Það er skammt stórra högga á milli um þessar mundir og eftir flottan bikarsigur á Liverpool bíður okkar heimsókn frá botnliði Sheffield United. Leikurinn fer fram miðvikudaginn 27. janúar – kl. 20:15.
Gestirnir hafa átt afleitu gengi að fagna í deildinni og sitja sem fastast í neðsta sæti með 5 stig – sex stigum á eftir West Bromwich Albion og hafa skorað heil 10 mörk en fengið á sig 32. Þeir hafa nælt í einn sigur, gert tvö jafntefli og tapað 16 leikjum. Auðveldur leikur framundan fyrir toppliðið, ekki satt?
Það var þó ekki svo að okkar menn skyldu valta yfir Sheffield liðið í fyrri leik þessara liða, á Bramall Lane. Þvert á móti vorum við með hjartað í buxunum fram á síðustu sekúndu. Eftir að David McGoldrick hafði komið Sheffield yfir á 5. mínútu náði United að snúa taflinu við með mörkum frá Marcus Rashford (2) og Anthony Martial, en McGoldrick minnkaði svo muninn þremur mínútum fyrir leikslok og heimamenn komust hættulega nálægt því að jafna leikinn. Okkar menn héldu þó út og unnu 2-3 sigur.
Liðsfréttir
Jesse Lingard og Marcos Rojo eru þrálátlega orðaðir við brottför frá klúbbnum um þessar mundir. David Moyes er sagður hafa áhuga á því að fá Lingard á láni til West Ham og samkvæmt pressunni er Rojo á leið heim til Argentínu – til Boca Juniors. Báðir hafa brýna þörf fyrir nýtt upphaf en Rojo hefur aldrei átt upp á pallborðið hjá Ole og Lingard hefur spilað þrjá leiki á tímabilinu, ekki einn af þeim í deildinni. Ólíklegt þykir að United bæti við sig í janúarglugganum en tæknilega séð fengum við þó einn leikmann í Amad Diallo, þó að gengið hafi verið frá formsatriðum í október. Vonandi skýrist þetta allt saman fyrir lok félagsskiptagluggans.
Ole Gunnar Solskjær stillti upp sterku liði gegn Liverpool en tókst þó að hvíla Bruno Fernandes, eða eins mikið og hægt er að hvíla þann leikmann. Það hefði verið notalegt að fá lúðrasveit Lögreglunnar í Peterborough í næstu umferð bikarsins, en ætli Bruno þurfi ekki að koma við sögu gegn flottu West Ham liði í 5. umferð! Það verður að koma í ljós hvort að Marcus Rashford verði klár í slaginn en hann kenndi sér meins í hnénu og fór af velli gegn Liverpool. Solskjær gat ekki staðfest hvort að hann yrði klár fyrir miðvikudaginn.
Eric Bailly er til taks og það kæmi mér ekki á óvart ef að hann fengi byrjunarliðssæti við hlið Harry Maguire, sem fæddist í Sheffield og hóf feril sinn með Sheffield United. Victor Lindelöf kom þó vel inn í liðið aftur í fjarveru Bailly og það er glimrandi gott að sjá samkeppni myndast um það hver er valmöguleiki númer eitt sem félagi Maguire í hjarta varnarinnar. Brandon Williams er á meiðslalistanum, ásamt áskrifendunum Marcos Rojo og Phil Jones.
Það er augljóst að Manchester United verður miklu meira með boltann í þessum leik og verkefnið verður að brjóta Sheffield United niður. Það kæmi mér ekki á óvart ef að Nemanja Matic fengi kallið fram yfir Fred og Scott McTominay á miðjunni. Serbinn er góður í að tengja spil milli varnar og miðju og gefur Pogba aukið frelsi til að bomba fram. Að öðru leyti hef ég trú á því að liðið velji sig nokkurnveginn sjálft, sérstaklega ef að Marcus Rashford verður ekki leikfær. Alex Telles gæti sömuleiðis fengið sénsinn fram yfir Luke Shaw, sem hefur verið jafnbesti leikmaður liðsins í undanförnum leikjum.
Líkleg byrjunarlið:
Manchester United:
Sheffield United:
Það væri ofboðslega notalegt að setja nokkur mörk og bjóða til veislu en ég tek þrjú stig, sama hvernig þau fást! Ég spái 4-0 sigri þar sem að Edinson Cavani og Bruno Fernandes skipta með sér mörkunum. Hvernig viljið þið sjá liðið? Hvernig fer leikurinn?
Áfram Manchester United!
Valdi says
Það sem ég vil fá úr þessum leik er hreint lak og mörk. Verðum að fara bæta markatöluna.
Þetta Sheffield lið er líka alveg glatað fram á við og er í raun furðulegt að þeir hafi skorað 20% marka sinna á móti okkur haha.