Það var nú algjör óþarfi hjá ensku úrvalsdeildinni að nudda salti í sárin strax með því að setja Manchester United á fimmtudagsleik í deildinni, rétt rúmri viku eftir að liðið hrundi út úr Meistaradeildinni og staðfesti Evrópudeildarbolta eftir áramót. En þannig er það bara, við þurfum að horfa á okkar menn spila gegn botnliðinu Sheffield United á morgun, fimmtudaginn 17. desember, klukkan 20:00. Dómarinn í leiknum verður Michael Oliver en það sem skiptir okkur kannski meira máli er að Paul Tierney verður í VAR-herberginu.
Staðan í deildinni
Kosturinn við að liðið eigi síðasta leikinn í umferðinni er að við vitum betur hvar liðið stendur og getur mögulega staðið því öll hin liðin eru búin að spila. Chelsea byrjaði á að tapa leik gegn Wolves, Manchester City tapaði stigum gegn WBA og í kvöld mun í það minnsta annað af Liverpool og Tottenham tapa stigum. Það er því færi á að taka fínasta stökk í deildinni með því að vinna Sheffield United á Bramall Lane.
Manchester United á líka alltaf einn leik til góða á flest liðin fyrir ofan sig. En það hefur nú löngum reynst hættulegt að reikna of mikið með slíkum stigum. Betri eru stig á töflu en leikur til góða. Þetta gefur þó okkar mönnum tækifæri til að hysja upp um sig, fara að spila stærri hluta af deildarleikjum almennilega og sýna hvað í þá er spunnið.
Andstæðingurinn
Sheffield United kom gríðarlega á óvart á síðasta tímabili með skemmtilegri nálgun á fótbolta og náði árangri sem fáir bjuggust við. Liðið var með skýra taktík, leikmenn þekktu vel sín hlutverk og andstæðingarnir áttu oftar en ekki í erfiðleikum með að finna svör á leik þeirra. Hvort sem var sóknarlega eða varnarlega.
Lengi framan af var liðið í baráttu um að komast í einhverja Evrópukeppni, eyddi mestum tíma í 5.-7. sætinu. En liðið fór ekki eins vel út úr Covid-pásunni og áhorfendaleysinu og flest önnur toppliðin og seig að lokum niður í 9. sætið. En samt fjandi fínn árangur miðað við hvernig væntingarnar voru til liðsins fyrir tímabilið.
Það er þó alls ekki það sama uppi á teningnum núna hjá liðinu. Byrjunin hefur verið hreinasta hörmung og er liðið aðeins með 1 stig eftir 12 leiki. Þetta eina stig kom í jafntefli við Fulham í október. Sheffield United hefur aðeins skorað 5 mörk í deildinni. 2 þeirra úr vítum, 2 eftir horn og aðeins eitt einasta mark úr opnu spili. Í 1.080 mínútum af fótbolta.
Það þarf að fara ansi langt aftur í tímann til að finna lið sem er sambærilegt í árangri eftir 12 umferðir. Þá voru það okkar menn í Manchester United sem voru gjörsamlega stiga- og vonlausir eftir 12 umferðir. Þá kom reyndar sigur í 13. leiknum, gegn Birmingham. En United endaði þó tímabilið í langneðsta sæti, féll í 2. deildina og var korteri frá því að fara á hausinn um jólin 1931.
En við vonum nú að Sheffield United endurtaki hvorki þann leik að vinna sinn þrettánda leik né fara næstum því á hausinn.
Miðvörðurinn Jack O’Connell er frá vegna meiðsla og sóknarmaðurinn Oli McBurnie er tæpur.
Búist er við að Sheffield United stilli upp í hefðbundna 3-5-2 kerfið sitt, einhvern veginn svona:
Okkar menn
Eftir hörmungarferð til Þýskalands og bragðdauft jafntefli gegn Manchester City er alveg kominn tími á eina toppframmistöðu með líflegri spilamennsku og afgerandi sigri.
Þessi lið mættust á Bramall Lane í lok nóvember í fyrra í líflegum leik. Eftir að John Fleck og Lys Mousset höfðu komið heimamönnum í 2-0 náðu Brandon Williams, Mason Greenwood og Marcus Rashford OBE að koma Manchester United í 2-3 á 7 mínútna kafla. Okkar menn náðu þó ekki að halda það út því Oli McBurnie jafnaði fyrir Sheffield United á 90. mínútu.
Seinni leikurinn var á áhorfendalausum Old Trafford í júní og þá lentu okkar menn ekki í neinum vandræðum. Anthony Martial var með skotskóna með sér og skoraði þrennu í leiknum, sem endaði 3-0. Það væri vel þegið að fá Frakkann aftur í gang í deildinni svo hann má alveg muna eftir skotskónum.
Edinson Cavani er tæpur fyrir okkar menn og svo komu þær slæmu fréttir að Marcos Rojo er meiddur út mánuðinn. Ekki að það breyti svosem miklu með Rojo en Cavani hefur sannarlega sýnt að það er gott að hafa hann í hópnum eða liðinu.
Dean Henderson var algjörlega stórkostlegur með Sheffield United á síðasta tímabili og átti stóran þátt í þeirra árangri það tímabilið. Hann ákvað að taka ekki annað tímabil á láni heldur berjast fyrir því að komast inn í liðið hjá Manchester United. Hann er toppmarkmaður og virðist hafa mjög góðan karakter. Hann á því svo sannarlega skilið að fá alvöru tækifæri til að eigna sér markmannsstöðuna hjá Manchester United. Það er líka ekki eins og David de Gea hafi verið í sínu besta formi að undanförnu.
Svo hvenær fær Deano tækifærið? Verður hann að gera sér að góðu Evrópudeild og bikar eða fær hann einhvern séns í þessari jólatörn sem er að fara í gang núna? Það verður fróðlegt að sjá.
Hér er allavega ein hugmynd að mögulegu byrjunarliði gegn Sheffield United:
Ókei, kannski smávegis draumórar í gangi en það eru nú að koma jól. Það er tíminn fyrir draumóra og kraftaverk.
Björn Friðgeir says
Nú er augljóst að eins og gengið hefur verið á liðinu verður erfitt að ná tveimur sigrum í röð.
Ég ætla því ekki að kippa mér upp við tap í kvöld, enda þýðir það þá sigur á Leeds á sunnudaginn sem er margfalt betri niðurstaða en ef úrslitin víxluðust
Sveinbjörn says
Við tökum báða leikina og verðum komnir í top 4 með leik til góða eftir helgina. Vona að Henderson verði í markinu á eftir og í raun taki aðalmarkmannsstöðuna af De Gea fljótlega
Scaltastic says
Ef að Ole stillir upp þessari miðju þá legg ég til að greinarhöfundur verði sæmdur stórriddarakross. Spái að hið dæmigerða Fred + Matic tvennutilboðið verði á borðstólum í kvöld.