Manchester United bauð upp á sannkallaða hörmung á Old Trafford í kvöld, þegar liðið laut í lægra haldi fyrir botnliði Sheffield United. Straumarnir sem undirritaður fékk í upphafi leiks voru af neikvæða taginu þar sem að það virtist sem United liðið hélt að hlutirnir myndu koma af sjálfu sér og að gestirnir myndu bara leggjast niður og deyja. Sú varð sannarlega ekki raunin.
Svona stilltu liðin upp:
Manchester United:
Sheffield United:
Fyrri hálfleikur
Gestirnir voru afar skipulagðir í sínum leik og gáfu okkar mönnum eftir miðsvæðið en skildu ekki eftir svo mikið sem sentímeter af svæði fyrir aftan lága fimm manna varnarlínuna. Allan leikinn reyndu heimamenn að finna glufur en svörin voru fá. Marcus Rashford fékk ágætis skotfæri á 11. mínútu leiksins eftir sókn sem reyndist sennilega vera besta leikflétta United í leiknum. Skotið fór framhjá markinu en mögulega blikur á lofti um að liðið væri að vakna til lífsins. Aldeilis ekki!
Varnarbjöllur fóru að hringja á 17. mínútu þegar að Billy Sharp slapp í gegn en hafði hvorki hraða né gæði til að klára færið með Alex Telles á hælunum og David de Gea varði með löppunum. Nokkrum mínútum seinna voru gestirnir í draumalandi þegar að John Fleck setti hornspyrnu inn í markteiginn og þar reis Kean Bryan hæst og skallaði boltann framhjá David de Gea. Billy Sharp virtist stugga við de Gea en ég verð sömuleiðis að setja spurningamerki við styrk markmannsins. Þetta var vatn á myllu Sheffield sem að vörðust afar vel út fyrri hálfleikinn.
Á 29. mínútu hélt Anthony Martial í eitt augnablik að hann hefði jafnað leikinn þegar hann renndi boltanum í opið markið eftir að Harry Maguire og Aaron Ramsdale höfðu hoppað saman upp í skallaeinvígi og hafði miðvörðurinn betur gegn markmanninum. Peter Bankes hafði þó aðrar hugmyndir og dæmdi brot á Maguire og VAR var sammála dómara leiksins. Ef ekki var dæmt á Sharp þá er eiginlega með öllu óskiljanlegt að hann dæmi á Maguire. Engin lína. Dómari leiksins var tæplega ástæða þess að Manchester United tapaði þessum leik en hinn ungi Bankes fær ekki háa einkunn fyrir frammistöðu sína. United skapaði sér varla hálffæri það sem eftir lifði hálfleiks og flestir aðdáendur sennilega fegnir að fá 15 mínútur til þess að gera eitthvað annað en að horfa á þetta.
Seinni hálfleikur
Mason Greenwood fékk besta færi United í leiknum á 49. mínútu þegar að Bruno Fernandes átti flotta stungusendingu inn fyrir á hann en skot hans var afleitt og fór þvert fyrir markið og framhjá. Þá hugsaði maður með sér að þetta yrði sennilega eitt af þessum kvöldum. Það gerðist afar fátt í kjölfar þessa atviks og það var ekki fyrr en á 62. mínútu að United fékk hornspyrnu. Hana tók Alex Telles og fann risastóran hausinn á Harry Maguire sem stangaði boltann í fjærhornið. Glæsilegt mark og nú var bara að láta kné fylgja kviði…
Oliver Burke kom inná á 70. mínútu og fjórum mínútum síðar hafði hann skorað. Hann fékk þá boltann utarlega í vítateig Manchester United og skaut lausu skoti sem hafði viðkomu í Axel Tuanzebe og þaðan í slá og inn. Aðdragandi marksins var í besta falli kómískur þar sem að okkar menn fengu u.þ.b. hundrað tækfæri til þess að koma tuðrunni í burtu. Í staðinn stóðu allir eins og styttur, samskiptin voru engin og liðið var ekki nálægt því að hreinsa né vinna seinni bolta. Því fór sem fór og Skotinn eldfljóti skoraði ljótasta mark tímabilsins.
