small í stönginni. Mjög hættulegt aftur.
Það var því fullkomlega sanngjarnt að West Ham tók forystuna, fengu horn sem fkom inn á markteigshorn nær, Rice framlengdi með skalla, Pogba og Telles stóðu og horfðu á en Soucek ekki, hann kom á ferðinni og stýrði boltanum í netið. Hrikaleg varnarvinna.
Rétt á eftir komst Haller innfyrir, lék á Henderson og þurfti bara að skjóta framhjá tveimur varnarmönnum en steig á boltann. Hann var líklega aðeins rangstæður en enn ein slök frammistaðan í vörninni.
Það var síðan ekki fyrr en á 44. mínúútu að almennilegt skot kom á mark West Ham, Martial úr teignum, en ekki of erfitt fyrir Fabianski.
Hinu megin var það svo vörn United sem enn einu sinni opnaðist, Wan-Bissaka mistókst alveg að komast fyrir sendingu inn fyrir, en gerði svo það sem hann gerir vel, náði Bowen og tæklaði boltann í burtu.
Þessi fyrri hálfleikur er allt það sem United gerir verst, léleg vörn og laust við alla sköpun. Staðan hefði auðveldlega getað verið 3-0. Þessir 2.000 áhorfendur sem fengu að vera á London Stadium í fyrsta skipti síðan heimsfaraldurinn breytti öllu voru hæstánægðir.
Það sem vantaði var auðvitað Bruno Fernandes og hann og Rashford komu inn á í hálfleik til að reyna að bjarga leiknum. Segir allt um fyrri hálfleikinn enda skiptir le nær aldrei í hálfleik. Donny van de Beek og Edinson Cavani fóru útaf.
West Ham átti að komast í 2-0 á 52. mínútu, sókn upp vinstra megin, skipti yfir og Haller var dauðafrír í teignum, gaf lágan þvert, fram hjá öllum varnarmönnum og Henderson og Bowen jafn dauðafrír þurfti bara að setja boltann í opið markið en tókst einhvern veginn að skjóta í hliðarnetið.
Loksins kom svo eitthvað til að skrifa um frá United, ágæt syrpa upp kantinn hjá Rashford, fyrirgjöf og skot McTominay rétt framhjá.
United héldu áfram að vera slakir og Martial meiddist og þurfti að fara útaf, Juan Mata kom inná.
En fótbolti er skrýtin skrúfa og United jöfnuðu upp úr engu. West Ham var í sókn, boltinn fór út að hliðarlínu og Dean Henderson þurfti að fara og hreinsa og þvílík hreinsun, beint upp á Bruno á móts við vítateig West Ham. Fernandes lék þvert, renndi boltanum á Pogba sem smellti frábæru innanfótarskoti af 20 metra færi í neitið úti við stöng! 1-1 gegn gangi leiksins
Þremur mínútum síðar komst United yfir! Telles kom upp og gaf á Greenwood inn í teig. Greenwood var með bakið í mark, tók snertingu, sneri og hamraði boltanum í netið. Frábær fyrsta snerting, frábært skot.
Fimm mínútum fyrr var talað um að United gæti hæglega verið fjórum mörkum undir en í staðinn var liðið enn á ný búið að vinna sig í forystu á útivelli.
Rashford hefði getað komið United í 3-1 en skaut í stöng kominn inn fyrir. Sendingin var auðvitað frá Bruno. Rétt á eftir lenti Rashford í samstuði, datt eftir að hafa verið tæklaður og fór með ennið í fót Ogbonna. Hann gat þó haldið áfram og svona líka, hann skoraði þriðja markið á 78. mínútu.
Juan Mata er kannske hægur en hann átti STÓRKOSTLEGA sendingu upp á Rashford sem stakk West Ham vörnina af og lyfti boltanum snyrtilega yfir Fabianski.
Hreint ótrúlegur leikkafli og það eftir hræðilegan fyrri hálfleik.
West Ham sótti í sig veðrið og á 84. mínútu sýndi Henderson hvað hann getur. Cresswell skaut úr aukaspyrnu og boltinn var á leiðinni inn úti við stöng, en Henderson fleygði sér endilöngum og náði að koma gómunum í boltann og ýta honum framhjá.
Leikurinn var í raun búinn, West Ham reyndi eitthvað en þetta var öruggt og enn einn útisigurinn eftir að hafa lent undir. Liðið komið í fjórða sæti með jafn marga leiki og liðin í kring, tveimur stigum frá toppsæti.
Ótrúlegur leikur og það er ljóst að Bruno Fernandes er langbesti leikmaður United, ekki bara núna heldur síðustu árin. Það er hann sem lætur spilið tikka, drífur menn áfram og vinnur leiki. Þó að Gary Neville hafi valið Marcus Rashford mann leiksins.
Til að staðfesta það getum við einfaldlega horft á töfluna til hliðar og haft það í huga að á þessum tíma hefur hávær minnihluti stuðningsmanna viljað reka stjórann, sumarglugginn var mjög slakur og helmingur leikmanna virðist ekki í meistaraklassa.
En samt, en samt. Staðan er eins og hún er, og við getum unað vel við niðurstöðuna í dag.
TonyD says
Er ekki Rashford á bekknum og Cavani frammi? Annars spennandi að sjá hvernig þetta spilast og gaman að sjá Henderson fá traustið.
Björn Friðgeir says
Leiðrétt!
