Rétt fyrir kvöldmat á eftir mætir United á London Stadium og tekst á við West Ham. Leikurinn við PSG á þriðjudaginn situr vonandi ekki um of í okkar mönnum, en við á Rauðu djöflunum höfum tekist á við hann bæði í podkasti vikunnar og í rýni Zunderman í gær.
Upphitunin er því í seinna lagi en það kemur ekki að sök. Uppsláttur dagins er auðvitað sá að United er nú að mæta fyrrum stjóra. Þetta er svolítið einkennilegt að vera alltaf að hitta fyrir fyrrverandi stjóra, nokkuð sem varla kom fyrir í um 20 ár, en svona hefur hringekjan verið á Old Trafford. David Moyes hefur verið að gera fína hluti hjá West Ham og liðið situr í fimmta sæti. En það er sýnir vel hversu óráðið er að vilja reka okkar ágæta Ole út frá frammistöðu, að United er aðeins stigi á eftir West Ham og með leik til góða. Ef þessi leikur, gegn Aston Villa ynnist á pappírnum í dag, þá er United í fjórða sæti, með lakari markatölu en Chelsea. Svo slæmt er það nú.
Ekki þar með sagt að United séu að spila eins og meistarar, fjarri því en það er kannske ekki ástæða til að ýta á hnappinn alveg eins og staðan er.
En áfram um West Ham
Liðið hefur, eins og United, tapað þremur leikjum í haust, gegn Newcastle, Arsenal og Liverpool en gert jafntefli við Spurs og Manchester City og hlýtur það að teljast þokkalega viðunandi og nægir sem fyrr segir í fimmta sætið. Síðast vann liðið Aston Villa 2-1 og þykir ekki slæmt.
Liðið hefur verið að spila 3-4-3 nema móti Villa núna síðast þegar Pablo Fornals datt til baka í holuna þegar Michail Antonio kom inn í liðið fyrir Sebastian Haller. Haller kom samt inná í hálfleik fyrir Antonio, sem var ekki í leikformi og meiddist aftur, og Haller breytti leiknum til hins betra fyrir West Ham. Haller verður því í byrjunarliði.
Annars hefur liðið verið mjög stöðugt og að mestu meiðslalaust. West Ham hefur náð forystu í síðustu fimm heimaleikjum, þannig það þyrfti ekki að koma á óvart, en á móti kemur að United hefur á sigurbraut sinni á útivöllum fjórum sinnum unnið eftir að hafa verið undir. Ekki láta því hugfallast þó West Ham skori á undan.
Manchester United
Liðið verður væntanlega einhvern veginn svona
Það kæmi samt engum á óvart ef Nemanja Matić eða Scott McTominay kæmu inn fyrir Donny, þó vissulega væru það vonbrigði. Frammistaða Anthony Martial á þriðjudaginn var ekki frábær en Marcus Rashford er tæpur þannig líklega byrjar Martial.
Edinson Cavani á auðvitað að byrja.
UPPFÆRT: Um leið og greinin fór í loftið komu fréttir um að Fred hefði orðið eftir í Manchester. Þannig það er í hæsta máta ólíklegt hann verði með og setjum bara Matić í staðinn.
Leikurinn hefst kl 17:30
Tóró says
Er ekki leikurinn sem við eigum inni gegn Burnley (frekar en Aston Villa)?
Egill says
3 stig og beint í 4. sætið (tímabundið), það er bara ekki í boði að tapa gegn David Moyes.
Björn Friðgeir says
Tóró: Ah jú, veit ekki af hverju ég var búinn að bíta hitt í mig, þess þá frekar að við tökum þessi stig.