Gagnrýnin á Ole Gunnar Solskjær hefur verið óvægin frá því að Norðmaðurinn geðþekki tók endanlega við starfinu sem knattspyrnustjóri Manchester United í mars 2019. Nú er það engu að síður svo að hann getur komið liðinu á topp deildarinnar ef United tekst að sigra Burnley á Turf Moor á morgun – kl. 20:15.
Undirritaður hreinlega man ekki hvenær Manchester United vermdi toppsætið síðast þegar svona langt er liðið á tímabilið og þó er það ekki einu sinni hálfnað! Líklega var það kveðjutímabil Sir Alex Ferguson þegar við unnum deildina með yfirburðum og Robin van Persie gladdi hjörtu okkar vikulega. Nú er öldin önnur, en vonandi mjökumst við þó nær því að geta keppt um deildartitilinn.
Leikurinn átti upprunalega að vera liður í fyrstu umferð Úrvalsdeildarinnar en þar sem að United komst langt í Evrópudeildinni þá lengdist sumarfríið um viku, leiknum var frestað og því byrjuðum við með glans og töpuðum heima fyrir Crystal Palace í staðinn.
Það má búast við baráttuleik gegn öflugu Burnley liði, sem að hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum undir stjórn Sean Dyche. Þeir hafa skorað 9 mörk og fengið á sig 20, en liðið byrjaði tímabilið afleitlega og vann ekki leik fyrr en í 8. umferð mótsins. Þá höfðu þeir tapað fimm leikjum og gert tvö jafntefli. Síðan þá hefur Dyche rétt úr kútnum en liðið situr nú í 16. sæti deildarinnar með 16 stig.
Þrátt fyrir að Manchester United hafi talsverða yfirburði í innbyrðisviðureignum þessara liða þá voru það Burnley sem unnu sannfærandi 0-2 sigur á Old Trafford í janúar 2020. Þá voru aðdáendur United, aðdáendur annarra liða og fjölmiðlar með klærnar úti og töluðu um að dagar Ole Gunnar Solskjær væru taldir. Liðið spilaði hugmyndasnauðan fótbolta og andinn í liðinu virtist lítill. Hann keypti þá afskaplega geðþekkan Portúgala frá Sporting Lisbon sem átti risastóran þátt í að snúa gengi liðsins við og hefur ekki slegið slöku við á þessu tímabili. Gengi liðsins á útivelli er ástæða til bjartsýni en United hefur ekki tapað útileik í deildinni á þessu tímabili. Meira af því sama, takk!
Solskjær hvíldi eftir fremsta megni í bikarleiknum gegn Watford en þó var það nú svo að greyið Eric Bailly þurfti að fara af velli í hálfleik og kom því fyrirliðinn Harry Maguire inná og spilaði 45 mínútur. Sömuleiðis spilaði Marcus Rashford, en hann kom inná á 68. mínútu fyrir Anthony Martial. Donny van de Beek spilaði vel og Paul Pogba er ólíklega með, svo að við gætum fengið að sjá Hollendinginn byrja tvo leiki í röð. Það sem gladdi mig mest var að sjá Bruno Fernandes sitja á tréverkinu allan leikinn. Tímabilið hreinlega stendur og fellur með honum. Það er þó öruggt að hann byrjar þennan leik.
Aðrir leikmenn sem að Solskjær sagði tæpa gegn Burnley voru Luke Shaw og Victor Lindelöf. Þar er þó ekkert greypt í stein og báðir gætu spilað. Við gætum líka loksins fengið að sjá Edinson Cavani aftur! Hann hefur afplánað þetta bjánalega bann sitt sem FA tókst að sjálfsögðu að klína á Manchester United. Áfram gakk og allt það …
Það kæmi mér á óvart ef að Solskjær reyndi að hvíla um of fyrir leikinn gegn Liverpool þann 17. janúar. Hann mun reyna að ná þessu 3 stiga forskoti á Englandsmeistarana fyrir ferðina í Bítlaborgina. Ég spái því að hann reyni að stilla upp eins sterku liði og völ er á.
Líklegt byrjunarlið Manchester United:
Valdi says
Ég vil einmitt sjá Cavani spila núna nokkra leiki, hann mun koma dýrvitlaus eftir allt þetta vesen