Manchester United og Everton gerðu jafntefli í sex marka leik á Old Trafford nú rétt í þessu. Úrslitin eru ofboðslega svekkjandi í ljósi þess að leikmenn United voru sínir verstu óvinir í leiknum, þar sem að dauðafæri fóru forgörðum og ólýsanlega lélegur varnarleikur leit dagsins ljós.
Fyrir leik lögðu fyrirliðar liðanna, Harry Maguire og Lucas Digne, kransa til að minnast þeirra sem glötuðu lífinu í München flugslysinu þann 6. febrúar 1958. Fyrr um daginn var haldin minningarathöfn og þar hafði Ole Gunnar Solskjær lagt svipaðan blómakrans fyrir framan Old Trafford, í grenjandi rigningu í Manchester. Mínútuþögn var svo fyrir upphafsflautið.
Svona stilltu liðin upp:
Manchester United:
Everton:
Fyrri hálfleikur
Leikurinn fór varlega af stað og liðunum gekk illa að halda í boltann en Everton áttu þó í minni vandræðum með það. United liðið spilaði hægt og færði boltann ekki nægilega hratt á milli kanta, því var auðvelt fyrir Everton liðið að halda skipulagi og spila leikinn eins þröngt og hægt var. Gestirnir voru aðeins frekari, unnu seinni boltana og Bruno Fernandes átti erfitt með að finna svæði milli miðju og varnar Everton. Paul Pogba átti þokkalegan skalla í átt að marki eftir hornspyrnu en því miður kom ekkert úr því.
Það hefði ekki alvöru færi litið dagsins ljós stuttu áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður og undirritaður var nálægt því að sækja sér sæng og kodda. Þá tóku United völdin og náðu að festa Everton neðarlega á vellinum. Mason Greenwood átti glæsilegan sprett þar sem að hann fór auðveldlega framhjá Lucas Digne og sólaði síðan Andre Gomes uppúr skónum inní vítateig Everton, en skotið var því miður ekki nægilega gott og fór víðsfjarri markinu. Það var svo á 24. mínútu sem að Bruno Fernandes lagði boltann út á Marcus úti á hægri kantinum. Rashford lagði boltann fyrir sig og setti frábæran bolta á fjær. Þar mætti Edinson Cavani og skallaði boltann af yfirvegun í markið. Virkilega vel að verki staðið hjá El Matador og Rashford!
Næstu mínútur voru ekki mjög viðburðamiklar en United voru þó miklu meira með boltann og teygðu vel á Everton. Gestirnir spiluðu tígulmiðju og þegar United náði tökum á því þá var yfirleitt nóg af svæði fyrir Luke Shaw og Aaron Wan-Bissaka. Edinson Cavani komst í ágætis færi 34. mínútu en skaut eiginlega í sjálfan sig og því kom ekkert úr því. Stuttu síðar féll boltinn fyrir fætur Bruno Fernandes stuttu fyrir utan teig en skot hans var slakt og Michael Keane blokkaði það auðveldlega. Nokkrum mínútum fyrir hálfleiksflautið kenndi Paul Pogba sér meins framan á lærinu og Brasilíumaðurinn brosmildi, Fred, kom inná fyrir hann. Ákaflega svekkjandi fyrir Frakkann sem hefur spilað vel nýlega og var kosinn leikmaður mánaðarins á vefsíðu félagsins fyrir frammistöðu sína í janúar.
Victor Lindelöf lenti í örlitlum vandræðum á 41. mínútu þegar að Lucas Digne pressaði hann stíft ofarlega á vallarhelmingi United. Lindelöf reyndi að þruma boltanum í burtu en boltinn fór af Digne til Richarlison sem var nálægt því að stýra tilraun sinni á markið en David de Gea fylgdi boltanum framhjá markinu. Stuttu síðar gerði Marcus Rashford vel fyrir framan teig Everton áður en hann renndi boltanum til Fred. Brassinn er ekki jafnvígur eins og Greenwood og hægri fótar skot hans var laflaust og langt framhjá.
