Eftir torsóttan sigur í framlengingu í bikarnum í vikunni sækir Manchester United nýliðana í West Bromwich Albion heim á „the Hawthornes“ kl. 14:00 á morgun. Heimamenn sitja sem fastast í næstneðsta sæti deildarinnar og hafa átt fremur dapra leiktíð fram til þessa. Þeir fengu ágætis hvíld í vikunni þar sem þeir spiluðu ekki í bikarnum en þeir áttu síðast leik á sunnudaginn við Tottenham á útivelli. Þeim leik lauk með 2-0 sigri José Mourinho og lærisveina hans. Þar áður tapaði liðið fyrir liðinu Sheffield United.
En WBA hefur þó engu að síður átt sínar rispur á leiktíðinni. Skemmst er að minnast þess þegar Chelsea lenti 3-0 undir gegn WBA eftir innan við hálftíma sem reyndar endaði 3-3 með marki Tammy Abraham sem hefði eflaust ekki átt að standa. Síðan rétt marði United þá 1-0 í lok nóvember mánaðar og í kjölfarið fylgdu góð úrslit hjá þeim hvít- og bláklæddu, 1-1 gegn Manchester City og Liverpool.
En þó það kunni að hljóma vel fyrir lið sem var í Championship deildinni í fyrra þá er liðið engu að síður í bullandi vandræðum. Liðið er einungis með 2 sigra úr 23 leikjum og er það lið sem hefur fengið lang- LANGflest mörk á sig í deildinni eða 54 talsins sem gera 2,34 mörk að meðaltali í leik. Þetta hlutfall er svo slæmt að það er í raun verra en Derby liðið 2007-2008 tímabilið sem náði einungis í 11 stig allt tímabilið.
Góðu fréttirnar fyrir stuðningsmenn WBA eru þó hins vegar þær að þeir eru nú þegar komnir með fleiri stig (12) og þrátt fyrir að Slaven Bilic hafi komið þeim beint upp í Úrvalsdeildina á síðasta ári þá fékk hann sparkið um miðjan desember og við tók stóri Sam sem er nú þekktur fyrir sín slökkviliðsstörf, þ.e. að taka við brunarústum og bjarga þeim fyrir horn. Það verður þó ærið verkefni þar sem liðið hefur sjö sinnum tapað með 3 mörkum eða meira og er sem stendur 11 stigum frá öruggu sæti og búið að leika leik meira en Burnley sem er í 17. sæti.
En Sam Allardyce hefur þó ekki enn náð að stimpla sitt einkennismerki á leikstíl WBA því liðið hefur ekki náð að halda hreinu undir hans stjórn og síðast tókst þeim það gegn liðinu sem getur ekki skorað. Það kann vonandi að vera gott merki fyrir okkar menn fyrir morgundaginn að eini leikur WBA undir stjórn Allardyce þar sem þeir hafa ekki fengið á sig meira en eitt mark var gegn Liverpool. Það ættu því að vera ágætismöguleikar fyrir okkar menn að koma tuðrunni framhjá uppalda United manninum í markinu hjá WBA. Sam Johnstone, sem er uppalinn hjá United en var seldur til West Brom 2018 en hann átti frábæran leik á Old Trafford þegar liðin mættust í nóvember síðastliðnum.
En heimamenn eru ekki hættulausir með öllu og á blaði gæti viðureignin virkað mun auðveldari en í leiknum sjálfum og það er nokkuð sem Ole Gunnar Solskjær og hans menn þurfa að vera vakandi fyrir. Þeirra hættulegasti maður, Mattheus Perreira, er kominn með 4 mörk í deildinni þrátt fyrir að hafa misst af þónokkrum leikjum vegna meiðsla og leikbanns. Brasilíumaðurinn var á láni hjá WBA á síðustu leiktíð en kom alfarið til liðsins í sumar og virðist vera þeirra drifkraftur þegar þeir komast yfir miðjuna.
Þá kemur líka stór hluti markanna þeirra frá varnarmönnum úr föstum leikatriðum, nokkuð sem hefur verið Akkílesarhæll United á þessari leiktíð. Menn á borð við Semi Ajayi, Darnell Furlong og Kyle Bartley úr öftustu línunni hafa allir skorað í deildinni það sem af er og er nígeríski miðvörðurinn (Ayaji) t.a.m. kominn með þrjú mörk, jafn mikið Pogba og einu minna en Anthony Martial. Þá eru þeir einnig með mjög spennandi og efnilega leikmenn í þeim Conor Gallagher og Grady Diangana á miðjunni.