Það er ekki hægt að tala um að Man Utd hafi hent eldhúsvaskinum í Sheffield United í kjölfar þess að lenda 1-2 undir. Þeir voru óákveðnir, daufir og algjörlega hugmyndasnauðir gegn lágri blokk gestanna sem barðist um hvern einasta bolta og átti svör við öllu því sem að heimamenn reyndu. Alex Telles átti skottilraun fyrir utan teig sem hafði viðkomu í varnarmann og Ramsdale þurfti að blaka yfir en það var ekki mikið meira sem skeði. Úrslitin voru ráðin og okkar menn máttu sætta sig við vandræðalegt tap á heimavelli gegn liði sem hafði aflað sér fimm stiga fyrir leikinn. 1-2 tap staðreynd.
Pælingar
Donny van de Beek og Luke Shaw komu inná til að reyna að gæða leikinn lífi en allt kom fyrir ekki. Hollendingurinn kom nokkuð frískur inn en hann mun aldrei hafa sömu áhrif og Bruno Fernandes eða Paul Pogba. Hann getur látið aðra tikka en hann grípur ekki leikinn hnakkataki og býr eitthvað til uppúr engu. Ef frá er talinn Edinson Cavani, sem var haldið niðri í kvöld, að þá er úrvalið af bekknum ekkert til að hrópa húrra fyrir.
Þetta er ferlið sem bíður Solskjær og stuðningsmanna Manchester United. Við þurfum breidd og enn meiri gæði í sterkasta byrjunarliðinu ef það á að gera alvarlega atlögu að titlum. Ég efast ekki um að Norðmaðurinn okkar er á réttri leið ef að hann fær stjórnina á bakvið sig á leikmannamarkaðnum. Liðið hefur stigið nokkur skref fram en þessi leikur sýndi svart á hvítu hversu viðkvæmir við erum þegar að við mætum liði sem verst eins og líf og limir liggja við. Þá vantar á stundum svör og við getum ekki búist við stórkostlegu langskoti eða aukaspyrnu frá Paul Pogba/Bruno Fernandes í hverjum einasta leik.
Það er ósanngjarnt að taka menn út fyrir sviga eftir svona frammistöðu þar sem að það var hörmuleg liðsframmistaða sem varð til þess að liðið tapaði. En ég get ekki verið einn um að spyrja mig hversu mörg tækifæri Anthony Martial fær í viðbót. Tölfræðin er sannarlega ekki með honum og viðhorf og líkamstjáning innan vallar er lítið að hjálpa. Það verður að setja spurningamerki við það hvort United geti komist aftur á toppinn með Martial sem byrjunarliðsmann.
Næsti leikur er gegn Arsenal liði sem er á uppleið og því vissara að vera með toppstykkið í lagi þegar að liðið mætir á Emirates. Vonandi mæta þeir talsvert peppaðari í það verkefni.
Áfram Manchester United!
Karl Garðars says
Einn af þessum dögum. Harry má ekki hoppa upp við Ramsdale en Sharp má ryðja De Gea frá🧐
Var þetta ekki nokkurn veginn alveg jafn rétt eða rangt?
Mér er alls ekki illa við Matic eða Martial en mér finnst að Fred/Scott og Cavani mættu fara að hita upp.
gummi says
Þetta lítur ekki vel
Scaltastic says
Bæði atvikin klár aukaspyrna að mínu mati. Þeim mun ófyrirgefanlegra að De Gea hafi varla lyft litla fingri við að atvikið hafi ekki verið skoðað, mætti ætla það eftir áratug í deildinni að maðurinn kynni að ljá mál sitt við dómarastéttina.
Matic og Tuanzebe… útaf með þá báða asap og vinnum þennan effin leik, engar afsakanir.
Karl Garðars says
Heyrðu heyrðu!!!! Hann hitti!!!!!!!!
Turninn Pallister says
Sterkt að sjá fyrirliðann stíga upp einmitt þegar á þurfti að halda. Nú verða hinir bara að fylgja leadinu!
Turninn Pallister says
Guð minn góður þessi varnarleikur…
Scaltastic says
Neyðarlegt
Karl Garðars says
Þvílík ömurð að horfa á.
Korter eftir. Mörk frá cavani og bruno takk.