United virtist svo ætla að halda boltanum bara í rólegheitunum fram að hálfleiksflautinu. Töframaðurinn Bruno Fernandes hélt nú ekki. Á 45. mínútu lét hann boltann rúlla framhjá sér út á hægri kantinn þar sem að Aaron Wan-Bissaka tók við. Wan-Bissaka setti hann aftur á Bruno sem að stóð stuttu fyrir utan teig, hann var ekkert að tvínóna við hlutina heldur lagði boltann fyrir sig og þrumaði honum yfir Robin Olsen í markinu og í bláhornið fjær. Stórkostlegt mark. Svo fagnaði Portúgalinn að hætta Cantona. Ofmetinn? Ekki að ræða það!
Andartökum fyrir hálfleiksflautið fékk Dominic Calvert-Lewin svo eina færi Everton í fyrri hálfleik þegar hann slapp einn í gegn en skot hans fór naumlega framhjá markinu. VAR hefði sennilega fundið leið til þess að dæma markið af en af þessari einu endursýningu sem ég sá virtist Englendingurinn var réttstæður. Jon Moss blés svo í flautuna og United með sterka 2-0 forystu þegar gengið var til búningsherbergja. Hæg byrjun en eftir að United liðið náði áttum þá voru þeir miklu betri.
Seinni hálfleikur
Okkar menn mættu grimmir til leiks og Luke Shaw átti flottan sprett upp vinstri kantinn, tengdi vel við Cavani og átti fast skot að marki Everton sem að Olsen varði til hliðar. Stuttu seinna mátti David de Gea týna boltann úr netinu þegar að Dominic Calvert-Lewin komst aftur fyrir Harry Maguire. Hann átti lausa fyrirgjöf sem að de Gea sló beint til Abdoulaye Doucoure. Miðjumaðurinn náði að pota boltanum yfir línuna og staðan orðin 1-2 og 50 mínútur eftir. Það sást hversu slegnir United menn voru við það að fá markið í andlitið og örfáum mínútum seinna hafði James Rodriguez jafnað leikinn. Gjörsamlega afleitur varnarleikur þegar að James fékk boltann út í teiginn og negldi boltanum framhjá David de Gea. Það er ekki orðum ofaukið að tala um að United hafi verið sjálfum sér verstir á þessum hörmulega kafla.
Eftir þetta reiðarslag róaðist leikurinn og United reyndi að finna glufur á Everton liðinu. Leikurinn kominn í algjört jafnvægi eftir að heimamenn höfðu komið sér í frábæra stöðu í lok fyrri hálfleiks. Leikmenn Everton virtust fullkomlega sáttir við að hægja aftur á tempóinu í leiknum og freista þess að sækja hratt þegar að færi gafst. Á 63. mínútu spiluðu United sig vel í gegnum vörn gestanna og Marcus Rashford komst einn í gegn. Hann virtist oviss um hvernig hann ætti að klára færið, það nýtti Robin Olsen sér og át Rashford gjörsamlega.
Á 70. mínútu vann Luke Shaw aukaspyrnu úti á vinstri kantinum, nokkuð langt fyrir utan vítateig Everton. Shaw ákvað að taka aukaspyrnuna sjálfur og það var eins gott því að hann fann hausinn á Scott McTominay sem skallaði boltann í fjærhornið! Það verður að setja spurningamerki við markmanninn Robin Olsen en inn fór boltinn. 3-2 fyrir United, 20 mínútur eftir. Nú var bara að sigla þessu heim.
United átti svo frábæra sókn á 78. mínútu þegar að Bruno renndi boltanum í gegn á Marcus Rashford. Rashford sneri með Michael Keane í bakinu og reyndi fast skot með vinstri en boltinn flaug framhjá markinu. Edinson Cavani beið dauðafrír fyrir opnu marki en sending Rashford hefði þurft að vera góð ef hann ætlaði að finna Cavani. Stuttu síðar átti Lucas Digne fast skot í utanverða stöngina, en ég er 85% viss um að de Gea hafi verið með það allt saman á hreinu…
Á 88. mínútu stuggaði Calvert-Lewin við Harry Maguire og fyrirliði United féll til jarðar. Jonathan Moss lét leikinn halda áfram og Richarlison fékk ágætis færi til þess að jafna leikinn en skot hans var lélegt og langt framhjá. Líklega hefði VAR skoðað þetta vandlega þar sem að þetta leit út fyrir að vera brot á Calvert-Lewin.