Sam Allardyce hefur ekki enn fundið sitt besta lið né heldur bestu uppstillinguna fyrir WBA en hann hefur reynt sig áfram með 4-1-4-1, 4-4-1-1, 3-4-3 og 4-2-3-1 með misjöfnum árangri. Þó virðist hann vilja spila með 4 aftast og með Mattheus Perreira fyrir aftan fremsta manninn. Því spái ég liði heimamanna á þessa leið:
Manchester United
Það er örlítið annað upp á teningnum hjá United sem er í næstefsta sæti deildarinnar um þessar mundir með 45 stig eftir 23 leiki og búið að skora flest mörk allra liða í deildinni. Vissulega hefur verið mikill stígandi í gengi liðsins og hefur liðið undir stjórn Solskjær sýnt frábært hugarfar og þrautseigju í fjölmörgum leikjum, þá sérstaklega á útivelli. Raunar hefur ekkert lið tekið jafnmörg stig úr leikjum eftir að hafa lent undir og ekkert lið er heldur með jafngóðan árangur á útivelli. Þá virðist loksins vera kominn aukinn og skarpari sóknarþungi í leik liðsins en þar munar mest um framlag bakvarðanna Aaron wan-Bissaka og Luke Shaw og reynslumikla framherjans, Edinson Cavani.
Þó þetta séu vissulega jákvæðir punktar þá eru enn fullt af vanköntum á liðinu en eins og hefur verið komið inn á þá hefur varnarleikurinn ekki verið upp á marga fiska. Liðið hefur verið að fá á sig mörg mörk úr föstum leikatriðum og glutrar oft niður forskotinu sem flugbeitt sóknarlínan hefur unnið hörðum höndum að, rétt eins og í leiknum á móti Everton um síðustu helgi. Liðið hefur reyndar haldið hreinu í 8 deildarleikjum en hefur engu að síður fengið á sig 30 mörk sem er meira en Burnley sem situr í 17. sæti.
Vörnin þarf að finna sína fjöl og þétta varnarleikinn en ekkert varð af mögulegum miðvarðarkaupum (óskhyggja höfundar) í janúarglugganum og nú bárust fréttir af því að Dayot Upamecano hjá RB Leipzig færi til Bayern en hann hefur lengi verið orðaður við United. Eflaust hefur endurkoma Eric Bailly verið „eins og ný leikmannakaup“ fyrir stjórn United þar sem fílabeinsstrendingurinn hefur haldist heill í nokkurn tíma (7-níu-13). Þar sem Lindelöf spilað allan leikinn gegn West Ham í vikunni má gera ráð fyrir að Bailly byrji við hlið Harry Maguire sem veit á gott hvað staðsetningu varnarlínunnar okkar varðar.
Það sama má segja um Alex Telles, Nemanja Matic og Donny van de Beek, sem byrjuðu allir gegn Hömrunum til að gefa öðrum byrjunarliðsmönnum hvíld. Í þeirra stað fáum við eflaust að sjá Bruno Fernandes, Scott McTominay og Luke Shaw sem hefur verið að spila eins og engill að undanförnu. Það er nokkuð um meiðsli hjá United eins og alltaf en Paul Pogba er frá í nokkrar vikur eftir að frakkinn tognaði aftan í læri og Phil Jones er á meiðslalistanum, nokkuð sem virðist jafn óumflýjanlegt og skatturinn og dauðinn.
Ole Gunnar Solskjær hefur tekið ástfóstri við 4-2-3-1 kerfið á meðan hann hefur ekki hreinræktaðan varnarmiðjumann í sínum röðum og má því fastlega gera ráð fyrir að Fred og McTominay sjái um þessar stöðu í sameiningu sem endranær en gegn liði á borð við West Brom sem mun að öllum líkindum sitja djúpt og verjast, væri óskandi að geta treyst einum miðjumanni fyrir því að sitja eftir og vernda varnarlínuna.
Það kemur því fáum á óvart að höfundur spái þessu liði fyrir morgundaginn:
Hvorugt liðið mun hreyfast í töflunni með sigri, nema WBA vinni United með meira en 22 mörkum sem verður að teljast ólíklegt. En jafntefli gerir afskaplega lítið hvort sem er í titilbaráttunni á toppi deildarinnar eða í baráttunni á botninum um sæti í deildinni á næsta tímabili. Það má því fastlega búast við opnum leiknum, þar sem bæði lið eru hálfpartinn með bakið upp við vegg og nú er að duga eða drepast, 3 stig og ekkert annað í boðinu.
Skildu eftir svar