Manchester United mætir til Suður-Lundúna og etur kappi við Crystal Palace – kl. 20:15 á morgun, 3. mars.
Stutt er síðan að okkar menn gerðu tíðindalítið 0-0 jafntefli við Chelsea, en lengra er síðan að við mættum Palace. Það var raunar í fyrstu leik tímabilsins hjá Man Utd. Ekki fór sá leikur eins og liðið ætlaði sér, en liðið laut í lægra haldi fyrir Roy Hodgson og félögum á Old Trafford. 1-3 tap var niðurstaðan og úrslitin sanngjörn þar sem að Andros Townsend og Wilfried Zaha (2) skoruðu fyrir gestina en nýliðinn Donny van de Beek lagaði stöðuna fyrir United.
Liðsfréttir
Hinn áreiðanlegi Phil Jones situr sem fastast á meiðslalistanum, ásamt Juan Mata, Edinson Cavani og Paul Pogba. Ole Gunnar Solskjær sagði þó að það styttist í endurkomu hjá Cavani og Pogba. Við fögnum þeim fregnum gífurlega, þar sem að sóknarleikur og uppspil liðsins hefur verið ansi hikstandi í síðustu leikjum.
Uppáhalds dansarinn okkar allra, Jesse Lingard, heldur áfram að standa sig í höfuðborginni undir David Moyes. Hann átti stóran þátt í marki West Ham í 2-1 tapi gegn Manchester City og skoraði í sigurleiknum gegn Tottenham. Það er ánægjulegt að sjá hann finna form, þó að það sé ekki í Man Utd treyjunni. Það er aldrei að vita nema Solskjær ákveði að halda honum ár til viðbótar, en þó er ég nokkuð viss um að það besta í stöðunni sé að leyfa Lingard að flytja til London fyrir fullt og allt. Þar hefur hann fundið nýtt upphaf og ekki alltaf gott að taka skref til baka. Þá náði miðjumaðurinn James Garner að skora sitt fyrsta mark fyrir lánslið sitt, Nottingham Forest. Hann hefur náð að heilla stuðningsmenn Forest algjörlega uppúr skónum og er það hið besta mál.
Þrátt fyrir að stutt sé í næsta leik, sem er smáverkefnið og grannaslagurinn við Manchester City, að þá tel ég líklegt að Solskjær stilli upp eins sterku liði og mögulegt er. Stutt er í grannaslaginn við City, en veðmálafíkill myndi sennilega frekar leggja aur undir á United sigur á Selhurst Park, fremur en á Etihad – ef mið er tekið af leikformi og stöðu í deild.
Miðverðirnir Harry Maguire og Victor Lindelöf spiluðu vel gegn Chelsea og líklega halda þeir sæti sínu í liðinu. Solskjær gæti leitað til Nemanja Matic þar sem að Serbinn heldur talsvert betur í boltann en Fred, en yfirferðin er minni. Ef að stjórinn treysti liðinu sínu betur þá myndi hann sennilega taka sénsinn á Donny van de Beek við hlið varnartengiliðs, en líkurnar á því eru nákvæmlega engar. Mason Greenwood hefur spilað ágætlega í undanförnum leikjum en hann er enn að leita að markaskónum sínum og Anthony Martial hefur líklega brennt sína í lok síðasta tímabils. Daniel James náði ágætis skriði í markaskorun um daginn en lág varnarblokk Palace hentar honum illa.
Líklegt byrjunarlið Man Utd:
Mótherjinn
Það er óhætt að fullyrða að heimamenn eigi í meiðslavandræðum. Á meiðslalistanum eru hvorki fleiri né færri en níu menn. Crystal Palace er án Wilfried Zaha, sem er algjör lykilmaður í sóknarleik liðsins. Zaha getur látið hluti gerast uppúr engu og fáir leikmenn í deildinni skáka honum þegar kemur að leikni og sprengikrafti. Aðrir leikmenn sem eru á listanum eru t.d. Nathaniel Clyne, James McArthur og Mamadou Sakho.
Það væri auðvelt að hugsa sér gott til glóðarinnar og telja að verkefnið verði talsvert auðveldara en okkar menn hafa sýnt okkur svo um munar að það er enginn leikur gefins í ensku Úrvalsdeildinni. Crystal Palace er seigt lið og með nokkra flotta leikmenn. Kantmaðurinn Andros Townsend getur strítt hvaða liði sem er á sínum degi og skoraði meðal annars í fyrri leik þessara liða. Hann er með öflugan vinstri fót og finnst gaman að klippa inn af hægri kantinum.
Annar leikmaður sem hefur komið skemmtilega á óvart í vetur er Englendingurinn ungi, Eberechi Eze. Hann hefur heillað aðdáendur bæði með yfirsýn sinni og glimrandi góðum föstum leikatriðum. Ef það er eitthvað sem að Manchester United leiðist, þá er það að verjast föstum leikatriðum. Í þessum leik er eins gott að vera með hausinn rétt skrúfaðan á þar sem að Hodgson mun sennilega stimpla inn á að halda tempóinu niðri og vinna föst leikatriði við hvert tækifæri.
Þá er Victor Lindelöf sennilega enn með martraðir eftir fyrri leikinn, en þar gerði Jordan Ayew honum lífið leitt, ekki síst í loftinu. Ayew hefur þó ekki verið iðinn við kolann í vetur, en leikmenn spila enn leiki við Manchester United eins og um bikarúrslitaleiki sé að ræða.
Líklegt byrjunarlið Crystal Palace:
Spá
Eftir drepleiðinlegan leik gegn Chelsea væri ofsalega skemmtilegt að sjá flóðgáttir opnast en líkurnar eru ekki miklar. Ekki nema Palace bjóði upp á annan 0-7 leik, eins og gegn Liverpool! Með bjartsýnina að vopni ætla ég að spá 0-2 sigri, þar sem að Bruno Fernandes skorar tvívegis. Liðið má endilega sleppa því að hleypa leiknum upp í vitleysu og skilja aðdáendur eftir með hjartað í buxunum fram á síðustu stundu. United hefur gengið vel á Selhurst Park að undanförnu og það má halda áfram.
Ef þið viljið koma einhverju á framfæri, þá er hægt að senda okkur skilaboð á Facebook-síðu Rauðu Djöflanna.
Áfram Manchester United!
Skildu eftir svar