Axel Tuanzebe kom inná fyrir Mason Greenwood til þess að bæta við manni í vörnina. Það reyndist afdrifarík skipting þar sem að Tuanzebe braut aulalega á Joshua King. Lucas Digne lúðraði bolta inná vítateiginn, þar var boltanum flikkað inní markteiginn og Dominic Calvert-Lewin réðst á boltann og setti hann í netið. Þrjú góð færi, þrjú mörk. Skammarlegur varnarleikur og í raun ófyrirgefanlegur. Örfáum andartökum síðar blés Moss í flautuna og leikurinn búinn. 3-3 jafntefli niðurstaðan og hún er grátleg.
Næsti leikur er í FA bikarnum gegn West Ham. Vonandi geta menn rifið sig upp og mögulega fundið einhverja Post-It miða um hvernig á að verjast eins og menn. Áfram Manchester United.
Rúnar P says
Finnst ég sjá pínu Atalanta leikstíl (bara með betri varnarleik) hjá United og finnst liðið vax með hverjum leik
Atli Þór says
Fínn hálfleikur, langbesta frammistaða Greenwood á þessu tímabili.
Ps. Það þarf að láta Wan Bissaka spila með GPS tæki, hann er jafn áttaviltur og Antonio Valencia ala 2015.
Scaltastic says
Fu*k off Ole… Þetta skrifast 100% á hann.
Egill says
Maguire, Lindelöf og De Gea, ég vona að þessir trúðar spili aldrei aftur leik fyrir Man Utd.
Úr Rio-Vidic miðvarðarpari í þetta drasl sem Maguire og Lindelöf eru, þetta er til skammar.
Ekki reyna að koma með eitthvað kjaftæði með að þessir bjánar geti sent boltann og blahblah, þeir kunna ekki að verjast og eru þessu félagi til skammar.
Mikið rosalega vildi ég að við höfðum aldrei losað okkur við Romero.
Steve Bruce says
Díses kræst! Hvað fengum við nú marga sénsa til að klára þennan leik?!
Miklu betri í leiknum en það skiptir bara engu þegar að vörnin er hriplek. Lygilegt!
Helgi P says
Veit solskjær ekki að það má gera skiftingar í fótbolta hann virðist ekki getað lært það
Þorsteinn says
Nennum við pleace selja þennan Tuanzebe gaur – það tengjast honum bara vondar minningar. Annars er visst afrek að ná að tapa þessum leik, virðist ekki vera séns að halda drápseðlinu og einbeitningu tvo leiki í röð. Þó ég fíli Ole þá skrifa ég þennan ósigur á hann þessi skipting í uppbótartíma var mjööög heimskuleg.
Karl Garðars says
Almáttugur þessi vörn og algjörlega huglausi markvörður…
Maður nennir ekki að fara nánar út í það en Shaw fínn, Slabhead í lagi en hinir 3 eins og algjörir trúðar.
Ekkert annað en kæruleysi og aumingjaskapur!
Greenwood, Bruno, Cavani og McSauce annars að eiga ágætis leik en það fer nett í taugarnar á manni hvað Rashford er oft mistækur og yfirleitt staurblindur á allar hreyfingar hjá Cavani þ.e. fyrir utan þessa stórglæsilegu fyrirgjöf að sjálfsögðu.
Alla vega er ömurlegt að skora 3 stórfín mörk og missa leikinn í jafntefli.
Brynjólfur Rósti says
3 mörk á Old Trafford á alltaf að jafngilda 3 stigum. Ég á bara ekki eitt einasta aukatekið yfir þessum blessuðu miðvörðum okkar…
gummi says
Solskjær er búinn að velja sér uppáhalds leikmenn og þeir spila alltaf ef þeir eru heilir sama hversu illa þeir spila þá þorir þjálfarinn ekki gera skiftingar nema þegar hann ætlar að tefja á 90 mín
MSD says
Þessi varnarleikur er til skammar. DeGea er algjör raggeit þegar kemur að úthlaupum og lookar skíthræddur. Hentu þér á helvítis tuðruna í svona stöðu sama hvað!!