Golli Giss says
Þvílíkt vanmat, nú sést gæðaleysið í liðinu vel. Eigum því miður engan séns í City. Einbeita sér að halda 4 sætinu
Þorsteinn says
Þetta er algjört fokking djók, þetta Sheffield lið á að vera í þriðju deild – maður bara skilur ekki hvernig svona er hægt – 10 mín til að bjarga þessu.
Helgi P says
Þetta skrifast á Solskjær búið að vera mikið álag og hann er búinn að nota hópinn of lítið
Scaltastic says
Burt sé frá því að það bullsjóði á mér þá mun ég standa við þá skoðun að ég mun eigi gráta það ef #9 leiðir framlínu liðsins aldrei framar.
Tómas says
Skrifa þetta mun frekar á leikmennina en Solskjaer, þó að hann verði að taka ábyrgð. Þeir sem áttu að koma ferskir inn spiluðu illa sbr Telles, Tuanzebe, Martial, Matic.
Síðan verður að hrósa Sheffield, þvílík barátta.
Fratstigið fá dómararnir fyrir að leyfa fyrsta mark Sheffield og dæma msrk Martial af.
Egill says
2-1 tap á heimavelli gegn lélegsasta liði í sögu EPL. Sheffield hefur núna tvisvar sinnum skorað tvö mörk í leik á þessu tímabili, og hvaða trúðavörn hafi verið í hinum leiknum? Jú Man Utd vörnin. Þessi vörn er búin að vera til skammar svo oft á þessu tímabili að það hlýtur að vera forgangsatriði að hreinsa hana upp í sumar.
Allir fjórir og markmaðurinn eru til skammar, það var vissulega brotið á De Gea í fyrra markinu en það er orðið þreytt að hann sé aumari en Daniel James í loftinu, þetta er ekki boðlegt. Tuanzebe gerði sig svo að fífli í þessum leik, latur og átti þátt í báðum mörkunum.
Eins mikið og ég dýrka De Gea þá hélt maður að hann myndi bæta sig í teignum, en hann er jafn lélegur í því og þegar hann kom fyrst.
Það er svo gjörsamlega óskiljanlegt að Martial skuli fá að spila þessa dagana, hversu lélegur þarf einn leikmaður að vera til að vera settur í frystinn? Reyndar má segja það sama um Rashford sem hefur varla átt góðan leik á þessu tímabili. Að taka Greenwood útaf, mann sem getur allavega skorað ef hann fær færi, en láta Martial spila áfram til þess eins að færa Rashford á hægri kanntinn er óskiljanlegt, ég man ekki eftir einum góðum leik hjá Rashford á hægri kannti.
Ole og draumavörnin hans á þennan leik skuldlaust, þetta er ekki boðlegt og er akkúrat ástæðan fyrir því að ég hef ekki trú á að Ole sé rétti maðurinn í þetta starf. Við gátum ekkert í 90 mínútur og hann gerði ekkert til að laga hlutina.
Loksins þegar Maguire skallar boltann án þess að loka augunum tekur hann þátt í trúðasýningu nokkrum mínútum síðar. Ég man ekki eftir annarri eins varnarsýningu, það var bara vont að horfa á þetta. Fyrst Telles, svo Maguire, De Gea og áhorfandinn hann Tunazebe.
Ég get ekki þetta lið.
birgir says
ekki alltaf hægt að treysta á víti og VARið
gummi says
Solskjær er alltof þrjóskur þegar kemur að skiftingum hvað var Martial gera inná vellinum búinn að vera ömurlegur allt seasonið
SHS says
Gott að vita að þið neikvæðnisseggirnir eruð ennþá á lífi, var orðið ansi langt síðan maður heyrði frá ykkur. Áfram Ole.
Steve Bruce says
Svona úrslit hafa legið í loftinu nokkuð lengi, enda þótt ég myndi persónulega aldrei halda að þau kæmu á heimavelli á móti Sheffield United.
Við vorum arfaslakir gegn Wolves, unnum á flautumarki í restina. Við mörðum Aston Villa og Burnley þannig að enginn afgangur var af. Við spiluðum göngubolta löngum stundum gegn Fulham og nákvæmlega ekkert í spilunum að liðið væri að fara að skora þegar að Paul Pogba smellti í stórglæsilegt mark.