Rúnar P says
Hvað er Pogba að gera í þessu liði?
gummi says
Er ekki frekar hvað er Solskjær að gera með þetta lið
Bjarni Ellertsson says
Vörnin út á þekkju, engin sókn og ráðalaus miðja. Er hægt að krefjast sigurs? Varla. Er eins og menn séu alltaf að bíða eftir að fá á sig mark til að geta hafið leik.
Karl Garðars says
Martial út – Bruno inn.
Karl Garðars says
Stórglæsilegt mark!
Bjarni Ellertsson says
Glæsilegur sigur í seinni hálfleik, vonandi er mér fyrirgefið að hafa tjáð mig í hálfleik, en það þarf stundum að losa pirringinn og segja hlutina eins og þeir eru. En kudos á liðið að mæta í seinna með ákveðni og vinnusemi og sækja sigur, það er merki góðra liða. En við þurfum að sjá svona allan leikinn, gengur ekki til lengdar að vinna alltaf upp mun. Tek seinni hálfleik seinna í kvöld því mér fannst það við hæfi að sleppa honum úr því sem komið var :)
Annars bara jolly.
GGMU
Helgi P says
Solskjær hefur fleiri líf en köttur en vel gert að koma til baka 2 leiki í röð
Hjöri says
Hvað er Pogba að gera í þessu liði? Skora mark. Hvað er Solskjær að gera með þetta lið? Vinna leikinn. Vörnin út á þekju, engin sókn og ráðalaus miðja, er hægt að krefjast sigurs? Sigur vannst. Svona hljóða kommentarnir rétt eftir að seinnihálfleikur hófst. Afskaplega skemmtileg lesning eða hitt þó heldur. Leifum leikjum að klárast áður en menn fara að niðurlægja liðið og eða stjórann. Góðar stundir.
Scaltastic says
Sjónmengun í fyrri hálfleik. 100% á ábyrgð leikmanna, OGS stillti upp sóknarsinnuðu liði, miðað við komandi verkefni. Menn rifu sig allverulega í gang í seinni og Bruno stjórnaði umferðinni. Get ekki annað en verið himinlifandi með stöðu liðsins í deildinni :)
Ætla að leyfa mér að trítla um í undralandi Deano, vona innilega að Ole hoppi á vagninn á þriðjudaginn. De Gea í evrópukeppnum er fullreynt imo. Önnur tilraun sem er kominn tími til að líði undir lok er að þróa Greenwood sem kantara, hæfileikar hans nýtast best sem striker.
Ps. Fátt sem kætir mig meira en Mata konfekt.
TonyD says
Flottur karakter að koma tilbaka og klára leikinn. Ole gerði þær breytingar sem til þurfti að klára leikinn í hálfleik og flott að sjá hann þora að taka tvöfalda skiptingu í hálfleik. Allt annað að sjá liðið í seinni hálfleik en fyrir hlé var þetta varla boðlegt. Ole gerði sitt og skiptingarnar skiluðu sínu.
Með Greenwood, hann stóð sig frábærlega á köflum á kantinum á síðasta tímabili og á meðan við höfum bara Mata í afleisingu (Pellestri deða Diallo detta ekkert í byrjunarliðið á næstunni) verður hann þarna þó ég sé sammála að hann eigi heima sem senter. Þó er spurning hvernig honum gengur að halda boltanum uppi á topp. Rashford að eiga toppleik og sennilega besti leikur hans lengi, vonandi er hann kominn almennilega í gang. Pogba var alveg fínn í seinni hálfleik og vonandi gerist eitthvað meira hjá honum eftir þetta mark, allavega þannig að verðmiðinn fari nú að hækka aftur.
Fínn sigur og vonandi fara menn í naflaskoðun vegna þess hvernig menn koma inn í leikina en þetta álag á hópnum var alveg fáránlegt og menn sem koma inn í liðið verða að réttlæta veru sýna þar.
Björn Friðgeir says
Horfði á Match of the Day, þeir tóku Pogba fyrir og ég verð bara að segja að það sem hann var að gera var bara ansi smekklegt, ég tók ekki eftir því nógu vel í leiknum. En ef hann heldur því áfram verður þetta góður vetur fyrir hann.
Laddi says
Ömurlegir í fyrri, flottir í seinni. Skiptingarnar þrjár breyttu leiknum, er eiginlega á því að hlutirnir hafi fyrst byrjað að tikka eftir að Martial fór útaf, hann er farinn að verða hálfgerður dragbítur á liðið, sem er synd. Þessi leikur staðfestir líka að eitt stærsta vandamál United í dag er hversu ótrúlega mikilvægur Bruno er, það gerist bókstaflega ekkert nema hann sé inni á vellinum.
En það er rétt sem MOTD voru að segja, Pogba komst vel frá þessum leik enda að spila í sömu stöðu í dag og hann spilar fyrir franska landsliðið. Vonandi verður þetta til að kveikja á honum út tímabilið. Markið sem hann skoraði var líka sérlega snoturt. En í fyrri hálfleik var hann sá eini sem var eitthvað að reyna, gekk mun betur í seinni hálfleik með betri meðspilurum, rétt eins og í franska landsliðinu. Engar tilviljanir í þessu…
Þorsteinn says
Frábær sigur og geggjað að sjá Ole læra af reynslunni og fara í nauðsynlega tvöfalda skiptingu í hálfleik.