Ég er heldur ekki að sjá neinn leiðtoga þarna. Maguire finnst mér ekki stjórna vel og DeGea er ekki þessi stjórnandi sem Schmeichel og Van der Sar voru. Oft sér maður markverði vera stöðugt að stýra varnarmönnunum sínum en De Gea er ekki sú týpa. Þessir dúddar fyrir framan hann þurfa einhvern á bak við sig til að öskra á sig til að þeir haldi einbeitingu.
En hrikalega dýr stig að tapa á mjög svo ódýran hátt eftir góða spilamennsku fram á við á stórum köflum í leiknum. Þetta er orðið vel þreytt.
Heimsklassamiðvörð í hópinn í sumarglugganum takk fyrir.
Hjöri says
Sá ekki leikinn en var að skoða mörkin áðan og fannst skrítið að 4 mín. bætt við, en jöfnunarmarkið kemur á nítugustu og sjöttu mínútu. Hef aldrei skilið að allt að 2 mín. er oft bætt við uppbótar tíma.
birgir says
Ekkert einsdæmi að 2 mín sé bætt við uppgefinn uppbótatíma.
Halldór Marteins says
Frábær fyrri hálfleikur, stórkostleg mörk frá Cavani og Bruno. Geggjuð stoðsending frá Rashford.
Spilamennskan hefði alltaf átt að duga til sigurs. United er betra lið en Everton og sýndi það mestan part leiks. En því miður eru þessi klaufalegu mistök enn í liðinu og skortur á klókindum sem þarf upp á til að klára suma leiki.
Solskjær er samt kominn ansi langt með þetta lið, verð ég að segja. Það er hans verkefni, og teymisins hans, að finna lausnir á þessum mistökum og installa meiri klókindi í liðið til að slútta leikjum þegar þeir hafa komið sér í vænlegar stöður. Það er samt gríðarlega margt jákvætt í gangi þarna, hvort sem Solskjær er maðurinn til að taka það alla leið eða afhenda það næsta manni sem getur gert eitthvað meira við það.
Mjög svekkjandi úrslit en að mestu leyti ljómandi fín spilamennska samt sem áður. Vonandi verður þetta óbragð í munninum til að peppa leikmennina áfram í næstu verkefnum.
Silli says
@Halldór Marteins – Takk fyrir að skrifa nánast orðrétt það sem mig langaði að segja!
Mig langar aðeins að kommenta á nokkur atriði sem hafa verið skrifuð á þessum þræði – og ég er nú bara gamall sófakartöflusekkur sem hefur elskað Manchester United frá því herrans ári 1980, þó það sé aukaatriði.
Það er hreint með ólíkindum að lesa flest komment hér, ekki síst vegna þess að þegar allt er í blóma segir enginn neitt.
Ég er svo ógeðslega leiðinlegur gaur, bæði inn við og utan við bein, að mig langar aðeins að hnippa í nokkra hér.
Auðvitað var þetta hræðilega sorglegt jafntefli og „við“ hefðum átt að gera út um leikinn í fyrri hálfeik, en að kenna Ole um það hvernig fór þykir mér vægast sagt illa að honum vegið. Einhverjir vilja meina að hann skildi skipta Tuanzebe inn á í uppbótartíma hafi klúðrað leiknum. Ég vil bara minna ykkur á að í tíð Sir Alex var þetta nánast regla. þ.e. að skipta inn varnarmanni fyrir sóknarmann þegar okkar menn voru yfir og lítið eftir á klukkunni. Ole hefur líka oft gert þetta með góðum árangri.
Margir hafa þar fyrir utan kallað eftir að téður Tuanzebe fái að spila meira. Skiljanlega, enda er Mbappe sennilega enn að reyna að finna sér leið upp úr rassvasa hins fyrrnefnda síðan í haust.
Ég myndi giska á að við megum búast við að það séu u.þ.b. 73 ár þangað til við fáum annað eins kombó og Rio/Vida, þó svo að rétt áður en það svakalega miðvarðapar varð til áttum við líklega allra besta varnarmann í heimi, í formi Jaap Stam.