Ef við hugsum 10-20 leiki aftur í tímann, hvað eru margir leikir þar sem United hefur unnið það sem mætti kalla „öruggan“ sigur? Ég man eftir einum leik, gegn Leeds.
Í hálfleik í gær kom upp sú hugsun að kenna mönnum eins og Matic, Telles og Tuanzebe um þetta sem fengu tækifæri í byrjunarliðinu en voru ekki að standa sig vel. Vörnin var náttúrulega djók og þetta seinna mark var svo slakt að hálfu Man.Utd að orð fá því ekki lýst.
Þrátt fyrir allt var hefði þó verkefnið leyst með því að skora þrisvar framhjá slöku varnarliði SU. Sóknin var hinsvegar hreint út sagt skelfileg og liðið í raun aldrei líklegt til að skapa eitt né neitt. Ég auglýsi eftir Anthony Martial frá tímabilinu 2019-2020. Hann er týndur og hefur ekkert til hans spurst. Keilan sem er inn á í staðinn fyrir hann gefur frá sér boltann en ekkert meira. Rashford hefur líka verið síðri en í fyrra en þó mun skárri en Tony. Greenwood skoraði 17 mörk í fyrra, bara kominn með 3 mörk núna.
Þetta hlýtur að koma mönnum aðeins niður á jörðina. Enda þótt stigasöfnun hafi gengið lygilega vel þá er ofboðslega langt í land og leikurinn í gær gæti ekki gefið betra dæmi um einmitt það.
Sveinbjörn says
Missti af fyrri hálfleik, líklega ágætt. Miðað við þann seinni þá fengum við það sem við áttum skilið úr þessum leik, 0 stig. Fannst Martial áberandi lélegur. Er ósammála fyrri ræðumönnum hér um að hér hafi endurspeglast gæðaleysi liðsins. Þetta var eitt kvöld þar sem allir spiluðu undir getu. Við erum ennþá í toppbaráttu og með sigri á Arsenal um næstu helgi höldum við okkur þar.
Hef ekkert fylgst með Sheffield í vetur, en miðað við þessa spilamennsku hjá þeim finnst mér ótrúlegt að þeir séu á botninum. Lögðu leikinn vel upp og börðumst um alla bolta. Frábærir.
Óháð þessum úrslitum þá hefur þessi janúar verið frábær. Ekki á hverju ári sem við United menn fáum að vera á toppnum þessi misserin!
Audunn says
Maður beið eftir þessari skitu, liðið getur ekki alltaf mætt í leiki eftir leiki og hefja ekki leik fyrr en þeir lenda undir.
Ótrúlegt að menn skuli aldrei læra, væri ekki ráð að fara í einn leik með því hugarfari að ætla að vera þéttir fyrir og gefa ekki færi á sér þegar vörnin er búin að vera eins og gatasigti undanfarna mánuði?
Þetta er barnaleg og léleg stjórnun hjá Ola, þetta tap skrifast alfarið á hann.
Svo eru það menn eins og Martial, Matic og Rashford sem eru bara ekki með í svona leikjum.
Löngu kominn tími á Matic, hann á ekki að spila nema í algjörri neyð.
Martial getur bara ekki neitt, hann er gjörsamlega vonlaus leikmaður og ætti heldur aldrei að spila nema í neyð.
Rashford stefnir í að verða næsti Lingard, hann er svo mistækur að það er bara ekki hægt.
Ég hef aldrei verið sannfærður um að hann sé eða verði einhver heimsklassa leikmaður því hann hefur ekki stöðuleikann í það eins og er.
Stundum er bara eins og hausinn á honum fylgi ekki með.
Þessi mörk sem liðið er að svo að fá á sig er eins og maður sér í utandeildinni, algjörlega glórulaus varnarleikur aftur og aftur.
Jú jú kannski var brotið á De Gea en það er enginn afsökun, afskaplega léleg afsökun að ætla að kenna dómaranum um. United mættu bara ekki til leiks í þennan leik, voru bara lélegir og það var bara þeim að kenna.
Ole valdi rangt lið, alltof mikið af breytingjum á milli leikja og ég gat ekki séð hvað það var sem leikmenn United áttu að gera í þessum leik, sá enga taktík.