Einhver sagði: “Veit solskjær ekki að það má gera skiftingar í fótbolta hann virðist ekki getað lært það”. Mér finnst það afar jákvætt að hann virðist búinn að finna sitt (okkar) sterkasta lið og vill ekki breyta því of mikið… og svo veit ég reyndar ekki hvaða skiptingar hefðu gert eitthvað fyrir leikinn – En…. ég, aftur, bara sófakartafla lengst úti á landi.
Að því sögðu vil ég sjá Henderson í markinu í næstu leikjum.
OGS er búinn að gera frábæra hluti og á bara eftir að gera liðið enn betra með tímanum.
Já .. og í guðanna bænum – Viljið þið bara gjöra svo vel og hætta að uppnefna okkar menn.
Rant out.
GGMU.
Sveinbjörn says
Þetta var einfaldlega mjög flottur leikur hjá okkur í u.þ.b. 90 mín af þessum 97 sem voru spilaðar. Það að Everton nýtti þessar sjö mínútur jafn vel og raun ber vitni er virkilega vel gert hjá þeim. Jafnteflið skrifast á einbeitingarskort hjá leikmönnunum á vellinum í sjö mínútur. Ekki á Ole, heldur liðið inni á vellinum. Hins vegar hefði Rashford mátt nýta þetta dauðafæri sem hann fékk í seinni hálfleik, mér finnst eins og hann klúðri að meðaltali einu slíku í hverjum einasta leik.
Einnig er ég sammála síðasta ræðumanni um að De Gea hefði mögulega gott af smá bekkjarsetu. Það sést vel á Shaw hvað það gerði fyrir hann. Einnig man ég alltaf eftir því að þegar Evra var byrjaður að dala og Alexander Buttner var keyptur inn til að veita honum samkeppni. Eftir það varð Evra aftur bestur í einhver tvö ár.. menn verða aldrei of stór nöfn fyrir bekkinn.
Annars er ég nú bara ennþá að njóta þessa frábæru tíma þar sem United er í efstu sætunum að spila mjög skemmtilegan bolta ásamt því að maður býst alltaf við sigri í hverjum einasta leik. Það hefur ekki gerst frá tímum Fergie
Robbi Mich says
Liðið er í stórkostlegri framför m.v. síðustu tímabil, er í toppbaráttu núna þegar tímabilið er hálfnað – það hefur ekki gerst síðan tímabilið 2012/2013 þegar við urðum síðast meistarar. Sumir hérna vilja meina, leik eftir leik, að það sé eitthvað stórkostlegt að og kalla eftir því að Ole fái sparkið. Ole er ennþá að læra og gerir sín mistök eins og allir, að sjálfsögðu má bæta hitt og þetta við leik liðsins og fá inn mann í vörnina og hægri kantinn – en þetta er langhlaup, ekki spretthlaup. Svekkjandi úrslit í gær, en í guðanna bænum hættið þessi djöfulsins væli endalaust.
Cantona no 7 says
Ole
TonyD says
Við höfum ólíkar skoðanir og svekkelsið eftir leikinn var rosalegt. En höldum okkur á jörðinni, liðið er á réttri leið að mér finnst og ef menn hefðu verið með athyglina í lagi allan tímann hefðu þetta orðið solid 3 stig. Mér finnst jafnteflið ekki skrifast á Ole heldur á mennina á vellinum enda áttum við leikinn nánast allan tímann. Það er loksins orðið gaman að horfa á liðið spila og nú reynir á þolinmæðina út tímabilið. De Gea fær væntanlega hvíld í vikunni og fleiri líka. Vonandi halda menn þessum dampi og þeir sem detta inn í liðið í staðinn séu í stuði.
Liðið er á flottum stað í töflunni og það vantar sorglega lítið upp á að við værum nær City.
Gleymum ekki að það eru fávitar að senda Tuanzebe, Martial og Rashford hatursskilaboð og ef þetta sest ekki á sálina þeirra þá eru þeir ótrúlega vel settir saman þessir menn. En þetta hlítur að hafa einhver áhrif á einbeitingu þeirra og vonandi fá þeir og aðrir frið frá rasistunum.